30. ágúst 2006

Jákvæðni

Sótti drengina mína á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Þeir lentu um miðnætti kátir og hressir. Orðnir franskir í fasi. Hádegisverður aldrei undir 2 klst, lágmark. Allt silvúble mussju.

Las þessa lesningu í jákvæðni á mæspeis hjá öðrum þeirra:

Rigningin minnir mig a eina af morgum sundferdum minum i rigningu. Eg sat i pottinum og hlyddi a samtal folks, sem er gott ahugamal. Nokkrar gelgjur spurdu hverja adra um uppahalds arstidir. Eitt svar fangadi athygli mina (ath. tetta er ekki tekid ur One Tree Hill eda The OC).

Gelgja#1: Eg elska allt vedur.

Gelgja#2: Nu?

Gelgja#1: Ef tad er sol, ta er svo gaman. Snjor minnir mig svo a jolin og tad er svo romantisk ad kyssast i rigningunni.

Gelgja#3: En myrkrid a veturna?

Gelgja#1: Ta er romo yfir kertaljosi og a sumrin er svo gaman ad gleyma ser a kvoldin. Tad er dagur alla nott, segir hun mjog anaegd med sig.

Hinar voru kjaftsopp, en eg beit i tungu mina.

Hjortur Mar: En hvad med slabb og tolf vindstig a sama tima?

Gelgja#1: Ae, tad er svo gaman ad fjuka.


Kannski ég reyni að læra af þessu.

29. ágúst 2006

Smjörbítillinn hennar Fóu feykirófu

Rakst á eftirfarandi spurningu á vísindavefnum:

Á Hólssandi ekki langt frá Dettifossi er merkt á landakort örnefnið ‘Smjörbítill’. Hvað er smjörbítill og hvað merkir orðið ‘bítill’?
Smjörbítill er lítt þekkt orð í íslensku. Í Íslenskum þjóðsögum Jóns Árnasonar er í sögunni af Fóu feykirófu sagt frá syni kerlingar einnar. Hann var jafnan í búri hjá móður sinni og „át það af matnum er hann vildi helzt; því var hann Smjörbítill kallaður“(V:168). Þarna mætti hugsa sér að smjörbítill merkti: ‘sá sem bítur smjör, það er neytir þess sem best er’. Smjör var eitt sinn eftirsótt munaðarvara og því var nærtækt að líkja einhverjum góðum kosti við smjör. Á landnámsöld var gæðum landsins lýst þannig að „þar drypi smjör af hverju strái“. Er þar átt við góða haga fyrir búfénað.

28. ágúst 2006

Snilldin er genetisk

Loksins...
en ég get ekki loggað eða bloggað inn á mæspeis....

25. ágúst 2006

Reykjatunguármótabæjarstaðasel





Fékk þetta komment frá bróður mínum og þar sem það er merkilegra en svo að það megi falla ómerkt á milli þilja þá birti ég það aftur hér:



Festum líka á blað nafnið sem pabbi fann á bústaðinn.
„Reykjatunguármótabæjarstaðasel“
Þetta átt reyndar að verða lengra nafn í upphafi, hann ætlaði að búa til nafn sem næði hringinn um stýrishúsið en endaði svona.
Það sem er merkilegra er að allt í nafninu hefur skírskotun til svæðisins. Bústaðurinn stendur á tungu í landi Reykja við ármót og rétt fyrir foan og sunnan eru rústir af útihúsi frá Reykjakoti sem einu sinni var sel frá Reykjum.
Sniðugur karl hann faðir okkar, ekki bara þegar hann bjó okkur til.

kv.
Bróðir

Pistill frá París

Tristranskvæði

1.
Tristran háði bardagann
við heiðinn hund.
Þar hlaut margur blóðuga und
af þeirra fund.
- Þeim var ekki skapað nema að skilja.

2.
Þá var hann á skildi borinn,
sá ungi mann.
Margur bauð sinn læknarinn
að græða hann.

3.
Hann vill ekki græðslu þiggja,
hann sór við trú:
"utan hún Ísodd græði mig
sú bjarta frú."

4.
Tristran sendi sína menn
og skeiður þrjár:
"Segið henni björtu Ísodd
eg sé sár."

5.
Tristran sendi sína menn
og skeiður fimm:
"Segið henni björtu Ísödd
hún komi á fundinn minn.

6.
Svo skal búa hennar ferð
sem segi eg frá:
Blá skulu segl á skipunum
sem hún er á."

7.
Fram komu þeir sendimenn
og sögðu frá:
"Tristran ungi vildi yðar
fundi ná."

8.
Ísodd sig í höllina gekk
fyrir kónginn sinn:
"Villtu ekki láta græða hann Tristran,
frænda þinn?"

