14. apríl 2008

Náttverður fjallafarans

Ferðin á Eyjafjallajökul reyndist þolraun hin mesta. Lagt var af stað kl 7 um morguninn frá höfuðstöðvunum og keyrt austur að Seljavallalaug þar sem bílum var parkerað og gangan upphófst. Gengið var upp hlíðina fyrir ofan laugina upp á heiðina, Mörleysur. Aðeins var tekið ein stutt hvíld og við jökulröndina í 800 m.h.y.s. voru allir skikkaðir í öryggislínur og hópurinn þannig hnýttur saman.

Þaðan var haldið áfram á snjó en engar sprungur sáum við fyrr en alveg efst, upp undir tindi, Hámundi. Að ganga í línu er sérstök upplifun og ekki finnst mér hún skemmtileg. Var heppinn að vera neðstur í línunni og því þurfti ég aðeins að halda takti við þann sem næstur var á undan. "Hægri, vinstri, hægri.... og vinstri.... Hægri.... vinstri. Ekki flækja línuna... Hægri..". Þannig tautaði ég í huganum hvern kílómeterinn og hverja klukkustundina efir annari á meðan við þokuðumst upp á hraða snigilsins. Þrekið er greinilega að vaxa því nú fór ég ekki að finna fyrir þreytu fyrr en komið var í um 1200-1300 m. hæð. Á Snæfellsjökli gerðist það eftir um 800 m hækkun. Þegar komið var í 1200 m hæð var tindurinn farinn að blasa við og ferðin því farin að styttast og þannig var haldið áfram í einstaklega fallegu landslagi jökulheima með tignarleg og snarbrött fjöll fyrir neðan okkur sem steyptust niður á suðurlandssandana.

Framundan voru svo topparnir Guðnasteinn og Hámundur. Takmörk dagsins. Við höfuðm ágætt útsýni á leiðinni upp, gengum ofar skýjum eiginlega alla leið, en þegar við náðum á toppinn hafði skýjahulan náð í hæla okkar og það fór að snjóa. Á leiðinni niður sáum við ekkert lengi vel nema við fundum vel hversu brött leiðin var á köflum. Það er ótrúlega erfitt að ganga niður í móti í snjó sem er laus í sér undir harðskafanum. Því fékk ég að kynnast og átti ég fullt í fangi með að halda í ferðafélaga mína.

Þegar komið var niður fyrir snjólínu varð ég svo að stoppa og gera að sárum mínum, enda kominn með blöðrur á stóru tærnar. Kom í ljós að allir voru vel útbúnir með sjúkrakassa, plástra, second skin, og tape nema læknirinn sem hafði ekkert slíkt meðferðis og var því upp á náð og miskun annarra kominn. En þetta voru aðeins upphaf af stöðugum krankleika sem fékk ýmis nöfn í huga mér á leiðinni niður. Því þegar ekki var langt eftir varð ég andstuttur og móður og fór að sjóða niður í mér eins og astma sjúklingi. Var ég viss um að ég væri kominn með lungnabjúg af háfjallaveiki og þá sennilega fyrsta tilfellið sem skráð yrði á spjöld sögunnar á þessari leið. Hefði betur farið að ráði Eggerts Ólafssonar og Bjarna og haft með mér edik og andað í gegnum klút til að verjast áhrifum þunna loftsins eins og þeir gerðu þegar þeir klifu Snæfellsjökul.

Ég leitaði annara skýringa og þá helst að ég hefði fengið þögult hjartaáfall af áreynslunni og nú væri ég með hjartabilun og hjartaastma. Varð mér ekki um sel en ákvað að staulast neðar svo ekki yrði björgunarsveit að dröslast með mig niður síðasta brattan. Þegar niður var komið gleymdust raunirnar og fagnað var með hópnum mínum góðum degi en erfiðum. Áhyggjur af hjartavöðvanum runnu eins og dögg fyrir sólu. Leiðsögumaðurinn var faðmaður fyrir að hafa komið okkur alla leið upp og svo niður aftur.

Heim í hús komst ég svo við illan leik 15 klst eftir að lagt var af stað um morguninn, sár á fótum, hóstandi eins og mæðiveiki rolla, þar tók við tímabil kuldahrolls og lystarleysis. Sennilega einkenni örmögnunar á byrjunarstigi, eða langtleiddur. Amk tókst mér að jafna mig á næstu tveim tímum og um miðnætti var ég farinn að nærast og drekka aftur. Hafði náttúrulega ekki haft þá fyrirhyggju að eiga neitt ætilegt heima. Nóg var ég búinn að fá af döðlum og flatbrauði. Tókst að lokum að steikja brauð og egg og borða með saltfisksalati sem ég átti frá því fyrr í vikunni. Þetta myndu Jómfrúarmenn kalla "náttverð fjallafarans". Nóttin fór svo í að bæta upp vökvatap og nærast eftir getu. Það var svo ekki fyrr en um hádegi daginn eftir að egóbústið fór að laumast inn með strengjunum sem fóru að gera vart við sig þannig að ég skammaðist yfir því að vera ekki löngu fluttur í hús á einni hæð.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Glæsilegt !!!!!!
Svo er það næsti hóll. Er það ekki Hnjúkurinn ?
Stjáni

ærir sagði...

Þetta var svo mikið afrek að ekki þarf að vinna fleiri. amk líður mér þannig í dag.