8. júní 2005

Digurbarkaleg ferðasaga

4. júní 2005. Löngufjörur.

Um síðustu helgi fór ég í ferð á Löngufjörur. Í blíðu veðri voru hestir settir á bíl á föstudagseftirmiðdegi og ferjaðir að Snorrastöðum við Eldborg á Mýrum. Við komum á eftir og í kvöldkyrrðinni tjölduðum við á flötunum hjá hestagirðingunni. Aðrir, nema Jón Skalli sem einnig kom með tjaldið sitt, bjuggu inni í svefnpokaplássi. Ég á enn eftir að venjast þeirri tilhugsun að liggja í flatsæng hlusta á hrotur í öðrum. Finnst nóg um með mínar eigin. Með súpunni fengum lýsingar á leiðinni yfir fjörurnar að Skógarnesi. Strax voru uppi flokkadrættir. Meirihluti hinna 38 ferðafélaga okkar vildi teyma hesta sína yfir, en allir voru með tvo til reiðar. Við vorum aðeins sex þegar á reyndi sem ætluðum að reka hestana lausa með okkur, enda vön því á fjörunum. Í hópinn bætust þó nokkrir þegar þau sáu hversu einörð við vorum í afstöðu okkar. Hinar heigulsbrækurnar voru hræddir um að týna hestum sínum eða missa frá sér. En hvað er hestaferð á áhættu og ævintýra. En innst inni réð þó mestu að ég er óttalegur klaufi við að teyma hesta, enda vilja mínir hestar vera sjálfstæðir og eigin herrar og ekki múlbundnir við annað hross. En síðar eiga þeir kannski eftir að læra það og ég líka.

Farið var yfir fljóðatöflur og ráð fengin hjá öldnum bónda, Hauki á Snorrastöðum um fjöru og vöð á helstu tálmum leiðarinnar sem eru Saltnesáll og Haffjarðará úti á firði. Hann taldi lítið vatn verða á leið okkar. Lengi hefði verið þurrt og stórstraumur. Mikið hafði hann rangt fyrir sér átti eftir að koma á daginn. Fjara var um hádegi á laugardegi. Eftir ágæta kvöldvöku með gítarspili, söng og glens var gengið til náða í kvöldblíðunni. Hvort það var spenna fyrir morgundeginum eða sírennslið í læknum við hlið tjaldsins og ástarsöngvar fuglanna, jarm nýfæddu lambana sem hélt fyrir mér vöku er ekki gott að segja. Sofnaði svo vært og rumskaði ekki fyrr en langt var liðið á morgun. Sól komin hátt á loft og vindgola. Hestar komnir úr haga og í gerði. Setti í mig linsurnar og smeygði mér í leðurskálmarnar og var nú tilbúinn. Þurfti þó að leggja á klárana. Hafði með auka tauma, beisli og teymingaról ef á þyrfti að halda og Þorbjörg yrði að teyma okkur í land. Það voru óþarfa áhyggjur.

Farastjóri vor, ritstjórinn, skipaði mönnum í fylkingar. Fyrst færi hluti teymingafólksins síðan við með reksturinn og loks restin af teymingarliðinu. Þau sæju um að reka lausu hrossin úr gerðinu fyrir okkur. En aldrei skyldi treyst á teymingarmenn. Þegar við töldum að öll lausu hrossin væru komin yfir bæjarlækinn (Kaldána), þá lögðum við af stað og hottað á þau sem vildu ekki fara lengra og töldu grænar grundir vænlegar til langdvalar á. En viti menn eitt hross var eftir í gerðinu og ekki létu samferðamenn okkur af því vita. Það uppgötvaðist þó þegar riðnir voru 2-3 km út á fjörurnar. Þá saknaði fararstjórinn lausa hestsins sín í stóðinu. Stundu þá ræflarnir í teymingarhópnum upp að þau hefðu skilið einn hest eftir sem hafði hlaupið með þeim úr gerðinu, neðarlega á á bökkunum áður en á fjörurnar var riðið. Ekki varð okkur skemmt og minna þegar reynt var að fá hópin til að fara af baki og slá hring um lausu hrossin á meðan við riðum heim, ég, frú mín og fararstjórinn að sækja hestinn eina. Riðum við þrjú af stað og svo bættist Jón skalli við. Fara varð alla leið að Snorrastöðum á ný og tók okkur 45 mín að ná til hópsins aftur sem sat og beið á fjörunum. En það getur verið dýrkeyptur tími sem tapast þegar sæta þarf sjávarföllum. Það áttu þau eftir að reyna, eins og Kolbeinn ungi þegar hann reyndi að elta Þórð frænda minn kakala.

'Eg skipti strax um hest áður en haldið var lengra. Stefnan tekin á hafsauga og að Saltnestánni. Ferðin gekk vel. Sólin skein og smám saman fór að birta til og gremjan út í löðurmennin að minnka. Saltnesáll var engin fyrirstaða í þetta sinn. Náði rétt upp að kvið (hestsins). Við vorum ekki kominn langt þegar örn sveimaði yfir höfðum okkar og á skeri einu sáum við Össu sitja við hreiður. Þar riðum við nálægt en þó auðvitað í löglegri fjarlægð. Hún lét sér fátt um finnast en hafði vakandi (og gnýstandi) auga á okkur. Þetta var tignarleg sjón.

Áfram hélt reksturinn. Áð var á nesi einu og hestar hvíldir, en brátt haldið af stað að Stóra Hrauni, þar sem Árni Þórarinsson bjó um tíma. En landið er fagurt af fjörunum. Eldborg blasir við í austri og framundan eru Rauðamelsfjall, Hafursfell og Ljósufjöll og svo sjálfur Snæfellsjökull í allri sinni reisn. Hlý gola lék um kinn og hestar léttir á fæti. Við vorum ekki lengi heim að Stóra Hrauni. Þar var áð og nesti borðað. Hestar fengu að grípa niður, en lítill var haginn. Ekki mátti dvelja lengi því ná varð vaði á Haffjarðará (Bænhúsavaði?). Nú var riðið geyst af stað og allir búnir að skipta um hesta. Fyrstu álarnir voru litlir en þegar kom út á fjörðinn og að megin árfarveginum var farið að flæða inn. Ég var í eftir reiðinni og stutt í teymingarfólkið, sumir þeirra nánast með mér í för. Þegar kom að ánni var forreiðin komin út í og stóðið mest allt með. Allir á hrokasundi. Þessu hafði ég kviðið lengi að lenda í sundi á fjörunum. En sólin skein, gola hlý og stutt yfir. Ekki yrði grynnra ef beðið yrði. Svo við rákum restina af lausu hrossunum út í óg án umhugsunar fór ég á eftir, bíðandi þess sem verða vildi. Heyrði í grátkerlingum í teymingarhópnum að baki mér. Varla var ég komin nema 5 m út í þegar hesturinn fór að fljóta, en ekki sökkva eins og sumir hestar gera á sundi. Svo synti blessaður klárinn með mig yfir. Ég sat eins og á kajak og naut ferðarinnar. Það er gott að vera ekki á djúpsyntum hesti við þessar aðstæður. Heldur var ég roggin þegar upp á bakkann hinum megin var komið. Nú gat ég látið digurbarkalega og hef gert það síðan. Enda kvíðahnúturinn sem mig ætlaði lifandi að drepa dagana fyrir ferðina horfinn. Svo fann ég ekki fyrir kulda þó blautur væri upp á kvið. Hófur minn var pollrólegur. Hann er gæðingur.

Á bakkanum hinum megin heyrðist grátur mikill og kveinstafir. Nú hafði heldur betur lækkað í þeim rostinn, teymingarfólkinu. Helst voru þau á því að snúa við aftur heim til lands. En fararstjórinn okkar, hvers hest þau höfðu ákveðið að skilja eftir til að kenna honum og okkur lexíu dó ekki úrræðalaus og reið á ný til þeirra og sundreið Haffjarðará þrívegis í lotu til að finna leið fyrir þau yfir. Að lokum var riðið upp að landi og Haffjarðará riðin við land þar sem grunnt var. Allir komust því heilir á höldnu í Skógarnes. En á síðasta kaflanum að nesinu var allt komið á flot, en vatnið ilvolgt og ekki djúpt. Það var ánægður hópur að kveldi sem gekk til matarveislu heima að Snorrastöðum og tilhlökkun mikil fyrir því að ríða til baka næsta dag.

5. júní 2005. Löngufjörur.

Vöknuðum kl 7 í morgun. Morgunmatur, linsur og úti beið rúta sem skyldi ferja okkur í Skógarnes. Keyrðum fram hjá Eldborg í sól og heiðskýru veðri. Kolbeinsstaðir sá merki kirkjustaður á hægri hönd, heldur í niðurníðslu. Í Skógarnesi náðum við í hesta í hólfið og lögðum á. Riðið var síðan niður í átt að Hausthúsum, eina 3 km eftir veginum og þar beðið eftir að fjaraði út. Ekki skyldum við verða of sein í dag. Kl 10 ræsti fararstjórinn mannskapinn af stað. Fjörurnar biðu, glampandi í sól. Sjópollar á stöku stað. Haffjarðarey(jar) og Prestsker við sjónarrönd í suðri, en við riðum geyst eftir söndum í austurátt. Heldur nær landi en í gær, enda ákveðið að fara á grunnu vaði. Gekk ferðin vel. Kannski of vel, því þegar komið var yfir fjöruna, heim að StóraHrauni var ekki almennilega fallið út og við urðum að ríða 3-400 m í kafvatni uppað hnakki en ekki fórum við á sund. Á ný var áð, nánast á hlaðinu, og skipt um hesta. Nú tók Finnur vinur minn við fararstjórn, eftir sérlega þjálfun og tiltal yfirfararstjórans. Hann skildi koma okkur yfir Saltnesálinn. Við fórum að undan með reksturinn og vorum að mestu sex sem sáum um hann og hestarnir lausu voru mest 18. Það gekk vel. Komust áfallalaust að Saltnesáli með einni áningu. Þar splundraðis hrosshópurinn enda sáu hrossin engan tilgang í að leita að grunnu vaði þegar hægt var að komast yfir nánast hvar sem var. Upphófst nú mikil eltingarleikur handan álsins að ná stóðinu saman. Ég var seinn að álnum enda orðin værukær í hitanum og áfallalausum rekstri. En nú var slegið í, en þá sá ég hestana mína lausu, þá Hóf og Glóa koma í humpátt á eftir mér. Ég sneri því við og kallaði til þeirra. Þeir létu sér það að hvatningu verða og komu hlaupandi báðir og einn hestur með sem hafði slegist í för með þeim. Saman fórum við svo yfir álinn og náðum loks stóðinu sem nú var allt að sameinast á ný, enda dugnaðarfólk Finnur og frú mín þar í fararbroddi. Áttum við, ég og hestarnir mínir ágæta samreið á Saltnesaurunum.

Stutt er nú í land við Snorrastaðabásana. Þar fengu klárarnir að bíta niður og blása mæðinni. Mínir kallar voru aldrei langt undan síðustu 2 km heim að bæ og stoppuðum við hjá Kaldánni og þar gaf ég mér góðan tíma til að leyfa þeim að drekka enda þyrstir eftir ævintýri dagsins í sól og sumaryl. Þaðan var svo haldið heim í bílum og nú bíða hestarnir okkar þess í óþreyju að komast út í haga.

1 ummæli:

Halur Húfubólguson sagði...

Það eru eða voru slíkar lýsingar sem heilluðu Hal til hestamennsku; sá tími er eigi enn kominn og vart verður hann í sumar sökum óeðlilegra starfa og e-ð þarf Halur að bleyta færið. Ekki þó í ósum og álum vestanlands að sinni. Ærir þyrfti að skerpa aðeins á sér ef hiti er yfir frostmarki, ekki hvað síst ef lýsið rennur; kannski er ekkert aukalýsi eftir strangar æfingar að hætti Dínós.