21. maí 2007

Úr ljósheimum

Eftir heldur þunga viku sem lauk með að ég druslaðist ekki á sveitaball félag IK og fjölskyldu hans í Laxnesi, rankaði ég við mér á laugardagsmorguni. Mundi að vinnufélagi minn einn hafði haft á orði að hann vildi gefa mér aspargræðlinga. Eftir nokkrar upphringingar tókst mér að hafa upp á honum.

Plantaði þessum 37 rótarskotnum öspum af óþekktu kvæmi, en skv. gleggstum mönnum og minnisbestu þá munu þær eitt sinn hafa verið stórt og fagurt tré í vesturbæ Reykjavíkur.

Tuttugu og fimm plöntur sumar sem náðu mér upp í axlir mynda nú nýjan asparlund rétt við innkeyrsluna í Ljósheima. Tólf fóru svo inn í mitt land í þríhyrninginn.

Í gær fékk ég svo drengina, aðallega þann sterka til að hringsóla með húsgögn um húsið og endurskipuleggja frá grunni. Voru ráð hans og innsæi í uppröðun þungra húsgagna betri en engin. Hafa nú öll herbergi skipt um hlutverk og fengð nýja rullu.

Að því loknu dreif sá eldri, þ.e.a.s. ekki sá sterkari sig í eldamennsku á meðan ég og sá sterkari fluttum skápa á milli hæða. Steikti hann nýdregna Úteyjarbleikju sem ég kaupi gjarnan á ferðum mínum austur í Ljósheima og hef meðferðis heim. Fékk þó ekki að prófa margrómaða uppskrift hans af möndlu- og hnetusmjörssteiktri bleikju. Með þessu bar hann fram hlynsíróps brúnaðar kartöflur og vorsalat með fetaosti. En sú blessun að eiga slíka syni að vexti og visku. Enduðum við svo þessa feðgastund á því að bera einn fataskáp að lokum í nýja gestaherbergið á neðri hæðinni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ekki sá sterkari...isspiss!!!