4. desember 2007

Laufabrauð


Nú er tími laufabrauðs. Ég er þegar búinn að sinna útskurði og steikingu með systur og hennar afkvæmum, en fyrir dyrum stendur hinn árlegi laufabrauðsdagur með vinum mínum. Nú þarf ég að útbúa deigið sjálfur og við það vex vegsemd mín takist vel til. Þessa uppskrift fékk ég frá minni fyrrverandi:


500 g hveiti (ég miða oft við að 1 kg sé 16-18 dl, nota heldur minna og bæta frekar við ef deigið er of blautt, t.d. þegar það er flatt út)
50 g smjörlíki (ég nota orðið næstum því eingöngu smjör)
15 sykur (tæp matskeið)
salt
1 tsk lyftiduft
250 g flóuð mjólk (þarf örlítið meira, ég hef skrifað hjá mér að ég hafi notað 7 dl í 1 kg af hveiti)

Þurrefnin sett í skál. Mjólkin er flóuð, þ.e. hituð og suða látin koma upp. Smjörið er brætt í mjólkinni (mjólk og smjör sett í pott og á hellu, beðið þar til sýður, þá tekið af hellunni, smjörið bráðnar í mjólkinni) og hellt sjóðandi saman við þurrefnin. Blandað saman og hnoðað örlítið. Þarf að passa að hnoða ekki of mikið, þá er hætta á að brauðið verði seigt. Flatt þunnt út.

Þegar flatt út: ég geymi deigið undir rökum klút til að það þorni ekki of mikið. Síðan tek ég lítinn bita, nota afskurðinn úr fyrri köku, blanda létt saman, bý til kúlu í lófanum og hnoða út með hveiti. Það er mjög mikilvægt að hafa hveiti "undir og yfir" til að deigið festist hvorki við borð né kökukefli. Skorið til undan diski.
Gangi þér vel ;-))


Bráðum fer ég að stunda hannyrðir.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Menn greinilega mýkjast með aldrinum.
Stjáni

Nafnlaus sagði...

Þetta segir Stjáni vegna þess að hann var að skoða gamla mynd af Aeri á leið í sitt fyrsta fallhlífarstökk! Þá voru menn ekki í laufabrauðshugleiðingum. kata

Nafnlaus sagði...

Ærir hefði etv betur haldið sig við hannyrðir og laufabrauð fremur en láta glepast í slík glæfrastökk. Enda varð það aldrei nema eitt og var þar ekki hugleysi um að kenna heldur allt öðru. En af slíkum hreystiskap hafa verið sagðar margar sögur og miklar og allar sannar!