2. maí 2008

Móskarðshnjúkar og mótmælasprettir

Þá bættust við fleiri fjöll og sprettir. Á miðvikudagkvöldið gerði ég ásamt fríðu föruneyti tilraun til að ganga á Móskarðshnjúka í beljandi roki. Gengum upp í 2 klst og snerum þá við rétt við rætur tindsins en þá var ekki lengur stætt og hjarnskafl síðustu metrana upp. Samkvæmt vindmæli sem var með í för og ekki alltaf í snertingu við vindinn mældust mest 21 m/sek sem verður að játa að er talsvert yfir þægindamörkunum. Hér var tekist á við náttúruöflin.

Þetta kom ekki að sök því gleði tók svo völdin á frábæru sveitaballi í Laxnesi, en þangað höfðu gengið og riðið samstarfsfólk og hestavinir. Var þar gleði mikil og dansað á fjallabomsunum fram eftir nóttu. Þilskipaskrásetjarinn fór á kostum í bandinu sínu sem spilaði gamla slagara fram á rauða nótt.

1. maí gangan breytist í hlaup í Laugardalnum. Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer og hleyp í hóp en nú er prógramið hjá Sprett komið á fullt og það merkilega að æfingin var alveg temmileg fyrir mig, þó svo að nú í morgunsárið hafi ég alveg fundið fyrir þeim vöðvum sem ræstir voru við rásmarkið. Enduðum í jógaæfingum en það á ekki vel við mig að snúa fótum til himins, kannski það komi líka með æfingunni.

Engin ummæli: