30. júní 2005

Dularfræði og rúnir

Enn er hinn dularfulli byrjandi b2 kominn á kreik,
og svaraði síðustu hendingu svona:
Eigi kveðið kvæði áður
kanski bara í draumi
verður maður mikið háður
meiri orðaflaumi’

Höfuð fullt af humor hef
hafa skaltu það væni
hamast hugsa eða sef
hugnast þér minn kæni


Nú eru góð ráð dýr:

Reyndi í morgun:

Í bleyti lagði búk og haus,
ber svo eftir standi
Að engu hefur allt mitt raus
árans b2 byrjandi.

Því sól kom aftur sæt og fín
sú mun okkur kæta
þegar ofsadrífa á oss hrín
ey mun aftur bæta.

Nú er nafn þitt nokkuð ljóst
nú er mál að linni.
Því ef í vísum alltaf bjóst,
eg á kossinn minni.


En það gekk ekki svo ég reyndi aftur, nú með nafnagátum:

Í ó-göngum í gerðinu leita
gögn ei nokkur þar finn
Val mitt stendur, -á vin skal heita
ef viltu koss minn á kinn.

Því rúnir hefur rist mér kona
og raunir enn um sinn.
Núna guð, -ég gríp og vona
að gefist koss á kinn.

Með ólgu í hjarta nú emjandi styn
æði mitt allt er á burt.
Ef í kvæði ei kemur ég kalla á vin:
hver getur eftir þér spurt.

Á þrumurnar hrópa, -gefðu mér guð
og gríptu þinn fallandi þjón.
Ef öll mín ljóð eru eingöngu tuð
þá eigðu kossinn fyrir hann Jón.



Um nónbil:

Mínir kossar þig kæta elsku vin,
klófesta viltu skvísu
Undan þínum skáldskap styn
sú þrá skal bundin í vísu

Byrjandi á B2.

Og frá hinum byrjandanum?

Það var eitt sinn læknir á Lundi
svo ljómandi góður á fundi
hann verkina kæfði
aðra hann svæfði
ég veit ekki hvernig, hann stundi!

Bestu kveðjur ber ég þér
best er í dag að brokka
eftir bíddu bara mér
betur fer að skokka

Byrjandi B2

Þeim var svarað:

Þegar sefur sætt og rótt,
suma tefur fram á nótt.
Þessi vefur vex svo fljótt
vísna þefur veldur sótt.

Með orðaflaumi aftur kemur,
og inn í draumi alltaf semur.
Vil að gaumi gefir fremur
glaumi sem að huga temur.

Heilabrot nú hugann berja,
sem högg í rot þau á mig herja.
Hafa krot sem hjartað merja,
hlaut nú skot er ei mun verja.


Um kaffileiti:

Reyndist mér tregur í taumi
töltandi knapinn sá
viljugur var í draumi
varasamt er að fá

Reyndist mér tregur í taumi
töltandi knapinn sá
hugarvíl herjar í laumi
ólgand af hjartans þrá

Byrjandi B2

Engin ummæli: