28. júní 2005

Frýjunarorð



Þessi áskorun og frýjunarorð biðu mín í morgun:

Mánudags hrollvekja.

Kvalalosta kerlingin
karlinn sinn hún lamdi
kreisti síðan ketlingin
kalúnaði og kramdi

kveða skaltu karlinn minn
kunnuglega vísu
kanski færðu koss á kinn
kannist þú við skvísu

Byrjandi b2


Ekki veit ég enn hver byrjandinn er, en sendi þetta svar:

Til byrjandans á b2.

Í höfðinu grufla svo á heilanum sjóði
og hugurinn reikar um sinn.
Hver ertu skvísa sem leynist í ljóði
og laumar svo kossi á kinn?

Geturðu hjúkrað þeim sjóðandi heila
svo hugurinn hætti að leita.
Eða mun hamur og hugarins veila
hátt upp á skerjunum steyta.

En kannski er þitt fag kústur og rýja,
og kossa að nóttu þig dreymir.
Eða kannski þú skráir og skjalfærir nýja,
í skjölunum kvæðin þú geymir.

En eitt er þó víst að vísurnar þínar
varla eru byrjanda kvæði.
Því limrur á blaði svo leikandi fínar,
eru ljómandi dularfræði.

Engin ummæli: