Ættir Svannlaugar stóru Þórðardóttur
Þórður bóndi Snorrason, Svanlaugarfaðir, var bóndi að Skriðukoti í Haukadal. Hann deyr 1783. Ekkja hans Guðrún Tómasdóttir (1750-1813) tekur við bústjórn að Stóra-Vatnshorni 1790. Hjá henni elst Kristján Ólafsson, afi Bergsveins upp. Ættfeður hennar Tómas Pálsson og faðir hans Páll komu úr Breiðafjarðareyjum. Tómas bjó í Melrakkaey (fæddur um 1710) og Páll (fæddur um 1680) í Bjarneyjum.
Móðuramma Svannlaugar var Guðrún Hálfdánardóttir (1750-1817), var húsfreyja í Melrakkaey en átti ættir sínar að rekja í Húnavatnssýslu og sérstaklega Vatnsdal en faðir hennar, Hálfdán Helgason flytur úr Húnavatnssýslu í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og gerist bóndi í Sellóni í Helgafellssveit og virðist ættbogi okkar þar með flytjast í Dalasýsluna. Meðal ættfeðra þeirra eru prestar að Undirfelli í Vatnsdal og bændur á stórbýlinu Hvammi í Vatnsdal. Um siðaskipti hefur Sigurður Arnfinnsson (f. 1525) verið prestur að Prestbakka. Sonur hans Rafn giftist Skólastiku Gamalíelsdóttur (f. um 1555). Sonur þeirra er Hálfdán Rafnsson, prestur að Undirfelli og sonur hans Ólafur er prestur þar eftir daga föður sins. Sonur hans Helgi, prestur að Stað í Staðarhreppi, er faðir Hálfdánar föður Guðrúnar.
Mægðir við Breiðfirðinga
Tildrög flutnings ættabogans í Helgafellssveit virðist vera að Hálfdán Helgason giftist Oddnýju Jónsdóttur (fædd 1691), dóttur Jóns Guðbrandssonar (fæddur um 1650-1691) bónda í Sellóni. Jón þessi átti átta börn með konu sinni Margréti yngri Jónsdóttur (f. um 1650) og var Oddný þeirra yngst. Henni er komið í fóstur út í Höskuldsey (tökubarn sbr. manntali 1703). Faðir hans Guðbrandur Kristófersson (f. um 1580) var bóndi í Sellóni og Seley og er hann kominn af Breiðarfjarðarbændum en ekki eru nánari heimildir um það. Það er athyglisvert að Oddný og Hálfdán tóku við Sellóni, þar sem hún var yngst syskinanna að Sellóni. Hún átti fjóra bræður og þrjár systur, en svo virðist sem mörg þeirra hafi flutt út í Breiðafjarðareyjar og talið hag sínumþar betur borgið. Guðrún Hálfdánardóttir giftist svo út í Melrakkaey honum Tómasi Pálssyni.
23. júní 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli