21. apríl 2008

Blaðra

Það er ótrúlegt hvað er blaðrað á bloggum, en hér á ég nú samt við aðra blöðru. Átti ánægjulega helgi á föstudagseftirmiðdegi riðum við feðgar í ágætum félagsskap inn í Rauðhóla en þeir eru meðal uppáhaldsstaða minna á höfuðborgarsvæðinu.

Á laugardagsmorgni var farið snemma á fætur og skógfræðingurinn kom á embættisbílnum og tók mig með í ævintýri á gönguför. Fyrst litum við á kurlunarverksmiðju í Mosfellsbænum og sáum hvar þjóðhátíðarlundurinn á Þingvöllum var að breytast í kurl. Síðan gengum við sem leið lá upp á Esju og bættum tíma okkar mikið þó en færum við hægt yfir, en göngukaflar verða lengri og lengri á milli hvílda.

Upp við Stein hittum við svo fjallavinkonur okkar. Snótir nokkrar sem við höfum verið að rekast á, á göngum okkar á fjöll. Hressar og glaðlyndar konur. Ein þeirra meðal annars fengið far með mér úr einni göngunni, okkur til nokkurrar ánægju. Þegar við hittumst urðu fagnaðarfundir þ.e. að okkur félögum var fagnað ákaflega vel með orðunum. "Hvernig ertu í blöðrunni" sem var hrópað stundar hátt þannig að allir þ.e. 50- 100 manns sem voru upp við Stein heyrðu vel. Hvarf mér allur sexapíll sem hafði sperst upp við það að sjá dömurnar og ekkert varð úr að ég hreykti mér af nýju meti á leiðinni upp. En til útskýringar verður að geta að fjallkona þessi hafði aðstoðað mig við að búa um blöðrur á fótum mínum í sameiginlegri þrautargöngu okkar á Eyjafjallajökli.

Eftir nokkra stund og spjall hurfu fjallkonurnar niður á við aftur en við spertum okkur í hlíðunum nokkuð í viðbót. Heim gengum við sáttir við afrek dagsins, en enn tekur ansi mikið i lærin á niðurleið og þarf ég sennilega að taka nokkra spretti upp og niður fjallshlið til að þjálfa lítt notaða vöðva.

En að lokinni fjallgöngu eða um kl 12.30 var farið að venju á Jómfrúna og nú fékk ég uxabrjóst en skógfræðingurinn lét undan freistingum og réðist til leiks við pörusteikina, en við höfðum heitið því að hún væri leyfileg eftir að við hefðum gengið á Heklu, en þeim áfanga er ekki en náð svo staðfesta mín er undraverð.

Af Jómfrúnni fór ég svo í hesthúsið var kominn þangað upp úr kl 14 og fór í útreiðatúr með vinum mínum nýjum og eldri um Rauðhóla, Hólmsheiði og endað á að ríða umhverfis Rauðavatn. Heima hesthúsi fengum vöflur hjá frú Fanneyju. Á heimleiðinni reið ég með Tinnu sem hafði orð á því að "lítið gaman væri að fara hægt" og skildum við aðra eftir og komum langt á undan öðrum samferðamönnum eftir fantaendasprett þar sem við hleyptum klárunum í mikilli gleði.

Sunnudagurinn var rólegri. 'Eg var kominn um kl 10 upp í hesthúsið í Gusti þar sem ég er með þrjá klára "í geymslu" og er ekki farinn að ríða út. Á enn eftir aða járna þá blessaða. En þar hitti ég annað gengi vina og kunningja, m.a. föður skógfræðingsins og hans fólk flest sem er á kafi í hestamennsku. Þau hafa skotið yfir mig skjólshúsi hin síðari ár og er fátt skemmtilegra en að ríða út með hinum 83 ára föður skógfræðingsins sem stundar þá líkamsrækt að moka hrossaskít flesta daga sem hanns stendur ekki í málavafstri í Eyjum. Eftir að hafa viðrar hesta, boðið upp á marmaraköku með morgunkaffinu fór ég í hesthúsið í Víðidal þar sem enn annar reiðtúr um nágrenni Reykjavíkur beið mín um hádegisibilið og var dólað þar fram eftir degi og spekúlerað í hrossum góðum og betri.

Svona eiga helgar að vera, -blaðra sem ekki springur.

1 ummæli:

Guðný Pálína sagði...

Ja, þér leiðist svo sannarlega ekki, bara brjálað að gera í fjallgöngum, hestamennsku, hlaupum og hugleiðslu. Svona á þetta að vera :-)