21. desember 2007

19. desember 2007

Ætla á siglinganámskeið á nýju ári.

Að fást við mey í faðmlögum,
fák að teygja á kostunum,
beita fleyi í byrsældum,
best má segja af heimsgæðum.

(höf. óþekktur. Vísnasafn Sigurjóns Sigtryggssonar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga)

18. desember 2007

Hús í Ljósheimum

Þá eru komnar teikningar af húsi sem mig langar að byggja á landskikanum mínum, innan um trjáræktina sem ég hef verið að stunda við Sólheimabraut í Grímsnesi.

Aðventa - endurnýting á færslu - ljóðabreyting

Ærir sýnir á sér mýkri hliðina þessa daganna eins og bent hefur verið á og fannst að nú væri tími til kominn að yrkja jólasálm og er óskað eftir tillögum að lagi sem hægt er að syngja hann við.

Blessuð jólin börnum lýsa
björt og skær um vetrarnótt
Jólastjarnan veginn vísar
verður brátt í hugum rótt.

Hátt við syngjum sálm um jólin
sefast hugur enn á ný
Hrífumst öll um heimsins bólin
hjartagæskan birtist hlý.

Nú mun aftur birtast bráðum
bjarmi ljóss á himni hátt
Okkar ósk er öll við þráðum
ekkert leika mun oss grátt.

Líður mynd að ljúfum drengi
er lagður var í jötu lágt
Lifnar stundin logar lengi
um líf með Kristi syngjum dátt.

Kveðjum drunga og daufan huga
dveljum lengi vinum hjá
Æsku minnumst, ekkert bugar
öll við gleðjumst jólum á.

17. desember 2007

Úr flóðinu

...illt er að hafa tvær hendur og engan til að faðma.

(Jón Kalmann Stefánsson. Himnaríki og helvíti 2007)

14. desember 2007

Veðurvísur

Um fátt er meira talað en veðurhaminn sem beljar úti. Bendi áhugamönnum um vísnagerð á vísnavef skagfirðinga http://skjalasafn.skagafjordur.is/lausavisur/visur.php?ID=9 og læt eina vísu fylgja með:

Allt er kalt og allt er vott,
alltaf regnið streymir.
Enn um sumars einhvern vott
alla menn þó dreymir.

höf: Jórunn Ólafsdóttir frá Sörlastöðum f.1920 - d.2000

11. desember 2007

Hugdirfska


Fyrir réttum þrjátíu árum fórum við í fallhlífarstökk, hinir hugprúðu drengir.
(myndin er nöppuð frá Kötu)

10. desember 2007

Frumflutningur

Sálmurinn hér á undan var frumfluttur við lagið "bráðum koma blessuð jólin" eins og bróðir hafði stungið upp á, á laufabrauðsvöku laugardaginn 8. des. Tókst það vel. Ingólfur vinur minn söng forsöngin með sinni einstöku tenórrödd, en í viðlagi tóku hinir undir.

Skornar voru rúmlega 80 kökur sumar afburða fallegar og ekki síst þær sem yngsta kynslóðin vann. Einstaklega gaman að fylgjast með þeim sem eru undir 10 ára þegar þau uppgötva frelsi til að gera það sem þeim býr í brjósti og þurfa ekki endilega að fylgja hefðinni.

Í þetta sinn slapp ég vel frá laufabrauðsgerðinni því í kotbúskap mínum kom í ljós að ég átti hvorki dl-mál né vigt og í stað þess að hræra í deig heima eins og hefðin bauð, þá hafði ég með mér það sem til þurfti og mætti tímalega. Var þá eins komið fyrir öðrum og engin með eigið deig og því ákveðið að hræra í fyrir alla á einu bretti. Var sæst á að nota Garðshornsuppskriftina úr Ólafsfirði, -með kúmeni. Það var vel við hæfi, -þó ég muni sakna uppskrifar minnar fyrrverandi.

Að venju var mikið um skemmtiatriði og var yngri kynslóðin í aðalhlutverki. Bæði var sungið og dansað. Sýnd balletspor. Börnin sungu öll erindi jólasveinavísnanna og hinir eldri tóku hefðbundin jólalög. Lesin var jólasaga og sagðar kímnisögur af samferðafólki. Allt í anda jólanna.

Sannkölluð litlu jól.

4. desember 2007

Laufabrauð


Nú er tími laufabrauðs. Ég er þegar búinn að sinna útskurði og steikingu með systur og hennar afkvæmum, en fyrir dyrum stendur hinn árlegi laufabrauðsdagur með vinum mínum. Nú þarf ég að útbúa deigið sjálfur og við það vex vegsemd mín takist vel til. Þessa uppskrift fékk ég frá minni fyrrverandi:


500 g hveiti (ég miða oft við að 1 kg sé 16-18 dl, nota heldur minna og bæta frekar við ef deigið er of blautt, t.d. þegar það er flatt út)
50 g smjörlíki (ég nota orðið næstum því eingöngu smjör)
15 sykur (tæp matskeið)
salt
1 tsk lyftiduft
250 g flóuð mjólk (þarf örlítið meira, ég hef skrifað hjá mér að ég hafi notað 7 dl í 1 kg af hveiti)

Þurrefnin sett í skál. Mjólkin er flóuð, þ.e. hituð og suða látin koma upp. Smjörið er brætt í mjólkinni (mjólk og smjör sett í pott og á hellu, beðið þar til sýður, þá tekið af hellunni, smjörið bráðnar í mjólkinni) og hellt sjóðandi saman við þurrefnin. Blandað saman og hnoðað örlítið. Þarf að passa að hnoða ekki of mikið, þá er hætta á að brauðið verði seigt. Flatt þunnt út.

Þegar flatt út: ég geymi deigið undir rökum klút til að það þorni ekki of mikið. Síðan tek ég lítinn bita, nota afskurðinn úr fyrri köku, blanda létt saman, bý til kúlu í lófanum og hnoða út með hveiti. Það er mjög mikilvægt að hafa hveiti "undir og yfir" til að deigið festist hvorki við borð né kökukefli. Skorið til undan diski.
Gangi þér vel ;-))


Bráðum fer ég að stunda hannyrðir.

3. desember 2007

Aðventutónleikar

Fór á jólatónleika Móttettukórs Hallgrímskirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu. Hitti þar unga vinkonu mína sem faðmaði mig að sér lengi og vel. Sýndi mér síðan að hún hefði misst tvær tvennur í neðri góm.