En fimmta daginn var haldið yfir Haffjarðará á föstu og góðu vaði og héldum við út í Prestaker og hittum þar Trausta bónda í Skógarnesi sem var leiðsögumaður okkar þennan dag um eyjar út í Haffirði. Í Haffjarðarey var kirkjustaður, katólsk kirkja fram á miðja 16. öld og búseta fram til 1714-1729. Vegna sjávargangs lagðist þessi byggð niður. Við riðum frá Prestaskeri út fyrir (í austur) Suðurey og svo til vestur að Útey og áðum loks í Bæjarey. Þaðan var hlemmiskeið eftir fjörunun heim í Skógarnes.
Þar bjó eitt sinn Æri-Tobbi, sá er kvað þegar hann var spurður til vegar um leiðina á Löngufjörum:
Smátt vill ganga smíðið á
í smiðjunni þó ég glamri.
Þið skulið stefna Eldborg á,
undir Þórishamri.
Þar drukknuðu allir ferðamennirnir undir Þórishamri, sem blasti við okkur þegar við riðum í átt að Skógarnesi og kvað Trausti bóndi vísuna fyrir okkur til varnaðar. Enda tókum við land á réttum stað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli