25. desember 2010

Jólakveðja 2010

Bregður degi, -við bíðum hljóð
að birtist enn hin björtu jól
Þá lifnar senn hin ljúfa glóð
er líknar þrá sem sumarsól

Það eiga margir silfur sjóð
í sekkjum og klæðum fínum
en fegurst er það ljúfa ljóð
er leynist í barmi þínum

23. október 2010

Ministry of Administrative Affairs

Fékk að koma að -var falið það verkefni að - vinna í vinnuhóp um skipulagninu nýs spítala. Undirhópur, undir hóp sem fellur undir hóp sem er til ráðgjafar stýrihóp sem heyrir undir samræmingarhóp og heyrir beint undir samskiptahóp sem hefur það hlutverk að ræða við arkitekta og verkfræðinga í spital hópnum sem hannar allt heila klappið.

Fannst mér ég hafa áhrif - yrði hlustað á það sem ég segði. Yrði skýrslan lesin sem sett var saman á þeim tveimur vikum sem við höfðum og urðum að slá öllum öðrum verkefnum á frest. Nei. - Ég held ekki. Það fylgdu nefnilega engar leiðbeiningar um hvað hópurinn ætti að gera, en vinnutitillinn var flottur.. Verkefnið var óljóst, illa skilgreint og ekki afmarkað. Upplýsingar um lykilatriði vantaði. Fannst ég fórnarlamb heilaspuna hóps sem fannst einn daginn góð hugmynd að skipa vinnuhópa um nokkur verkefni með flotta titla en enga skilgreinda endapunkta annan en verkinu yrði að ljúka á tveimur vikum. Hefði betur horft aftur á einn góðan þátt með Yes minister um vinnubrögðin í Ministry of Andministrative Affairs.

Um hvað urðu allir sáttir. Jú að það þyrftu að vera kennslustofur á háskólasjúkrahúsinu, en hvort þær ættu að vera húsi sem háskólinn er að byggja eða í húsi sem spítalinn ætlaði að byggja og við vorum að fjalla um gat vinnuhópurinn ekki tekið afstöðu til þvi engin hafði hugmynd um hvað nefndir á vegum háskólans væru að hugsa í þeim efnum eða hvort samráðsnefndir spítlans og háskólans hefðu komið sér saman um skipan þeirra mála.

17. október 2010

Þankar þann sautjánda

Sunnudagsmorgun - ilmandi kaffi og reyktur mývatnsilungur og bláberjasulta. Vinátta - er nokkuð dýrmætara.

Prófgerð. Eitt próf hrist fram úr erminni upp úr hádegi, - bíður þjáningarfullra en vonandi sprenglærðra nemenda í fyrramálið. Fyrsti nemahópurinn minn af fjórum í vetur að klára. Ótrúlegt hvað ungt fólk er fljótt að læra og gefandi. Finn þó til með þeim, því sjálfur sat ég próf í gær og var búinn að gleyma hvernig er að sitja í 3,5 klst prófi - óundirbúinn.

Hestar og girðingarvinna í beitarhólfi í lemjandi sunnlenskri rigningu síðdegis fram undir myrkur. Blautur inn að beini. Það heldur manni naglföstum við jörðina, - á meðan báðir fætur eru jafnlangir. Merkilegt hvað áhyggjur geta horfið úr veðurbörðu andliti.

14. október 2010

Pólitísk yfirlýsing millistéttarmanns með götótta vasa

Ég er þjóðremba í þeim skilningi að ég unni Íslandi og öllu því sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða - Kýs jöfnuð, réttlæti og að leggja mitt af mörkum til samfélagsins - en ætla ekki að vera í þeim fámenna hópi sem virðist eiga að bera uppi Ísland í gegnum þrengingarnar á meðan friðaðir fjármagnseigendur og afturgöngufjármálastofnanir njóta góðs af neyðarlögum og niðurfærsluleiðum með samansaumaða stjórnendur og slitastjórnir makandi krókinn í brúnni. Ákvað því að taka út nýja "tryggingu" og bætast í hóp þeirra sem skráðir eru á sænskunámskeið í endurmenntunarstofnun.

Ég vil samvinnu um úrlausnir. Ekki einhliða ákvarðanir þeirra sem vilja vernda fjármagn, ofvaxið bankakerfi og sérhagsmuni afturgenginna fjármálastofnanna hverju nafni sem þær kunna að nefnast. Lífeyrissjoðakerfið þolir skuldaaðlögun félagsmanna sinna. Það fær skell en hann verður skammvinnur. Allt annað er bull. Skammtíma sjónarmið þeirra sem nú fá greiddan lífeyri úr kassanum mega ekki ráða för. Auður sjóðanna hefur byggst upp á innan við hálfum mannsaldri. Haldi þeir öðru til streitu fá þeir enn minna í kassann því við verðum farinn af skerinu. Hver borgar þá brúsann, -iðgjöldinn, skattana og útsvarið.

Er ódýrara fyrir íbúðalánasjóð að sitja uppi með tómar íbúðir í þúsunda tali, sem engum arði skilar en bera daglegan kostnað fremur en taka þátt í að leiðrétta verðtryggingarskellinn með viðskiptavinum sínum. Á ég að borga skatta til halda við tómum íbúðum og greiða af þeim opinber gjöld. Þá vil ég heldur að þeir renni til samfélagsins, þ.e. þeirra sem á því þurfa að halda. Fjölskyldna sem nú búa við upplausn og tryggja þeim heimili. Rekstur heimilanna í landinu er mér meir í mun, en eiginfjárhlutfall íbúðalánasjóðs sem má bæta á lengri tíma. Fjölskylda sem flosnar upp frá heimili bíður þess aldrei bætur. Ég vil hafa um það að segja í hvað skattar sem á mig eru lagðir fara.

Þegar meira fjármagn kemst í umferð, eftir almenna leiðréttingu verðtryggingarmisréttis, réttir úr kútnum og það má ekki bara vera gamla lífeyrissjóðaelítan sem sér um skömmtunina á því sem til skiptana er, heldur almenningur sjálfur.

Hef búið erlendis um árabil, f uþb áratug, get vel hugsað mér það aftur ef nýja ísland fær ekki aðra mynd en þá sem nú er boðið uppá.

31. maí 2010

Walesa, Havel og Gnarr

Það kom að því að búsáhaldabyltingin fyndi sér farveg á ný. Kaos kennir okkur að búast við því óvænta. Þetta var sannarlega óvænt. Besti flokkurinn reynist íslenski byltingarflokkurinn sem ögrar og storkar hefðbundum valdahlutföllum. Stundum erum breytingarnar knúnar áfram af verkalýðsleiðtogum líkt og í Póllandi og stundum af fólki úr heimi menninga og lista líkt og í Tékklandi. Hér er það menningararmurinn sem ýtir málum áfram. Það sem var óvænt var að úr hvaða geira lista og menningar aflið kom sem knýr næsta fasa lýðræðisþróunarinnar. Eina rétta í stöðunni væri að hópurinn myndaði minnihlutastjórn. 15-0 yrði algjör skellur,- en ríkjandi valdastofnanir munu reyna að knýja slíka lausn fram.

Af ást við fyrstu sín og öðrum atburðum

Með sumrinu koma nýjar annir. Öll helgin hefur farið í búskapinn. Enginn dróg af sér við undandráttinn á föstudaginn. Drógum 32 skeifur undan. Það var svolítið puð fyrir skrifstofublókina, en sumir myndu segja að þetta hefði verið kvenmannsverk.

Á laugardag frá morgni til kvölds var farið með hross í haga. Smá útúrdúr var í ferðum því í leiðinni var farið með tvær hryssur til stóðhests. Svo vel vildi til að um ást var við fyrstu sín hjá annarri og þeim graða. Þau voru leidd saman. Hann gamall og hafði meiri áhuga á að velta sér og hún ung og klippandi gull. Fátt minnir betur á vorið og sumarið. Merkilegt að sumir graðir virðast verða að fá að bíta og slá í vorleikjunum. Allt tókst að lokum og folald væntanlegt í maí á næsta ári.

Rétt náði í blálokinn á kosningunum og og beindi spjótum að fjórflokknum. Tími kominn til að endurreisa lýðveldið og minnast svikinna loforða úr síðustu alþingiskosningum.

Hneykslaðist á rætni íslenska þularins í samevrópsku söngvakeppninni. Skil ekki af hverju þessi maður er sendur ár eftir ár til þess eins að hallmæla öðrum keppendum og reyna að slá sig til riddara með aulabröndurum í garð annarra þjóða. Sér ekkert nema samsæri annarra sem ekki skilja mikilfengleik þess íslenska. Eitthvað sem minnir óneitanlega á 2007. Summerar upp vandamálið sem við stöndum enn frammi fyrir. Vona að Ísland geti státað af öðrum í framtíðinni. Þessi haus mætti fjúka.

Allur sunnudagurinn fór í flutninga á hestum í haga og ekki var dagurinn styttri. Mikill fögnuður og rassaköst. Fyrst hlaupið í vestur, svo í suður, austur og loks í norður og vatnskerið kannað. Allt á sínum stað. Hreykt sér á hæsta hól. Loks komið glaðlega til baka og þakkað frelsið. Eitt loka klapp á ennið og svo rokið aftur út í buskann. Sjáumst í haust.

27. maí 2010

Af gráglettnum raunveruleika

Hef í vetur verið ótrúlega, þó ég segi sjálfur frá, iðinn við menninguna, -með fasta miða í leikhús og sótt tónleika sem aldrei fyrr. Þetta hefur verið andans upplyfting sem náði hápunkti í vikunni. Fór á Íslandsklukkuna um síðustu helgi og í kvöld er ég að koma af því að sjá Rómeó og Júlíu í uppfærslu Vesturports. Hvorttveggja var heilabörksins himnasending. Þó held ég að persónusköpun Nobelsskaldsins slái alveg honum Shakespear við (sorry brits).

En að fara á Íslandsklukkuna var eins og að rifja upp kynni af gömlum heimagöngum af Kirkjuveginum, en sem barn og unglingur sat ég löngum stundnum og hlustaði á LP plöturnar hennar mömmu með uppfærslu Þjóðleikhúsins á leikritinu. Ég rifjaði þetta upp og bróðir hafði orð á því að ég hefði verið undarlegt barn. Hef sennilega ekkert breyst að því leitinu.

Góða nótt, - Jón Marteinsson, þú svarti þrjótur, Jón Grinvicensiss, Hreggviðsson og hið ljósa man. Í nótt brennur borgin ekki. Skálda er komin í leitirnar. Verona bíður enn.

25. maí 2010

Syðri -Unaðsstaðir

Það þarf amk eitt nýtt blogg á 6 mánaða fresti. Eða hvað. Það er af svo ótalmörgu að taka. Helst er hvað hausinn getur verið hringlandi vitlaus og samhangandi hugsanir á víðogdreif og standa þá varla undir nafni.

Nú er það nýjasta að vera að gefa öllu nýtt nafn. Landskikinn minn austur við Sólheima hét lengi í huga mér Ljósheimar og um hann varð til eitt lítið dagsljóð: Við næsta hringtorg liggur leiðin til ljósheima. Stutt var það. En nú eru þetta ekki bara ljósheimar heldur unaðsstaður og því ekki úr vegi að kalla plássið Syðri-Unaðsstaði, en þeir nyrðri eru jú fyrir norðan.

Að Syðri-Unaðsstöðum hef eg dvalið löngum stundumí vor í góðum fjelagsskap og plantað skjólbelti með hamhleypu til verka.

Það er nú reyndar bjartsýnisplöntun, því engar eru ræturnar á blessuðum plöntunum. Þær eru rótlausar eins og ég hef verið undanfarin ári, en vonandi skjótum við rótum og laufgumst næsta vor.

Skjólbeltið er nú orðið amk 200 m langt og verður vonandi en lengra og lifir af. Úti í garði er ég svo með tilraun með aspir og vonast til að úr þeim rætist líka.

Ég tjaldaði vagninum mínum á háum hól á laugardaginn og er fluttur með virðuleg tréhúsgögn og þar með talinn sóllegubekk. Eiginlega er þetta sannkallaður unaðsreitur í 18 gráðunum sem voru sl. helgi. En ekkert legið á bekknum.

Á næstu dögum fara svo klárarnir þangað líka. Til undirbúnings lagði ég vatnsveitu upp á efra túnið (hmm túnið), sem svei mér þá að ég held að virki. En hvernig þéttir maður samskeyti trekvart og hálftommuplaströra?