30. maí 2007

Sumarkoma

Sumargleði sól og ylur
syngur lóa útí mó.
Burtu kveðinn kaldur bylur
kemur vor í okkar skóg.
Hlýnar loftið grænkar grundin
gleði berst um Reykjalundinn.
gaman er að vera til.


(ort fyrir hið virta útgáfufélag Reyk og ritstjóra þess í tilefni sumars).

29. maí 2007

Hvítasunna

Ekkert hret.

Á föstudag fyrir hvítasunnu, - lumbra og snúningar.

Laugardagur - plöntun og bruni. Byrjaði daginn á fleiri snúningum, keypti rafstöðvar og staura. Hleypti heimdraganum eftir að hafa fengið úttekt á baðherberginu sem ég ætla að fara að gera upp. Fékk heimsókn guðsonar míns í hesthúsið og kom honum á hestbak og föður hans líka. Hólmgeir tók einn snúning á Skuld á planinu og var svo rokinn í vinnuna.

Komst síðdegis austur í Ljósheima og hafði meðferðis birkiplöntur. Fjörtíu bakkaplöntur frá Sigurbirni í Gróanda í Grásteini og ríflega 20 úr garðinum hjá mér í ásnum. Hvorttveggja kvæmið Embla. Vandaði nú heldur til verka og er að læra að planta rótarhnyðjum. Í miðjum klíðum sá ég útundan mér loga stíga til himins, en kviknað hafði í húshjalli á næsta bæ, - Sólheimum. Brann hann til kaldra kola á örskammri stund. Kom heim með matareitrun af pylsu einni úr sjoppunni á Minni-Borg seint um kvöldið. Tók það fljótt af. Kúfuppgefinn eða er það kúuppgefinn?

Hvítasunnudagur rann upp bjartur og fagur. Við feðgar fórum í árlega grillreið hesthúsins í Víðidal. Tveggja tíma túr í Heiðmörk og við Elliðavatn. Hólmgeir er orðinn hinn besti knapi á góðhryssunni Skuld, en minn hestur lék við hvern sinn hóf. Kvörtuðu margir samferðamenn undan því að við feðgar færum hratt yfir og riðum hart. Í hesthúsinu var síðan kveiktur eldur og lamb grillað og hestar vegsamaðir. Hitti þar unga stúlku sem heitir Sólveig og oft verið nefnd litla Sól. Henni leist vel á mig og sagði að ég mætti kalla sig Hörpu.

Annar í hvítasunnu. Fór í hesthúsið í Kópavogi og heilsaði upp á hestana þar. Drakk kaffi með húsráðanda og hætti við að fara með þá í haga. Fór síðdegis í gróðurleiðangur með Hólmgeiri sem nú þurfti að læra trjárækt með meiru. Eftir útikaffi hjá frænku okkar í Akraseli fengum lánaða kerru hjá tengdaföður systurdóttur minnar. Því áður höfðum við stungið upp glótopp einn mikinn í garðinum heima í ásnum og ekki komið í jeppann. Dýr væru góð ráð ef ekki kæmi til aðstoð fjarskyldra venslamanna ættingja minna. Fórum við því sníkjandi um bæinn og fengum kaffi á einum stað og þar voru lögð inn góð orð fyrir okkur. Fengum við hina ágætustu kerru sem rúmaði talsvert meira en einn glótopp. Var því annar rifinn upp með rótum og bætt við fjórum stórum birkitrjám allt úr sama garði. Og svona til að verða ekki verkefnislausir gripum við með okkur 40 bakkaplöntur. Í þetta sinn sitkagreni smávaxið. Kvæmi enn óþekkt því ég hafði ekki rænu á að spyrjast fyrir um uppruna eða ætt.

Þessu öllu plöntuðum við feðgar svo í Ljósheimum og sannaðist hið fornkveðna að margar hendur vinna létt verk. Sonur minn er betri en enginn í þessu sem öðru og við plöntunina hafði hann það hlutverk að sneiða svörðinn ofan af moldinni. Var sem hundrað hendur væru á lofti þegar hann sveiflaði þar til gerðu verkfæri eins og um golfkylfu væri að ræða. Gekk vel undan okkur en aðallega honum. Í hægri lendina var ég svo bitinn af þurs og gekk ekki heill til skógar það sem eftirlifði dags, -en reyndi þó að hafa við drengnum, skakkur en ekki skældur.

Til að nýta ferðina til fullnustu og ekki vildum við slá slöku við, girtum við svo í kringum þrjá trjáreiti sem við erum búnir að koma upp innan lands(ins). Höfðum við engar sleggju til að reka á eftir staurunum svo við gerðum leik að því að metast um hvor gæti hent staur dýpra niður í jörðina svo úr yrði girðing. Var þetta hin besta skemmtun og lukum við degi með kvöldmáltíð, síðbúinni í Þrastarlundi þar sem á matseðli eru margir réttir og sumir girnilegir en fáir á boðstólum þegar eftir er spurt. Fékkst þar þó þrastarlundarsalsahamborgari með sósu og salati og fátt annað. Var það nokkuð stílbrot við fallegt útsýni og náttúruparadís þar í kring. Af því sem við fengum get ég mælt með kranavatninu sem kom í könnu á borðið og var ekki naumt skammtað í glas.

22. maí 2007

Eðlisfræði ljósheima

Á torgi hins svignaða ljós
er hvorki upphaf né endir
aðeins ljómi allt í kring

Geisleindir þeytast
um eilífa bauga
í hringrás hins bjarta

þyngdar sinnar virði í afli

Í rökkurfjarlægð
leynast sogandi svarthol
endimerkurinnar
falin á milli
skínandi pláneta

sem kalla þær
að ljósavík
- bak látur

í leiðangri sem
á bara upphaf

Fuglalíf

Í Ljósheimum er fuglalíf. Gekk þar fram á hrossagauk sem flögraði upp af hreiðri sínu með fjórum nýverptum eggjum. Á ánni/skurðinum synti andapar, -sennilega grafendur.

21. maí 2007

Úr ljósheimum

Eftir heldur þunga viku sem lauk með að ég druslaðist ekki á sveitaball félag IK og fjölskyldu hans í Laxnesi, rankaði ég við mér á laugardagsmorguni. Mundi að vinnufélagi minn einn hafði haft á orði að hann vildi gefa mér aspargræðlinga. Eftir nokkrar upphringingar tókst mér að hafa upp á honum.

Plantaði þessum 37 rótarskotnum öspum af óþekktu kvæmi, en skv. gleggstum mönnum og minnisbestu þá munu þær eitt sinn hafa verið stórt og fagurt tré í vesturbæ Reykjavíkur.

Tuttugu og fimm plöntur sumar sem náðu mér upp í axlir mynda nú nýjan asparlund rétt við innkeyrsluna í Ljósheima. Tólf fóru svo inn í mitt land í þríhyrninginn.

Í gær fékk ég svo drengina, aðallega þann sterka til að hringsóla með húsgögn um húsið og endurskipuleggja frá grunni. Voru ráð hans og innsæi í uppröðun þungra húsgagna betri en engin. Hafa nú öll herbergi skipt um hlutverk og fengð nýja rullu.

Að því loknu dreif sá eldri, þ.e.a.s. ekki sá sterkari sig í eldamennsku á meðan ég og sá sterkari fluttum skápa á milli hæða. Steikti hann nýdregna Úteyjarbleikju sem ég kaupi gjarnan á ferðum mínum austur í Ljósheima og hef meðferðis heim. Fékk þó ekki að prófa margrómaða uppskrift hans af möndlu- og hnetusmjörssteiktri bleikju. Með þessu bar hann fram hlynsíróps brúnaðar kartöflur og vorsalat með fetaosti. En sú blessun að eiga slíka syni að vexti og visku. Enduðum við svo þessa feðgastund á því að bera einn fataskáp að lokum í nýja gestaherbergið á neðri hæðinni.

14. maí 2007

Plantað í Ljósheimum

Fór austur í Kringlu næsta bæ við Sólheimum fór í skikann minn sem ég er farinn í huganum að kalla æ oftar Ljósheima. Með dyggri aðstoð og í góðum félagsskap plantaði 115 hríslum.
Keypti 6 reynitré í potti og 30 berróta alaskavíðisplöntur (hríma) í Gróanda/Grásteinum. Þessu plantaði ég eftir kúnstarinnar reglum eftir fyrirskrift skógfræðingsins til að mynda samkeppnisumhverfi fyrir reyniviðinn. Hitti svo garðyrkjufræðing á Þurá síðar um daginn sem lagði blessun sína yfir tiltækið og taldi þetta geta valdi ágætu krosssmiti á sveppagróðri á milli tegunda. Tilraun tvö var svo að reka niður væna lurka af víði, sem ég hafið klippt niður í garðinum hjá mér fyrr um morguninn. Þar fóru niður 32 hreggstaðavíðishríslur og 46 alaskavíðihríslur, en fróðir menn segja að þetta eigi að geta gengið. Það verður spennandi að sjá hvort þetta heppnast.

9. maí 2007

Staka

Í fúlan pitt ég féll um stund,
og fann þar gífuryrði.
Nú er frekar létt mín lund,
þó lítils sé þess virði.