14. september 2005

Happlaus við þjóhnappa loddi

Níðvísur og háð má finna í kveðskap langt aftur. Víst er að það getur verið beitt. Stundum undir rós og stundum beint. Ég hef verið að rifja upp kynni mín af dróttkvæðum og loks farinn að skilja þau, en í skóla þótti mér þetta erfitt og leiðinlegt. Svo rekst maður á skemmtilega níðvísu í dróttkvæðum hætti. Hér er ein.

Sendir mann af Sandi
sundhreins frá bör fleina
hræddur, svo að hjartað loddi
happlaust við þjóhnappa.
Framar kváðu þar flúra
fleyvangs Njörun ganga,
sókn var hörð ég heyrði
hreinláta Þorsteini.

Fyrst er frá því að greina að í bragarhættinum er ekki rímað á milli lína heldur innan hverar línu.
Sbr.
Sendir.... sandi
sundhreins.... fleina
hræddur....... loddi
osfr.

Í hverri línu eru þrjár braghendingar t.d.
fleyvangs// Njörun // ganga

En sagan sem hér er greint frá gerðist á umbrotatímum árið 1218. Segir frá aðför að Eyjólfi Kárssyni. Hann var frá Breiðabólstað í Vatnsdal og fékk Herdísi Hrafnsdóttur Sveinbjarnarsonar frá Eyri í Arnarfirði. Hann fluttist að Rauðasandi, að Stökkum og ekki leið að löngu þar til hann átti í útistöðum við bóndan á næsta bæ, Saurbæ. Endar þetta með því að gerður er aðsúgur að Eyjólfi og hans fólki þegar þau koma til kirkju í Saurbæ. Flúði hann í kastala sinn að Stökkum og með honum húskarl hans Þorsteinn stami og griðkonan Þorbjörg og fórst þeim misjafnlega við húsbónda sinn. Segir svo frá í Öldinni 13. að Þorsteinn stami varð fár við eftir því sem leið á bardagann og spurði þá húsbónda sinn hvort hann skyldi ekki gefa nautum. Fékk hann orlof til þess. Þorbjörg stóð honum framar og með Eyjólfi í bardaganum. Að lokum gáfust umsátursmenn upp. Ekki þótti mikið koma til umhreysti Þorsteins og um hann var ofangreind vísa kveðin. Hana má útleggja:

Hræddur sundhreins sendir (maður) rann frá fleina bör (manni) af Sandi svo að hjartað loddi happlaust við þjóhnappa (rass). Kváðu hreinláta fleyvangs fúra Njörun (konu) ganga þar framar Þorsteini. Sókn (orusta) var hörð er ég heyrði. Eða: Hræddur maður hljóp frá manninum á Rauðasandi svo að hjartað loddi happlaust við þjóhnappa. Sagt er að konan Þorbjörg hafi verið fremri Þorsteini. Orrustan var hörð.

Stuttu síðar flyst Eyjólfur að undirlagi Snorra Sturlusonar að Flatey á Breiðafirð. Af Eyjólfi þessum er annars að segja að hann var einn af fylgismönnum Guðmundar góða biskups á Hólum og studdi hann í deilum hans við Ábirningana Kolbein Tumasong og svo síðar Arnór Tumason.

Engin ummæli: