Eða hvað?
Las um daginn ágætan póst. Fjallaði hann um mat enda fátt annað sem gleður þessa daganna. Sól fer að lækka á lofti og skammdegi leggst yfir með sínum drunga. Aðallega var fjallað um sólkola en einnig var nefnt ágæti heimabakaðs brauðs. Ég keypti nýlega bakarofn fyrir konuna mína og utan um hann eldhúsinnréttingu í dýrari kanntinum. Átti von á brauði og kökum og steikum. En konan mín er á frambraut en ég ekki. Mitt hlutskipti hefur í vaxandi mæli verið að sinna kokkeríi og innkaupum. Hún keypti sér nýjan fataskáp um síðustu helgi. Ekki misskilja mig. Þegar konur tala um að kaupa nýjan fataskáp er ekki verið að tala um spýtur og verkfæri eins og við karlar tölum um. Heldur allt sem í honum er!
En aftur að eldamennsku. Ég hef sjálfur eldað ýmsa rétti. Undanfarið hefur eldri sonur minn tekið að sér að elda steikur og annan betri mat til hátíðarbrigða og jafnvel hversdags líka. Hlutverk mitt á heimilinu, sem var að elda hefur því farið þverrandi sem og önnur hlutverk. Því hef ég verið að leita mér að nýju hlutverki, einhverju sem ég fæ hrós fyrir. Þó ég viti að það sé oft ekki verðskuldað, en góðsemi og umburðarlyndi er ríkjandi einkenni í fari minna nákomnustu. Þegar ég las ofangreindan póst um heimabakað brauð sá ég að ákveðið gap hafði myndast á heimilinu við það að konan mín fór á framabrautina. Hún hafði nefnilega alltaf séð um allan bakstur og átt þar snilldartakta, en þeim stundum hefur farið fækkandi. Lengi var því kennt um að gamli Rafha ofnin væri hættur að hita nema á köflum og þá aðallega mishita Nú með nýjum ofni hefur bakstur samt ekki komist á dagskrá enda hef ég ekkert gott af því að til sé brauð og kökur.
Ég hef haft gaman af því að takast á við ný vandamál, þó svo ég þoli illa og stöðugt verr allar breytingar með aldrinum. T.d. getur verið kvíðvænlegt að fara fram úr á morgnanna því maður veit ekki hvað getur tekið við þegar undan hlýrri og notalegri sænginni er komið. Jafnvel þó maður hafi sofið einn í rúminu, eins og ég þurfti að reyna um langt skeið í kringum síðustu helgi er konan mín fór í langþráð frí til útlanda.
En hvað um það. Þeirri undarlegu hugmynd laust í koll mér að nú ætti ég bara eftir að gera eitt lífinu. Það væri að baka brauð. Þá kom fyrstgreindur póstur mér í hug. Þar var nefnilega þess getið að áhugasamir um slíka brauðgerð gætu og mættu snúa sér til brauðgerðarkonunar og fengið leiðbeiningar eða uppskrift eins og það hét. Þannig háttar nefnilega til að brauðgerðarkona þessi er vel þekkt og drekkur stundum kaffi á sömu kaffistofu og ég. En í framhjáhlaupi má geta þess að ég kem núorðið oftar á kaffistofur en sjúkrastofur. Því voru hæg heimatökin. Undir miklu skvaldri einn daginn stundi ég þessu upp, þó í hálfum hljóðum og með hálfum hug. Hvort hægt sé að fá uppskriftina, en sú umræða náði ekki langt. Því sendi ég skeyti og fékk svar til baka:
skal koma henni til þín við tækifæri, þarf eiginlega að segja þér hvernig þetta brauð er bakað (með handapati).
þetta leit vel út en skömmu síðar hafði henni greinilega snúist hugur, þegar ég hafði útskýrt þakklæti mitt og greint frá þeirri einföldu staðreynd að ég hefði aldri bakað brauð. Þá fékk ég stutt og laggott skeyti:
vandast nú heldur málið,
Það voru orð af sönnu og skyldi ég það fullkomlega, ef ekki nennti hún að handapatast við byrjanda í bakstri. Ég sá fyrir mér að ekkert yrði úr því að ég kæmist í þá sjálfheldu að fara að baka. Ég var að sannfærast um að vandinn væri of mikill og best væri að hætta við allt saman og brauðlaus skyldi ég áfram vera. En þá barst uppskriftin:
volgt vatn, oggu hunang, ger, hveiti, smá salt
látið lyfta sér
hnoðað og mótað
látið lyfta sér aftur
flatt út með höndum og landslag látið njóta sín
hellt ólívuolíu á og dreift yfir ferskum kryddjurtum, smátt skornum, maldon salti, hvítlauk (ef vill) og graskersfræjum
bakað
Basta,
Þetta gat ekki verið flókið. Það birti til í huga mér. Svona uppskrift gæti ég ráði við. Kannski var það bara af því að mig skorti innsæi í heim bakarans. Það kom nefnilega í ljós að málið var ekki svo einfallt að allra mati. Til vonar og vara, og áður en ég gerði mér grein fyrir þeirri sjálfsheldu sem ég var kominn í, þá ákvað ég að ganga eftir handapatinu. Það hlyti að vera nauðsynlegt til að landslægið fengi að njóta sín.
En með handapatinu kom ýmislegt fleira í ljós. Það rann upp fyrir mér að skammta yrði alla hluti út í deigið eftir ákveðnum formúlum og þetta var greinilega list fremur en nákvæm vísindi, sem voru stunduð í eldhúsi þessa nýja leiðbeinanda míns í brauðbakstri. Því allt var þetta svona eftir hendinni og magni bætt út í þar til passlegt væri. Nær komst ég ekki um magntölur.
Í angist minni bar ég þetta upp við fleiri konur. Því við karla þýðir lítið að ræða svona mál, nema ef vera skyldi við Ingólf vin minn. Hann var fjarri góðu gamni og þegar hann loks kom vildi hann að ég notaði hafra umfram annað mjöl. Í honum var lítil hjálp. En allar hinar konurnar kepptust við að telja mér trú um að ég yrði að útvega með bakarabók með magntölum og uppskriftum. Það leist mér ekki á, enda sannfærður um að listin að baka verður ekki lærð af bókum eða magntölum. Sá ég en betur að ég væri best kominn í höndum eða handapati velgjörðarkonu minnar, sem stundaði bakstur af list og notaði tilfinningu sína að skammta í skálina og neitaði að nota kökukefli. Heilræði hennar að lokum voru einföld. Ekki vera hræddur við þetta. Láttu tilfinninguna ráða. Með það fór ég í lok vinnudagsins heim. Hafði þó ákveðið að gott væri í upphafi, að ráði annarar konu að byrja með ca 5 dl af hveiti en aðrir hlutar yrðu skammtaðir eftir tilfinningunni. Kom við í búð og keypti það sem ég taldi að vantaði heima.
Í búðinni gekk ég um gólf og fram hjá bökunarvörurekka sem ég vissi ekki að væri til. Leitaði lengi að hunangi. Til voru fjórar gerðir hunangs. Nú vandaðist málið. Hvað skyldi keypt. Að kaupa hveita var einfallt, þó úrvalið væri nokkuð. Á því stóð Pilsbury Best, - það hlaut að vera best. Sigtimjöl var bara til af einni gerð og ger var í pakka. En hunangið var flóknari. Til var stíft hvítt víkingahunang. Hunang í flösku sem var hægt að hella og kreysta og svo dýrt hunang sem var með blómamiða og glært. Best leyst mér á flöskuna en var samt hugsi. Hún virtist tæknilega best útfærð. En skyldi það besta ekki vera dýrast? Yfir þessu tvísteig ég þegar svili minni og matgæðinur sem lengi hefur búið erlendis kom og bankaði í öxlina á mér. Hann hafði þá kenningu, að tærasta hunangið væri best. Þar með var það útrætt og ákveðið enda var það dýrast þó svo tæknileg útfærsla á umbúðum og loki væri hefðbundin og einföld. En ekki lagði ég í að segja honum hvað mín biði heima.
Heima dróg ég upp miðann með uppskriftinni og hóf þegar að blanda saman öllu þurrefninu í óræðum hlutföllum og eftir tilfinningunni einni saman. Vatn í nægilegu magni til að úr yrði deig sem væri eins og þykkur grautur. En þykkur grautur er ekki eins á öllum heimilum. Vatn tók ég úr katli, sem mun skv. áætlunum mínum hafa verið við stofuhita (og etv of kallt eftir því sem ég lærði síðar). Þetta gekk nokkuð vel. Svo var að bíða eftir að þetta lyfti sér í tvöfalda stærð. Ég beið og beið og fannst lítið gerast. Þó var eitthvað að gerast og eftir að hafa ráðfært mig við mér reyndari konu í bakstri, sem gekk svefndrukkin inn í eldhúsið. Enda hafði hún þurft að leggja sig eftir erfitt helgarfrí í útlöndum. Reyndar hélt hún að hún væri enn sofandi og með draumfarir undarlegar. Því eigi trúði hún eigin augum eins og sagt er. Þó taldi hún að talsverð lyfting hefði átt sér stað og nú bæri að hnoða deigið þó væri það í blautara lagi. Fékk ég þar með staðfest grun minn um að sitthvað er þykkur grautur. Var nú hveiti dreift á borð og deig skafið úr skál. Vildi það loða við hendur hnoðanda og áður en vissi var það farið að loða á ýmsum stöðum og varð á tímabili mikil samloðun á milli bakara og baksturs svo ekki varð ljóst hvort úr yrði eitt deig. En að viðbættu hveiti fór að komast deig mynd á gumsið enda hafði engin látið deigan síga. En það er kannski ekki máltæki sem við á í þessu samhengi en ekkert annað kom í hug þegar hvarflaði að mér að hætta á þessari stundu. Nú var hnoðað og brátt varð eldhúsið eins og Katrín fellibylur hefði átt leið um.
Kom þá sú svefndrukkna sem nú var að sannfærast um að um martröð væri að ræða. Bað hún um að handapatið yrði minna. Óþarft væri að dreifa hveiti um gólf og veggi þó hnoðast væri á einu deigi. Ég reyndi að útskýra að hér væri verið baka af list en tók athugasemdum vel. Enda gladdi mitt gamla og veika hjarta að geta komið konu þessari svo gjörsamlega á óvart eftir tuttugu og eitthvað ára sambúð. Það fyllti mig eldmóði og var því kveikt á bakarofni sem var við hæfi og hann stilltur hátt. Síðan var það skemmtilegasta að slétta úr deiginu, en alltof lítið teygði ég það og ekki lagði ég í að henda því hátt í loft upp eins og mig minnir að hafi verið í handapatsleiðbeiningunum sem ég fékk fyrr um daginn. Til þess skorti mig hugrekki. Þegar fór að móta fyrir sléttu deigi í ofnskúffin hjá mér á bökunarpappír sem ég hafði ekki gleymt að setja undir (og af því er ég nokkuð stoltur) kom fram sú tillaga að pota fingrum víðsvegar um deigið. Var ég ánægður með það innleg og vissi að nú hefði ég lagt eitthvað af sjálfum mér og nýtt í baksturinn. Svo var öllu hellt yfir. Olíu í meira magni en konan í stofunni taldi ráðlegt en sagði sem svo að hún skipti sér ekki af þessu. Ferskar kryddjurtir sem voru, hvítlaukur, basil, kóríander, steinselja og eitthvað eitt enn grænt að lit. Svo auðvitað Maldon saltið sem var afar mikilvægt og ég mundi svo vel, enda hafði á það verið lögð mikil áhersla. Notaði meira segja réttar handapatshreyfingar að ég held við að koma því til skila. Breytti líka út af því sem ég hafði lært og muldi saman hvítlauk og maldonsalt. Þar er skrambi kúl. Þá raulaði ég í huga mér bakaradrengslagið úr dýrunum úr hálsaskógi við nýjan texta (og obbolítið breyttri útsetningu) sem ég taldi að ætti betur við á því augnabliki.
Betubrauðssöngurinn:
Innihald mun engu skipta
aðeins pata höndum létt
Lítið eitt af hveiti korni
kemur fyrir í þeim rétt.
Á ögurstund skal hugann herða
hræra deig og bíða um stund.
Bráðum mun að brauði verða
bakstur einn er léttir lund.
Út úr ofni kom nokkuð sem ég hafði reyndar ekki átt von á, -brauð. Svona líka svakalega gott. Það var gullið að utan. Skorpan örlítið stökk, deigið pínulítið seigt en samt elastískt. Hvað er hægt að biðja um betra. Með þessu bar ég svo fram kókos silung og kartöflur. Nú er eftir að þrífa eldhúsið.
Hafi þeir þakkir fyrir sem þakkir eiga skilið og lysthafendur geta fengið nánari upplýsingar hjá Bauninni þann 29. ágúst sl.
Hefst nú nýr kafli í lífu mínu. Þó held ég að baka svona í höndunum sé of Metro og til að verða Über þurfi ég græju og kannski ætti ég að kaupa brauðvél sem hnoðar deigið. Til að vera alveg öruggur er sennilega best að kaupa hana í byggingavöruverslun. Og svo þarf ekki gera eldhúsið hreint í hvert skipti sem bakað er!
1. september 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
takk Ærir, ég er búin að hlæja mig máttlausa yfir lýsingu þinni á baksinu við baksturinn. en þér tókst að baka brauð og mátt vera stoltur af sjálfum þér...til hamingju;)
Ég hló líka, þetta var ótrúlega spaugileg lýsing frá a til ö. Það er góð tilfinning að baka sitt fyrsta velheppnaða brauð, það man ég. Verð þó að viðurkenna að þrátt fyrir einhverja reynslu af brauðbakstri þá hefði ég aldrei treyst mér til að baka eftir þeirri uppskrift sem þú notaðir ;O)
Mig langar til að leiðrétta smávægilegan misskilning hjá eiginmanni mínum en það var ég sem keypti bakaraofninn en ekki hann og það var ég sem hannaði innréttinguna utan um ofninn en ekki hann. En mér ferst þetta allt svo vel af hendi og geri þetta svo auðveldlega að það verður alltaf eins og hann fái heiðurinn.
Þ.
Skrifa ummæli