9.
Til orða tók hann kóngurinn
og varð við reiður:
"Hann þarf ekki græðslu við,
því að hann er feigur."

10.
Svo var henni björtu Ísodd
mjúkt til máls,
báðar lagði hún hendurnar
um kóngsins háls.

11.
"Gjarnan vilda eg láta græða Tristran
af sárri und,
ef eg vissi að þú kæmir heil aftur
á minn fund.

12.
"Guð má ráða afturkomu"
sagði frú,
"ei mun eg í þessari ferð
gleyma minni trú"

13.
Kastaði hún yfir sig safalaskinni
með sorg og sút.
Síðan gekk hin ríka frú
á bryggjur út.

14.
"Svo skal búa um mín ferð
sem segi eg frá.
Blá skulu segl á skipinu,
sem eg er á."

15.
Vindið upp segl við húna.
sem frúin bauð.
Hitta vill hún Tristran unga
í sinni nauð.

16.
Til orða tók hún svarta Ísodd
að hún gekk inn:
"Svört eru segl á skipunum,
sem hér leggja inn."

17.
Til orða tók hún svarta Ísodd
í annað sinn:
"Svört eru segl á skipunum,
sem hér leggja inn."

18.
Til orða tók hún svarta Ísodd
hún sagði frá:
"Svört eru segl á skipunum,
en ekki blá."

19.
Tristran snerist til veggjar
svo hart hann stakk:
heyra mátti mílur þrjár,
hans hjartað sprakk.

20.
Lenda þau skipunum
við svartan sand,
báru hana björtu Ísodd
fyrst á land.

21.
Löng var leiðin,
en gatan var breið.
Einatt heyrði hún klukknahljóð
á sinni leið.

22.
Löng var leiðin,
en gatan var þröng.
Einatt heyrði hún klukknahljóð
og fagran söng.

23.
Til orða tók hún bjarta Ísodd,
hún leit í stein:
"Ekki skyldi hann Tristran dauður,
þá eg kem heim."

24.
Ísodd sig í kirkjuna gekk
með hundrað manns.
Prestar sungu prócessíu
yfir líki hans.

25.
Ísodd niður að líki lýtur
rauð sem rós.
Prestar stóðu á kirkjugólfi
með kertaljós.

26.
Ísodd niður að líki lýtur
í annað sinn.
Prestar stóðu á kirkjugólfi
með kertaljósin fimm.

27.
Margur lifir í heiminum
með minni nauð.
Hún Ísodd niður að líki lýtur
og lá þá dauð.

28.
Það var henni svörtu ísodd
angur og sút,
tvö voru þá líkin borin
úr kirkju út.

29.
Til orða tók hún svarta ísodd
hún sór við trú:
"Þið skulið ekki njótast dauð,
megi eg nú."

30.
Ausin voru þau moldunni
fljótt og ótt.
Sínu megin kirkjunnar
lá þá hvort.

31.
Runnu upp af leiðum þeirra
lundar tveir.
Upp af miðri kirkjunni
mætast þeir.
- Þeim var ekki skapað nema að skilja.

24. ágúst 2006

Fylgsni steinhjartans

Alltaf leggst manni eitthvað til. Nú er ég byrjaður á stein skulptúrum. Fann steinhjartað, kúluna á Snæfellsnesi og fylgsni þess fann ég upp á öræfum.

23. ágúst 2006

Silfursleginn máni

Silfursleginn máni sína göngu hefur
sendir kvikult ljós yfir rökkvuð mið
það er fátt sem bærir á sér meðan sólin sefur
ég sit og vaki enn hljóður við þína hlið

Heyri hvernig þögnin nær að hemja vindinn
heyri hvernig þú dregur andann létt
friðsælan vetrarmána ber við fjallatindinn
fyrr en varir hafið er spegilslétt

Ótal stjörnur kvikna sem hafa enst til að skína
alla þessa leið til þess eins að sjá fegurð þína

En nóttin hún er köld svo lengi að líða
læsir um mig greip og herðir að
ég veit svo ósköp vel að ég þarf að bíða
og vona að hún finni brátt nýjan samastað
er tíminn stendur kyrr augnlokin hætta að hlýða
höfgi sígur á en þá man ég það
að ótal smáar stjörnur hafa enst til að skína
alla þessa leið til að eins að sjá fegurð þína


svona er ljóð Braga V. Skúlasonar við lag Lucio Dalla.

22. ágúst 2006

hjorturr

Nýr bloggari, - eða þannig.

Góðir barnabrandarar!

Half man og Hálfmáni













Hálfmáni er 4 vetra, og kemur nú í annað sinn í hausttamningu. Hann hefur skap og mikla frelsisþrá. Hefur ekki viljað láta handsama sig. Í allt sumar farið undan í flæmingi þegar við nálguðumst. Stokkið yfir gerði og brotið niður fremur en láta handsama sig. Mér tókst þó með harðfylgni og lagni (og ómetanlegri og faglegri hjálp frá 3F; Fingurbjörg, Finnur og Fanney) að koma á hann böndum og við snertinguna gaf hann sig eins og í fyrra. Fylgdi mér inn í kerruna sem flutti hann í bæinn. Reyndar reisti hann ig upp á afturfæturnar og stökk jafnfætis inn í kerruna til mín. Járningar voru með látum.

Í gær gekk ég hinsvegar að honum í gerðinu. Held hann treysti mér og viðurkenni. Það er góðs viti, því þetta er mikið hestefni. Hann fallegur, glófextur og með þessa sérstöku stjörnu á enni sem gefur honum nafn. Rauði liturinn hefur verið að dökkna og líkist meir og meir Glóa, enda er faðir Hálfmána Marvin frá Hafsteinsstöðum föðurbróðir Glóa (sonur Huga frá Hafsteinsstöðum).

Amma Glóa og Hálfmána er Sýn frá Hafsteinsstöðum sem er undan Feyki sem er sonur Rauðs frá Kolkuósi.

Hálfmáni er svo sammæðra Hófi mínum, báðir undan Nánös frá Ásgeirsbrekku.

Stígandi ÓF













Stýrishúsið í hvamminum

Morgunskugginn
á blökkum eikarþiljum
og græna röndin
á kaffifantinum.

Hann treður aftur í pípuna,
plönturnar geta svo sem vel beðið.

Svo rennir hann niður
brúarglugganum
en kallar ekki

konan sefur
í káetunni.

Þannig yrkir Sigurlaugur Elíasson, um Unaðsstaði í ljóðabók sinni Lesarkir landsins. Við ána sem stýrishúsið stendur við og kemur ofan af Reykjaheiði, orti Davíð Stefánsson Dalakofann. Sestu hjá mér Dísa....
Þetta er kyngimagnaður staður.

21. ágúst 2006

Unaðsstaðir

Dvaldi á Unaðsstöðum um helgina.


Reyndi að taka kúrsinn á Stíganda gamla.



Fór yfir í Fljót, þó ekki siglandi.

Unaðsstaðarblómabreiða

19. ágúst 2006

Ilmurinn af björkunum

Á leið minni norður á Berjadaga sótti á mig svefn. Fór heim að Hólum og beiddist náttgreiða. Ilmurinn af björkunum í Biskupsgarði tók á móti mér. Kvöldið var heitt og rakt. Rétt eins og á erlendri grund. Fékk herbergi í gamla skólahúsinu með útsýni yfir upplýstan klukkuturninn og dómkirkjuna á Hólum.

Vaknaði snemma í glampandi sólskini og heilsaði mér Hjaltadalur í skrautbúningi. Minntist 19. ágúst með gönguferð upp í Hólabyrðu og um staðinn. Skoðaði kirkjuna og fornminjar. Auðunnarstofa lokuð. Borðaði heimabakað brauð með rúllupylsu í morgunmat.

18. ágúst 2006

1612

Þórdís Halldórsdóttir viðurkennir þegar á að pína hana til sagna að mágur hennar, Tómas Böðvarsson Sólheimabóndi, sé barnsfaðir hennar. Hann strauk af héraðsþinginu og hvarf í þoku, en eftirleitarmönnum þótti líkast göldrum hvernig hann komst undan. Skömmu síðar dró Þórdís játningu sína til baka. Tómas komst undan til Englands en kona hans giftist aftur á Vestfirði. Í Alþingisbókum 1618 er skýrsla danskra yfirvalda um málið, þar er Þórdísi talið til tekna að Tómas kunni að hafa notað galdur til að komast yfir hana.


Viskubrunnur

Berjadagar

Í dag hefjast berjadagar á mínum gömlu heimaslóðum.

Þá verður sungið á langspil og simfón í Kvíabekkjarkirkju.

(mynd af vefnum)

Um fjöllin þar og konuna í Hvanndalabjörgum orti Jón Trausti:

Rísa þar gegn norðrinu risalegfjöll.
Hvergi eru meiri og magnaðri tröll.

17. ágúst 2006

Fingurbjargar-Glói

Það er ekki skrýtið að knapar velji sér hesta, - en svo held ég að hestar velji sér knapa. Þessa mynd fékk ég úr fingurbjörginni, en þau tvö eru flott saman.

Þarna má líka sjá vangasvipinn á prinsessunni minni, henni Skuld.

Glói er fæddur á Ásgeirsbrekku í Skagafirði 1998 og því 8 vetra í sumar. Hann er undan Huga frá Hafsteinsstöðum sem er undan Hrafni frá Holtsmúla. Móðir Glóa var Stjarna frá Ásgeirsbrekku, sem er af Kirkjubæjarkyni. Undan Frama frá Kirkjubæ.

15. ágúst 2006

Á hliðinni

Lenti í óhappi í gær. Hestakerran sem ég var með í eftirdragi fauk á hliðina. Slapp með skrekkinn. Tíminn líður. Lífið er stutt.

14. ágúst 2006

Hestamennskan í haust

Hér erum við Hófur með Snæfellsjökul í baksýn. Í kvöld fer ég að ná í ótemjurnar mínar að Kaldbak. Búinn að fá tamningamann til verksins. Hann tamdi bæði Hóf og Glóa með frábærum árangri. Nú fær hann frænda þeirra, hann Hálfmána til að glíma við og tekur Greifa til gangsetningar. Hálfmáni er sammæðra við Hóf. Báðir undan henni Nánös frá Ásgeirsbrekku. Faðir Hófs er Páfi frá Kirkjubæ, en faðir Hálfmána er Marvin frá Hafsteinsstöðum. Nú fara hauststörfin að hefjast.

(Þessi mynd er úr Fingurbjörginni)

13. ágúst 2006

Laxveiði - fyrsti túrinn 8.-11. ágúst

Kjarrá í Borgarfirði (mynd af netinu)


Maríulaxinn kom úr Kjarrá, kl 17.21. Veiddur með Hitch túbu, Blue charm flugu á stöng og línu nr 6. Hængur 5 pund fékkst í Colonel / Lambastreng.
Leiðin lá um torfærur og djúp vötn upp í heiðarlöndin upp að Tvídægru með Eiríksjökul í baksýn.

Veiðihúsið langt upp í heiðarlöndum þar sem engin á leið um nema fuglinn fljúgandi, laxinn í ánni og veiðmaðurinn





Í baráttu við stórlaxinn


Sýnd veiði en ekki gefin, skemmtileg barátta en ójafn leikur..









Guðbrandur kastar flugunni í Neðra Rauðaberg.


Á efsta veiðisvæðinu er ekki akvegur eða troðningur og stutt síðan menn hættu að fara á hestum á veiðistaðina. Klukkustundagangur var í náttúruparadís heiðarlandanna og orðið stutt upp á Tvídægru. Reyndar höfðu sumir veiðifélagarnir, stórlaxarnir með sér einkaþyrlu til að komast á efsta svæði. En við félagarnir, ónei, við þrömmuðum þetta og nutum útivistarinnar.
Árni við veiðar við Efra Rauðaberg



...og mágarnir búnir að landa einum vænum.



Sá stærsti veiddist líka á Blue charm hitch flugu, en í þetta sinn í Svörtu rollum á Gilsbakkaeyrum.

Langisjór

Fór um verslunarmannahelgina með skömmum fyrirvara upp að Langasjó og hugðist ganga á Sveinstind (kenndan við Svein Pálsson lækni). Dumbungsveður var.


Tók svítuna með og tjaldaði í Hóla- skjóli. Las "Við enda hringsins". Grillaði hreindýr.


Fór í styttri göngutúra og naut undarlegs samspils lita náttúrunnar.

Fjallabaksvegir upp úr Skaftártungum.

Dáðist að Mýrdalsjökli þegar létti til

...og Vatnajökli í fjarska

12. ágúst 2006

Melankólía

You Have a Melancholic Temperament

Introspective and reflective, you think about everything and anything.
You are a soft-hearted daydreamer. You long for your ideal life.
You love silence and solitude. Everyday life is usually too chaotic for you.

Given enough time alone, it's easy for you to find inner peace.
You tend to be spiritual, having found your own meaning of life.
Wise and patient, you can help people through difficult times.

At your worst, you brood and sulk. Your negative thoughts can trap you.
You are reserved and withdrawn. This makes it hard to connect to others.
You tend to over think small things, making decisions difficult.


Fann þetta próf í fingurbjörginni

4. ágúst 2006

Það er komin vetrartíð
með veður köld og stríð.
Ég stend við gluggann,
myrkrið streymir inn í huga minn,
þá finn ég hlýja hönd,
sál mín lifnar við.
Eins og jurt sem stóð í skugga,
en hefur aftur litið ljós
mín vetrar sól

Þetta fallega lag frænda míns Gunnars Þórðarsonar var sungið við útför föður hans, Þórðar Björnssonar í dag. Blessuð sé minning góðs manns.

3. ágúst 2006

Berst á fáki fráum

Á Löngufjörum í júlí 2006
"Hve fjör í æðar færist
fáknum með.
Hve hjartað léttar hrærist,
hlær við geð"
(Hannes Hafstein)

Litbrigði jarðarinnar

Hann fór einförum, gerði sér erindi upp að fjallinu, þóttist vera að gá til kinda og reikaði lengi dags um móana við rætur fjallsins, talaði í hálfum hljóðum við sjálfan sig og hvíslaði leynilegum skilaboðum í norður. Það var kyrrt og bjart umhverfis hann, farfuglarnir horfnir og grösin sölnuð, en þöglir smyrlar á flugi undir hömrunum og ofurlítil héla í skorningum millli þúfnanna. Haustið drottnaði yfir jörðinni, en þó fannst honum allt vera grænt og hlýtt, þrungið mildri og djúpri angan, sem minnti bæði á ljósbera og mjaðarjurt. Það ómaði slíkur hljóðfærasláttur í brjósti hans, að hann viknaði af gleði, blessaði stráin og mosann, himininn og dagsljósið, strauk hrjúfa klettana með heitum lófanum og bað til guðs, að músarindillinn, sem flögraði með götunni undir fjallinu, og rjúpan, sem kúrði upp á syllunni, yrðu aldrei hungruð og köld í vetur. Já, hann bað fyrir öllu sem átti bágt á jörðinni. Þessi hljóði og fölvi haustdagur vígði hann til nýs lífs. Hann varð svo góður. Hann varð svo auðugur. Græna veröldin í hjarta hans, sem angaði eins og ljósberi og mjaðarjurt, ómaði eins og lágvær, mjúktóna strengjasveit, sem vildi láta hann hjálpa öllu, líkna öllu, svo að hann fyrirgaf jafnvel smyrlunum grimmd þeirra og blóðþorsta. Og þegar hann gekk loks heim að bænum í rökkrinu trúði hann fyrstu stjörnunni í norðri fyrir kveðju.....


Ólafur Jóhann Sigurðsson: Litbrigði jarðarinnar

2. ágúst 2006

Forvitni

Bolli sat hjá móður sinni löngum og varð þeim mart talað.
Þá mælti Bolli: "Muntu segja mér það móðir að mér er forvitni á að vita? Hverjum hefur þú manni mest unnt?"
Guðrún svara:"Þorkell var maður ríkastur og höfðingi mestur en engi var maður gervilegri en Bolli og albetur að sér. Þórður Ingunnarson var maður þeirra vitrastur og lagamaður mestur. Þorvalds get eg að engu."
Þá mælti Bolli: "Skil eg þetta gjörla hvað þú segir mér frá því hversu hverjum var farið bænda þinna en hitt verður enn ekki sagt hverjum þú unnir mest. Þarftu nú ekki að leyna því lengur."
Guðrún svarar: "Fast skorar þú þetta sonur minn," segir Guðrún, "en ef eg skal það nokkrum segja þá mun eg þig helst velja til þess."
Bolli bað hana svo gera.
Þá mælti Guðrún: "Þeim var eg verst er eg unni mest."


Laxdæla saga

Fanna skautar faldi háum

Gekk á Skjaldbreið með vinnufélögum í gærkveldi.


Leiðin var grýtt og löng en ekki brött.

útsýni til Hrafnabjarga og Þingvallavatns var óviðjafnanlegt.

í norðri blöstu við jöklar. Þórisjökull, Ok og Langjökull.
Í fjarska mátti greina: Vestmannaeyjar, Apavatn, Kerlingafjöll, Jarlhettur, Tindfjöll, Eyja- og Mýrdalsjökul, Heklu, Baulu í Borgarfirði, Tröllaborgir á Holtavörðuheiði, Botnsúlur, Hvalfell, Snæfellsjökull....


Bröltum á gýgbarmi til að.....


.....geta séð Hlöðufell og .....


....hlaupið á snjónum......


....klöngrast á hæstu tinda og hlustað á ljóðalestur ....

.....og kannað leyndardóma Skjaldbreiðar

(myndin er af vörðu við sólarlag. Tröllastúlka með fugl).



"Kyrrt er hrauns á breiðum boga,
blundar land í þráðri ró.
Glaðir næturglampar loga,
geislum sá um hæð og mó".

(Hending úr ljóðinu:
Fjallið Skjaldbreiður
e. Jónas Hallgrímsson)