30. júní 2005

Dularfræði og rúnir

Enn er hinn dularfulli byrjandi b2 kominn á kreik,
og svaraði síðustu hendingu svona:
Eigi kveðið kvæði áður
kanski bara í draumi
verður maður mikið háður
meiri orðaflaumi’

Höfuð fullt af humor hef
hafa skaltu það væni
hamast hugsa eða sef
hugnast þér minn kæni


Nú eru góð ráð dýr:

Reyndi í morgun:

Í bleyti lagði búk og haus,
ber svo eftir standi
Að engu hefur allt mitt raus
árans b2 byrjandi.

Því sól kom aftur sæt og fín
sú mun okkur kæta
þegar ofsadrífa á oss hrín
ey mun aftur bæta.

Nú er nafn þitt nokkuð ljóst
nú er mál að linni.
Því ef í vísum alltaf bjóst,
eg á kossinn minni.


En það gekk ekki svo ég reyndi aftur, nú með nafnagátum:

Í ó-göngum í gerðinu leita
gögn ei nokkur þar finn
Val mitt stendur, -á vin skal heita
ef viltu koss minn á kinn.

Því rúnir hefur rist mér kona
og raunir enn um sinn.
Núna guð, -ég gríp og vona
að gefist koss á kinn.

Með ólgu í hjarta nú emjandi styn
æði mitt allt er á burt.
Ef í kvæði ei kemur ég kalla á vin:
hver getur eftir þér spurt.

Á þrumurnar hrópa, -gefðu mér guð
og gríptu þinn fallandi þjón.
Ef öll mín ljóð eru eingöngu tuð
þá eigðu kossinn fyrir hann Jón.



Um nónbil:

Mínir kossar þig kæta elsku vin,
klófesta viltu skvísu
Undan þínum skáldskap styn
sú þrá skal bundin í vísu

Byrjandi á B2.

Og frá hinum byrjandanum?

Það var eitt sinn læknir á Lundi
svo ljómandi góður á fundi
hann verkina kæfði
aðra hann svæfði
ég veit ekki hvernig, hann stundi!

Bestu kveðjur ber ég þér
best er í dag að brokka
eftir bíddu bara mér
betur fer að skokka

Byrjandi B2

Þeim var svarað:

Þegar sefur sætt og rótt,
suma tefur fram á nótt.
Þessi vefur vex svo fljótt
vísna þefur veldur sótt.

Með orðaflaumi aftur kemur,
og inn í draumi alltaf semur.
Vil að gaumi gefir fremur
glaumi sem að huga temur.

Heilabrot nú hugann berja,
sem högg í rot þau á mig herja.
Hafa krot sem hjartað merja,
hlaut nú skot er ei mun verja.


Um kaffileiti:

Reyndist mér tregur í taumi
töltandi knapinn sá
viljugur var í draumi
varasamt er að fá

Reyndist mér tregur í taumi
töltandi knapinn sá
hugarvíl herjar í laumi
ólgand af hjartans þrá

Byrjandi B2

29. júní 2005

Afmæli



Afmæli á hún mágkona mín í Trekt. Þetta er handa henni:

Þú skínandi kona sem skilur svo vel
að skemmtun mun lífinu breyta.
Með kímni og húmor þú kætir vort þel
konan sem fjaðrir nú skreyta.

28. júní 2005

Frýjunarorð



Þessi áskorun og frýjunarorð biðu mín í morgun:

Mánudags hrollvekja.

Kvalalosta kerlingin
karlinn sinn hún lamdi
kreisti síðan ketlingin
kalúnaði og kramdi

kveða skaltu karlinn minn
kunnuglega vísu
kanski færðu koss á kinn
kannist þú við skvísu

Byrjandi b2


Ekki veit ég enn hver byrjandinn er, en sendi þetta svar:

Til byrjandans á b2.

Í höfðinu grufla svo á heilanum sjóði
og hugurinn reikar um sinn.
Hver ertu skvísa sem leynist í ljóði
og laumar svo kossi á kinn?

Geturðu hjúkrað þeim sjóðandi heila
svo hugurinn hætti að leita.
Eða mun hamur og hugarins veila
hátt upp á skerjunum steyta.

En kannski er þitt fag kústur og rýja,
og kossa að nóttu þig dreymir.
Eða kannski þú skráir og skjalfærir nýja,
í skjölunum kvæðin þú geymir.

En eitt er þó víst að vísurnar þínar
varla eru byrjanda kvæði.
Því limrur á blaði svo leikandi fínar,
eru ljómandi dularfræði.

Kveðist á.

Eins og ég skráði nýlega tóku vinnufélagar mínir við sér og kváðust á. Þó var einn í fríi og kvað þegar kom til baka:

HJB: Drottin minn dýri. Maður má ekki skreppa frá einn dag þá fer Gróttarkvörnin af stað.
Kemur manni þá í hug:


Hnígur bunan bragar þunn,
bræðra rígur harður.
Míga saman í Mímisbrunn
meðan sígur larður.


Því var svarað svona í fyrsta lagi:

M.Óla:
Já hér voru greinilega æðri máttarvöld að verki, en:

Kveður Hans af mikilli kunn-
áttu hvílíkt gaman!
Mættum við báðir í Mímisbrunn
sælir míga saman!

Og í öðru lagi:

Ef í brunninn bræður tveir
buna svo út úr flæði.
Sjálfsagt munu síðar þeir
saman yrkja kvæði

Mímir það var máttugt goð
maki margra manna.
Held þó hafi ekki roð
í Hans, það dæmin sanna.

Lifið heil

27. júní 2005

Galaxí hjúin

Enn hefur hinn dularfulli byrjandi á B2 sent skeyti um galaxí fólkið og skal byrjandanum færðar bestur þakkir fyrir viðvikið:

Í laumi ég horfi á þau hjúin
hrum, lúin og búin
hristast af kæti
ó þvílik læti
af galaxí orkunni knúin

Byrjandi á B2

24. júní 2005

Stjörnuþoku Stína

Á himninum stjörnurnar starir
Stína og vonar að fari
Gvendur nú hjá
svo hann megi sjá
spígspora með alls engar spjarir

Snilldarleg viðbrögð

Aldrei gleðst maður meir en þegar tekst að trylla undir félögum. Nýleg sending á miðvikudagskveðskap um Harri kveikti vel í og skal nú öllu haldið til haga:


M.Óla bætti við:

Með skambyssunni skúrka siðar
og skýtur þessi grey,
á þá Harrí Magnum miðar:
"Make my day!"

Dörtí Harrí hreðjataki
höslar unga mey.
Þessi margra kvenna maki
meiks her day!



Magnús Pálsson svaraði:

Ljóðsins stafur leikur þér,
einkar ljúft í hendi.
Eina stöku stuttur hér,
stúfur núna sendi.

Hátt nú svífa himinsfley,
hneggjar skáldafákur.
Yrkja taka dáðlaus grey,
dýrar merkar drápur

Mjöðinn teiga í skálda höll,
skreyttum klæðum skrýddir.
Þeysa hratt um víðan völl.
vinir dáðum prýddir.

Afrakstur er einkar fínn.
af ódáinsvöllum ljóða,
Boðskapur er ærið brýnn,
brátt menn setur hljóða

Í Hollívúddsins heljar klið
er hávaði og læti,
Yrkja myndi ég um það lið
ef ég bara gæti.


Svo kom aftur frá M.Óla af og voru línur en heitar:

Dátt er fyllt í kvæðakver
kátt af snill´ og trega.
Brátt ég hylli þennan her
hátt og tryllingslega.


Þá kom þessi sending frá Magnús Pálssyni:

Held að þessi kvæðaþörf stafi af byrjandi miðöldrunarkrísu
og deili því þessu:

Miðaldrakrísukast:

Lífsins klukka tifar létt
ljúf og taktföst slögin
Foldar leið við þrömmum þétt
þræðum breiða veginn


Loks kom dýrt kveðin bragur frá Ludvig

Bragi, guð skáldskaparins, er illa sár.

Móðan láta Mangar tveir
mása langa daga.
Á andans horrim hanga þeir,
með hornum stanga Braga


MÓla svarar:

Yrkja mun ég þrjóskur og þver
þó að í mig hnippið,
því að ennþá á mér er
uppi ansans tippið!

og Ludvig svarar:

Ekki bogna, beygja af
er boðorð miklu kappar.
Þótt fleyið ykkar far´á kaf
þið fljótið upp sem tappar.

Þá M.Óla:

Kappa Lúði upp á lappar
og ljóða stílinn knappa.
Stappar í þá stáli og klappar
stolta happa-tappa.

galaxí gvendur á ný

Þetta fékk ég sent frá "Byrjanda á deildB2"

Hjá guði hann gvendur er geymdur,
að eigin sögn galaxí reyndur
mér þykir það leitt
hann þráir svo heitt
að verða ekki af okkur gleymdur

Svo frétti Ludvig af Gvendi og sendi:

Hver er þessi Galaxí Gvendur
Sem gleiður í hlaðinu stendur
gauksegg og tál
eða góðlátleg sál
af guði til mannanna sendur?

Kunni fleiri, fleiri sögur af Gvendi væri gott að frétta af þeim.

23. júní 2005

http://www.geocities.com/smtsr1/kdfjhgkjdfshgkljhdfsklgjhlkfdjhglkdfjglkjdfhsglkjhfdksghldfghjdflgjkdfgds56346354643654522654564587395793475938765350098570357605034867035867038670837508347587350837508345/picture_dpn/stop.gif

Ættir Bergsveins úr Sunndal


Systkini Bergsveins afa míns

Bergsveinn Sveinsson 1876 - 1967.
Bergsveinn var fæddur í Sunndal 21 september 1876. Hann var Kennari og verkamaður í Skeljavík, Staðarsókn, Strand. árið 1930. Bóndi í Aratungu í Steingrímsfirði, síðar húsmaður og farkennari á Vatnshorni og í Skeljavík í Hrófsbergshr., Strand., síðast á Hólmavík. Hann giftist Sigríði Guðrúnu Friðriksdóttur, ömmu minni af Drangavíkurætt (sjá pistil 16. júní 2005). Þau bjuggu lengst af í Aratungu í Staðardal í Steingrímsfirði, norður á Ströndum. Börn þeirra voru 15 talsins.

Ættir Bergsveins frh


Ætt Sveins Kristjánssonar langafa


Faðir Bergsveins, Sveinn Kristjánsson átti börn með þremur konum eins og sjá má á ættartréinu hér að neðan. Sveinn var fæddur í Snóksdalssókn (munið hann Daða sem drap Jón biskup Arason, hann var þaðan). Hann gerðist síðan bóndi í Sunndal í Strandasýslu og bjó þar alla tíð. Sveinn var því Dalamaður að ætt og uppruna. En saga þessarar ættar verður nú rakin í stuttu máli.

Sveinn missir föður sinn þegar hann er er 8-9 ára gamall og er honum komið í fóstur. Fimm árum eftir andlát föðursins er hann skráður sem tökubarn á Hólmlátrum í Breiðabólstaðar-sókn á Snæfellsnesi. Það vekur athygli fyrir okkur afkomendurnar að Sveinn Kristjánnson, langafi okkar (í móðurætt) hefur eignast barn með Björgu Ólafsdóttur langömmu okkar þegar hún var ráðskona hjá honum í Sunndal. Fyrir hefur hún átt barn með langalangafa okkar í föðurætt Þorbergi Björnssyni bónda í Reykjarvík, Nessveit, Strand. En sonur hans og Agötu langömmu var Bjarni Þorbergsson faðir Guðbjörns afa.

Björg langamma okkar Ólafsdóttir á ættir að rekja til Reykhólasveitar. Hún eignaðist börn með þremur mönnum, en virðist ekki hafa gifst neinum þeirra. Hún var fædd í Staðarsókn, sennilega á Hellu í Steingrímsfirði þar sem foreldrar henna bjuggu. Hún var ráðskona í Sunndal hjá Sveini bónda þar og eignast með honum tvíburana Bergsvein og Sigurð 1876. Þá var eiginkona Sveins, Helga Pétursdóttir látin fyrir þrem árum síðan. Áður hafði Sveinn eignast barn með Maríu Jónsdóttur,

Börn Bjargar langömmur voru:

Með Þorláki Hálfdani Guðmundssyni 1834 - 1869 (barnsfaðir):
Sigurlína Þorláksdóttir 1865 - 1944 Var í Ásgarðsnesi, Þingeyrarsókn, V-Ís. 1930.

Með Þorbergi Björnssyni 1835 - 1894 (Var í Hlíð, Fellssókn, Strand. 1845. Bóndi í Reykjarvík, Nessveit, Strand. Húsmaður í Bolungarvík 2, Staðarsókn í Grunnavík, N-Ís. 1880. Skrifaður Guðmundsson í manntali 1880):
Lilja Þorbergsdóttir 1861 - 1925 Vinnukona í Vatnshorni , Staðarsókn, Strand. 1880.

Með Sveini Kristjánssyni 1821 - 1883 (Bóndi í Sunnudal í Kaldrananeshr., Strand. Tökubarn á Hólmlát, Breiðabólstaðarsókn, Snæf. 1835):
Bergsveinn Sveinsson 1876 - 1967 Kennari og verkamaður í Skeljavík, Staðarsókn, Strand. 1930. Bóndi í Aratungu í Steingrímsfirði, síðar húsmaður og farkennari á Vatnshorni og í Skeljavík í Hrófsbergshr., Strand., síðast á Hólmavík.
Sigurður Sveinsson 1876 - 1882

Faðir Bjargar var Ólafur Bjarnason, fæddur í Reykjarvík í Strandasýslu 1774. Hann var lengst af bóndi á Hellu í Kaldrananessókn. Hann giftist Ingibjörgu Jónsdóttur (1787-1867) frá Kollubúðum í Reykhólahr. A-Barðarstrandasýslu. Hennar faðir var Jón Þorleifsson í Munistungu í Reykhólasveit og kona hans Elís (Elín?) Árnadóttir. Bæði Jón og Elís voru gift en eignast Ingibjörgu saman þegar þau eru 36 og 37 jára gömul (búin að missa maka sína?). Jón átti ekki börn fyrir en Elís átti fjögur börn. Hún var úr Reykhólasveit og var húsfreyja á Kinnarstöðum (1780). Árið 1801 er hún orðin ráðskona á Bæ í Kaldrananessókn, þá sennilega 51 árs gömul og búsett nærri dóttur sinni Ingibjörgu á Hellu. Ekki er fleira vitað um ættir hennar nú.

Kristján Ólafsson


Föðurafi Bergsveins afa var Kristján Ólafsson bóndi á Dunk í Hörðudal (faðir Sveins), ættfaðirinn í fjölskyldutréinu hér að ofan. Hann eignaðist átta börn með konu sinni Guðrúnu Bjarnadóttur (1789 – 1870). Börn hans og Guðrúnar voru:

Valgerður Kristjánsdóttir 1816 - 1904
Kristján "Hítardalsráðsmaður" Kristjánsson 1817 - 1900
Tómas Kristjánsson 1818 - 1912
Ólafur Kristjánsson 1819 - 1873
Sveinn Kristjánsson 1821 - 1883
Margrét Kristjánsdóttir 1824 - 1861
Sigurður Kristjánsson 1825 - 1872
Jónas Kristjánsson 1827 - um 1837
Guðrún Kristjánsdóttir 1829 – 1913

Kristján Ólafsson var fæddur 26. September 1794 og það fysta sem við vitum um hann er að honum er komið í fóstur hjá ömmu sinni að Vatnshorni í Haukadal í Dalasýslu, ekki langt frá Eiríksstöðum bæ Eiríks rauða föður Leifs heppna. Kristján var skráður sem fósturbarn að Vatnshorni í Haukadal (1801), en hefur risið til manns og var allan sinn búskap að Dunk.


Kona Kristjáns var Guðrún Bjarnadóttir (1789-1870), en hún hafði átt eitt eina dóttur fyrir (í lausaleik) þegar hún giftist Kristjáni. Guðrún var fædd í Norðtungusókn í Mýrarsýslu og árið 1801 er hún skráð til heimilis að Hóli í Snókdalssókn, Dalasýslu. Kristján og Guðrún hafa því alist upp í sömu sókn og kynnst á æskuslóðum. Eins og fram kemur síðar eiga þau bæði ættir að rekja inn í Haukadal, að Stóra og Litla Vatnshorni.

Faðir Guðrúnar var Bjarni Benediktsson var Borgfirðingur sem býr um tíma í Snóksdal og þar hafa Guðrún og Kristján eflaust kynnst. En móðurfólk Bjarna átti ættir að rekja að Litla-Vatnshorni í Haukadal. Víkjum nánar að þeim síðar.

Foreldrar Kristjáns voru Ólafur Jónsson (1764-1827) bóndi í Snóksdal og kona hans Svannlaug stóra Þórðardóttir (1773-1804). Ólafur átti börn með tveim öðrum konum. Fyrri kona hans var Ingibjörg Jónsdóttir en barnsmóðir Þórlaug Jónsdóttir, sem hann eignast einn son með framhjá eiginkonu sinni. Framættir Ólafs eru brenglaðar og ekki raktar frekar.

Ættir Svannlaugar eru aðgengilegri. Ólafur og Svannlaug eignuðust sex börn saman, og er Kristján sonur þeirra annar í röðinni, fæddur 1794, en þriðja barn föður síns.

Börn Ólafs voru:
Með Svanlaugu "stóru" Þórðardóttur 1773 - 1804 (gift):
Tómas Ólafsson 1794 – 1860
Kristján Ólafsson 1794 – 1830
Rannveig Ólafsdóttir 1796 – 1843
Salóme Ólafsdóttir 1798
Arngrímur Ólafsson 1799
Svanlaug Ólafsdóttir 1801

Með Ingibjörgu Jónsdóttur ~1750 (gift)
Herdís Ólafsdóttir 1788 - 1863

Með Þorlaugu Jónsdóttur 1774 - 1843 (barnsmóður)
Samúel Ólafsson 1799 - 1860

Úr Húnavatnssýslu í Dalasýslu um Helgafellssveit

Ættir Svannlaugar stóru Þórðardóttur
Þórður bóndi Snorrason
, Svanlaugarfaðir, var bóndi að Skriðukoti í Haukadal. Hann deyr 1783. Ekkja hans Guðrún Tómasdóttir (1750-1813) tekur við bústjórn að Stóra-Vatnshorni 1790. Hjá henni elst Kristján Ólafsson, afi Bergsveins upp. Ættfeður hennar Tómas Pálsson og faðir hans Páll komu úr Breiðafjarðareyjum. Tómas bjó í Melrakkaey (fæddur um 1710) og Páll (fæddur um 1680) í Bjarneyjum.

Móðuramma Svannlaugar var Guðrún Hálfdánardóttir (1750-1817), var húsfreyja í Melrakkaey en átti ættir sínar að rekja í Húnavatnssýslu og sérstaklega Vatnsdal en faðir hennar, Hálfdán Helgason flytur úr Húnavatnssýslu í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og gerist bóndi í Sellóni í Helgafellssveit og virðist ættbogi okkar þar með flytjast í Dalasýsluna. Meðal ættfeðra þeirra eru prestar að Undirfelli í Vatnsdal og bændur á stórbýlinu Hvammi í Vatnsdal. Um siðaskipti hefur Sigurður Arnfinnsson (f. 1525) verið prestur að Prestbakka. Sonur hans Rafn giftist Skólastiku Gamalíelsdóttur (f. um 1555). Sonur þeirra er Hálfdán Rafnsson, prestur að Undirfelli og sonur hans Ólafur er prestur þar eftir daga föður sins. Sonur hans Helgi, prestur að Stað í Staðarhreppi, er faðir Hálfdánar föður Guðrúnar.

Mægðir við Breiðfirðinga
Tildrög flutnings ættabogans í Helgafellssveit virðist vera að Hálfdán Helgason giftist Oddnýju Jónsdóttur (fædd 1691), dóttur Jóns Guðbrandssonar (fæddur um 1650-1691) bónda í Sellóni. Jón þessi átti átta börn með konu sinni Margréti yngri Jónsdóttur (f. um 1650) og var Oddný þeirra yngst. Henni er komið í fóstur út í Höskuldsey (tökubarn sbr. manntali 1703). Faðir hans Guðbrandur Kristófersson (f. um 1580) var bóndi í Sellóni og Seley og er hann kominn af Breiðarfjarðarbændum en ekki eru nánari heimildir um það. Það er athyglisvert að Oddný og Hálfdán tóku við Sellóni, þar sem hún var yngst syskinanna að Sellóni. Hún átti fjóra bræður og þrjár systur, en svo virðist sem mörg þeirra hafi flutt út í Breiðafjarðareyjar og talið hag sínumþar betur borgið. Guðrún Hálfdánardóttir giftist svo út í Melrakkaey honum Tómasi Pálssyni.

22. júní 2005

Stærðfræðiþraut fyrir stærðfræðinga

fann þetta á netinu, uppruni ójós:

Það voru 2 drengir sem vildu kaupa sér krukku af ólivum á 50kr.
En þeir nenntu ekki út í búð svo þeir sendu annan vin sinn eftir þeim.
Hvor um sig gáfu þeir honum 25kr, í allt 50kr.
Þegar vinurinn kom í búðina sá hann að krukkan kostaði einungis 45kr.

Svo hann fékk 5kr til baka.

Hann kom heim lét drengina fá krukkuna og sitt hvorn túkallinn(2kr).

Sjálfur hélt hann síðustu krónunni af afganginum. Allt í allt 5 kr.

Reiknið nú:
25-2=23
25-2=23

23 x 2 eru 46 kr

og ein króna í vasann á vininum=47

50 - 47 = 3 krH

VAÐ VERÐUR UM ÞESSAR 3 KRÓNUR????

21. júní 2005

Órar fimbulfamba

Fimbulfambi lifir daufu lífi, nú sem endranær. Helst að hann reyni að lifa lífi sínu í gegnum aðra sem eru skemmtilegri. Hann fær aldrei boð. Það fá hins vegar aðrir. Fimbulfambi hefur gaman af boðum annara ef hann fréttir af þeim og þá gjarna býr til sína eigin útgáfu af þeim sem hann lifir í kolli sínum og kallar hugsýnir. Í verstu tilfellum fer hann sálförum og reynir að lesa á milli línanna og gera öðrum upp athafnir. Það er því skammt á milli raunveruleika og hugaróra, þar eeru sko engar óravíddir. Þessa óra sendi hann mér til birtingar, semég á auðvitað ekki að gera, en veit að önuglyndi hans Fimbulfamba yrði erfitt að búa við ef óskir hans eru ekki virtar. Enda hef ég alltaf átt erfitt með að setja öðrum mörk og bý þessavegna við endemis markleysu. En svona einhvernvegin var þetta og eru allir hlutaðaeigandi beðnir velvirðingar.

Í boði nokkru baun ein gladdist,
býsna var þar gaman.
Sögu þessa segja vildi,
allra síst þó daman.

Í korseletti kom þar Harri,
klæddur bara að framan
Með sínustakti og dörti dansi,
dável áttu saman.

Og Harri sagði heijú beibí
hávdí skríkti daman.
Kosínussa kunna að dansa,
í korseletti saman.

Er kvölda tók þá kætust leikar,
og karli þótti gaman.
Því sýna vildi súludansinn,
síung dörti daman.

Súludansinn sánú Harri,
í sínusfalli daman,
um rauðanótt með ramakveini
á rassin féllu saman.

Saga þessi er ekki sönn,
en sumir hafa gaman.
Að flytja ljóð um langan veg,
og lygi berja saman.


gúdd næt reykjavík

Í Vinaminni

Mínútur ekki margar gáfust
mér er þungt í sinni.
Næst skal staldra stundu lengur
og í stofu setjast inni.

Í bænum þeim nú búa hjónin
og bráðgerð börn í sinni.
Þó að stutt þá væri stoppið
stöðugt endast kynni.

Kveðja varð þá kæru búa
en kvæðið lengi minni.
Nú mun varla meira kveðið
nú er mál að linni.

20. júní 2005

40 klukkustundur

17. júní. Þjóðhátíð 2005.
Kl. 08.00 Vekjaraklukkan hringir. Örlitlir strengir eftir girðingavinnu gærdagsins. Var austur í Landi með stóru elli. Hestarnir næstum búnir með vatnið. Fékk meira hjá nágranna mínum og dældi með garðslöngunni okkar í fiskikerið. Var tekið vel af hrossunum. Hófur minn alltaf fyrstur á staðinnþegar til mín sést og við þurfum eitthvað að kankast á. Glói með sár á milli augnanna. Greinilega verið að ærslast. Flygill setur upp stert og fnýsar, vill reka hesta félagaminna í burtu. Hér er okkar kall mættur og ég vernda stóðið mitt eru skilaboð hans. Skuldin mín laumast til mín þegar hinir búnir að fá nægju sína af klappi og klóri. Fær sínar strokur og klór undir faxið sem henni finnst svo gott. Svo var girðingavinna í kvöldkyrrðinni. Logn og hlýtt. Keypti 2,5 mm stálgaddavír. Auðvitað plataður af kaupmanninum. Vírinn sem fyrir er er 1 mm og úr járni. Ótrúlegt að þegar leitað í búðir að ekki skuli hægt að treysta kaupmanninum um ráð. Hann mun fá 200 m gaddavírsrúlluna í hausinn eftir helgina. Átti að vera járn skv. kvíttun en fékk stál. Verður notað til að ná mér niðri á honum. Það verða kaup kaups. En nú er góður dagur og þjóðhátíð. Á leið norður í land. Gerði við þessa 2 x 5 m. þar sem vantaði neðsta strenginn. Fór svo að vökva víðiplönturnar sem ég kom með úr garðinum. Græðlingar sem eru að koma til og við plöntuðum út í framhaldsrækt. Gekk að lokum um landið. Jöklar í suðri, Eyjafjalla og svo Tindfjöll blasa við í blámmóðu fjarskans. Í norðri gægist Skjaldbreið í fjallaskarði. Handan Brúarár blasir Skálholtsstaður við. Gekk fram á hreiður með fjórum eggjum. Fuglinn fljótur að bregða sér frá. Sá hann ekki. Dökk egg. Jaðrakan? Eða hrossagaukur. Enda á að reka niður 4 staura sem eiga að mynda aðhald sem hægt er að reka inn í, þegar við förumað smala hestunum öllum.

Kl. 09.30. Lagt af stað. Búinn að tæma bílinn, taka gaddavírsrúlluna verkfæratöskuna, múlana og taumana. Skyldi eftir hestaúlpur og stígvél.

Kl. 14.00. Akureyri. Studentsveisla frænku minnar í Gamla Lundi á Eiðsvallagötu. Glatt á hjalla og áfanga fagnað. Skeggrætt.

kl 16.30. Athuga með innfædda. Hringi heim til manns og konu sem ég þekki, en hef ekki séð í mörg ár. Átt þó í bréfaskriftum við þau um skeið. Húsfrúin svarar. Gestir rétt að detta inn úr dyrunum. Bróðir húsbóndans. Þannig er nú það, ég fer aldrei í heimsókn ef aðrir eru fyrir. Get ekki hitt nema fáa í einu og alveg hættur að reyna að halda uppi samræðum við ókunnuga. Veit ekki hvað skal gera, en frúin segir að það yrði gaman að sjá mig. Það hefur engin sagt lengi. Setti mig alveg út af laginu. Ég yrði að gleðja konuna. Athuga málið. En þá hvað skyldi gera, auðvitað heimsækja Reykvíkinga á Akureyri. Við eigum nefnilega vini sem eiga nú glæsihús á Akureyri, voru að fjárfesta í lítilli sumarhöll þar fyrir sig. Svo auðvitað heimsækir maður Reykvíkingana loksins þegar maður hittir þá á Akureyri. Fengum leiðbeiningar. Næsta hús á móti Davíðshúsi. Hús annars skálds frá Akureyri. Fengum púrtvín og skálað fyrir nýja húsinu og stóra garðinum. Húsráðendur lukkulegir og börn þeirra líka sýndist okkur.

kl 16.10. Rennt upp í götu á Brekkunni, þeirri efri. Athuga hvort gestir farnir og maður geti laumast inn í korter til að gleðja húsfrúna. En mikið bregður mér. Vinur minn og frændi búinn að múra upp í glugga á framhliðinni. Þetta lítur ekki vel út. Vissi að hann var einrænn á köflum eins og hann á kyn til. Eða var það hann vissi ég ætti leið um. Keyri hægt, en svo líður mér betur. Hef farið húsavillt. Enda ekki nema von. Langt síðan ég kom síðast. Næsti garður snyrtilegur og með fallegum vel útfærðum blómasamsetningum og styrku handriði. Sé hann í eldhúsglugganum og hann veifar. Við lítum við. Fæ koss á báðar kinnar og svo aftur þegar ég fer. Hef ekki verið kysstur svo mikið lengi. Jafnvel snertifælnin víkur, svo innilega er manni fagnað á tröppunum. Hann í svuntu með leppa á höndum. Ég vissi þetta, hann lætur aldrei verk úr hendi sleppa. Nú að elda ofan í sig og stórfjölskylduna. Hvort við borðum ekki með þeim. Nei, ómögulega. kem á matmálstíma og get ómögulega þegið það. En mikð er góður matarilmurinn. Fæ að njóta hans í eldhúsinu. Vil ekki í stofu þó það margboðið. Er fastheldinn. Vil bara sitja á sama stól og síðast, í eldhúsinu. Fæ fregnir af fjölskyldu, sem er sýnd. Mannvænlegir piltar tveir og elsta dóttirin sem er ekki lengur heimasæta, en buslaði forðum í lækjum á Unaðsstöðum. En hún mundi það ekki. Það er Íslandsólán að frændi minn skuli ekki eiga fleiri börn. En hann gæti enn tekið það til athugunar. Svo kemur konan, hefur verið að afla birgða fyrir heimilið. Skyldi hún hafa gaman af þvi að sjá mig, eins og hún sagði. 'Eg er ekki viss. Reyni að lesa í spilin. Jú ég held það. Alltaf gott að geta verið öðrum til gamans. Það erlangt síðan ég var það síðast. Svo er öll fjölskyldan komin og tengdabörnin líka. Okkur ekki lengur til setunar boðið, reyndar var okkur það, en löng ferð yfir fjallveg eða á veg í gegnum fjall (og fyrnindi) út í fjörð. Margþökkum fyrir okkur. Áttum frábærar 48 mín með þessum vinum okkar.

kl 20.00 Ólafsfjörður. Í húsi bróður míns. Hann ekki heima. Vissi að við værum að koma og ákvað að fara suður. Fengum þó lykil að húsi. Máttum leita að lykli að vínskápnum og dreypa á viskílögg. Sáum þjóðlegan fróðleik í sjónvarpi.

kl 22.00 Unaðsstaðir. Keyrðum fram eftir. Fórum vestari leiðina, þá gömlu. Brúin gamla sem setti svo svip á bæinn horfin. Framfrá. Gengum um lóðina í kvöldkyrrðinni. Lágskýjað en logn. Maríuerla að vappi. Mýs tekið sér vetrarsetu inni, eins og áður. Bíslagið haldið vatni eftir viðgerðir mína fyrir 2 árum. Girðing fallið í vetur enda snjóþyngsli verið mikil. Greinar brotnað í trjálundinum.

kl. 23.00 Í húsi bróður míns. Þar bíðr uppbúið rúm. Horfi á Útlagann, er nokkurskonar útlagi sjálfur. Hef hitt minn Eyjólf gráa og Börk digra. Er þó með iðrin inni, -enn. Það er til bóta. Á mína stríðsöxi og spjót einhverstaðar grafið og geymt, en ekki gleymt.

kl. 09.30 Svaf vel að vanda á beddanum. Snerti ekki viskíið þó lykill væri auðfundinn. Fann sitt lítið af hverju í búrinu hjá mágkonu minni.

kl. 10.30 Unaðsstaðir og Sólskinsbær. Girðingarvinna. Strengdi girðingu. Vantar tvo staura. Grisjun í trjálundinum. Kveikti upp í Solokabissunni.

kl. 12.30 Ketillás. Fljótin alltaf jafn falleg, þungbúið veður en milt. Stífluvatn óvenju vatnslítið.

kl 12.45 Næ sambandi við Ásgeirsbrekku, engir farsímar virka á Lágheiði og í Fljótum. Boða komu okkar að skoða tryppið okkar Hálfmána.

12.50 Hofsós. Vesturfarasetur í kvosinni. Dásamlegur staður. Borðum þar á huggulegu veitingahúsi. Guðisélof fyrir að til eru staðir sem hafa annað að bjóða en hamborgara. Þar hægt að fá steikta bleikju, steiktan þorsk í hofssósu auðvitað, bollur í brúnni sósu og svo tvo rétti af lambi. Valdi síldardisk.

kl 14.00 Ásgeirsbrekka. Bóndi að rýja kindur sínar. Frúin tók vel á móti okkur með kaffi og meðþví. Ræddum lengi um gæði hrossastofns þeirra. Eigum nú þegar þrjú úr þeirra ræktun. Hóf og Glóa og svo vonarpeningur okkar. Hann Hálfmáni 3ja vetra sem kemur suður í haust í tamningu. Gerum upp vetrarbeitina og svo labbar bóndi með okkur upp í fjall að skoða gripinn. Sjá hvernig hann hefur komið undan vetri. Hann er ánægður með hann. Hefur vaxið vel. Klofin yfir þýfða beitarhaga i gegnum girðingu með folöldum. Alltaf gaman að sjá ungviðið hoppa og skoppa á eftir mæðrum sínum. Ofar í fjallinu, upp undir þokunni sem er í miðjum hlíðum finnum við tryppastóðið. Þar er hann Máni okkar. Hefur stækkað mikið frá sl. hausti en ósköp renglulegur, eins og 14 ára unglingur. Glófextur svo af ber. Með stjörnu sína, eða réttara tungl sitt, í enni sem er að mestu hulin faxi nú, enda orðin mjög prúður. Fáum ekki að koma of nálægt. Hann þó nokkuð forvitinn. Dáumst að þessu, og spáum í gæði og hvort hann muni líkjast hálfbróður sínum honum Hófi eða frænda sínum Glóa í reiðlagi. Svo fær hann aðfara á fjöll og heiðar á næstunni. Verður svo sóttur í Laufskálarétt í haust. Kannski við drögum hann sjálf?

kl 16.30 Tímabært að kveðja húsbændur, en kíkjum í leiðinni á nokkur hross í neðri girðingu við veginn. Þar er gæðingsefni, hann Greifi, móálóttur. Ætlum að spá i hann í haust þegar tamningu lokið. Er ósköp spakur og mannelskur. Seldi sig næstu sjálfur þó viðkynning stutt. Hann er sonur Galsa Ófeigssonar frá Flugumýri og ber lit afa síns.

kl 18.00 Blönduós. Hitti þar systur á förnum vegi. Bíð með á Vatnsnes.

kl 19.00 Biðröð við Hamarsrétt. Bjartar nætur og torkennileg fæða. Blóðpönnukökur í boði, ábrystir úr kindum og kúm, fjallagrasamjólk og heimagert skyr. Taðreykt sauðahangikjöt og svo torkennilegur bruðningur og tros. Af sel má fá nýtt kjöt, spik ferstk og saltað, súrsaða selshreyfa. Steikta hrefnu, grafin hval. Reyktar endur. Grásleppuhrognabollur. Skötukæfu. Rúgbrauð með hákarli. Fjallagrasakex. Svartfugls og andaregg. Sýrð egg. Sigin grásleppa, reyktur rauðmagi og margt fleira. Með þessu var drukkinn hambri.

kl 24.00 Systur skilað í Kópavoginn og haldið heim í rúmið.

16. júní 2005

Heimsókn 1000

Þá kom að því, þúsundasta heimsóknin á bloggsíðuna, kannski best þýðing bullsíðuna.

Þú komst úr simneti.is. IP talan þín er 85.220.39.# og notar MacIntosh tölvu. Það er 16. júni og klukkan var 15:38:34. Þér veitast þau vafasömu verðlaun að yrkja bloggsíðubrag sem við munum birta á næstunni, og auka mun orðstýr þinn. Bragarháttur að eigin vali eða frjáls spuni. Að því loknu verður þú formlega tekin(n) inn í Societas Invisibilis þann merka félagsskap.

Til hamingju með von um að þú takir áskoruninni.

Drangavíkurætt

Það getur verið gaman að grúska í ættfræði, þegar aldurinn fer að færast yfir. Þá leitar maður upprunans, sem oft hefur of lengi legið í þagnargildi. Þannig er móðurættin mín af norðanverðum Ströndum. En svo vaknar alltaf sú spurning hvað telst til sömu fjölskyldu og ættar. Við erum svo misættrækin. Lengi vissi ég lítið um mína áa í móðurætt. Hafði einhvern vegin meiriupplýsingar um föðurfólkið mitt sem bjó sunnar á Ströndum. En nú skal reynt að bæta úr því. Fyrir nokkrum árum fór ég með frænda mínum um norðanverðar Strandi, við dvöldum í Norðurfirði fórum svo að Dröngum og Drangavík. Þá lærði ég margt um fjölskylduna og vaknaði áhugi á að reyna að átta mig á högum þessa fólks. Nýlega rifjaði ég upp ættartréið og ég held að ég sé að byrja að fá mynd af því.


Ég ætla að byrja þessa upprifjun á í Furufirði um á fyrrihluta 18. öld.

Þar bjó Alexíus Grímsson (hann er af ætt Alexíusar Magnússonar, sem bjó að Gröf í Þorskafirði og hyllti konung í Svefneyjum 1649). Alexíus Grímsson bjó að Dröngum. Honum er lýst sem svo: "Talinn skikkanlegur og vinnusamur, en daufur í skilningi og þó sæmilega kunnandi. Varð úti milli bæja". Hann var giftur Guðrúnu Sigurðardóttir og áttu þau fjögur börn.

Yngstur sona þeirra var Sigurður Alexíusson f. 1781 í Furufirði. Fyrir áttu þau hjón Jon (1744-1807), Katrínu (1776-1796) og Grím (1779-1841).

Sigurður var bóndi að Dröngum. "Allra manna fimastur við seladráp". Sigurður var tvíkvæntur og með fyrri konu sinni Guðríði Björnsdóttur (1786-1834) eignast hann langa-langafa minn Jóhannes "yngri" Sigurðsson (1825-1870). Guðríður var fædd í Súgandafirði. Þau eignast þrjú börn, elstur var Jóhannes, svo Guðrún og loks Jóhannes yngri.

Jóhannes Sigurðarsson yngri bjó að Dröngum, í Furufirði og í Drangavík. Hann giftist Guðfinnu Einarsdóttur, hún ólst upp hjá foreldrum sínum í Bolungarvík á Ströndum. Þau eignuðust sjö börn, þar á meðal Friðrik langafaminn og Hallvarð bróður hans sem lengi bjó í Skjaldarbjarnarvík, þar sem amma mín Sigríður ólst upp hjá föðurbróður sínum. Hann fluttist síðar að Búðum í Hlöðuvík á Hornströndum. Hin systkinin hétu Einar og Guðríður sem létust á fyrsta ári, Guðrún, Guðný og Sigríður. Mér þykir líklegt að Sigríður amma mín hafi gefið móður minni nafn Guðnýjar föður systur sinnar, þó ekki viti ég það með vissu. Vil þó setja fram þá tilgátu hér.

Friðrik Jóhannesson (1840 - 1905), var skv. heimildum komið í fóstur í Bolungarvík, þá sennilega hjá móður fólki sínu Einar afa sínum og Jóhönnu. Hann giftist Guðbjörgu Björnsdóttur, dóttur hreppstjórans. Þau búa í Drangavík, oft við harðan kost. Þar eignast þau 9 börn, en mörg þeirra deyja í æsku á þeim tíma sem mislingafaraldur gengur yfir landið á árunum1870-1885). Af börnum þeirra eiga aðeins þrjú afkomendur sem eru á lífi í dag.

Fyrstu tvö börn þeirra Friðriks og Guðbjörgu, Sigrún og Jóhannes deyja á fyrsta ári. Árið 1875 fæðist Jóhannes. Hann er í minni heimild sagður sjómaður í Drangavík. Hann eignast einn son Guðbjörn sem deyr á fyrsta mánuði 1897.

Næst í röðinni var amma mín Sigríður Guðrún Friðriksdóttir (1879-1976). Hún og Bergsveinn afi eignuðust 15 börn og af þeim er stór ættbogi. Eins og áður sagði ólst hún upp hjá föðurbróður sínum Hallvarði í Skjaldarbjarnarvík. Hún bjó lengst af í Aratungu í Staðardal í Steingrímsfirði.

Næstu börn Friðriks og Guðbjargar í röðinni voru Guðfinna, hvers afdrif ég veit ekki um, en hún er skráð á lífi 1901, og svo Björn sem fæddist 1880 og dó tveggja ára.

Einar Jóhann Friðriksson (1885 - 1972). Hann var síðast búsettur í Kópavogi. Sonur hans var Guðmundur Steinn Einarsson (1917 - 1985). Skv. heimildum var hann skráður sem tökubarn á Hamri, Nauteyrarsókn, N-Ís. 1930. Síðast bús. í Kópavogi. Hans synir tveir eru Jón Ármann Steinsson 1955 og Halldór Jóhann Guðmundsson 1956.

Næstur í röð ömmusystkina minna var Pétur Friðriksson (1887-1979), hann var bóndi í Hraundal í Nauteyrarhr., N.-Ís., í Skjaldbjarnarvík og Reykjarfirði í Árneshr., Strand., síðar á Hellissandi og í Reykjavík. Bóndi í Skjaldbjarnarvík, Árnesssókn, Strand. 1930. Hann og afkomendur hans hafa verið duglegir við skrásetningar frá heimahögunum og má lesa um það í Strandpóstinum. Pétur á marga afkomendur. Hann og kona hans Sigríður Elín Jónsdóttir (Sigríður strandasól) eignuðust 6 börn. Fimm drengi og eina dóttur. Eru þetta systkinabörn móður minnar.

Elstur barna Péturs var Guðmundur (1917-1960) og hans dætur Sigrún 1947-2003, síðast prófessor í Noregi og Elsa f. 1956.

Næst kom Guðbjörg Pétursdóttir (f 1920), hennar dætur eru Sigríður (1945), Ásdís (1948), Guðrún Anna (1949) og Helga (1952).

Jóhannes Pétur (1922 - 2000). Kennari, síðast bús. í Reykjavík. Hans börn eru Haukur f. 1948, jarðfræðingur og fv. forseti Ferðafélags Íslands, Björn Hákon 1951, Pétur 1953, Hrönn 1958, Guðmundur Bjarki 1967 og Hilmir Bjarki 1967.

Friðrik Pétursson (1924). Hans börn eru Rósa (1957), Ágústa Frímansdóttir (1958-2003) og Ríkarður Helgi (1960).

Matthías Péturson (1926). Hans börn eru Þórólfur Geir Matthíasson, prófessor (1953) , Sigríður (1954), Guðmundur Pétur, fréttamaður (1960), Hörður (1962).

Jón Pétursson (1929-1997), bifvélavirki, vatnsveitustjóri og slökkviliðsstjóri í Búðardal. Hans börn eru Elín Sigurbjörg (1950), Sigtryggur Ómar (1952) Bryndís Rósa (1957), Guðmundur Heimir (1960 - 1981), Sigrún Ásta (1962).


Eins og sést þá er þetta stór ættbogi sem komin er frá hjónunum í Drangavík, þó ekki séu hér talin upp systkin móður minnar og afkomenda þeirra. Það efni í annan kafla og verður gert skil síðar. Því finnst mér rétt að ætt þessi sé kennd við Drangavík á Ströndum og kallist Drangavíkurætt. Einnig væri áhugavert að rekja ætt Jóhannesar yngri en hann bjó að Dröngum og Furufirði en einnig um tíma í Drangavík, ætt föður hans Sigurðar selaskyttu á Dröngum.

Athyglisverðar heimasíður:
Strandamenn síða tileinkuð ættum Strandamanna.
Vestfirska ættfræðisíðan

15. júní 2005

Í laufskörðum

Á löngum kvöldum líður seint úr huga,
þá leikur golan blítt við hvarm og vanga,
gangan upp á bratta stígnum langa
í gegnum skörð sem marga vilja buga.

Í grýttum urðum grafist beygur strangi,
og geig í hjarta hleypa má af hleinum.
Í laufsins krónum liggur fugl í leynum,
og lagið syngur handa ferðalangi.

Á linditrjánum laufin grænu fléttast,
sem leysa höfn í vorsins hlýja skapi,
og kveðja vetur krækilyng og drapi,
þá komstu hugur aftur hingað léttast.

Upprás sólar alltaf gleður tinda,
á eggjum hörfar þokuslæða nætur,
í morgunroða meitlast æska barna

Laufskörð brött í lendum hugarmynda,
sem lindin tær er speglar þínar rætur,
er lífshlaup þitt leynt í innsta kjarna.

14. júní 2005

sent konu fyrir norðan

Í blómanna beðið hann augum gaut
og blómknöppum fögrum svo niður skaut
við þetta þagði
að lokum svo sagði
ferlega er þetta fagurt skraut

sent dömu sem svarar fyrir sig

Sent:
Með gæðablóðið gengur hér
og gefur ekki neinum.
Í dulargervi dömu er,
dirty harry í leynum.

Svar:
Í mér býr heitasta hörkutól
með háðslegt skítaglott
þetta´ er hið argasta andstyggðarfól
sem ætti að hunskast á brott.

svona svör gleðja okkur gasprarana, sem fátt nýtilegt gerum og stundum þá leiðinda iðju að ráðast á friðhelg blogg og truflum kyrrlátt heimilislíf.

súru berin

Dómgreindina vantar hann Dóra
sem dæmalaust reynir að klóra
sig málunum úr
með berin sín súr
enn í því er alls engin glóra

13. júní 2005

Sumarskuggi

Það hafði verið sól í viku
en svo sagðir þú,
sól ég er komin í frí
og eftir stóð ég og fann
skuggann langa.
Ég stóð í skugga,
sólin var allt um kring.

Þú hljópst út í sólskinið
og hrópaðir ég er frjáls.
Ég sat í skugganum
og naut sumargolunar
leika við andlit mitt
og hárið bærðist og
flugur kitluðu hálsinn minn.

Ef skugginn gæti breyst
í mánaskin og í húminu
sætum við tvö,
þúværir vindurinn
sem gáraðir hárið mitt
og varir þínar flugur
sem kitluðu hálsinn minn.

Ég sit og bíð eftir sólskini,
að hausta taki og kvöldin
lengi með fullu tungli.
Þá kemur þú aftur
og skóhljóð þitt svo létt
berst að dyrum mínum
og þú segir ég komin,
ég er komin úr fríi.

Bankamál

Hann Halldór var vanur að hæfa
og vanhæfur vill hann mál þæfa
og gefur sér banka
án frekari þanka
sem er gersamleg gífurleg óhæfa.

Hún Valgerður vandar ei valið,
á vís hefur hún lengi sig alið,
hún er kominn á kreik
og bregður á leik
því í s-hóp hefur Halldór sig falið.

Hólmgeir besta skinn


Í dag fer Hólmgeir í saumatöku, tveim vikum eftir að hann hljóp í gegnum rúðu. Hann virðst vel gróinn sára sinna og þarf ekki frerki meðhöndlunar á húðinni, enda hið besta skinn. Kannski hann nái að keppa á bikar í lok mánaðarins eftir allt.

Ljósaklif

"Það stendur skáld á tröppunum", kallar barnið sem hafði farið til dyra. Bjallan hafði vakið alla í átjánda húsi við Hafrahvamma, þar sem ljósuklifsálfarnir áttu nú heima. Utan barst þungur niður úr gljúfrinu á milli blokkanna þar sem álreiðir þustu áfram eins og jökulsá í vatnavöxtum eftir sólbráð dagsins. Kárahnjúkur breiðholtsins gnæfði yfir sjónarrönd eins og fell sem íbúa aðrir en þú. "Afsakið ég hef farið húsavillt, en leigið þér út herbergi".

10. júní 2005

Ættfræði

Ærir á ekki miklar ættir að rekja til austfjarða, en fann þó þennan forföður sinn í 10. lið:

Ólafur "Mehe" Eiríksson
Fæddur 1667
Látinn 1748
Prestur á Hjaltastöðum, Vallnahreppi, Múl. 1703. Prestur í Saurbæjarþingum, Dal. 1722-43. "Mikilhæfur í ýmsu og vinsæll, en hégómlegur í sumum háttum", segir í Dalamönnum. Ritaði mehe aftan við nafn sitt í umsókn til konungs sem þýddi með eigin hendi. Dönsk stjórnvöld töldu það vera ættarnafn hans og nefndu hann svo í konungsbréfi.
Heimildir: 1703, Esp.5403, Tröllat., Æ.A-Hún.125.2, Austf.6848, Dalamenn

9. júní 2005

galaxí gvendur

Veit ekki hvernig þetta kom til í haus mínum, en fæddist bara alltí einu:

Hann galaxí gvendur á hraunum,
var gamall og reyndur í raunum,
en gudda hans smáa
gekk undir fáa
svo gvendur fékk lítið að launum.

Hún gudda hans gvendar á hrauni,
gaf kallinum súpu og baunir
svo fylltist af gasi
af því ferlega brasi
og viðrekur nú allar þær raunir.

En viðrekstur varla var búinn
er vesalings kallinn varð lúinn
og gasið það skaut
gvendi á braut
um stjörnur og tungl sagði frúin.

Í geimnum nú svífur hann gvendur
um galaxíið liggja hans lendur
svo laus er hann við
allt það leiðindalið
kellinguna og aðra hans fjendur.

vetrarbrautar vigga

Í vetrarbrautina mætti hún vigga
var vinaleg við kallinn að digga
en stjörnunar skot
skaut kalli í rot
svo ekki á það fyrir henni, - að liggja.

8. júní 2005

Handa betu á bauninni

Aðalsmærin alltaf um það dreymir,
og innst í hjartalagi sínu leynir,
að hörkutól og haglabyssur geymir,
og hörðum skotum í allar áttir beinir.

Með úfið hár og yggldar brúnir tvennar,
ógurleg með vískí sjúss í staupi,
vindla digra vinkonurnar hennar
á verönd rugga stól í þessu skaupi.

En innst í sálu ógnarsmá er baunin,
og allar vættir biðja vil um grið.
Því blóðgjöf nýleg betu reyndist raunin,
og bernskubrekin reyndust yfirlið.

Digurbarkaleg ferðasaga

4. júní 2005. Löngufjörur.

Um síðustu helgi fór ég í ferð á Löngufjörur. Í blíðu veðri voru hestir settir á bíl á föstudagseftirmiðdegi og ferjaðir að Snorrastöðum við Eldborg á Mýrum. Við komum á eftir og í kvöldkyrrðinni tjölduðum við á flötunum hjá hestagirðingunni. Aðrir, nema Jón Skalli sem einnig kom með tjaldið sitt, bjuggu inni í svefnpokaplássi. Ég á enn eftir að venjast þeirri tilhugsun að liggja í flatsæng hlusta á hrotur í öðrum. Finnst nóg um með mínar eigin. Með súpunni fengum lýsingar á leiðinni yfir fjörurnar að Skógarnesi. Strax voru uppi flokkadrættir. Meirihluti hinna 38 ferðafélaga okkar vildi teyma hesta sína yfir, en allir voru með tvo til reiðar. Við vorum aðeins sex þegar á reyndi sem ætluðum að reka hestana lausa með okkur, enda vön því á fjörunum. Í hópinn bætust þó nokkrir þegar þau sáu hversu einörð við vorum í afstöðu okkar. Hinar heigulsbrækurnar voru hræddir um að týna hestum sínum eða missa frá sér. En hvað er hestaferð á áhættu og ævintýra. En innst inni réð þó mestu að ég er óttalegur klaufi við að teyma hesta, enda vilja mínir hestar vera sjálfstæðir og eigin herrar og ekki múlbundnir við annað hross. En síðar eiga þeir kannski eftir að læra það og ég líka.

Farið var yfir fljóðatöflur og ráð fengin hjá öldnum bónda, Hauki á Snorrastöðum um fjöru og vöð á helstu tálmum leiðarinnar sem eru Saltnesáll og Haffjarðará úti á firði. Hann taldi lítið vatn verða á leið okkar. Lengi hefði verið þurrt og stórstraumur. Mikið hafði hann rangt fyrir sér átti eftir að koma á daginn. Fjara var um hádegi á laugardegi. Eftir ágæta kvöldvöku með gítarspili, söng og glens var gengið til náða í kvöldblíðunni. Hvort það var spenna fyrir morgundeginum eða sírennslið í læknum við hlið tjaldsins og ástarsöngvar fuglanna, jarm nýfæddu lambana sem hélt fyrir mér vöku er ekki gott að segja. Sofnaði svo vært og rumskaði ekki fyrr en langt var liðið á morgun. Sól komin hátt á loft og vindgola. Hestar komnir úr haga og í gerði. Setti í mig linsurnar og smeygði mér í leðurskálmarnar og var nú tilbúinn. Þurfti þó að leggja á klárana. Hafði með auka tauma, beisli og teymingaról ef á þyrfti að halda og Þorbjörg yrði að teyma okkur í land. Það voru óþarfa áhyggjur.

Farastjóri vor, ritstjórinn, skipaði mönnum í fylkingar. Fyrst færi hluti teymingafólksins síðan við með reksturinn og loks restin af teymingarliðinu. Þau sæju um að reka lausu hrossin úr gerðinu fyrir okkur. En aldrei skyldi treyst á teymingarmenn. Þegar við töldum að öll lausu hrossin væru komin yfir bæjarlækinn (Kaldána), þá lögðum við af stað og hottað á þau sem vildu ekki fara lengra og töldu grænar grundir vænlegar til langdvalar á. En viti menn eitt hross var eftir í gerðinu og ekki létu samferðamenn okkur af því vita. Það uppgötvaðist þó þegar riðnir voru 2-3 km út á fjörurnar. Þá saknaði fararstjórinn lausa hestsins sín í stóðinu. Stundu þá ræflarnir í teymingarhópnum upp að þau hefðu skilið einn hest eftir sem hafði hlaupið með þeim úr gerðinu, neðarlega á á bökkunum áður en á fjörurnar var riðið. Ekki varð okkur skemmt og minna þegar reynt var að fá hópin til að fara af baki og slá hring um lausu hrossin á meðan við riðum heim, ég, frú mín og fararstjórinn að sækja hestinn eina. Riðum við þrjú af stað og svo bættist Jón skalli við. Fara varð alla leið að Snorrastöðum á ný og tók okkur 45 mín að ná til hópsins aftur sem sat og beið á fjörunum. En það getur verið dýrkeyptur tími sem tapast þegar sæta þarf sjávarföllum. Það áttu þau eftir að reyna, eins og Kolbeinn ungi þegar hann reyndi að elta Þórð frænda minn kakala.

'Eg skipti strax um hest áður en haldið var lengra. Stefnan tekin á hafsauga og að Saltnestánni. Ferðin gekk vel. Sólin skein og smám saman fór að birta til og gremjan út í löðurmennin að minnka. Saltnesáll var engin fyrirstaða í þetta sinn. Náði rétt upp að kvið (hestsins). Við vorum ekki kominn langt þegar örn sveimaði yfir höfðum okkar og á skeri einu sáum við Össu sitja við hreiður. Þar riðum við nálægt en þó auðvitað í löglegri fjarlægð. Hún lét sér fátt um finnast en hafði vakandi (og gnýstandi) auga á okkur. Þetta var tignarleg sjón.

Áfram hélt reksturinn. Áð var á nesi einu og hestar hvíldir, en brátt haldið af stað að Stóra Hrauni, þar sem Árni Þórarinsson bjó um tíma. En landið er fagurt af fjörunum. Eldborg blasir við í austri og framundan eru Rauðamelsfjall, Hafursfell og Ljósufjöll og svo sjálfur Snæfellsjökull í allri sinni reisn. Hlý gola lék um kinn og hestar léttir á fæti. Við vorum ekki lengi heim að Stóra Hrauni. Þar var áð og nesti borðað. Hestar fengu að grípa niður, en lítill var haginn. Ekki mátti dvelja lengi því ná varð vaði á Haffjarðará (Bænhúsavaði?). Nú var riðið geyst af stað og allir búnir að skipta um hesta. Fyrstu álarnir voru litlir en þegar kom út á fjörðinn og að megin árfarveginum var farið að flæða inn. Ég var í eftir reiðinni og stutt í teymingarfólkið, sumir þeirra nánast með mér í för. Þegar kom að ánni var forreiðin komin út í og stóðið mest allt með. Allir á hrokasundi. Þessu hafði ég kviðið lengi að lenda í sundi á fjörunum. En sólin skein, gola hlý og stutt yfir. Ekki yrði grynnra ef beðið yrði. Svo við rákum restina af lausu hrossunum út í óg án umhugsunar fór ég á eftir, bíðandi þess sem verða vildi. Heyrði í grátkerlingum í teymingarhópnum að baki mér. Varla var ég komin nema 5 m út í þegar hesturinn fór að fljóta, en ekki sökkva eins og sumir hestar gera á sundi. Svo synti blessaður klárinn með mig yfir. Ég sat eins og á kajak og naut ferðarinnar. Það er gott að vera ekki á djúpsyntum hesti við þessar aðstæður. Heldur var ég roggin þegar upp á bakkann hinum megin var komið. Nú gat ég látið digurbarkalega og hef gert það síðan. Enda kvíðahnúturinn sem mig ætlaði lifandi að drepa dagana fyrir ferðina horfinn. Svo fann ég ekki fyrir kulda þó blautur væri upp á kvið. Hófur minn var pollrólegur. Hann er gæðingur.

Á bakkanum hinum megin heyrðist grátur mikill og kveinstafir. Nú hafði heldur betur lækkað í þeim rostinn, teymingarfólkinu. Helst voru þau á því að snúa við aftur heim til lands. En fararstjórinn okkar, hvers hest þau höfðu ákveðið að skilja eftir til að kenna honum og okkur lexíu dó ekki úrræðalaus og reið á ný til þeirra og sundreið Haffjarðará þrívegis í lotu til að finna leið fyrir þau yfir. Að lokum var riðið upp að landi og Haffjarðará riðin við land þar sem grunnt var. Allir komust því heilir á höldnu í Skógarnes. En á síðasta kaflanum að nesinu var allt komið á flot, en vatnið ilvolgt og ekki djúpt. Það var ánægður hópur að kveldi sem gekk til matarveislu heima að Snorrastöðum og tilhlökkun mikil fyrir því að ríða til baka næsta dag.

5. júní 2005. Löngufjörur.

Vöknuðum kl 7 í morgun. Morgunmatur, linsur og úti beið rúta sem skyldi ferja okkur í Skógarnes. Keyrðum fram hjá Eldborg í sól og heiðskýru veðri. Kolbeinsstaðir sá merki kirkjustaður á hægri hönd, heldur í niðurníðslu. Í Skógarnesi náðum við í hesta í hólfið og lögðum á. Riðið var síðan niður í átt að Hausthúsum, eina 3 km eftir veginum og þar beðið eftir að fjaraði út. Ekki skyldum við verða of sein í dag. Kl 10 ræsti fararstjórinn mannskapinn af stað. Fjörurnar biðu, glampandi í sól. Sjópollar á stöku stað. Haffjarðarey(jar) og Prestsker við sjónarrönd í suðri, en við riðum geyst eftir söndum í austurátt. Heldur nær landi en í gær, enda ákveðið að fara á grunnu vaði. Gekk ferðin vel. Kannski of vel, því þegar komið var yfir fjöruna, heim að StóraHrauni var ekki almennilega fallið út og við urðum að ríða 3-400 m í kafvatni uppað hnakki en ekki fórum við á sund. Á ný var áð, nánast á hlaðinu, og skipt um hesta. Nú tók Finnur vinur minn við fararstjórn, eftir sérlega þjálfun og tiltal yfirfararstjórans. Hann skildi koma okkur yfir Saltnesálinn. Við fórum að undan með reksturinn og vorum að mestu sex sem sáum um hann og hestarnir lausu voru mest 18. Það gekk vel. Komust áfallalaust að Saltnesáli með einni áningu. Þar splundraðis hrosshópurinn enda sáu hrossin engan tilgang í að leita að grunnu vaði þegar hægt var að komast yfir nánast hvar sem var. Upphófst nú mikil eltingarleikur handan álsins að ná stóðinu saman. Ég var seinn að álnum enda orðin værukær í hitanum og áfallalausum rekstri. En nú var slegið í, en þá sá ég hestana mína lausu, þá Hóf og Glóa koma í humpátt á eftir mér. Ég sneri því við og kallaði til þeirra. Þeir létu sér það að hvatningu verða og komu hlaupandi báðir og einn hestur með sem hafði slegist í för með þeim. Saman fórum við svo yfir álinn og náðum loks stóðinu sem nú var allt að sameinast á ný, enda dugnaðarfólk Finnur og frú mín þar í fararbroddi. Áttum við, ég og hestarnir mínir ágæta samreið á Saltnesaurunum.

Stutt er nú í land við Snorrastaðabásana. Þar fengu klárarnir að bíta niður og blása mæðinni. Mínir kallar voru aldrei langt undan síðustu 2 km heim að bæ og stoppuðum við hjá Kaldánni og þar gaf ég mér góðan tíma til að leyfa þeim að drekka enda þyrstir eftir ævintýri dagsins í sól og sumaryl. Þaðan var svo haldið heim í bílum og nú bíða hestarnir okkar þess í óþreyju að komast út í haga.

Handa Hali

Handa Hali, örvæntingarfullu náttúrubarni, með sjónpípu magnaða og myndavél á köldu vori norðanlands

Hrafnsönd á hreiðri lá í fjarska
hani óðins synti á vatni lygnu.
Fögru sundi flórgoðans ei má raska
og fagra sjáum bleika synda hryggnu.

Vorlykt góða vantar enn í sveitum
varla sést í græna tuggu á hólum.
Veiðistaðir vakna brátt ef leitum,
vorsins græna nálægt næstu jólum.

Úr eggjum skríða ungar brátt í kulda,
sem alltaf skulu vorsins komu fagna.
Ef skýjin hverfa skín þá sólin hulda,
með skemmtun, þá er vetrarbyljir þagna.

Vaknar þrá er vetur kveður langur,
í veiði fara, við árnar stríðu dvelja.
Á línu grípur lagarbúa slangur,
og lengi verður fiska þá að telja.

7. júní 2005

Af kaffistofunni

Heyrt fyrir utan búningsklefann á Reykjalundi. Saga af kaffistofunni.
Maður með handklæði um sig miðjan birtist fyrir utan búningsklefann, hvessir augum á mann sem er að klæða sig i skó. Hvaða buxum ertu í? Nú mínum! Nei mínum! Ha, þá er ég í nærbuxunum þínum líka.

Löngufjörur

Er dagur rennur döggin sólu kyssir
og dagbjört bíður sjónarrönd í hafi.
Á fjörum löngum fæðast sker úr kafi
og fyrirheit sem aðeins ein þú vissir.

Þar aldan gárar eilíf létt við fætur,
og öðuskel á fjörugrjótið leikur.
Þú aldrei aftur orðið getur smeykur,
ef undralagið heyrir baki nætur.

Nú daggarbjartur drösull svífur heiður,
í dýrlegri reið engin orðin mælir,
er jórinn ber þig jökli nær og glaður.

Í eyjum fjarskans ernir búa hreiður,
og urta ein við fjöruborðið gælir,
þá hugsýn geymdu í hjarta þínu maður.

3. júní 2005


Ve�urtunglamynd 3. j�n� 2005.

2. júní 2005

Hjortur Reynisson guanya la medalla d'or dels 100 metres papallona masculins de natació


Smáþjóðaleikarnir
01 JUN 2005 21:49L'islandès ha fet una marca de 55"89El nedador islandès Hjortur REYNISSON ha guanyat la medalla d'or dels 100 metres papallona masculins de natació, gràcies a la seva marca de 55"89 en la final disputada a la piscina dels Serradells.

Gull hjá Hirti Má í sinni fyrstu grein 100 m. flugsundi (f. þá sem ekki skilja það sem að ofan stentdur).

Sáluhjálp

Lítið að gera og ligg á fleti,
læðist um á interneti.
Varla lengur að vilji og geti,
vesæll nema bíða í leti.

Ef að einhver áttu ráð,
andans bæta máttu dáð.
Litlu korni líka sáð,
léttir huga nú í bráð.

Sólin vermir kalda kinn,
kemst þó varla í sálu inn.
Hrjúft er þetta heljar skinn,
hylur vanda enn um sinn.

Upp, upp minn andi rís,
ásjónuna bjarta lýs.
Eldur sá er í æðum gýs,
aftur nú til alls er vís.

Slysin gera ekki boð á undan sér

Hólmgeir minn hljóp í gegnum rúðu (á íþróttaæfingu) og skarst illa á handlegg og fingri. Saumaður saman í gær, en þarf etv húðflutninga eða ágræðslu og aðgerðir á næstunni. Kemur í ljós á næstu dögum, hvort saumaskapurinn í gær heldur eða dugir til að græða hann að nýju, en það þykir tvísýnt. Þó þótti rétt að láta reyna á það áður en farið væri í frekari aðgerðir. Mun víst eiga í þessu næstu vikurnar. Það er því ljóst að keppnistímabili hans er lokið í bili, en hann hafði verið skráður til keppni á sundmóti Esso á Akranesi um helgina og á bikarmót SSÍ í júni.

Óvænt lagði á líf mitt skugga
sem langur var.
Þegar Hólmgeir hljóp á glugga
og hendina skar.

1. júní 2005

Hott, hott, hott

Nú er úti veður gott,
varla helst ég inni.
Hestinum hott, hott, hott,
heldur frekar sinni.