10. desember 2007

Frumflutningur

Sálmurinn hér á undan var frumfluttur við lagið "bráðum koma blessuð jólin" eins og bróðir hafði stungið upp á, á laufabrauðsvöku laugardaginn 8. des. Tókst það vel. Ingólfur vinur minn söng forsöngin með sinni einstöku tenórrödd, en í viðlagi tóku hinir undir.

Skornar voru rúmlega 80 kökur sumar afburða fallegar og ekki síst þær sem yngsta kynslóðin vann. Einstaklega gaman að fylgjast með þeim sem eru undir 10 ára þegar þau uppgötva frelsi til að gera það sem þeim býr í brjósti og þurfa ekki endilega að fylgja hefðinni.

Í þetta sinn slapp ég vel frá laufabrauðsgerðinni því í kotbúskap mínum kom í ljós að ég átti hvorki dl-mál né vigt og í stað þess að hræra í deig heima eins og hefðin bauð, þá hafði ég með mér það sem til þurfti og mætti tímalega. Var þá eins komið fyrir öðrum og engin með eigið deig og því ákveðið að hræra í fyrir alla á einu bretti. Var sæst á að nota Garðshornsuppskriftina úr Ólafsfirði, -með kúmeni. Það var vel við hæfi, -þó ég muni sakna uppskrifar minnar fyrrverandi.

Að venju var mikið um skemmtiatriði og var yngri kynslóðin í aðalhlutverki. Bæði var sungið og dansað. Sýnd balletspor. Börnin sungu öll erindi jólasveinavísnanna og hinir eldri tóku hefðbundin jólalög. Lesin var jólasaga og sagðar kímnisögur af samferðafólki. Allt í anda jólanna.

Sannkölluð litlu jól.

Engin ummæli: