7. júní 2005

Löngufjörur

Er dagur rennur döggin sólu kyssir
og dagbjört bíður sjónarrönd í hafi.
Á fjörum löngum fæðast sker úr kafi
og fyrirheit sem aðeins ein þú vissir.

Þar aldan gárar eilíf létt við fætur,
og öðuskel á fjörugrjótið leikur.
Þú aldrei aftur orðið getur smeykur,
ef undralagið heyrir baki nætur.

Nú daggarbjartur drösull svífur heiður,
í dýrlegri reið engin orðin mælir,
er jórinn ber þig jökli nær og glaður.

Í eyjum fjarskans ernir búa hreiður,
og urta ein við fjöruborðið gælir,
þá hugsýn geymdu í hjarta þínu maður.

2 ummæli:

Elísabet sagði...

þú ert greinilega rómantíker inni við beinið. vona að yngri sonur þinn hafi jafnað sig eftir slysið, b.kv. í vinnuna

Nafnlaus sagði...

Fékk þetta sent:

Sonnettu hann setti á blað,
samda á Löngufjörum.
Trúlega hefur´ann tekið bað
og tætt sig úr öllum spjörum.

Kkv.

MÓla