24. júní 2005

Snilldarleg viðbrögð

Aldrei gleðst maður meir en þegar tekst að trylla undir félögum. Nýleg sending á miðvikudagskveðskap um Harri kveikti vel í og skal nú öllu haldið til haga:


M.Óla bætti við:

Með skambyssunni skúrka siðar
og skýtur þessi grey,
á þá Harrí Magnum miðar:
"Make my day!"

Dörtí Harrí hreðjataki
höslar unga mey.
Þessi margra kvenna maki
meiks her day!



Magnús Pálsson svaraði:

Ljóðsins stafur leikur þér,
einkar ljúft í hendi.
Eina stöku stuttur hér,
stúfur núna sendi.

Hátt nú svífa himinsfley,
hneggjar skáldafákur.
Yrkja taka dáðlaus grey,
dýrar merkar drápur

Mjöðinn teiga í skálda höll,
skreyttum klæðum skrýddir.
Þeysa hratt um víðan völl.
vinir dáðum prýddir.

Afrakstur er einkar fínn.
af ódáinsvöllum ljóða,
Boðskapur er ærið brýnn,
brátt menn setur hljóða

Í Hollívúddsins heljar klið
er hávaði og læti,
Yrkja myndi ég um það lið
ef ég bara gæti.


Svo kom aftur frá M.Óla af og voru línur en heitar:

Dátt er fyllt í kvæðakver
kátt af snill´ og trega.
Brátt ég hylli þennan her
hátt og tryllingslega.


Þá kom þessi sending frá Magnús Pálssyni:

Held að þessi kvæðaþörf stafi af byrjandi miðöldrunarkrísu
og deili því þessu:

Miðaldrakrísukast:

Lífsins klukka tifar létt
ljúf og taktföst slögin
Foldar leið við þrömmum þétt
þræðum breiða veginn


Loks kom dýrt kveðin bragur frá Ludvig

Bragi, guð skáldskaparins, er illa sár.

Móðan láta Mangar tveir
mása langa daga.
Á andans horrim hanga þeir,
með hornum stanga Braga


MÓla svarar:

Yrkja mun ég þrjóskur og þver
þó að í mig hnippið,
því að ennþá á mér er
uppi ansans tippið!

og Ludvig svarar:

Ekki bogna, beygja af
er boðorð miklu kappar.
Þótt fleyið ykkar far´á kaf
þið fljótið upp sem tappar.

Þá M.Óla:

Kappa Lúði upp á lappar
og ljóða stílinn knappa.
Stappar í þá stáli og klappar
stolta happa-tappa.

Engin ummæli: