26. maí 2008

Um helgina

1. Gekk á Esjuna í betra formi en áður
2. Horði á risasnigill mjakast niður stein
3. Borðaði á Jómfrúnni
4. Reið um Heiðmörkina
5. Fór í grillveislu í hesthúsi
6. Horfði á Eurovision í hlöðu
7. Hélt með lagi sem lenti í síðasta sæti
8. Vakti fram til morguns og ræddi um fleiri málefni en ég man eftir
9. Svaf fram eftir degi eins og unglingur
10. Grillaði nautafile og bakaði kartöflur handa drengjunum og Ylfu
11. Fékk vísindalegan fyrirlestur með power point sjóvi frá eldri syninum
12. Hlustaði á yngri sonin útskýra munin á megindlegri og eigindlegri aðferð
13. Hét því að taka fjórar hlaupaæfingar í þessari viku

23. maí 2008

Jónas Guðlaugsson fæddist að Staðarhrauni
á Snæfellsnesi árið 1887. Hann
lærði í Latínuskólanum og var þá strax
ákveðinn í að verða stórskáld. Jónas taldi
sig ekki geta lifað af list sinni hér heima
og því fluttist hann erlendis, fyrst til
Noregs og síðan til Danmerkur, þar sem
hann starfaði sem blaðamaður. Hann lést
á Skaga á Jótlandi árið 1916, þá
nýkvæntur í annað sinn. Þó Jónas hafi
ekki náð háum aldri, gaf hann út þrjú
ljóðasöfn, sem öll bera vott um mikla
skáldagáfu. Þá gaf hann út tvær
skáldsögur og eitt smásagnasafn.




Mig dreymdi að dimm varð sólin
og dagurinn litum brá,
Þá sá ég þitt sólbros á himni
og sortanum létti frá.

Mig dreymdi ég lægi dauður
í dimmkaldri grafarþró,
þá komst þú og andaðir á mig
og aftur mitt hjarta sló.

Ég vaknaði og vissi til hlýtar
að voldugri flestum ég er,
ég sem ber lífið og ljósið
logandi í brjósti mér.

Víkingar

Það húmar – og hafgúan raular
svo hljóðan dularóð,
en lengst í vesturvegum
vakir hin hinsta glóð.

Eitthvað svo undarlegt hvíslar
innst inn í minni sál
um hafsins ótal undur,
sem öldurnar hefðu mál:

Víkingar héldu á hafið
og hugðu nema lönd;
þrengri og þrengri varð þeim
hin þögla, gamla strönd.

Drekarnir stefndu frá ströndu,
stormurinn söng við rá
og leiddi þá langt út á hafið,
en landið var hvergi að sjá.

Þeir sigldu og sigldu yfir
hinn salta öldugeim,
uns vonirnar voru dauðar.
En þeir vildu´ekki snúa heim.

Þá brenndu þeir báta sína;
það bál skein langt yfir sjá.
Þeir litu við hinsta logann
það land, er þeir vildu ná.

Og reykurinn leið um loftið,
hann lokkar frá kaldri strönd,
því alltaf er særinn samur
og söm hin ónumdu lönd.




Jónas Guðlaugsson
1887-1916

22. maí 2008

Hengillinn

Enn eitt fjallið fallið að fótum okkar í gönguklúbbnum. Tókum Skeggja hæsta tindinn í Henglinum með trompi í gærkveldi. Höfðum áætlað að vera um 2 klst upp en raunin varð sú að uppgangan tók aðeins 1 klst og 20 mín og til baka vorum við komin eftir 2 klst. Gengið var inn Skeggjadal og upp talsvert brattar fannir á sjálfan toppinn þar sem fyrsta söngæfing var haldin í talsverðum vindi og algjöru útsýnisleysi.

16. maí 2008

Helgin framundan

Adho Mukha Svanasana

Jóga er áhugavert. Var að læra nýjar æfingar eftir hlaupin í gær. Þessi er kölluð hundurinn en ætti auðvitað að heita ljónið.

15. maí 2008

Esjan - solo

Gekk á Esjuna í gær í góðu veðri og með fallegt útsýni. Nennti ekki að bíða eftir gönguhópnum og fór strax eftir vinnu. Í fyrsta sinn naut ég þess að vera á göngu og tími til kominn. Náði loks þessu þægilega jafnvægi sem þeir þekkja sem stunda fjallgöngur - jafnvægi á milli öndunar og brennslu í vöðvum. Hvorugt var pína í þetta sinn. Gekk alla leið upp að Steini án þess að taka eina einustu pásu. Það er framför. Held að það sé greinilegt að þrekið sé að vaxa og sennilega hafa göngurnar fram að þessu, upp á jökla verið einu númeri of stórar miðað við alla kyrrsetuna sem hefur liðist undanfarið. En allt hefur þetta hafst á þrautseigjunni og í góðum félagsskap. Svo hafa líka hlaupaæfingarnar hjálpað mikið. Nú eru æfingar fjórum sinnum í viku og merkilegt hvað svona bumbukall hefur gaman af þessu. Jógað hefur líka komið mér á óvart og nú kann ég Matsyasana - fiskinn.

