24. september 2005

Réttardagur

Í hríðarmuggu
Laugardagsmorgun, réttardagur. Klukkan sex að morgni. Hef aðeins sofið i fimm tíma. Nú er komið að því að ég komist í stóðréttir í fyrsta sinn. Glaður í sinni ýti ég mér á fætur og gleymi því hversu lítill morgun maður ég er. Við erum komin í bílinn og lögð af stað áður en klukkan slær sjö og útvarp Reykjavíkur bíður góðan daginn eins og það gerð amk einu sinni. Dagrenning. Himininn er heiður en viðsjárvert veður á heiðum.Ferð gengur að óskum upp Borgarfjörðinn og fyrsta heiðarbrekkan blasir við. Heiðin er hvít og föl á vegi sem eykst þegar ofar dregur. Tröllaborgin veður í skýjum. Skýjabakkar Norðanlands fara vaxandi og í Hrútafirði snjóar örlítið. Í Víðidal er mugga og þyngri færð. Þar verður fyrsta slysið. Reyndar banaslys og ég ábyrgur. Keyri í átt að Víðigerði þegar upp flýgur í hríðarmuggunni stór hópur rjúpna. Ég hægi á mér en slysinu verðu ekki forðað. Lá við fjöldamorði. Keyrði á eina rúpu. Reyndar í annað sinn í haust. Stoppa og í kantinum flögrar vönkuð, vængbrotin rjúpa. Hefur sig til flugs en fatast fljótt og reynir að stinga sér í skaflinn. Hríðinni slotar, -muggan sest. Allt er hljótt. Hún horfið biðjandi augum. En hvers er hún að biðja. Að mér sest kuldi og nístir að hjarta. Hvað er fugl sem ekki getur flogið. Snör handtök og snúningur og lífið fjarar út. Er ég böðull eða berst ég við frumeðli mannkyns. Tvíeðli, -því ég er nokkuð stoltur af veiðinni og hetjulega gantast ég með að það hefði verið mistök, já jafnvel synd að hafa hægt á mér. Ég hefði kannksi getað bjargað jólasteikinni. Ég tek þennan pól í hæðinni. Ég er veiðimaður. Ég er frummaður. Ég hef mína bráð. Ég er ekki metrosexual. Ég er ubersexual.Þegar norður í Langadal er komið gerist það sama. Rúpnahópur flýgur fyrir bílinn. Ég gef í. En næ ekki neinni rjúpu. Þvílík veiðiferð hrópa ég upp.


Hrímar
Kom norður í Hjaltadal og horfði heim að Hólum af réttarveggnum. Stóðið lestar sig niður hálsinn í snjónum. Fimm hundruð hestar, tugir folda etv hundruð og margir margri knapar. Þetta er tignarlegt. Stóðið lestar sig vel. En er viðsjárvert veður. Snjókoma, éljagangur. Hvað er ég að gera á réttarvegg? Hví er ég ekki smöluninni. Næst. Já næst. Það verður alltaf næst. Aldrei er neitt búið og ekkert er ómögulegt. Næst kem ég með hesta og ríð með fjallskilastjóra í fararbroddi niður í Hjaltadal. Fjallskilastjórinn er Bjarni í Brekku. Honum og hans góðu konu hef ég kynnst í gegnum þá ágætu hesta sem hann hefur ræktað og eru nú í minni eigu. Hófur og Glói. Svo bíð ég spenntur eftir að sjá þriðji, Hálfmáni komi af fjalli í stóðinu. Hann er nú að byrja sinn fjórða vetur. Hann heitir svo því á hans fagra enni er einkennileg stjarna sem líkist fremur hálfmána eða sigð og hamri. Kannski ætti hann að heita Hrímnir hugsa ég. Hann er glófextur og í dag er hrímar í faxi. Á milli élja sést til Hólastaðar. Stóðið nálgast og kemur í hólfið við hliðina á réttini. Húsfreyju á Brekku er létt allt hennar fólk hefur skilað sér af heiðinni.


Í hólfinu
Við göngum um hólfið. Hnýt um þúfur í ákafa. Skoða gripina. Spakmæli í huga mér. Spyr hvort menn hafi séð fegursta folann. Finn Mána. Prúður er hann. Faxið skipt í miðju á enni og stjarnan sérkennilega blasir við. Hinn frjálsi klár lætur ekki ná sér. Hörfar og í augum hans býr frelsið og fjöllin. Hann er reistur. Stoltur. Hver verða mín örlög. Á fjöllum á ég heima. Komdu ekki nær. Við horfum og hörfum.


Frelsi
Hamagangur. Almenningurinn fullur og menn kljást. Hinn stolti fákur lætur í minni pokann. Hann er fangaður og frelsi sviptur.


Stóðréttin
Fákurinn okkar fagri var dreginn í dilk Brekkubænda með sínu stóði. Gufustrókur stígur upp af réttinni og blandast mjúkri hríðinni. Ég hafði ætlað að draga minn hest en allt gerðist svo fljótt. Í hendingu einni saman. Lagði eiginlega ekki inn í almenningin þar sem menn beindu prikum að hrossum. Stóðið rauk um og keyrði menn um koll er þeir héldu ekki hópinn. Hér þar æfð og lærð handtök. Svo var líka svo mikil drulla á jörðinni. Eitt svað. Ég hefð orðið skítugur. En við því var ég búinn því í bílnum var 66gráðu græni sjógallinn minn. Best að láta þetta fagaðilum þetta eftir sagði ég og bauð félögum mínum upp á Otard vsop í tilefni dagsins. Minn fyrsti hestur í Laufskálum. Kominn af afrétt. Glæstur og geislandi fagur. Afmeyja pelann í tilefni dagsins. Á því er haft orð eða höfð orð. Ekki allt til að hafa eftir. Ég er hestamaður. Skagfirskar ballöður í bakgrunni og snjódrífan villir sýn.


Hringur
Nú hefst spákaupmennskan. Göngum hring eftir hring um stóðréttina. Reynum að leggjast á réttarveggin og verða gáfuleg í framan. Alltaf endar þetta eins. Gengin er sami hringurinn og alltaf er stoppað á sama stað. Horft á sama hrossið. En það er ekki fallt. Það er mitt. Ýmsu er fleygt. "Nei, nei. Þú kemur með tilboð og ég segi þér hvort það er ásættanlegt". Þetta er gæðinsefni. Sjáðu fótaburðinn. Horfðu á kjúkurnar. Sjáðu hvernig hann lyftir og hvernig kjúkurnar sveigjast, hvíslar Rikki danski að mér. Fáir hafa jafn glöggt auga og hann. Óli held ég líka. Enda hann minn aðalráðgjafi hingað til í hrossakaupum. Af þessum mönnum þarf ég að læra hugsa ég og drekk í mig spekina af vörum þeirra. Skyldi vera hægt að taka diploma í þessu. Nei það er örugglega ekki hægt. Ekki einu sinni á Hólum, því gamala fræðasetri. Glöggt auga lærist ekki eða hvað. En af reynslu má læra.Fer að kanna hvað Brekkubóndinn býður í sínu hólfi. Enda er ég íhaldsamur. Þar er leirljós gæðingur með góða eiginleika. En að eiga ljósa hesta er erfitt þó fátt sé fegurra á góðum degi en ríða á hvítum hesti. Hann er líka kubbslegur. Afskrifa hann að sinni. En fyrir aðra gæti hann verið draumahrossið. Hef auga á öðrum móálóttum, Greifa Galsasyni Ófeigsafkvæmi af Flugumýri. Hann er vonarpeningur og með lítinn vilja enn sem komið er. Ég sá hann sumar og hann kom til mín þá og aftur í dilknum kom hann. Hann hefur augun hugsa ég. Ég horfi á augu. Ég vel hesta eftir augnsvip. Það hlýtur að teljast til tíðinda hugsa ég. Þarna er jarpur, Tenór segir brekkubóndinn. Hann er undan hryssu sem var móðursystir Glóa þíns. Hann er þægur og lofar góðu. Fjögurra vetra ótaminn. Sonur Safírs frá Viðvík. Skoðaðu hann. Hann er kjörgripur hugsa ég. Hvað ætla ég að kaupa marga hesta? Ég horfi til himins. Í dag viðrar ekki til hrossakaupa.


Heim
Réttum líkur. Okkur er boðið í opið hús að Ásgeirsbrekku um kvöldið. Nógur matur á borðum segir húsfreyja enda með marga á sínum snærum í smöluninni. Þið ríðið með okkur næsta haust. Komið fyrr og farið fram í afrétt og sækið hestana í hólfið. Við ljómum. Veðrið lægir og uppstytta þegar hver rekur sitt stóð heim að bæ. Við fylgjumst með Brekkubændum sækja sitt stóð og keyrum samhliða því á veginum. Horfum á Mána og Greifa og alla hina. Þekki ekki Tenór úr hópnum. Svo skiljast leiðir. Við höldum nær byggð. Veður rýkur upp aftur. Hvað er til ráða. Bíða til kvölds og drekka bikarinn til fulls. Því er frestað og farið suður í hríðarmuggu. Skagafjörður kvaddur. Gerðar ráðstafanir með Hálfmána. Komið heim um kvöld reynslunni ríkari og glaðari. Næst komum við fyrr og ríðum fram á heiði.

1 ummæli:

Halur Húfubólguson sagði...

Enn og aftur vill Halur benda Æri á að koma sér af mölinni í sveitina, en þar bíða hans greinilega mörg verðug verkefni, jafnvel erindi milli bæja. Hann er greinilega sveitamaður af góðri gerð.