Fékk góð ráð um daginn úr norðuramti. Fór út í náttúruna með nesti. Fór reyndar á laugardag í stórreisu á Þingvelli, flutti hestana í bíl ásamt mörgum öðrum félagsmönnum í Fáki. Riðum frá Skógarhólum um þjóðgarðinn, moldargötur inn að Hrauntúni. Áðum þar góða stund. Þar var fararstjóri sem hafði fátt að segja, enda þarf ekki mörg orð á þessum ágæta stað. Það er svo merkilegt að þegar maður ríður um gamlar götur þingstaðarins er eins og sagan sem maður las af hálfum hug í barnaskóla, vakni til lífsins. Var þetta ekki sami stígur og Norðlendingar riðu um á leið á þingstaðinn. Fóru þeir Ásbirningar hér um, var það hér sem Þorgeir ljósvetningagoði áði, eða hvað var Jóni Arasyni og sonum hans í hug þegar þeir komu leiðina að norðan. Hverjir deildu um hvað og hvenær. Hvernig voru hátíðir þeirra á þingstaðnum.
Ilmur trjánna, moldaryk undan hófum hestanna. Hitalykt og sviti hestanna, er sá sami og fyrir þúsund árum, fimm hundruð árum. Maður teygir úr sér, verður beinn í baki og slær létt í lend hrossins sem einnig virðist skilja að ferð þessi er öðruvísi en daglegir rúntar um þingstaðinn við Elliðavatn. Í fjarska blasa við Botnsúlur, Ármannsfell og Hrafnabjörg tignarlegust. I fjarskanum er Skjaldbreið enn alhvít. Norðanvindurinn var sterkur og fundum við vel fyrir honum þegar við riðum frá Skógarhólum upp að Ármannsfelli, en þaðan í suður um þjóðgarðinn. Það lygndi. Vindurinn í bakið, skjól trjánna og moldin þyrlaðist upp. Frá Hrauntúni fórum við að Skógarkoti og áðum á ný. Þar voru krossgötur. Þar mætast leiðir Norðlendinga og Sunnlendinga. Þar bruggaði hreppstjórinn landa og seldi ferðamönnum.
Göturnar frá Skógarkoti heim að þingstaðnum liggja um moldargötur en víða er hraunið bert. Riðum geyst á köflum. Fórum síðan á milli gjánna, þar sem náttúran speglast í vatninu og tíminn stendur kyrr. Maður verður þögull á slíkum stundum. Þaðan var farið upp í Stekkjargjá og riðið inn í botn. Þar mun vera gálgaklettur. Engin sakamaður með og því engin ástæða að dvelja lengi. En hamrarnir seiða. Þar var ógæfumönnum ýtt fram af klettasnös með band um hálsinn. Enn er allur gróður guleitur. Kuldinn og þurrkurinn hafa haft sitt að segja á þessu sólríka vori, sem lítil hlýja hefur fylgt. Undir gálgakletti finnur maður kuldann, sér hann í náttúrinni og bíður. Kemur hinn dæmdi?
Þar snafsar maður sig á ágætu írsku viskí og drekkur skál hinna dæmdu. Áfram er svo haldið. Nú er ekki hægt að ríða. Teyma verður hestinn upp einstígi í botni gjárinnar. En er þar skafl sem þar að fara yfir. Hófur minn gengur mér við hlið. Hann vill ekki láta teyma sig þó í taumi sé. Er minn jafningi og telur sig hafa nokkuð um það að segja hvernig best sé að takast á við ferðina. Bíðst til að teyma mig upp, viljann vantar ekki. En saman förum við þetta og kveðjum gjána.
Upp á brún er aftur víðsýnt yfir þingstaðinn, vellirnir blasa við nokkru fjær. Nú er aftur riðið til fjalla. Yfir sléttur í átt að Skógarhólum til að loka hringnum. Jörðinn er köld og þurr. Norðanvindur í fangið. Nú er kalt en okkur heitt. Hestar viljugir heim. Ríðum yfir Öxará ofarlega. Þar drekkur Hófur vel. Fær sitt staup. Hverfum síðan jóreyk. Veit ekki hvort hesturinn er jafn blindur og ég með moldarryk í augum. Tökum okkur út úr og ríðum hratt þar sem hægt er. Í Skógarhólum er komið miðaftan. Sólin að setjast.
Sleppu hestum í stórt hólf í réttinni. Ekki er að sjá að þeir séu nýkomnir úr þriggja tíma ferð. Mikil kæti, eru eins og kálfar sem hleypt er út fyrst að vori. Það er ausið og prjónað. Stokkið og hlaupið. Kannski halda þeir að komið sé sumar og þeir lausir og liðugur það sem eftir er. Sannkallað hestapartí. Við stöndum agndofa á. Hrópum. Sjáðu þetta. Sá er kátur.
Hestarinir eru greinilega hluti íslenskrar náttúru. Af eigingirni beislum við þá og hneppum í hús. Þeir róast og fara að grípa niður í þær fáu grasnálar sem finnast í gerðinu. Þó nóg fyrir alla til að fá bragð. Við förum og fáum grillað lamb og setjumst inn í hlöðuna og borðum. Nikkan tekin upp og söngglaðir taka undir hver sem betur getur. En svo kemur að því að halda þarf heim. Gleðinni líkur. Hestar settir á vagn og haldið heim til Reykjavíkur. Hestar og menn búnir að gleðjast í náttúrunni. Verða hluti hennar enn án ný í stutta stund.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli