17. september 2005

Hverjum klukkan glymur

En ég er ekki neinn liðleskja í leik. Því skal haldið áfram og reynt að standa sig í klukkuleiknum. Því ég held að þetta sé eins og í keðjubréfunum að ef maður rífur keðjuna dembast yfir sjö hörmungar á sjö sinnum sjö árum. Ekki viljum við það. Þó er vandi á höndum því í societas invisibilies eru takmörk fyrir því hversu nákvæmar upplýsingar er hægt að gefa án sérstaks leyfis háæruverðugs leyndaryfirráðs.

1. Ég er skrýtinn skratti. Ég fæ stundum flugu í höfuðið, bæði í bókstaflegri merkingu og óeiginlegri. Reyndi einu sinni að gerast fluguveiðimaður og krækti í vinstri augabrúnina á mér. Var vakthafandi læknir og varð að gera að því sjálfur. Fáum sögum fer af öðrum aflabrögðum. Svo fæ ég líka aðrar flugur í höfuðið, mis gáfaðar flugur verð ég að segja. Þrátt fyrir að reyna að vera svona yfirveguð týpa þá á ég til að álpast eftir þessum hugdettum og oft eru þær bara alls ekki svo slæmar. Ræði ekki um hinar.

2. Ég var alltaf einrænn og þögull. Þar til ég uppgötvaði hvað það var hjálplegt að standa úti í garði og blóta. Með því mátti fá útrás fyrri hlýðnina inni. Þá var ég innan við fimm ára aldur. Móðir mín á víst að hafa tekið andköf og þrætti alltaf fyrir að það hefði verð ég. Enn á ég til að verða einrænn og þögull og gleyma mér langt í burtu. Fer næstum því sálförum.

3. Ég á enn til að vera svolítið þrjóskur þegar ég gríp eitthvað í mig, er þó ekki eins stífur og ósveigjanlegur og var sem ungur maður. Held að það sé þroskamerki að hafa náð að hemja þann fjanda. En svo eimir af þrjóskunni eins og að halda að ég gæti lært að ríða hest. Það var ágæt tamning fyrir mig. Þar varð ég, nefnilega þessi tilfinningabældi karlmaður, að kynnast kvíða, hræðslu, spennu, tapi, sársauka, sigrum og gleði. Ég var nefnilega alveg ótrúlega hræddur við þessi stóru dýr. Og það var bara þrjóskan sem hélt mér gangandi, þrátt fyrir margar magalendingar á harðri urð, að gefast ekki upp. Þrjóska til þess að kynnast þessum tilfinningum og greina þær í sundur og svo að njóta þess að yfirvinna þær. Nú ríð ég út með vindin hárinu, nei ég meina skegginu (því hjálm verð ég að hafa þegar spennufíknin nær yfirhöndinni). Engin hindrun er svo stór að ekki megi komast yfir hana. Það er líka gott að láta hugann líða á hestbaki (sbr 2.) .

4. Ég er latur við að klóra öðrum á bakinu. Það hefur oft komið mér um koll.

5. Veit ekki enn hvort ég er betri bakari eða skáld. En ég læri allavega eitthvað nýtt á meðan ég prófa....

Engin ummæli: