25. júlí 2006

Haffjarðarey

Frá Gömlueyri héldum við að Stóra Hrauni þar sem áður bjó Árni Þórarinsson, prófastur. Þorbergur Þórðarson skráði ævisögu hans, Hjá vondu fólki. Kortið sýnir leið okkar frá Snorrastöðum í austri, yfir Saltnesál, eftir Gömlueyri að Stóra-Hrauni. Þaðan út í Haffjarðareyjar og að Skógarnesi.

En fimmta daginn var haldið yfir Haffjarðará á föstu og góðu vaði og héldum við út í Prestaker og hittum þar Trausta bónda í Skógarnesi sem var leiðsögumaður okkar þennan dag um eyjar út í Haffirði. Í Haffjarðarey var kirkjustaður, katólsk kirkja fram á miðja 16. öld og búseta fram til 1714-1729. Vegna sjávargangs lagðist þessi byggð niður. Við riðum frá Prestaskeri út fyrir (í austur) Suðurey og svo til vestur að Útey og áðum loks í Bæjarey. Þaðan var hlemmiskeið eftir fjörunun heim í Skógarnes.

Þar bjó eitt sinn Æri-Tobbi, sá er kvað þegar hann var spurður til vegar um leiðina á Löngufjörum:
Smátt vill ganga smíðið á
í smiðjunni þó ég glamri.
Þið skulið stefna Eldborg á,
undir Þórishamri.

Þar drukknuðu allir ferðamennirnir undir Þórishamri, sem blasti við okkur þegar við riðum í átt að Skógarnesi og kvað Trausti bóndi vísuna fyrir okkur til varnaðar. Enda tókum við land á réttum stað.

Engin ummæli: