30. apríl 2008

Sprettur

Byrjaði í gær að æfa með hlauphópnum Spretti ásamt yngri syninum. Fórum um Víðidalinn en verðum annars í Laugardalnum. Fórum með ljóðið "Þögnin særir mest", sem er snildarverk eftir Hróel. Náðum að klára æfinguna á settum tíma.

29. apríl 2008


Vatnsberi: Engar stórar yfirlýsingar! Það eru einlægar og hógværar játningar þínar sem veita þér þá athygli sem þú þarfnast. Allt sem þarf eru staðreyndir.

Úr kvæðinu "Þökk"






.....
Öll mín smáljóð eru,
ástmær, frá þér sprottin.
Þú átt litlu ljóðin.
Leik þér að þeim seinna.


Jóhann Gunnar Sigurðsson
1882-1906

24. apríl 2008

Vetur kvaddur

Kvaddi vetur með því að ganga á Helgafell við Hafnarfjörð. Fengum slyddu. Hitti fjallkonuna.

21. apríl 2008

Blaðra

Það er ótrúlegt hvað er blaðrað á bloggum, en hér á ég nú samt við aðra blöðru. Átti ánægjulega helgi á föstudagseftirmiðdegi riðum við feðgar í ágætum félagsskap inn í Rauðhóla en þeir eru meðal uppáhaldsstaða minna á höfuðborgarsvæðinu.

Á laugardagsmorgni var farið snemma á fætur og skógfræðingurinn kom á embættisbílnum og tók mig með í ævintýri á gönguför. Fyrst litum við á kurlunarverksmiðju í Mosfellsbænum og sáum hvar þjóðhátíðarlundurinn á Þingvöllum var að breytast í kurl. Síðan gengum við sem leið lá upp á Esju og bættum tíma okkar mikið þó en færum við hægt yfir, en göngukaflar verða lengri og lengri á milli hvílda.

Upp við Stein hittum við svo fjallavinkonur okkar. Snótir nokkrar sem við höfum verið að rekast á, á göngum okkar á fjöll. Hressar og glaðlyndar konur. Ein þeirra meðal annars fengið far með mér úr einni göngunni, okkur til nokkurrar ánægju. Þegar við hittumst urðu fagnaðarfundir þ.e. að okkur félögum var fagnað ákaflega vel með orðunum. "Hvernig ertu í blöðrunni" sem var hrópað stundar hátt þannig að allir þ.e. 50- 100 manns sem voru upp við Stein heyrðu vel. Hvarf mér allur sexapíll sem hafði sperst upp við það að sjá dömurnar og ekkert varð úr að ég hreykti mér af nýju meti á leiðinni upp. En til útskýringar verður að geta að fjallkona þessi hafði aðstoðað mig við að búa um blöðrur á fótum mínum í sameiginlegri þrautargöngu okkar á Eyjafjallajökli.

Eftir nokkra stund og spjall hurfu fjallkonurnar niður á við aftur en við spertum okkur í hlíðunum nokkuð í viðbót. Heim gengum við sáttir við afrek dagsins, en enn tekur ansi mikið i lærin á niðurleið og þarf ég sennilega að taka nokkra spretti upp og niður fjallshlið til að þjálfa lítt notaða vöðva.

En að lokinni fjallgöngu eða um kl 12.30 var farið að venju á Jómfrúna og nú fékk ég uxabrjóst en skógfræðingurinn lét undan freistingum og réðist til leiks við pörusteikina, en við höfðum heitið því að hún væri leyfileg eftir að við hefðum gengið á Heklu, en þeim áfanga er ekki en náð svo staðfesta mín er undraverð.

Af Jómfrúnni fór ég svo í hesthúsið var kominn þangað upp úr kl 14 og fór í útreiðatúr með vinum mínum nýjum og eldri um Rauðhóla, Hólmsheiði og endað á að ríða umhverfis Rauðavatn. Heima hesthúsi fengum vöflur hjá frú Fanneyju. Á heimleiðinni reið ég með Tinnu sem hafði orð á því að "lítið gaman væri að fara hægt" og skildum við aðra eftir og komum langt á undan öðrum samferðamönnum eftir fantaendasprett þar sem við hleyptum klárunum í mikilli gleði.

Sunnudagurinn var rólegri. 'Eg var kominn um kl 10 upp í hesthúsið í Gusti þar sem ég er með þrjá klára "í geymslu" og er ekki farinn að ríða út. Á enn eftir aða járna þá blessaða. En þar hitti ég annað gengi vina og kunningja, m.a. föður skógfræðingsins og hans fólk flest sem er á kafi í hestamennsku. Þau hafa skotið yfir mig skjólshúsi hin síðari ár og er fátt skemmtilegra en að ríða út með hinum 83 ára föður skógfræðingsins sem stundar þá líkamsrækt að moka hrossaskít flesta daga sem hanns stendur ekki í málavafstri í Eyjum. Eftir að hafa viðrar hesta, boðið upp á marmaraköku með morgunkaffinu fór ég í hesthúsið í Víðidal þar sem enn annar reiðtúr um nágrenni Reykjavíkur beið mín um hádegisibilið og var dólað þar fram eftir degi og spekúlerað í hrossum góðum og betri.

Svona eiga helgar að vera, -blaðra sem ekki springur.

18. apríl 2008

Lift me like an olive branch

Dance me to your beauty with a burning violin
Dance me through the panic 'til I'm gathered safely in
Lift me like an olive branch and be my homeward dove
Dance me to the end of love
Dance me to the end of love
Oh let me see your beauty when the witnesses are gone
Let me feel you moving like they do in Babylon
Show me slowly what I only know the limits of

"með Cohen á heilanum"

Upplifun

Hún mörg upplifunin sagði alþýðustúlkan. Hreyfiþörfin fer vaxandi og í gærkveldi fór ég í fylgd annars sonarins á kynningu á hlaupanámskeiði sem við erum að velta fyrir okkur feðgarnir. Já, ég þarf að læra að hlaupa! Eða að amk rifja það upp. Aðalkosturinn er þó að þarna eru sett fram raunhæf æfingaáætlun, því ég veit af gamalli reynslu að hugurinn ber mig alltaf hraðar en líkaminn þolir, með tilheyrandi eymslumum og uppgjöf.

Það hef ég fengið að reyna í fjallgöngunum þar sem ég er alltaf kominn 1 - 2 klst fyrr upp á topp í huganum en það tekur þungan líkamann að paufast áfram. Það er því alltaf togstreita á milli andans og skrokksins.

Eftir að hafa fengið útlistanir um grundvallaratriði þjálfunar og skótau var boðið upp á hugleiðslu og frætt um gæði þess að kyrra hugann. Síðan vorum við öll látin breytast hægt og bítandi í tré sem skaut rótum og laufgaðist, sem sagt það verður líka boðið upp á hugleiðslunámskeið sem við þurfum ekki öll að taka þátt í þó við ætlum að hlaupa í góðum félagsskap í sumar. En í huga mér vaknaði sú spurning hvort ekki væri bara hægt að fara í hugleiðslu og breytast í hlaupara í stað trés og slá þannig tvær flugur í einu höggi.

17. apríl 2008

Söknuður

Ódáinsvellir
og draumlanda rökkrið
okkur sundrar
óskiljanlegar mannverur
í yfirlögðu næturhúmi
þar sem hvorugt skín
án hins.

16. apríl 2008

Ný grein í vísindariti

Var að fá birta grein með samstarfsmönnum í bandaríkjunum. Nokkuð síðan það gerðist síðast en greinilega ekki dauður úr öllum æðum, -enn. Greinina má lesa hér

15. apríl 2008

Á Hámundi

Tindi fagnað á Eyjafjallajökli.

Gengið var í línum til að forðast hrap í jökulsprungur.

Framundan blasir við Hámundur og gnæfir yfir jökulbreiðuna, áfangastaðurinn.

14. apríl 2008

Náttverður fjallafarans

Ferðin á Eyjafjallajökul reyndist þolraun hin mesta. Lagt var af stað kl 7 um morguninn frá höfuðstöðvunum og keyrt austur að Seljavallalaug þar sem bílum var parkerað og gangan upphófst. Gengið var upp hlíðina fyrir ofan laugina upp á heiðina, Mörleysur. Aðeins var tekið ein stutt hvíld og við jökulröndina í 800 m.h.y.s. voru allir skikkaðir í öryggislínur og hópurinn þannig hnýttur saman.

Þaðan var haldið áfram á snjó en engar sprungur sáum við fyrr en alveg efst, upp undir tindi, Hámundi. Að ganga í línu er sérstök upplifun og ekki finnst mér hún skemmtileg. Var heppinn að vera neðstur í línunni og því þurfti ég aðeins að halda takti við þann sem næstur var á undan. "Hægri, vinstri, hægri.... og vinstri.... Hægri.... vinstri. Ekki flækja línuna... Hægri..". Þannig tautaði ég í huganum hvern kílómeterinn og hverja klukkustundina efir annari á meðan við þokuðumst upp á hraða snigilsins. Þrekið er greinilega að vaxa því nú fór ég ekki að finna fyrir þreytu fyrr en komið var í um 1200-1300 m. hæð. Á Snæfellsjökli gerðist það eftir um 800 m hækkun. Þegar komið var í 1200 m hæð var tindurinn farinn að blasa við og ferðin því farin að styttast og þannig var haldið áfram í einstaklega fallegu landslagi jökulheima með tignarleg og snarbrött fjöll fyrir neðan okkur sem steyptust niður á suðurlandssandana.

Framundan voru svo topparnir Guðnasteinn og Hámundur. Takmörk dagsins. Við höfuðm ágætt útsýni á leiðinni upp, gengum ofar skýjum eiginlega alla leið, en þegar við náðum á toppinn hafði skýjahulan náð í hæla okkar og það fór að snjóa. Á leiðinni niður sáum við ekkert lengi vel nema við fundum vel hversu brött leiðin var á köflum. Það er ótrúlega erfitt að ganga niður í móti í snjó sem er laus í sér undir harðskafanum. Því fékk ég að kynnast og átti ég fullt í fangi með að halda í ferðafélaga mína.

Þegar komið var niður fyrir snjólínu varð ég svo að stoppa og gera að sárum mínum, enda kominn með blöðrur á stóru tærnar. Kom í ljós að allir voru vel útbúnir með sjúkrakassa, plástra, second skin, og tape nema læknirinn sem hafði ekkert slíkt meðferðis og var því upp á náð og miskun annarra kominn. En þetta voru aðeins upphaf af stöðugum krankleika sem fékk ýmis nöfn í huga mér á leiðinni niður. Því þegar ekki var langt eftir varð ég andstuttur og móður og fór að sjóða niður í mér eins og astma sjúklingi. Var ég viss um að ég væri kominn með lungnabjúg af háfjallaveiki og þá sennilega fyrsta tilfellið sem skráð yrði á spjöld sögunnar á þessari leið. Hefði betur farið að ráði Eggerts Ólafssonar og Bjarna og haft með mér edik og andað í gegnum klút til að verjast áhrifum þunna loftsins eins og þeir gerðu þegar þeir klifu Snæfellsjökul.

Ég leitaði annara skýringa og þá helst að ég hefði fengið þögult hjartaáfall af áreynslunni og nú væri ég með hjartabilun og hjartaastma. Varð mér ekki um sel en ákvað að staulast neðar svo ekki yrði björgunarsveit að dröslast með mig niður síðasta brattan. Þegar niður var komið gleymdust raunirnar og fagnað var með hópnum mínum góðum degi en erfiðum. Áhyggjur af hjartavöðvanum runnu eins og dögg fyrir sólu. Leiðsögumaðurinn var faðmaður fyrir að hafa komið okkur alla leið upp og svo niður aftur.

Heim í hús komst ég svo við illan leik 15 klst eftir að lagt var af stað um morguninn, sár á fótum, hóstandi eins og mæðiveiki rolla, þar tók við tímabil kuldahrolls og lystarleysis. Sennilega einkenni örmögnunar á byrjunarstigi, eða langtleiddur. Amk tókst mér að jafna mig á næstu tveim tímum og um miðnætti var ég farinn að nærast og drekka aftur. Hafði náttúrulega ekki haft þá fyrirhyggju að eiga neitt ætilegt heima. Nóg var ég búinn að fá af döðlum og flatbrauði. Tókst að lokum að steikja brauð og egg og borða með saltfisksalati sem ég átti frá því fyrr í vikunni. Þetta myndu Jómfrúarmenn kalla "náttverð fjallafarans". Nóttin fór svo í að bæta upp vökvatap og nærast eftir getu. Það var svo ekki fyrr en um hádegi daginn eftir að egóbústið fór að laumast inn með strengjunum sem fóru að gera vart við sig þannig að ég skammaðist yfir því að vera ekki löngu fluttur í hús á einni hæð.

Eyjafjallajökull. Tindur þrjú án ediks.

Hér var ég um helgina. Gekk á Hámund (ca 1662 m). Ferðin á toppinn tók 6 klst og 15 mín og niður vorum við komnir eftir 10 klst göngu. Nýtt afrek. Meira um það síðar.
Hér sést Hámundur hæsti tindur Eyjfallajökuls.

11. apríl 2008

Var í útreiðum í gær.

Hún Fanney fer ekki á feti
á ferð sem að kennd er við leti
það hefði ekki nægt
að fara svo hægt
að hermt eftir henni ég geti.

10. apríl 2008

Já, þú ert mín!

Já, þú ert mín, já, þú ert mín,
ó, þökk frá hjartans grunni!
Hver harmur deyr og húmið dvín,
og himinsól um löndin skín,
sem jörðin beri brúðarlín
og brosi móti unni.
Þú glitrar sjálf, sem gullið vín
og glæðir ljóð á munni.

Á mínum vegi er rós við rós,
ég reika milli blóma,
og geislar dansa ós frá ós;
frá efsta tind og fram til sjós
um lífsins yndi, ást og hrós
nú allir strengir hljóma.
Mér finnst sem húmið fæði ljós,
mér finnst ég sjálfur ljóma!

Jónas Guðlaugsson
1887-1916

9. apríl 2008

4. apríl 2008

Ég sótti upp til fjallanna

Ég sótti upp til fjallanna um sumarbjarta nótt. -
Sólin gleymdi dagsins háttatíma. -
Ég efni heitið, vina mín, hið dýra djásn skal sótt.
Í dimmum helli verður risaglíma.
Hæ, hó!
Ég er á nýjum sokkum og ég er á nýjum skóm.
Í öllum heimi er enginn, sem ég hræðist.



Jóhann Sigurjónsson
1880-1919

2. apríl 2008

Á Sæfellsjökli


Hér kemur mynd úr ferðinni um síðustu helgi sem Jón Gauti fararstjóri tók. Hún sýnir aðstæður vel á toppnum. Hér er svo tölfræðin: Ferðin tók rúmar 6 klukkustundir. Þar af voru 4 klst og 32 mínútur á göngu og 1 klst og 39 mínútur í stopp. (Ja; ég fékk nú ekki að stoppa svona mikið held ég amk fannst mér ég alltaf vera á ferðinni). Heildargönguvegalengd var 12.35 km.

Þessi mynd birtist í 24stundum í gær og sýnir Æri á niðurleið. Hann er þessi efsti, svartklæddi með rauðar legghlífar og hvíta vettlinga.

Undir seglum (kveðið í veikindum)

Þetta er ljóta bölvuð byttan,
bæklað stýri, kjölur fúinn.
Allt er rifið eða brotið,
allur reiði sundur snúinn.

Ef það væri ljófa leiði,
léti ég samt bátinn vera.
En byljirnir úr Skuggaskörðum
skemmri munu veginn gera.

Dauðinn sér í djúpi byltir,
dylur sig í boðahrönnum.
Ertu í þessum eða hinum,
ófreskjan, að nísta tönnum?

Jóhann Gunnar Sigurðsson
1882-1906


Held ég sé að fá þessa fjandans flensu.