31. maí 2005

Bróðir á baki


G
Var að grúska á netinu og fann þessa mynd, á vefsíðu Barnaskóla Ólafsfjarðar. Bróðir á hestbaki. Augljóst er nú að hestamennskan er í blóð borin. Bróðir ríður hér greinilega hesti af gamla brúnskjótta ólafsfirska kyninu.

30. maí 2005

XI Jocs dels Petits Estats d'Europa


Þá eru smáþjóðaleikarnir að fara að byrja í Andorra. Hjörtur Már keppir fyrst þann 1. júní. Helsta markmiðið er að ná lágmörkum á heimsmeistarmótið í Montreal síðar í sumar. Hann ætlar að synda í 100 m flugsundi og 50 m skriðsundi. Til þess verður hann að bæta tíma sína talsvert. Á Íslandsmet í 100 m flugsundi 55.12 sek, en HM lágmark er 54.78 sek. Svo það verður á brattann að sækja.

Að ganga of langt

Þrír pistlar um göngur.

1. Í síðustu viku náði heilsurækt mín nýju hámarki. Fylltist ofurhug(rekki). Fór í leikfimi í hádeginu. Látinn púla með lóð, hamast á innanhús brennslutækjum og eyddi upp sem svaraði einu prinspólói. Síðdegis gekk í gönguklúbb einn, mætti kl 17.00 albúinn með göngustafi með dempurum, göngubuxum og hafði viðrað gönguskóna mína í nokkra daga og reynt að skrapa af þeim hrossaskítinn. Taldi mig í góðum félagsskap. Mætti í skíðaskálann í Hveradölum. Eitt epli meðferðis. En viti menn, byrjað var að bjóða upp á kaffi og með því. Þ.e. fræðslu orkuveitunnar um virkjanir á Hellisheiði. Athyglisvert. En svo rjómakaka og kaffi! Reyndi að fara pent i þetta. Síðan keyrt upp á útsýnisstaðinn og þeir áhugasömu gengu niður 100 m sem náðu niður að bílastæðinu. Hinir keyrðu aftur niður. Að lokum gengið að einni borholu sem var að blása úr sér. Loks gengið að bíl og ekki heim. Þarna var gengið of langt (eða skammt fyrir skammt (kökuskammt)).

2. Í síðustu viku hljóp í mig púki og upp kom fimbulfambavísa heldur klúr. Þar var gengið of langt yfir velsæmismörk.

3. Í hádeginu í dag átti ég að mæta í leikfimispúl. Mætti galvaskur á bílastæði musteris líkamans eins og stendur á skilti nokkru þar inni. En viti menn, engin íþróttaföt. Algjör gleymska og utanviðssigmennska. Ekki bara afsökun. Varð að fara inn og hitta einkaþjálfarann og segjast hafa gleymst dótinu. Minnti mig á þegar ég var í gagnfræðaskóla og var að læra gagnfræði. Verð að fara aftur síðdegis.

27. maí 2005

Kremaster

Vini mínum í norðuramti, þeim er lifir skírlífi á laun, er umhugað um kremastervöðva. Margt verður mér að innblæstri, en undirritaður veit lítið um antatomíu og sálarfræði þessa líkamshluta. Þó sendist norðuramtsins limruhöfundi og lífskúnstner þessar rímur, sem má kveða með þeim hætti sem hver vill. Þær eru ekki fyrir viðkvæma.

Engin not ég af þér hef,
útí horni einn ég sef.
Kremaster og kvennaþref,
hvorugt lengi nú við tef.

Átti stundir uppi sveit,
ekki þar á konu leit.
Inn í gömlum grónum reit,
gekk þar fé og var beit.

Lögðust þau í lautu sátt,
lengi stóð en gerðist fátt.
Síðar hann þó dreymdi drátt,
dapurlega fékk það brátt.

Aftur stóð þar upp á hól,
út í vestrið hneig nú sól.
Áður haninn aftur gól,
aftur fór að kitla tól.

Mikið reyndi við master kre,
mátulega vildi hlé.
Vöðvi litli vesæll hné,
varla er nú hvorki né.

Langtum best í lífi skír,
lifa skaltu drengur hlýr.
Alltaf verður eins og nýr,
enda margt sem í þér býr.

26. maí 2005

Draumur

Í náttúrutransi þú naust að vera til,
nýöld rann upp,
mosinn var svo mjúkur.
Augum til himins skaust er skýin runnu hjá
og skyndilega straumur frá þér til miðju jarðar
vakti mig af draumi.

Álengdar ég stóð, alkenndur nýrra ljóma
og álútur sá
fléttur vafðar fimlega um steina.
Þú lást í mosa og lagðir eyra að sverði
og laumaðist í hjarta hvers er dreymir.
Aldrei gleymi ég þeim straumi.

En allir draumar í dögun aftur hverfa
sem dögg í sólu.
Það andartak er mosinn aldrei gleymir
okkar sögu sem ekki í raun er til.
Í bældri lautu er draumur minn í dvala
dálítið sem einn ég á í laumi.

24. maí 2005

Ilmreynir

Hélt uppteknum hætti á sunnudegi. Tek góð ráð alvarlega. Fór aftur út í náttúruna. Nú reið ég inn í Heiðmörk. Þar er gamall kofi upp í hlíð, hvers nafn gæti verið Jaðar. Undir brekkunni áðum við í sól og blíðu. Skuldin mín greip niður í grænu stráin og gladdist við að vera komin út í náttúruna. Ég gekk spölkorn að trjálundi og þar var skilti með upplýsingum. Ilmreynir. Þar voru ágætar upplýsingar um þetta merka tré sem var plantað við bæi til að halda burtu illum vættum. Reynir er tákn sakleysins stóð þar skrifað. Rétt mun það vera. Hægt er að nýta plöntna. Berin rauðu má nota í sultugerð og sumstaðar eru þau höfð í víngerð. Ég hef þó aldrei rekist á þann drykk. Blöðin voru einnig notuð til lækningar. Seyði af þeim var talið þvagdrífandi og styrkjandi. Nokkuð sem mætti kannski skoða betur.

Góð ráð sem gleði gefa

Fékk góð ráð um daginn úr norðuramti. Fór út í náttúruna með nesti. Fór reyndar á laugardag í stórreisu á Þingvelli, flutti hestana í bíl ásamt mörgum öðrum félagsmönnum í Fáki. Riðum frá Skógarhólum um þjóðgarðinn, moldargötur inn að Hrauntúni. Áðum þar góða stund. Þar var fararstjóri sem hafði fátt að segja, enda þarf ekki mörg orð á þessum ágæta stað. Það er svo merkilegt að þegar maður ríður um gamlar götur þingstaðarins er eins og sagan sem maður las af hálfum hug í barnaskóla, vakni til lífsins. Var þetta ekki sami stígur og Norðlendingar riðu um á leið á þingstaðinn. Fóru þeir Ásbirningar hér um, var það hér sem Þorgeir ljósvetningagoði áði, eða hvað var Jóni Arasyni og sonum hans í hug þegar þeir komu leiðina að norðan. Hverjir deildu um hvað og hvenær. Hvernig voru hátíðir þeirra á þingstaðnum.

Ilmur trjánna, moldaryk undan hófum hestanna. Hitalykt og sviti hestanna, er sá sami og fyrir þúsund árum, fimm hundruð árum. Maður teygir úr sér, verður beinn í baki og slær létt í lend hrossins sem einnig virðist skilja að ferð þessi er öðruvísi en daglegir rúntar um þingstaðinn við Elliðavatn. Í fjarska blasa við Botnsúlur, Ármannsfell og Hrafnabjörg tignarlegust. I fjarskanum er Skjaldbreið enn alhvít. Norðanvindurinn var sterkur og fundum við vel fyrir honum þegar við riðum frá Skógarhólum upp að Ármannsfelli, en þaðan í suður um þjóðgarðinn. Það lygndi. Vindurinn í bakið, skjól trjánna og moldin þyrlaðist upp. Frá Hrauntúni fórum við að Skógarkoti og áðum á ný. Þar voru krossgötur. Þar mætast leiðir Norðlendinga og Sunnlendinga. Þar bruggaði hreppstjórinn landa og seldi ferðamönnum.

