18. apríl 2008

Upplifun

Hún mörg upplifunin sagði alþýðustúlkan. Hreyfiþörfin fer vaxandi og í gærkveldi fór ég í fylgd annars sonarins á kynningu á hlaupanámskeiði sem við erum að velta fyrir okkur feðgarnir. Já, ég þarf að læra að hlaupa! Eða að amk rifja það upp. Aðalkosturinn er þó að þarna eru sett fram raunhæf æfingaáætlun, því ég veit af gamalli reynslu að hugurinn ber mig alltaf hraðar en líkaminn þolir, með tilheyrandi eymslumum og uppgjöf.

Það hef ég fengið að reyna í fjallgöngunum þar sem ég er alltaf kominn 1 - 2 klst fyrr upp á topp í huganum en það tekur þungan líkamann að paufast áfram. Það er því alltaf togstreita á milli andans og skrokksins.

Eftir að hafa fengið útlistanir um grundvallaratriði þjálfunar og skótau var boðið upp á hugleiðslu og frætt um gæði þess að kyrra hugann. Síðan vorum við öll látin breytast hægt og bítandi í tré sem skaut rótum og laufgaðist, sem sagt það verður líka boðið upp á hugleiðslunámskeið sem við þurfum ekki öll að taka þátt í þó við ætlum að hlaupa í góðum félagsskap í sumar. En í huga mér vaknaði sú spurning hvort ekki væri bara hægt að fara í hugleiðslu og breytast í hlaupara í stað trés og slá þannig tvær flugur í einu höggi.

Engin ummæli: