31. júlí 2006

Heimskringla

Snemma um vorið fór Ólafur konungur austur til Konungahellu til stefnu móti Sigríði drottningu. En er þau fundust þá töluðu þau það mál er rætt hafði verið um veturinn, að þau mundu gera samgang sinn, og fór það mál allt líklega. Þá mælti Ólafur konungur að Sigríður skyldi taka skírn og rétta trú. Hún segir svo: "Ekki mun eg ganga af trú þeirri er eg hefi fyrr haft og frændur mínir fyrir mér. Mun eg og ekki að því telja, þótt þú trúir á þann guð er þér líkar." Þá varð Ólafur konungur reiður mjög og mælti brálega: "Hví mun eg vilja eiga þig hundheiðna?" - og laust andlit hennar með glófa sínum er hann hélt á. Stóð hann upp síðan og bæði þau. Þá mælti Sigríður: "Þetta mætti verða vel þinn bani." Síðan skildu þau.

Snorri Sturluson: Ólafs saga Tryggvasonar - Heimskringla

28. júlí 2006

Ístöðuleysi

Ég mun hafa týnt öðru ístaðinu á slóðum Æra-Tobba.

25. júlí 2006

Andlát

Þá hefur hún Ella frænka mín kvatt þennan heim. Blessuð sé minning hennar.

Skógarnes og Æri-Tobbi

Rakst á að samferðarmaður minn úr ferðinni bloggar líka reglulega og heldur úti daglegum pistlum. Þar má líka lesa um ferðina okkar á Löngufjörur (http://www.jonas.is/); hann er enn á ferðalagi með hópnum, en ég þurfti að druslast heim í vinnu. Næ þó að ríða með þeim á laugardaginn að Búðum á Snæfellsnesi.

Að kvöldi fimmta dags ferðalagsins. Við komum heim að Skógarnesi og skildum hestana eftir í haga hjá Trausta bónda og hans fólki. Í Skógarnesi bjó á 18 öld Æri-Tobbi (Þorbjörn Þórðarsson f.ca 1700) og hér hef ég fundið til nokkrar vísur eftir hann:







Vísur eftir Æra-Tobba, :


Veit ég víst hvar vaðið er,
vil þó ekki segja þér.
Fram af eyraroddanum,
undan svarta bakkanum.
---
Inna vildi ég með orðum frá
en ekki spé.
Hæsings vindur og hæsings hlé
æstu maður og he he.

Happra vappra vigra kló
ég dró hann upp í miðjum sjó.
Hikkjum bikkjum hræfra lax
þótti þér hann ekki vera til gagns.

Loppu hroppu lyppu ver
lastra klastra styður.
Hoppu goppu hippu ver,
hann datt þarna niður.

---
Þambara vambara þeysingsprettir
Því eru hér svona margir kettir?
Argara gargara yndisgrænum
Illt er að hafa þá marga á bænum.
---
Argara-sargara úrarum,
aumt er að búa í Flóanum.
Þambara-vambara þeysum skrið,
þó er enn verra Ölfusið.
---
Umbrum brumbur og ambrum bramb og axindæla.
Skrúfara rjúfara skrokk í væla.
Skrattinn má þeim dönsku hæla.

---
Ævin teygist eins og spjör.
Yndislok í heimi
hægt er að þreyja, haddavör.
Hvað á að segja gaddabör?
---
Umbrum bumbrum hrævra hross
hér eru menn á eftir oss.
Umbrum bumbrum hrævra hre
hverjir ætli þetta sé.

Haffjarðarey

Frá Gömlueyri héldum við að Stóra Hrauni þar sem áður bjó Árni Þórarinsson, prófastur. Þorbergur Þórðarson skráði ævisögu hans, Hjá vondu fólki. Kortið sýnir leið okkar frá Snorrastöðum í austri, yfir Saltnesál, eftir Gömlueyri að Stóra-Hrauni. Þaðan út í Haffjarðareyjar og að Skógarnesi.

En fimmta daginn var haldið yfir Haffjarðará á föstu og góðu vaði og héldum við út í Prestaker og hittum þar Trausta bónda í Skógarnesi sem var leiðsögumaður okkar þennan dag um eyjar út í Haffirði. Í Haffjarðarey var kirkjustaður, katólsk kirkja fram á miðja 16. öld og búseta fram til 1714-1729. Vegna sjávargangs lagðist þessi byggð niður. Við riðum frá Prestaskeri út fyrir (í austur) Suðurey og svo til vestur að Útey og áðum loks í Bæjarey. Þaðan var hlemmiskeið eftir fjörunun heim í Skógarnes.

Þar bjó eitt sinn Æri-Tobbi, sá er kvað þegar hann var spurður til vegar um leiðina á Löngufjörum:
Smátt vill ganga smíðið á
í smiðjunni þó ég glamri.
Þið skulið stefna Eldborg á,
undir Þórishamri.

Þar drukknuðu allir ferðamennirnir undir Þórishamri, sem blasti við okkur þegar við riðum í átt að Skógarnesi og kvað Trausti bóndi vísuna fyrir okkur til varnaðar. Enda tókum við land á réttum stað.

24. júlí 2006

Gamlaeyri og Saltnesáll

Við héldum áfram að fylgja leið Þórðar kakala á fjórða degi ferðarinnar. Nú var haldið frá Snorrastöðum sem standa í skjóli Eldborgar á Mýrum út á Löngufjörur. Fyrsta meiriháttar vatnsfalli er nú á leið okkar. Saltnesáll sem kemur úr lindum í Eldborgarhrauni og er svo breytilegur hverju sinni að leita þarf vaðs á honum. Þórður hefur hinsvegar sullast á sundreið yfir hann.

Í þetta sinn var stórstraumsfjara og lítið í álnum og hann enginn fyrirstaða. Héldum við síðan beint út á Gömlueyri í glampandi sól. Gamlaeyri var áður þekktur rekastaður og mörg skip hafa strandað þar á síðustu öld, einkum erlend fiskiskip. Eyrin er 5 km löng og þar þeyttust hestar áfram. Framundan blasti við Snæfellsnesið og jökullinn skartaði sínu fegursta.

Stóðið fylgdi vel og hélt saman. Við í forreiðinni náðu talsverðu forskoti og urðum að hægja á hestum okkar sem höfðu spennst upp í vilja og gleði að þeytast um sandana. Sumir réðu sér ekki fyrir kæti og brugðu á leik.




Aðrir kusu að ríða í eigin heimi í fjöruborðinu.

23. júlí 2006

Á slóðum Þórðar kakala

Glói og unghesturinn Greifi bíða ferðar. Glói sá ljósfexti og blesótti er með stærstu hestum landsins. Greifi sá móálótti var í sinni fyrstu ferð og fékk að hlaupa frjáls með.

Á þriðja degi fórum við Akraós yfir Hítará og síðan út í Kaldárós, þar sem Þórður Kakali komst naumlega undan Kolbeini unga út á Löngufjörur, þannig að Kolbeinn sat eftir á aðfallinu. Kolbeinn hafði frétt af 200 manna liði Þórðar í Skálholti og hugðist sitja fyrir honum í Borgarfirði. Hann safnaði 700 manna liði í Skagafirði og til að fara yfir Tvídægru um hávetur og hreppti stórhríð og lenti í hrakningum og missti marga menn. Þórður slapp undan honum við Hvítá. Á leiðinni til Helgafells við Stykkishólm riðum menn Þórðar einhesta um 200 km leið á rúmlega 30 klst, enda um líf og dauða að tefla.

Við fórum hægar yfir. Hítará var ekki mikil fyrirstaða en heldur meira vatn í Kaldárósi. Stóðið hafði nú ekki aðhald af girðingum en lestaðist vel. Riðið var hratt yfir sanda heim að Snorrastöðum.

22. júlí 2006

Stóðið lestar sig

Sváfum út á öðrum degi, vorum lengi að í gærkveldi og hópurinn að kynnast. Fór að sofa um kl 3 eftir góða ferð í Hjörsey. Í dag var farið af stað um hádegi og riðið með vegi frá Álftárósi að Stóra-Kálfalæk. Í gær teymingaferð en í dag allt stóðið tekið og því mikilvægt að hafa eitthvað aðhald af girðingum eða vegum til að láta það lesta sig og láta hestan venjast hver öðrum. Leiðin var stutt, rétt um 20 km. Við áðum á nokkrum stöðum m.a. við Akra á Mýrum (sjá mynd) og komum svo hestunum fyrir í hólfi hjá Sigurði á Stóra-Kálfalæk. Allt gekk þetta að óskum.

Hófur minn tilbúinn til brottfarar. Hér fylgist hann athugull með stóðinu í girðingunni og bíður spenntur eftir næsta áfanga. Hann eflist með hverju árinu sem líður. Hann er góður ferðafélagi. Svakalega traustur, yfirferðarmikill og viljugur.

21. júlí 2006

Hjörsey

Í dag föstudaginn 21. júlí hófst hestaferðin á Löngufjörur. Flest andlit ferðafélaganna voru vel kunnuguleg úr fyrri ferðum. Ferðin hófst við Álftarárós á Mýrum undir leiðsögn Einars bónda. Hjörsey og Hjörseyrarsandur eru eyjar sem eru landfastar á fjöru. Við urðum því að sæta sjávarföllum og hófst ferðin kl 21. Þetta varð því sannkölluð miðnæturreið. Hjörsey var kirkjujörð, flatlend og grasgefin. Útræði var gott og mikill reki. Skipströnd voru tíð. Grunnpunktur landmælinga við Íslands var til langs tíma í Hjörsey. Á myndinni er Skuld sú ljósfexta og Flygill sá dreyrrauði.


Við vorum komin í hnakkinn, þrettán saman ásamt bónda og fylgdarliði hans á tilsettum tíma og riðum í kvöldkyrrðinni út að fjöru og biðum þar skamma stund og héldum svo út á förurnar og var talsvert busl. Á þessari leið þurftum við að teyma hesta til skiptanna og reið ég Skuld og teymdi Glóa og Hóf. Gekk það eins og í sögu. Riðum við út í Hjörsey og á söndunum var hleypt. Fórum hring um eyna og áðum þar góða stund. Flygill missti skeifu og þrufti að járna hann upp á nýtt. Á heimleið var farið að falla að og vatn orðið nokkru dýpra og vel upp fyrir kvið á hestum. Túrnum lauk um kl 1 um nóttina.

Á neðri myndinni er leiðin frá Álftarósi út í Hjörsey sýnd og einnig leiðin frá Álftárósi fram hjá Ökrum í átt að Stóra-Kálfalæk sýnd.

18. júlí 2006

Stund milli stríða

Þá er búið að þjálfa blessaða hestana. Þetta ætlar að verða ótrúlega mikið hestasumar. Búinn að vera meira eða minna á hestbaki eða hestastússi síðan 7. júlí. Síðastliðin helgi var votviðra- og vindasöm og þá daga var riðið út um miðnætti, þegar vind lægði og stytti upp. Þess á milli hef ég verið að glugga í bókina Íslensk ritsnilld.

Á sunnudaginn tókst mér að teyma og hafði þrjá til reiðar. Það var ótrúlega skemmtilegt og ég fílaði það í botn eins og sagt er. Mér er að fara fram held ég barasta og hestarnir eru nú komnir í ágætisform og tilbúnir í Löngufjöruferðina á föstudaginn. Þeir fá hvíld þangað til. Ætli ég dundi ekki við að yfirfara reiðtygi og liggi í sólbaði og lesi eitthvað mér til skemmtunar. Kannski ég leggi í að halda áfram með tamningar á móálótta klárnum mínum, honum Greifa. Hann á að fá að fara með í ferðina. Hlaupa frjáls í stóðinu.

17. júlí 2006

Vængir

Ég: Óli hefurðu tekið eftir því hvað dúfurnar eru með litla hausa. Heldurðu að þær séu ekki með neinn heila?

Óli: Nei þær eru með vængi. Til hvers ættu þær að vera með heila?

Ég: Meinarðu að það sé betra að vera með vængi en heila?

Óli: Ég held að það væri best að vera með vængi á heilanum.


Einar Már Guðmundsson: Vængjasláttur í þakrennum.

14. júlí 2006

14. júlí þankar

það viðrar varla til útivistar í dag við Rangárbakka. Fer samt kannski austur í reiðtúr þegar líður á. Í dag er eiginlega hvíldardagur og tími vangaveltna og leikfimi líkama og hugar.

Í dag er þjóðhátíðardagur Frakka. Minnir mig á það að ég þarf að panta einhvern tímann gistingu, etv í haust á Hótel des Marronniers, 21 rue Jakob í 6. hverfi. Herbergi á efstu hæð með útsýni yfir rauðbrúnu þökin yfir að St-Germain-des-Pres. Morgunverður í litla bakgarðinum, cafe latte úr skálum en ekki bollum. Flóuð mjólk og franskt kaffi með croissants. Um kvöldið borð hjá Claude Terrail (sem er reyndar nýfallinn frá) á Tour d'Argent á Qui de la Tournelle við Signubakka. Þar bíður Canard au sang (blóðönd) ein þekktasti réttur Parísar.

Máltíðir á litlu útiveitingahúsunum með köflóttu dúkunum og kertaljósunum við þvergötu rue Jakob, t.d. rue des Saint Peres eða rue St. Benoit. Kaffi á Deux Magots og ostrur á Flore sem eru steinsnar í burtu. Ráfa um bókabúðir og gallerí á rue Jakob og rue St-André-des Arts og líða yfir Signubrúna Ponts des Arts Louvre safninu.

Halda síðan suður að Eyjahafi í haustsól í nokkra daga, - með hugmyndir einar að vopni.

13. júlí 2006

Hjá fljótinu

Þar sem ég bý núna í Mýrarsundi við Kaldbak á Rangárbökkum ytri, varð mér hugsað til eins af uppáhaldsljóðum mínum, þegar ég horfði út yfir Rangána í dag. Áður hafði ég risið árla úr rekkju og hafði lokið við tvo langa og harða reiðtúra, enda hrossin að komast í æfingu.

Já ég sat og horfði út um gluggann á tjaldvagninum, og það snarkaði í Tattoria gasofninum, þegar ég rifjaði upp ljóð Hannesar Péturssonar frá 1953; Hjá fljótinu:

Þau stóðu þar sem þaut með björtum lit
hið þunga fljót og horfðu í vatnsins strengi
og heyrðu að sunnan sumarvinda þyt
um síki og engi.

Og armlög þeirra minntu á fyrsta fund
þó fölur beygur hægt um sviðið gengi
er laut hann höfði og sagði í sama mund:
Veiztu hvað gleðin tefur tæpa stund
en treginn lengi.

12. júlí 2006

Meira af náttúru

Það ætlar að rætast úr sumrinu, þó veðrið sé íslenskt. Alla daga ríð ég út. Er í þjálfunarbúðum. Kom tjaldvagninum fyrir í Rangárþingi ytra, sl föstudag og járnaði (jæja eða lét járna) hestana fimm. Bý því nú á bökkum Ytri-Rangár. Hef hestana þar á beit hjá sóma hjónum. Þarf að þjálfa gæðingana fyrir stóru ferðina í lok mánaðarins. Kemst reyndar bara í hana hálfa, en hvað um það. Allir þessir útreiðadagar bæta það upp. Hef reyndar bara sofið tvær nætur í vagninum, en hann er notaður sem bækistöð engu að síður og þar má hita tevatn á milli ferða. Nærist annars mest á olívum þessa daganna. Fékk uppskriftina hjá vinkonu minni, sem býr í næsta tjaldvagni. Þeirri sömu á gaf mér uppskriftina að grafinni gæs. Það er varla að ég leggi í að birta þessa. En mæli með henni:

Margar olívur (skolið saltvatn vel af)
1 dl. olía
4 mtsk balsamik edik
4 lauf hvítlaukur (má vera meira)
1 tsk oregano
salt og pipar eftir smekk.

Öllu blandað vel saman og látið marinerast (og í friði; sem er erfitt), þar til tilbúið.

Sharp medicine

The English navigator and courtier Sir Walter Raleigh (1552-1618), about to be beheaded, called for the axe and felt its edge. He said:

"It is a sharp medicine, but this is that which cures all sorrows."


Úr bókinni: Weird Wills & Eccentric Last Wishes.

7. júlí 2006

Náttúran

Náttúran er ótrúlega óútreiknanleg í sínum náttúrulögmálum.

Í dag geng út í náttúruna. Ætla að hitta besta félaga minn og trúnaðarvin. Hann Hóf Páfason, - gæðing. Hann tekur öllu því sem ég segi honum með heimspekilegri ró og yfirvegun. Ég ætla að færa honum nýja skó.

Áhrifakonur

Konur hafa áhrif á mig.

Svo á ég "litla" frænku sem er áhrifa kona. Hún er nr. 2 yfir áhrifamestu konur landsins skv. nýtútkomnu kvennablaði Frjálsrar verslunar. Það hlýtur að vera af því hún hafði svo góðar fyrirmyndir /:-)

Annars skylst mér að kvennablaðið byrji á umfjöllun um kalla. Skrýtinn þessi heimur.

5. júlí 2006

Veislugestur númer 27

Yngri sonurinn fékk hlutverk í kvikmynd.

Múrarnir

Stundum verða á vegi manns háir múrar, suma hverja reisir maður sjálfur. Kannski flesta. Oft finnst manni þeir óyfirstíganlegir. Svo háir að fuglin fljúgjandi kemst ekki einu sinni yfir þá. Var það ekki þannig í ævintýrunum.

Í dag tókst mér að klifra yfir eða brjóta niður einn múr, - kannski tvo af mínum eigin.

Tókst að hlaupa (skokka) í eina klukkustund samfellt. Það hljómar kannski ekki svo mikið afrek þegar margir vinir mínir hlaupa maraþon, mörg maraþon, laugavegi og langleiðir. En fyrir mig var þetta nokkur áfangi. Ég fékk ekki hjartaáfall, ég hneig ekki niður í aðsvifi og komst alla leið. Náði markinu. Eina sem var, að ég var með hjartslátt. Þægilegan hjartslátt. Fann þegar á leið hvernig vinstri fóturinn á mér varð bara, - svei mér þá léttari.

Svona er það með múrana, - suma reisir maður sjálfur. Suma fær maður óumbeðna hjálp við að reisa og oft án þess að taka eftir múrsteinunum sem hlaðast upp einn af öðrum allt í kring. Stundum hleður maður múra til að halda öðrum úti, en þá gleymir maður oft að um leið lokar maður sig inni.

Í kvöld líður mér vel, - með eymsli á réttum stöðum.

4. júlí 2006

Dularfull skilaboð

Í gær fékk ég dulafull skilaboð frá vini mínu. Hann sendir oft stutt skeyti í tölvupósti, oftast eitthvað hnittið sem sem hann rekst á og deilir með vinum sínum. Í dag kom póstur, alvöru póstur. Með póstberanum. Stutt dularfull skilaboð fylgdu með, - ráðgáta en hann hefur einstaka unun af slíku.

Dear Icelanders ......
I hope that you will not think I am generous until you have heard the enclosed CD. I have not yet heard my copy nor have I heard my spare copy. After 24 years I own it! So listen ..... and wonder why!
Spent I week alone in Prague at ........ very tiring, good food, .... and stayed in Mariott Hotel. Exhausting. Smelly. Touristy. And saw three females of my height!

Wishes (Best).
Sign


Nú veit ég í hvað sumarfríið fer hjá mér. Ráða dulmál vinar míns. Rýna í skeytið. Hlusta á 10 lög á 24 ára gamalli plötu sem nú hefur verið gefin út á CD diski. Já og lesa blaðsíðuna úr Guardian sem hann vafði utan um diskinn. Það er aldrei að vita hvar vísbendingar leynast hjá honum.

3. júlí 2006

Versa est

Versa est in luctum cithara mea,
et organum meum in vocem flentium.
Parce mihi, Domine, nihil enim sunt dies mei.

Jobsbók 30:31

Gígja mín er orðin að gráti,
og hjarðpípa mín að harmakveini.
Miskuna mér, Drottinn,
því dagar mínir eru einskis nýtir.

Profundis

De profundis clamavi ad te,

Úr djúpinu ákalla ég þig.

Davíðssálmur 130

Infelix ego með þýð.

Infelix ego, omnium auxilio destitutus,
qui caelum terramque offendi.
Quo ibo? Quo me vertam?
Ad quem confugiam?

(G. Savonarola 1452-98)

Vansæll er ég og hjálparvana,
því ég hef brotið gegn bæði himni og jörð.
Hvert get ég farið? Hvert get ég leitað?
Hvert get ég flúið

(þýð. Árni Heimir Ingólfsson)

2. júlí 2006

Hví sérðu ekki bálið

með ljóðum hef ég
talað við þig í einrúmi
án nærveru þinnar

hvar væru þau
án leiftrandi blossa
sem tilvist þín

kveikir í huga mér