Göturnar frá Skógarkoti heim að þingstaðnum liggja um moldargötur en víða er hraunið bert. Riðum geyst á köflum. Fórum síðan á milli gjánna, þar sem náttúran speglast í vatninu og tíminn stendur kyrr. Maður verður þögull á slíkum stundum. Þaðan var farið upp í Stekkjargjá og riðið inn í botn. Þar mun vera gálgaklettur. Engin sakamaður með og því engin ástæða að dvelja lengi. En hamrarnir seiða. Þar var ógæfumönnum ýtt fram af klettasnös með band um hálsinn. Enn er allur gróður guleitur. Kuldinn og þurrkurinn hafa haft sitt að segja á þessu sólríka vori, sem lítil hlýja hefur fylgt. Undir gálgakletti finnur maður kuldann, sér hann í náttúrinni og bíður. Kemur hinn dæmdi?

Þar snafsar maður sig á ágætu írsku viskí og drekkur skál hinna dæmdu. Áfram er svo haldið. Nú er ekki hægt að ríða. Teyma verður hestinn upp einstígi í botni gjárinnar. En er þar skafl sem þar að fara yfir. Hófur minn gengur mér við hlið. Hann vill ekki láta teyma sig þó í taumi sé. Er minn jafningi og telur sig hafa nokkuð um það að segja hvernig best sé að takast á við ferðina. Bíðst til að teyma mig upp, viljann vantar ekki. En saman förum við þetta og kveðjum gjána.

Upp á brún er aftur víðsýnt yfir þingstaðinn, vellirnir blasa við nokkru fjær. Nú er aftur riðið til fjalla. Yfir sléttur í átt að Skógarhólum til að loka hringnum. Jörðinn er köld og þurr. Norðanvindur í fangið. Nú er kalt en okkur heitt. Hestar viljugir heim. Ríðum yfir Öxará ofarlega. Þar drekkur Hófur vel. Fær sitt staup. Hverfum síðan jóreyk. Veit ekki hvort hesturinn er jafn blindur og ég með moldarryk í augum. Tökum okkur út úr og ríðum hratt þar sem hægt er. Í Skógarhólum er komið miðaftan. Sólin að setjast.

Sleppu hestum í stórt hólf í réttinni. Ekki er að sjá að þeir séu nýkomnir úr þriggja tíma ferð. Mikil kæti, eru eins og kálfar sem hleypt er út fyrst að vori. Það er ausið og prjónað. Stokkið og hlaupið. Kannski halda þeir að komið sé sumar og þeir lausir og liðugur það sem eftir er. Sannkallað hestapartí. Við stöndum agndofa á. Hrópum. Sjáðu þetta. Sá er kátur.

Hestarinir eru greinilega hluti íslenskrar náttúru. Af eigingirni beislum við þá og hneppum í hús. Þeir róast og fara að grípa niður í þær fáu grasnálar sem finnast í gerðinu. Þó nóg fyrir alla til að fá bragð. Við förum og fáum grillað lamb og setjumst inn í hlöðuna og borðum. Nikkan tekin upp og söngglaðir taka undir hver sem betur getur. En svo kemur að því að halda þarf heim. Gleðinni líkur. Hestar settir á vagn og haldið heim til Reykjavíkur. Hestar og menn búnir að gleðjast í náttúrunni. Verða hluti hennar enn án ný í stutta stund.

20. maí 2005

Societas invisibilis

Ósýnilega félagið mun verið stofnað á tíma Gísla biskups Magnússonar og Hálfdanar Einarssonar skólameistara á 7. tug 18. aldar, að Hólum í Hjaltadal. Það mun vera fyrsti vísir að vísindafélagi á Íslandi.

Eitt gat enn....

syngist með eurovisionlagi siggubeinteins.

En puðið heldur áfram. Varð mér til lífs að fá frí í nokkra daga eftir fyrstu vikuna, og komast til Prag. Þar reyndar nokkuð puð við að komast á hótelið sem var í hárri hlíð sem þurfti að taka með áhlaupi. Eins gott að heilsuátakið var hafið.

En áfram er puðað, barist og blótað. Árangur að byrja að skila sér, með erfiðismunum í orðsins fyllstu merkingu. Kg ekki farin mörg, en aðrar staðaltölur heldur í rétta átt. 4% fita brunnin, og 3-6 cm hér og hvar. Belti um eitt gat. En betur má ef duga skal. Áfram skal haldið þó enn sé mótivasjón ekki mikil, en þörfin þeim mun meiri.

Kílo hafa farið fá,
en fita nokkuð brunnið.
Beltið mun mig brátt um ná,
býsna vel var unnið.

Sentímetrar síga á braut,
þó sjaldan margir í einum,
Hefur mikið þessi þraut,
þrekið bætt við meinum.

Flugsund


Sund

Af KR síðunni.

Nokkrar staðreyndir um árangur Hjartar Más á árinu 2004

Hjörtur Már tryggði sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum 2004 á EM í Madrid í maí 2004 þegar hann setti Íslandsmet i 100 m flugsundi á tímanum 56.03 sek.

Hjörtur fékk Pálsbikarinn fyrir stigahæsta sund á Sundmeistaramóti Íslands sem fram fór á Kópavogi júní 2004.

Hjörtur setti 7 Íslandsmet i flugsundi á árinu 2004

Hjörtur er Íslandsmethafi í eftirtöldum greinum í 50 m laug : 100 m flugsund 55.01 sek sett á Ólympiuleikunun i Aþenu 2004 50 m flugsund 25.01 sek. sett í Barcelona 10. júní 2004 200 m flugsund 2.08.66 sek.sett á Sparisjóðsmóti Ármanns 2. júní 2004

Hjörtur var annar tveggja íþróttamanna frá Reykjavík sem tóku þátt i Ólympiuleikunum i Aþenu 2004

Hjörtur tók þátt i HM í sundi i Indianapolis i okt 2004 þar sem hann varð i 20 – 22 sæti i sinum greinum.

Hjörtur keppir á Smáþjóðaleikunum i Andorra i lok mai og stefnir á þátttöku á HM i Montreal i sumar

18. maí 2005

Ritstífla

Flögrar burtu fuglinn minn,
fæstir eftir taka.
Ef að flýgur aftur inn,
önnur kemur staka.

Önnur staka engin sást,
allir fuglar horfnir,
Ljóðið þetta líka brást,
líkt og skapanornir.

Ef að aftur eignast ljóð,
ekki má því leyna.
Rita mun á sagna slóð
síðan aftur reyna.

En ljóðið birtist langt og mjótt
líka svolítið snúið.
Nú er best að hafa hljótt,
held að það búið.

13. maí 2005

Íþróttamaður ársins


Íþróttamaður KR 2004-2005

Fréttir af fjölskyldunni. Hjörtur Már var í gærkveldi kjörinn íþróttamaður KR og skaut þá öðrum köppum félagsins, s.s. frægum knattspyrnuhetjum ref fyrir rass. Á heimasíðu KR stendur í í dag:

"Sundkappinn Hjörtur Már Reynisson var í kvöld útnefndur íþróttamaður KR fyrir árið 2004 á aðalfundi félagsins. Hjörtur Már hefur átt glæsilegan feril eftir að hann gekk til liðs við sunddeild KR og má segja að afreksferil sinn hafi hann kórónað á síðasta ári með því að vinna sér keppnisrétt á Olympíuleikunum".

Faðirinn er auðvitað afar stoltur af þessum árangri. Með þessari viðurkenningu fylgdi veglegur farandbikar, sem er gígantiskur að stærð. Hjörtur spurði víst hvort hann þyrfti að taka hann með heim, því óvíst væri hvort hægt væri að finna honum stað á heimilinu. Nú prýðir þessi risavaxni KR bikar stofuborðið.

Nú er þetta opinbert. Áfram KR.

11. maí 2005

Enn af sauðfé, Racka (rat-ska) kindur frá Ungverjalandi


Úr heimi erfðavísindanna.

Mutant of the month.

Nánar verður fjallað um horn þessarar sauðkindar, ef áhugi lesenda vaknar.

En Imre Festetics greifi í Ungverjalandi (1764−1847), mun hafa komið fram með þá kenningu að horn þessarar tegundar væru afleiðingar náttúrulögmála erfða og var þannig 47 árum á undan Mendel að koma með slíkar tillögur. Grein Festetics greifa birtist í Oekon. Neuigk. Vehandl. 1819 og var í bókasafni Brno (í Tékklandi), þar sem Mendel síðan starfaði. Engar vísbendingar eru til um að Mendel hafi lesið þessa grein, eða vísað í hana!

(úr nature genetics, apríl 2005)

9. maí 2005

Vina mìn ì heidinni

Vina mìn ì heidinni,
hvar varstu i nott.
Veistu ekki ad eg vakti
og beid thìn i làginni
med litföròttum stràum
og laek er hvìsludu
-sögu thìna i eyra mitt.

Vina mìn ì heidinni
ertu horfin à braut.
Veistu ekki ad èg vakti
og beid thìn a flötunum
horfdi à vindinn
og vellandi gauk
-rita sögu thìna i skyin.

Vina mìn ì heidinn
hvì er hörund thitt svo fölt.
Veistu ekki ad èg vakti
og beid thìn hjà fellunum
fingur mìnir snertu
fannhvìtt hörund thitt
-og nàmu sögu thìna

Vina mìn ì heidinni
hvar varstu ì nòtt.
Veistu ekki ad èg vakti
einn à milli jökla
eldur brennur ì idrum
og augu thìn skaer
-sögdu mèr söguna alla.

8. maí 2005

Kvedja

Solargeislar a skyjaborgum,
skinu a leid til Prag.
Theim er heima dvelja i hugarsorgum
i hendingu sendi thennan brag.

Lidice

Lidice,
- hvar ertu nu,
i graenum grundum
sokkin i svord

Vietnam, Chile,
Irak, Afganista,
- hvi kemur thu aftur,
Lidice

I hrafnbjorg maedur hurfu
fedur til slatrunar leiddir
Hvad brast thinum bornum.

Lidice,
-hvi bregdumst vid enn.

Tileinkad Mariu Suplickova
8. mai 2005.

Heimathra

En hugur byr a heimaslodum
hofadynur eg sakna thin.
Er foldu kyssa frair hofar
fykur ryk ur vinar slod

7. maí 2005

Vor i Prag 2005

Jeg gekk med Kafka
um kraeklott straeti
thar sem aldéflid
andlit sitt syndi.
All var kyrrt
og enginn a kreiki.
Nu er vor og vetur lidinn,
varmennin fluid Prag.

En veistu hvad bydur
vid bruna ad handan

Flugferd to Bohemiu

I jarnfugli yfir jardarhveli
jofur thadi veitingar
Oskop oll af Uruqueli
attu their til seytingar

2. maí 2005

Kaffiskuld

Mætti úr fríi í dag og sá þá að skuldastaða mín við kaffisjóðinn var ekki góð. Þegar ég svo fékk mér kaffi í morgun gat ég heyrt að kaffivélin korraði:

Kaffbaunir muldir, muldir,
í munngát góða,
greiddu þínar skuldir, skuldir,
skuldarefur ljóða,
kaffivélin þuldi þuldi,
nú þrengist skjóða.