14. maí 2008

Gyðja

Gull er falleg gyðjan ljós
grær með yndisþokka
fegurst allra rauða rós
með rökkur tóna lokka.

9. maí 2008

Af gefnu tilefni

Varðandi forsíðufrétt í 24stundum í morgun: Handtekinn við yogaæfingar, skal tekið fram að ekki er átt við undirritaðan sem tók þátt í Yogaæfingum í Laugardalnum í góðviðrinu í gær á eftir hlaupaæfingu. Bæði spretthlaupin og jóga fóru "friðsamlega" fram.

Spói

Spóinn kom í gær. Fyrsta parið við hesthúsahverfið í ár. Sumarið er óvenju snemma á ferð. 14 stiga hiti í gær og grundirnar grænka hratt. Miklu fyrr en sl. vor þegar þurkar hömluðu því að gróður tæki við sér. Ég er farinn hljóma eins og gamall bóndi. En mikið er ég farinn að hlakka til að fara í Ljósheima, túnblettinn minn fyrir austan fjall og planta þar fleiri trjám. Þar er mikið varpland vaðfugla, sérstaklega stelks, hrossagauks og jaðrakans. Á læknum eða ræsinu halda svo endur sig og skógarþröstur, maríuerla og þúfutitlingur eiga þar líka skjól og á örugglega eftir að fjölga þegar trjágróðurinn fer að taka við sér.

7. maí 2008

NOMA

Það er sko munur að eiga góða að. Í gær var rigning og rok í Reykjavík og súld í huga mér, þannig að sófinn var mun álitlegri kostur en fara út og taka fyrirsetta hlaupaæfingu Spretts. En þá hringdi sonurinn og minnti á skuldbindingar okkar. Þrátt fyrir prófannir var hugur hans einbeittur og út örkuðum við í rigningarsuddan og á eftir vorum við heldur betur stoltir af okkur. Fyrsta æfingin í veðri sem á afstæðan hátt mátti kalla, eftirá, gott. Heima elduðum við svo saman, þ.e. hann skrapp í búð og keypti salat og tómata og ég sá um að steikja fisk. Notaði kryddblöndu frá NOMA - seafood sem reyndist vel. Eitthvað sem ég keypti fyrir allnokkru en hef lítið notað og galdurinn var að nota nógu mikið saman við hveiti og egg. Með þessu var svo borin fram steiktur laukur með kapers, en galdurinn við kapers er að skola vel áfengisblönduna af sem er notað til varðveislu. Að venju bættist svo eldri sonurinn í matinn eftir sína sundæfingu. Ylfa komst ekki og fékk í staðinn sendan mat heim. Það sem maður dekrar við sína, meira segja farinn að bjóða upp á "take away" þjónustu.

6. maí 2008

Ótrúlegt hvað grasið grænkar hratt fyrir fyrir utan gluggann minn. Það er þó ekki grænna hinum megin.

2. maí 2008

Móskarðshnjúkar og mótmælasprettir

Þá bættust við fleiri fjöll og sprettir. Á miðvikudagkvöldið gerði ég ásamt fríðu föruneyti tilraun til að ganga á Móskarðshnjúka í beljandi roki. Gengum upp í 2 klst og snerum þá við rétt við rætur tindsins en þá var ekki lengur stætt og hjarnskafl síðustu metrana upp. Samkvæmt vindmæli sem var með í för og ekki alltaf í snertingu við vindinn mældust mest 21 m/sek sem verður að játa að er talsvert yfir þægindamörkunum. Hér var tekist á við náttúruöflin.

Þetta kom ekki að sök því gleði tók svo völdin á frábæru sveitaballi í Laxnesi, en þangað höfðu gengið og riðið samstarfsfólk og hestavinir. Var þar gleði mikil og dansað á fjallabomsunum fram eftir nóttu. Þilskipaskrásetjarinn fór á kostum í bandinu sínu sem spilaði gamla slagara fram á rauða nótt.

1. maí gangan breytist í hlaup í Laugardalnum. Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer og hleyp í hóp en nú er prógramið hjá Sprett komið á fullt og það merkilega að æfingin var alveg temmileg fyrir mig, þó svo að nú í morgunsárið hafi ég alveg fundið fyrir þeim vöðvum sem ræstir voru við rásmarkið. Enduðum í jógaæfingum en það á ekki vel við mig að snúa fótum til himins, kannski það komi líka með æfingunni.