9. september 2005

svona gera Menn ekki

Enn er í gangi ístruátak 2005 og heldur hefur gengið hægt. Þrýstir nú aftur á mittisólina. Fullur af eldmóði var haldið að Laugum, musteri líkamans eins og stendur þar á vegg. Enda lítið þar fyrir andann þar sem hangið er í ýmsum tækum. En á þessum stað, musteri líkamans, er eftirlit meira og betra en annars staðar enda teknar myndir í karlabúningsklefum og munu ýmsar myndir til sem ekki er vert að greina frá nánar. En sumir munu víst kallaðir fingralangir þó ekki hafi þeir hnuplað neinu.

Í gær var ég þar og tók betur á en oft áður enda um margt að hugsa eftir mystic dagsins sem var að renna sitt skeið. Með púlsinn í 156 á mínútu og greinilega í mínu algjöra hámarki reiknaðist mér til eftir leiðbeiningartöflum um hámarks þoláreynslu, 80% og fitubrennslu áreynslu við 60%. Skv þessu átti ég að vera í fitubrennsluprógrami fyrir 10 ára. En miðað við það að ég væri á brennsluprógrami og 60% álagi fyrir aldur þá átti ég að vera 10 ára. Annars hef ég aldrei skilið þetta almennilega. Mér reyndar leið ekki eins og fita brynni, heldur styttist almennt í lífsloganum eftir því sem lengur leið á átakið og hann brynni hratt upp þessar mínúturnar.

En þar sem ég var þarna að láta hugann reika og reyna að átta mig á mystiskum atvikum dagsins, varð mér hugsað norður yfir heiðar og um þá umræðu sem á sér stað um kynjafræði. Velti þessu fram og til baka og fann að ég var sammála síðasta ræðumanni, á annari síðu, betri en þessari. Hægt og hægt erum við að breytast í hinn mjúka mann. Eða eins og ég sendi honum Hali mínum nýlega af gefnu tilefni:

Kúnstug eru kynjafræði
nú konur heimilin flýja.
Karlarnir blóta í bræði,
er báru þær áður til skýja

Á kvöldin karpa þau bæði
um kynjanna kostuleg fræði
ef viltu mig mjúkann
skaltu ekki strjúk´ann
um þrifin ei lengur ég ræði.

Vinur minn annar, Ingólfur reyðfirðingur, heldur því fram að fara í líkamsrækt hafi sömu áhrif og dýfa sér í kallt vatn. Ég er ekki frá því. Nú eftir að ístran er aðeins að minnka get ég kannski varið að verða dómbær á slíkar fullyrðingar. En nóg um slíka þanka í bili.

En þegar leið að lokum þjálfunarinnar, komst ég að því að áhyggjur Hals míns norðan heiða eru alveg réttar um kynjafræði en þar segir "Kerlingar vilja verða karlar og kerlingar vilja gera karla að kerlingum en ekki öfugt". Svo ég vitni orðrétt og með gæsalöppum í speki hans.

Ég held að samsæri sé í gangi (nema ég sé haldinn kverúlanta paranoju) því þegar ég kom í sturtu greip ég handklæðið sem ég hafði tekið úr skáp í þvottahúsinu mínu heima, sá ég móta fyrir letri sem farið var að dofna í öðru enda handklæðisins. Nánar tiltekið þeim efri. Þegar ég rýndi í það og las gleraugnalaus, enda hættur að geta lesið með gleraugum, þá stóð þar stór stórum stöfum með bleiku SPICE GIRLS segi og skrifa SPICE GIRLS. Hafi ég ekki verið nærri landamærum annara heima þá nálgaðist ég það hratt og ískyggiega nú.

Ég fann blygðunarkenndina hríslast um mig nakinn þar sem ég stóð þarna innan um marga karlmenn, sem hafa meiri stera innanholds en ég. Leit flóttalega í kringum mig og laumaðist að vegg og reyndi að þurrka mér og vonaðist til að stafirnir væru nægilega daufir til að ekki væru þeir læsilegir. Þó svo ég viti að ólíklegt sé að margir þessara íturvöxnu með stera innanholds í talsvert meira magni en ég séu yfir höfuð læsir, þá gætu þeir þekkt lógóið. Því reyndi ég að fela þann enda handklæðisins. Gott ef ég heyrði ekki hið fornkveðna þar sem ég var að laumast í nær fötin:

Nú skal búkinn bráðum herða,
beran í vatni köldu.
Ertu kannski að konu verða,
að kynfærinu meðtöldu.

Skömm mín var mikil og ljóst er að samsæri er í gangi og ég alls ekki haldinn kverulanta paranjou. Ég hef gefist upp og játa mig sigraðan. Því til staðfestingar fór ég heim og týndi restina af stikkilsberjunum í garðinu og sauð niður kryddað stikkilsberjahlaup. Það ilmaði vel.
Í því eru:

Stikkilsber
Kanill
Negull
Engifer
Sykur

Kannski er ég orðin(n) spæs görl, -hin eina sanna.

Því eins og leiðtogi okkar miklu þjóðar sagði einu sinni:
"Svona gera MENN ekki".

Engin ummæli: