20. júní 2005

40 klukkustundur

17. júní. Þjóðhátíð 2005.
Kl. 08.00 Vekjaraklukkan hringir. Örlitlir strengir eftir girðingavinnu gærdagsins. Var austur í Landi með stóru elli. Hestarnir næstum búnir með vatnið. Fékk meira hjá nágranna mínum og dældi með garðslöngunni okkar í fiskikerið. Var tekið vel af hrossunum. Hófur minn alltaf fyrstur á staðinnþegar til mín sést og við þurfum eitthvað að kankast á. Glói með sár á milli augnanna. Greinilega verið að ærslast. Flygill setur upp stert og fnýsar, vill reka hesta félagaminna í burtu. Hér er okkar kall mættur og ég vernda stóðið mitt eru skilaboð hans. Skuldin mín laumast til mín þegar hinir búnir að fá nægju sína af klappi og klóri. Fær sínar strokur og klór undir faxið sem henni finnst svo gott. Svo var girðingavinna í kvöldkyrrðinni. Logn og hlýtt. Keypti 2,5 mm stálgaddavír. Auðvitað plataður af kaupmanninum. Vírinn sem fyrir er er 1 mm og úr járni. Ótrúlegt að þegar leitað í búðir að ekki skuli hægt að treysta kaupmanninum um ráð. Hann mun fá 200 m gaddavírsrúlluna í hausinn eftir helgina. Átti að vera járn skv. kvíttun en fékk stál. Verður notað til að ná mér niðri á honum. Það verða kaup kaups. En nú er góður dagur og þjóðhátíð. Á leið norður í land. Gerði við þessa 2 x 5 m. þar sem vantaði neðsta strenginn. Fór svo að vökva víðiplönturnar sem ég kom með úr garðinum. Græðlingar sem eru að koma til og við plöntuðum út í framhaldsrækt. Gekk að lokum um landið. Jöklar í suðri, Eyjafjalla og svo Tindfjöll blasa við í blámmóðu fjarskans. Í norðri gægist Skjaldbreið í fjallaskarði. Handan Brúarár blasir Skálholtsstaður við. Gekk fram á hreiður með fjórum eggjum. Fuglinn fljótur að bregða sér frá. Sá hann ekki. Dökk egg. Jaðrakan? Eða hrossagaukur. Enda á að reka niður 4 staura sem eiga að mynda aðhald sem hægt er að reka inn í, þegar við förumað smala hestunum öllum.

Kl. 09.30. Lagt af stað. Búinn að tæma bílinn, taka gaddavírsrúlluna verkfæratöskuna, múlana og taumana. Skyldi eftir hestaúlpur og stígvél.

Kl. 14.00. Akureyri. Studentsveisla frænku minnar í Gamla Lundi á Eiðsvallagötu. Glatt á hjalla og áfanga fagnað. Skeggrætt.

kl 16.30. Athuga með innfædda. Hringi heim til manns og konu sem ég þekki, en hef ekki séð í mörg ár. Átt þó í bréfaskriftum við þau um skeið. Húsfrúin svarar. Gestir rétt að detta inn úr dyrunum. Bróðir húsbóndans. Þannig er nú það, ég fer aldrei í heimsókn ef aðrir eru fyrir. Get ekki hitt nema fáa í einu og alveg hættur að reyna að halda uppi samræðum við ókunnuga. Veit ekki hvað skal gera, en frúin segir að það yrði gaman að sjá mig. Það hefur engin sagt lengi. Setti mig alveg út af laginu. Ég yrði að gleðja konuna. Athuga málið. En þá hvað skyldi gera, auðvitað heimsækja Reykvíkinga á Akureyri. Við eigum nefnilega vini sem eiga nú glæsihús á Akureyri, voru að fjárfesta í lítilli sumarhöll þar fyrir sig. Svo auðvitað heimsækir maður Reykvíkingana loksins þegar maður hittir þá á Akureyri. Fengum leiðbeiningar. Næsta hús á móti Davíðshúsi. Hús annars skálds frá Akureyri. Fengum púrtvín og skálað fyrir nýja húsinu og stóra garðinum. Húsráðendur lukkulegir og börn þeirra líka sýndist okkur.

kl 16.10. Rennt upp í götu á Brekkunni, þeirri efri. Athuga hvort gestir farnir og maður geti laumast inn í korter til að gleðja húsfrúna. En mikið bregður mér. Vinur minn og frændi búinn að múra upp í glugga á framhliðinni. Þetta lítur ekki vel út. Vissi að hann var einrænn á köflum eins og hann á kyn til. Eða var það hann vissi ég ætti leið um. Keyri hægt, en svo líður mér betur. Hef farið húsavillt. Enda ekki nema von. Langt síðan ég kom síðast. Næsti garður snyrtilegur og með fallegum vel útfærðum blómasamsetningum og styrku handriði. Sé hann í eldhúsglugganum og hann veifar. Við lítum við. Fæ koss á báðar kinnar og svo aftur þegar ég fer. Hef ekki verið kysstur svo mikið lengi. Jafnvel snertifælnin víkur, svo innilega er manni fagnað á tröppunum. Hann í svuntu með leppa á höndum. Ég vissi þetta, hann lætur aldrei verk úr hendi sleppa. Nú að elda ofan í sig og stórfjölskylduna. Hvort við borðum ekki með þeim. Nei, ómögulega. kem á matmálstíma og get ómögulega þegið það. En mikð er góður matarilmurinn. Fæ að njóta hans í eldhúsinu. Vil ekki í stofu þó það margboðið. Er fastheldinn. Vil bara sitja á sama stól og síðast, í eldhúsinu. Fæ fregnir af fjölskyldu, sem er sýnd. Mannvænlegir piltar tveir og elsta dóttirin sem er ekki lengur heimasæta, en buslaði forðum í lækjum á Unaðsstöðum. En hún mundi það ekki. Það er Íslandsólán að frændi minn skuli ekki eiga fleiri börn. En hann gæti enn tekið það til athugunar. Svo kemur konan, hefur verið að afla birgða fyrir heimilið. Skyldi hún hafa gaman af þvi að sjá mig, eins og hún sagði. 'Eg er ekki viss. Reyni að lesa í spilin. Jú ég held það. Alltaf gott að geta verið öðrum til gamans. Það erlangt síðan ég var það síðast. Svo er öll fjölskyldan komin og tengdabörnin líka. Okkur ekki lengur til setunar boðið, reyndar var okkur það, en löng ferð yfir fjallveg eða á veg í gegnum fjall (og fyrnindi) út í fjörð. Margþökkum fyrir okkur. Áttum frábærar 48 mín með þessum vinum okkar.

kl 20.00 Ólafsfjörður. Í húsi bróður míns. Hann ekki heima. Vissi að við værum að koma og ákvað að fara suður. Fengum þó lykil að húsi. Máttum leita að lykli að vínskápnum og dreypa á viskílögg. Sáum þjóðlegan fróðleik í sjónvarpi.

kl 22.00 Unaðsstaðir. Keyrðum fram eftir. Fórum vestari leiðina, þá gömlu. Brúin gamla sem setti svo svip á bæinn horfin. Framfrá. Gengum um lóðina í kvöldkyrrðinni. Lágskýjað en logn. Maríuerla að vappi. Mýs tekið sér vetrarsetu inni, eins og áður. Bíslagið haldið vatni eftir viðgerðir mína fyrir 2 árum. Girðing fallið í vetur enda snjóþyngsli verið mikil. Greinar brotnað í trjálundinum.

kl. 23.00 Í húsi bróður míns. Þar bíðr uppbúið rúm. Horfi á Útlagann, er nokkurskonar útlagi sjálfur. Hef hitt minn Eyjólf gráa og Börk digra. Er þó með iðrin inni, -enn. Það er til bóta. Á mína stríðsöxi og spjót einhverstaðar grafið og geymt, en ekki gleymt.

kl. 09.30 Svaf vel að vanda á beddanum. Snerti ekki viskíið þó lykill væri auðfundinn. Fann sitt lítið af hverju í búrinu hjá mágkonu minni.

kl. 10.30 Unaðsstaðir og Sólskinsbær. Girðingarvinna. Strengdi girðingu. Vantar tvo staura. Grisjun í trjálundinum. Kveikti upp í Solokabissunni.

kl. 12.30 Ketillás. Fljótin alltaf jafn falleg, þungbúið veður en milt. Stífluvatn óvenju vatnslítið.

kl 12.45 Næ sambandi við Ásgeirsbrekku, engir farsímar virka á Lágheiði og í Fljótum. Boða komu okkar að skoða tryppið okkar Hálfmána.

12.50 Hofsós. Vesturfarasetur í kvosinni. Dásamlegur staður. Borðum þar á huggulegu veitingahúsi. Guðisélof fyrir að til eru staðir sem hafa annað að bjóða en hamborgara. Þar hægt að fá steikta bleikju, steiktan þorsk í hofssósu auðvitað, bollur í brúnni sósu og svo tvo rétti af lambi. Valdi síldardisk.

kl 14.00 Ásgeirsbrekka. Bóndi að rýja kindur sínar. Frúin tók vel á móti okkur með kaffi og meðþví. Ræddum lengi um gæði hrossastofns þeirra. Eigum nú þegar þrjú úr þeirra ræktun. Hóf og Glóa og svo vonarpeningur okkar. Hann Hálfmáni 3ja vetra sem kemur suður í haust í tamningu. Gerum upp vetrarbeitina og svo labbar bóndi með okkur upp í fjall að skoða gripinn. Sjá hvernig hann hefur komið undan vetri. Hann er ánægður með hann. Hefur vaxið vel. Klofin yfir þýfða beitarhaga i gegnum girðingu með folöldum. Alltaf gaman að sjá ungviðið hoppa og skoppa á eftir mæðrum sínum. Ofar í fjallinu, upp undir þokunni sem er í miðjum hlíðum finnum við tryppastóðið. Þar er hann Máni okkar. Hefur stækkað mikið frá sl. hausti en ósköp renglulegur, eins og 14 ára unglingur. Glófextur svo af ber. Með stjörnu sína, eða réttara tungl sitt, í enni sem er að mestu hulin faxi nú, enda orðin mjög prúður. Fáum ekki að koma of nálægt. Hann þó nokkuð forvitinn. Dáumst að þessu, og spáum í gæði og hvort hann muni líkjast hálfbróður sínum honum Hófi eða frænda sínum Glóa í reiðlagi. Svo fær hann aðfara á fjöll og heiðar á næstunni. Verður svo sóttur í Laufskálarétt í haust. Kannski við drögum hann sjálf?

kl 16.30 Tímabært að kveðja húsbændur, en kíkjum í leiðinni á nokkur hross í neðri girðingu við veginn. Þar er gæðingsefni, hann Greifi, móálóttur. Ætlum að spá i hann í haust þegar tamningu lokið. Er ósköp spakur og mannelskur. Seldi sig næstu sjálfur þó viðkynning stutt. Hann er sonur Galsa Ófeigssonar frá Flugumýri og ber lit afa síns.

kl 18.00 Blönduós. Hitti þar systur á förnum vegi. Bíð með á Vatnsnes.

kl 19.00 Biðröð við Hamarsrétt. Bjartar nætur og torkennileg fæða. Blóðpönnukökur í boði, ábrystir úr kindum og kúm, fjallagrasamjólk og heimagert skyr. Taðreykt sauðahangikjöt og svo torkennilegur bruðningur og tros. Af sel má fá nýtt kjöt, spik ferstk og saltað, súrsaða selshreyfa. Steikta hrefnu, grafin hval. Reyktar endur. Grásleppuhrognabollur. Skötukæfu. Rúgbrauð með hákarli. Fjallagrasakex. Svartfugls og andaregg. Sýrð egg. Sigin grásleppa, reyktur rauðmagi og margt fleira. Með þessu var drukkinn hambri.

kl 24.00 Systur skilað í Kópavoginn og haldið heim í rúmið.

2 ummæli:

Halur Húfubólguson sagði...

Ánægjulegt er fyrir Hal að sjá framsókn og hreysti frænda síns og hans fólks, sem og vina heimsþekktra norðan heiða í leyfi frá sunnanseyti. Halur rétt náði að velta fyrir sér þessu fyrirfólki er kom við í Vinaminni hjá heimilisfólki af lágstéttum, sem bæði þarf að umbera Hal og jafnvel heyra í honum á milli, ekki hlusta. Slíkar heimsóknir geta hreinlega styrkt fólk á landsbyggðinni það mikið að það haldi út að næstu heimsókn (með Hal sér nærri).

Þinn einlægur undirsáti og auðmjúkur þjónn,

Halur

ærir sagði...

Stutt var stanz í Vinaminni. Hér kemur þula ein sem kveðin var við þungan undirtón brimsins á Vatnsnesi norður, eftir að bruðningur og annað tros var farið að gerjast í mögum þess er átu. Þetta er þula og etv sagnadans með gömlu og fornu lagi.


Mínútur ekki margar gáfust
mér er þungt í sinni.
Stutt var stanz í Vinaminni.

Næst skal staldra stundu lengur
í stofu setjast inni.
Stutt var stanz í Vinaminni.

Í bænum þeim nú búa hjónin
og bráðgerð börn í sinni.
Stutt var stanz í Vinaminni.

Þó að stutt þá væri stoppið
stöðugt endast kynni
Stutt var stanz í Vinaminni.

Kveðja varð þá kæru búa
en kvæðið lengi minni.
Stutt var stanz í Vinaminni.

Næst mun koma og kætast lengur
og klæmast svo að finni.
Stutt var stanz í Vinaminni.

Nú mun varla meira kveðið
nú er mál að linni.
Stutt var stanz í Vinaminni.