23. mars 2009

Hægeldun - slow food-rauðvínskássa

Einhver bylgja af hægeldun mun vera að ryðja sér til rúms, eða réttara sagt vaxa hryggur um fisk. Ég var trúr þessu um helgina og eldaði rauðvínskássu með gratineruðum kartöflum handa gestum. Uppskriftina fékk ég hjá Ragnari lækni sem er mönnum fremri í hægeldun. Ég verð þó að segja að ég mæli með örlitlum breytingum á uppskriftinni. Það sem átti að vera punkturinn yfir i-ið reyndist í mínu tilfelli næstum disaster þó gestir kvörtuðu ekki.


Ég eldaði nautakássu nautabanans.

Ég varð mér úti um gúllaskjöt og vegna tilmæla í uppskrift Ragnars skar ég það í smærri bita og steikti með tveimur laukum og sex smáttskornum hvítlauksrifjum á vægum hita eða þar til kjötið er brúnað á hverri hlið. Ég var trúr uppskriftinni og bætti út í 7.5 kanilstöngum , skipti nautakrafti út fyrir villibráðarkraft því það var það sem til var í ísskápnum, saltaði og pipraði. Því næst bættust við sex negulnaglar og þegar kanil/negul lyktin hefur blossað upp bætti ég útí er flösku af af rauðvíni. Þar útí flugu tvö lárviðarlauf, tvær greinar af fersku timían og rósmarín. Ég elska lyktina af fersku timían. Það er stemmingskryddjurt. Skapar ótrúlega gott andrúmsloft.

Þetta lét ég malla í klukkutíma og bætti þá út í tveimur gullrótum, ólífum og hálfri rófu (hefði kosið sellerírót en átti hana ekki til. Þetta lét ég malla í 3o mín til viðbótar og smakkaði oft til. Var kominn með fullkomið jafnvægi í sósuna þegar kom að lokahnykknum.


Þegar hér var komið sögu átti skv uppskrift að bæta útí 100 gr. af parmaskinku en hana átti ég ekki til og notaði í staðinn þurrkað beikon frá SS fremur en Ali að mig minnir. Þetta var slæmt múv að mínu mati. Allt annar bragðheimur og hið fullkomna jafnvægi rann út í sandinn.


Ég varð svolítið vonsvikinn við þetta en gestirnir gerðu matnum góð skil.

20. mars 2009

Af íslenskum afurðum


Oft er margt skrafað í kaffistofunni á vinnustað mínum. Í dag var rætt um matargerð og uppskriftir. Þar kom að einn samstarfsmaður minn fleygði fram sögu af verstu matargerð sem hann hefði heyrt um. Svo bar undir að vinur hans lenti í því að faðir hans þurfti að sjá um matseldina í fjarveru húsmóðurinnar. Ætlaði hann að steikja slátur en en engin var til feitin svo að hann greip til lýsis og steikti slátrið upp úr því. Mikil óþefur barst um allt húsið og þurfti að lofta út í margar vikur og maturinn var ekki góður.
.
Við þessa sögu kveiknaði í samstarfsmanni mínu sem situr á næstu skrifstofu og gekk í MR á sínum tíma og skrifar reglulega pistla um lýðheilsu og lækningar. Rifjaðist upp fyrir honum að eitt sinn hefði hann ætlað að útbúa þjóðlegan rétt og tók til kakópott þeirra MR-inga og reyndi að poppa með lýsi. Maísinn poppaðist ekki en lengi á eftir var skrítið bragð af kakóinu sem selt var í sjoppu nemendafélagsins. Farið var með málið eins og mannsmorð.
.
Þriðja söguna sagði þilskipaskrásetjarinn af upphafsbúskaparárum sínum, en þá ætlaði að unnustan að elda humar með karamellulíkjör og hvítvíni og hafði forláta uppskrift frá matgæðingi. Það fylgdi sögunni að ef ekki væri til karamellulíkjör mætti nota mysing í staðinn. Ef ekki væri til hvítvín mætti nota mysu. Svo bar undir að unnustan átti ekki heldur humar, bara rækjur. Svo úr urðu rækjur soðnar í mysu og mysingi og sagði þilkskipaskrásetjarinn að það hefði verið eftirminnilega vondur matur. Hann á því síðasta orðið í þessari hugvekjum um gourmet mat úr íslenskum afurðum.

4. mars 2009

Breyttir tímar

Kæra dagbók, þannig ber undir að ég hef minnkað við mig vinnu á gamla vinnustaðnum og er nú farinn að vinna vestur í bæ tvo eftirmiðdaga í viku á háskólaklínikinni við að grúska, nokkuð sem ég gerði fyrir tíu árum síðan. Auðvitað átti ég að vera löngu búinn að láta þig vita af þessu, en ég hef verið hugfanginn af verkefninu og því ekki gefið mér tíma til að sinna þér.

Þá daga sem ég vinn vesturfrá er ég yfirleitt lengi fram eftir. Það skapar svolítil vandræði því annan daginn fæ ég fjölskylduna mína i fisk sem ég elda. Þetta hefur valdið nokkurri spennu hjá mér því ég rýk upp um sexleitið og heim og tröfra fram fiskirétti þannig að ég kem mér sífellt á óvart með hvað hægt er að gera úr þessu hráefni á örskömmum tíma. Sem betur fer er fiskur þeim mun betri eftir því sem hann er minna eldaður.

Út að borða

Ég hef vanrækt þig kæra dagbók í langan tíma. Það er svo margt að gerast, t.d. fór ég út að borða á einn af uppáhalds stöðunum mínum. Ég fer alltaf reglulega á Þrjá frakka á Baldursgötunni, en oftast í hádeginu og oftast með sömu félögunum. Nú hefur liðið langt frá síðustu heimsókn. Í gærkveldi gafst tilefni og endurnýjaði ég kynnin við þennan ágæta veitingastað. Á þremur frökkum virðist alltaf fullt og staðurinn eftirsóttur. Mér þótti athyglisvert að á hverju borðum mátti sjá amk einn gest með hvalsteik. Vinsældir þessa réttar virðist augljós þrátt fyrir alla tilfinningasemi gagnvart hvalveiðum. Ég fékk mér hinsvegar fisk eins og venjulega, en hét því að prófa piparsteikina hans Úlfars við tækifæri og einhverntímann síðar hrossalundina sem þar er á boðstólum.