Í dag er sunnudagur. Í gær var réttardagur. Í nótt átti ég langt trúnaðarsamtal við vin minn, sem hringdi klukkan eitt. Ætlaði að heilsa upp á mig á réttarballi. Hann hafði greinilega gert guðaveigum skil ekki síður en ég. Honum létti er hann vissi að við vorum aftur komin suður. Ég útskýrði það í þúsund orðum. Nú sá hann möguleika á að koma með okkur síðar, þegar húsið er búinn sagði hann. Koma með okkur að ná í hrossin sem við eigum í Skagafirði. Ég lýsti viðburðum og mönnum og hrossum. Við ræddum mest um hrossin. Við ræddum um hvað er hestamennska, en ég man ekki allt sem við ræddum. En mikið þótti mér væntu um að heyra í honum svona seint um nótt slegnum vendi guðanna.
Í dag er borgardagur hugsa ég svo þegar ég dregst fram úr undir hádegi. Úti er bjart en svalt og norðan átt. Gott að vera kominn heim. Alltaf að taka réttar ákvarðanir. Drengirnir bjóða upp á bröns. Síðan hringi ég norður í Brekku til að láta vita af okkur og ganga frá því að Hálfmáni skuli ekki sóttur. Spyr almennra tíðinda og af veðri. Það heldur versnandi og færð að spillast meir. Húsfreyju hefur borist tilboð í Greifa, hann fari til Svíþjóðar. Það finnst mér óráð og kaupi án umhugsunar. Er ég orðin galinn? Semjum um verð. Eins og þekkt af afspurn er húsfreyjan harðdræg í samningum en á milli okkar ríkir ágæt samkomulag og bæði skilja sátt. Nú á ég Greifa Galsason. Móálóttan með ágætan og kunnulegan augnsvip. Kíki á ættir í Feng. Sé þá að Galsi er afi Hálfmána. Ja, þetta er tilviljun hugsa ég. Góð tilviljun. Ég er á réttum ættaslóðum vonandi. Á þá tvo út af Ófeigi frá Flugumýri. Það er dálaglegt. Næst þarf ég að bæta við hrossum af Kirkjubæjarkyni, sem er hin ættin hans Hófs míns. Hef einn í sigti austan fjallst en hann er alltof dýr um þessar mundir. Athuga síðar.
Það er sko klár í lagi, hugsa ég þegar ég renni inn í miðbæ Reykjavíkur. Geng að Kaffibrennslunni, það er minn staður einhvernveginn heldur betri en Cafe París. Þangað líka gott að koma. Panta kakó, vatn og pönnuköku. Horfi á mannlífið liðast um strætin. Fæ kakó en vatnið vantar, en svo finn ég að kakóið er svo þunnt að ég hef fengið þetta allt í einu íláti. Hmm. Hugsa margt en segi fátt, ekkert raskar ró hestamanns í borgarferð. Geng síðan að Eymundsson og skoða bækur. Gott að ráfa innan um bækur á sunnudegi. Slaka á. Skoða ýmislegt. Fletti sýnisbókum. Kemst i kaupham. Má ekki við því, en sé bók eftir félaga Finn Torfa Hjörleifsson, sem ég var næstum búinn að stofna græningjaflokk með hér fyrir aldarfjórðungi og ýmsum fleirum sem létu glepjast í framboð fyrir aðra stjórnmálaflokka. Eftir sátum við sem minnstan metnað höfðum til beinnar pólitiskrar þátttöku. Og þar með lauk mínu polistíska lífi. Síðar settist Finnur á skólabekk og gerðist héraðsdómari enda með ágæta réttlætiskennd og margfróðurog lífsreyndur. Hann er líka skáld. Gott skáld sem ég met mikils. Hann gaf mér að lokinni doktorritgerð minni ljóðabók. Í hana ritað hann þau ágætu orð. "Reynist nú þjóðin þér eins og þú hefur henni". Þetta þótti mér vænt um. En í dag sá sé nýju bókina hans og hana keypti ég og geymi mér nærri. En ég keypti líka Svartar fjaðrir eftir Davíð Stefánsson. Nú á ég ljóð til að lesa á kvöldin og andvöku nóttum.
Kvöld. Það dimmir hratt og við förum í Salinn. Þar að heyra vin minn og æskufélaga Örn flytja verk sem hann og Finnur Bjarnason tenór, fluttu nýlega á tónlistarhátið í Englandi. Fyrir tveim árum hlutu þeir íslensku tónlistarverðlaunin fyrir disk með sönglögum Jóns Leifs. Örn hefur kennt mér að meta Jón, hvort sem eru píanóverk, sönglög eða stærri tónverk. Nú sungu þeir félagar verk eftir Michael Tippett, Grieg sem snerti rómantíska strengi. Svo kom Jón Leifs m.a. við ljóð Jóhanns Jónssonar, Mánin líður.
Mánin líður.
Dauðinn ríður.
Skuggar gráir hljótt um hjarnið sveima.
Gaman er um gæfu horfna að dreyma.
Mánin líður.
Mér var hugsað til Hálfmána. Á ég að kalla hann Hrímni. Síðan komu rússneskir söngvar eftir Tsjaíkovskíj. Tónleikum lauk með lagi hans Mansöngur Don Juans við ljóð eftir Tolstoj. Í þýðingu Reynis Axelssonar er það svona:
Mansöngur Don Juans.
Gylltar brúnir Alpujarra-fjalla
eru að hverfa í rökkrinu,
komdu út, ástin mín,
þegar hljómur gítarsins kallar!
Á alla sem segja að einhver önnur
hér jafnist á við þig,
á þá alla skora ég, brennandi af ást,
í banvænan bardaga!
Af tunglsljósi
lýsir himinninn;
ó, komdu Nicetta,
fljótt út á svalirnar!
Allt frá Sevilla til Granada
í þöglu næturhúminu
hljóma mansöngvar,
hljómar sverðaglamur.
Miklu blóði, mörgum söngvum
er úthellt fyrir töfrandi konur,
en þeirri sem er fegurst þeirra alla
gef ég allt, söngva mína og blóð mitt!
Af tunglsljósi
lýsir himinninn;
ó, komdu Nicetta,
fljótt út á svalirnar!
Þarf ég að segja eitthvað meira um borgardag í september.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli