23. maí 2008

Jónas Guðlaugsson fæddist að Staðarhrauni
á Snæfellsnesi árið 1887. Hann
lærði í Latínuskólanum og var þá strax
ákveðinn í að verða stórskáld. Jónas taldi
sig ekki geta lifað af list sinni hér heima
og því fluttist hann erlendis, fyrst til
Noregs og síðan til Danmerkur, þar sem
hann starfaði sem blaðamaður. Hann lést
á Skaga á Jótlandi árið 1916, þá
nýkvæntur í annað sinn. Þó Jónas hafi
ekki náð háum aldri, gaf hann út þrjú
ljóðasöfn, sem öll bera vott um mikla
skáldagáfu. Þá gaf hann út tvær
skáldsögur og eitt smásagnasafn.




Mig dreymdi að dimm varð sólin
og dagurinn litum brá,
Þá sá ég þitt sólbros á himni
og sortanum létti frá.

Mig dreymdi ég lægi dauður
í dimmkaldri grafarþró,
þá komst þú og andaðir á mig
og aftur mitt hjarta sló.

Ég vaknaði og vissi til hlýtar
að voldugri flestum ég er,
ég sem ber lífið og ljósið
logandi í brjósti mér.

Engin ummæli: