9. september 2005
Barn ég var
Sem barn er Vatnsberinn að öllu jöfnu glaðlyndur, vingjarnlegur og auðveldur viðureignar, þó hann eigi til að vera stífur og fastur fyrir. Hann getur snemma axlað ábyrgð, er uppfinningasamur, frumlegur og fullorðinslegur. Hið dæmigerða Vatnsberabarn er því frekar fljótt að þroskast andlega og læra að tjá sig og skilja heim fullorðinna. Litli Vatnsberinn vill sjá um sig sjálfur og fara sínu fram. Hann er því að öllu jöfnu athafnamikið og sjálfstætt barn.Þar sem Vatnsberinn er hugmyndamerki er besta uppeldisaðferðin fólgin í umræðu og skynsamlegum fortölum. Vatnsberinn er þrjóskur og lítið þýðir að skipa honum fyrir eða beygja hann til hlýðni með skömmum. Ef honum er sýnt fram á með rökum af hverju einhver aðferð er betri en aðrar aukast líkurnar á því að hann gegni.Best er að koma fram við barnið sem vitsmunalegan jafningja og vin, trúa því fyrir "leyndarmálum" og fara fram á að það sýni traust á móti. Heiðarleiki skiptir Vatnsberann miklu og hann þarf að finna að foreldrar hans segi satt. Að öðrum kosti er hætt við að hann missi tiltrúna á þeim og þá er hætt við að hið ljúfa og skynsama barn breytist í sjálfstæðan og uppreisnargjarnan "byltingarmann".Flest það sem hér hefur komið fram á við um barnauppeldi almennt. Yfirvegun, gagnkvæmt traust, einlægni og vingjarnleg umræða eru aðferðir sem duga vel við öll börn. Áherslur eru hins vegar mismunandi eftir merkjum. Þegar Krabbi, Sporðdreki og Fiskur eru annars vegar þarf að leggja höfuðáherslu á tilfinningahlýju og hvetja börn í þessum merkjum til að opna sig og fylgjast með að þau dragi sig ekki í skel.Vatnsberinn er aftur á móti hugarorkumerki og því skipa umræður og skynsamlegar fortölur fyrsta sæti. Það er til að mynda áberandi að Vatnsberabörn sýna ást og væntumþykju á heldur ópersónulegan hátt. Þau eru ekki mjög tilfinningasöm, frekar vingjarnleg og yfirveguð, og þeim er oft illa við mikið kjass og tilfinningar sem þeim finnast væmnar.Vatnsberinn á yfirleitt auðvelt með að læra og spjarar sig því vel í skóla. Honum getur hins vegar leiðst vanabinding og stíf innræting og því kann að vera heppilegt að ræða reglulega við hann um tilgang skólanáms og notagildi hvers fags fyrir sig.Vegna þess að orka Vatnsberans er sterkust á huglægum og vitsmunalegum sviðum er gott að gefa honum þroskandi leikföng og reyna að svala forvitni hans og skapa aðstæður sem víkka sjóndeildarhringinn, svo sem að fara með hann í heimsóknir og gefa honum góðar bækur. Vatnsberinn er félagslynt merki og þarf að dvelja í félagslega lifandi umhverfi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli