3. ágúst 2006

Litbrigði jarðarinnar

Hann fór einförum, gerði sér erindi upp að fjallinu, þóttist vera að gá til kinda og reikaði lengi dags um móana við rætur fjallsins, talaði í hálfum hljóðum við sjálfan sig og hvíslaði leynilegum skilaboðum í norður. Það var kyrrt og bjart umhverfis hann, farfuglarnir horfnir og grösin sölnuð, en þöglir smyrlar á flugi undir hömrunum og ofurlítil héla í skorningum millli þúfnanna. Haustið drottnaði yfir jörðinni, en þó fannst honum allt vera grænt og hlýtt, þrungið mildri og djúpri angan, sem minnti bæði á ljósbera og mjaðarjurt. Það ómaði slíkur hljóðfærasláttur í brjósti hans, að hann viknaði af gleði, blessaði stráin og mosann, himininn og dagsljósið, strauk hrjúfa klettana með heitum lófanum og bað til guðs, að músarindillinn, sem flögraði með götunni undir fjallinu, og rjúpan, sem kúrði upp á syllunni, yrðu aldrei hungruð og köld í vetur. Já, hann bað fyrir öllu sem átti bágt á jörðinni. Þessi hljóði og fölvi haustdagur vígði hann til nýs lífs. Hann varð svo góður. Hann varð svo auðugur. Græna veröldin í hjarta hans, sem angaði eins og ljósberi og mjaðarjurt, ómaði eins og lágvær, mjúktóna strengjasveit, sem vildi láta hann hjálpa öllu, líkna öllu, svo að hann fyrirgaf jafnvel smyrlunum grimmd þeirra og blóðþorsta. Og þegar hann gekk loks heim að bænum í rökkrinu trúði hann fyrstu stjörnunni í norðri fyrir kveðju.....


Ólafur Jóhann Sigurðsson: Litbrigði jarðarinnar

1 ummæli:

ærir sagði...

Íslensk ritsnilld.