1.
Tristran háði bardagann
við heiðinn hund.
Þar hlaut margur blóðuga und
af þeirra fund.
- Þeim var ekki skapað nema að skilja.
2.
Þá var hann á skildi borinn,
sá ungi mann.
Margur bauð sinn læknarinn
að græða hann.
3.
Hann vill ekki græðslu þiggja,
hann sór við trú:
"utan hún Ísodd græði mig
sú bjarta frú."
4.
Tristran sendi sína menn
og skeiður þrjár:
"Segið henni björtu Ísodd
eg sé sár."
5.
Tristran sendi sína menn
og skeiður fimm:
"Segið henni björtu Ísödd
hún komi á fundinn minn.
6.
Svo skal búa hennar ferð
sem segi eg frá:
Blá skulu segl á skipunum
sem hún er á."
7.
Fram komu þeir sendimenn
og sögðu frá:
"Tristran ungi vildi yðar
fundi ná."
8.
Ísodd sig í höllina gekk
fyrir kónginn sinn:
"Villtu ekki láta græða hann Tristran,
frænda þinn?"
9.
Til orða tók hann kóngurinn
og varð við reiður:
"Hann þarf ekki græðslu við,
því að hann er feigur."
10.
Svo var henni björtu Ísodd
mjúkt til máls,
báðar lagði hún hendurnar
um kóngsins háls.
11.
"Gjarnan vilda eg láta græða Tristran
af sárri und,
ef eg vissi að þú kæmir heil aftur
á minn fund.
12.
"Guð má ráða afturkomu"
sagði frú,
"ei mun eg í þessari ferð
gleyma minni trú"
13.
Kastaði hún yfir sig safalaskinni
með sorg og sút.
Síðan gekk hin ríka frú
á bryggjur út.
14.
"Svo skal búa um mín ferð
sem segi eg frá.
Blá skulu segl á skipinu,
sem eg er á."
15.
Vindið upp segl við húna.
sem frúin bauð.
Hitta vill hún Tristran unga
í sinni nauð.
16.
Til orða tók hún svarta Ísodd
að hún gekk inn:
"Svört eru segl á skipunum,
sem hér leggja inn."
17.
Til orða tók hún svarta Ísodd
í annað sinn:
"Svört eru segl á skipunum,
sem hér leggja inn."
18.
Til orða tók hún svarta Ísodd
hún sagði frá:
"Svört eru segl á skipunum,
en ekki blá."
19.
Tristran snerist til veggjar
svo hart hann stakk:
heyra mátti mílur þrjár,
hans hjartað sprakk.
20.
Lenda þau skipunum
við svartan sand,
báru hana björtu Ísodd
fyrst á land.
21.
Löng var leiðin,
en gatan var breið.
Einatt heyrði hún klukknahljóð
á sinni leið.
22.
Löng var leiðin,
en gatan var þröng.
Einatt heyrði hún klukknahljóð
og fagran söng.
23.
Til orða tók hún bjarta Ísodd,
hún leit í stein:
"Ekki skyldi hann Tristran dauður,
þá eg kem heim."
24.
Ísodd sig í kirkjuna gekk
með hundrað manns.
Prestar sungu prócessíu
yfir líki hans.
25.
Ísodd niður að líki lýtur
rauð sem rós.
Prestar stóðu á kirkjugólfi
með kertaljós.
26.
Ísodd niður að líki lýtur
í annað sinn.
Prestar stóðu á kirkjugólfi
með kertaljósin fimm.
27.
Margur lifir í heiminum
með minni nauð.
Hún Ísodd niður að líki lýtur
og lá þá dauð.
28.
Það var henni svörtu ísodd
angur og sút,
tvö voru þá líkin borin
úr kirkju út.
29.
Til orða tók hún svarta ísodd
hún sór við trú:
"Þið skulið ekki njótast dauð,
megi eg nú."
30.
Ausin voru þau moldunni
fljótt og ótt.
Sínu megin kirkjunnar
lá þá hvort.
31.
Runnu upp af leiðum þeirra
lundar tveir.
Upp af miðri kirkjunni
mætast þeir.
- Þeim var ekki skapað nema að skilja.
25. ágúst 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli