29. september 2005
Spaks manns orð
28. september 2005
Vitar III
og stefndir að hömrum,
í bjarginu bergmál,
þar sem bíða þín forlög.
Hamrarnir opnast
og hrynur úr bergi,
Skriðurnar falla
það skellur í grjóti.
Eldurinn kviknar
úr iðrum hann þeytist.
Himnarnir hljóma,
þú lendingu nærð,
en bátinn þinn brýtur
báran við klett.
Við lendur þess fjarska
með vitanum bjarta
er færði þér sjórinn,
þín bíður í vari
og bylgjuna kyssir
nýtt skip undir seglum.
Í tunglskini nætur
það titrar hvert borð
er ýfist upp veður,
ólgar þá brimið
og upp lyftist bylgjan,
þú berst út í geiminn
og siglir með stjörnum.
Pikkupplínur fyrir nörda
1. "Hvenær heldurðu að quantum computing komi til með að tengja okkur saman"
eða
2. "Ég vissi ekki að við næðum svona vel saman í strengjafræðinni "!
Þótti rétt að koma þessu á framfæri við nördana og næstum nördana sem ég þekki.
27. september 2005
Galsi
Afkvæmi Galsa eru í meðallagi stór, höfuðið er fulllangt en skarpt og eyru fínleg. Hálsinn er grannur og klipinn í kverk. Bakið er vöðvað og lendin jöfn en nokkuð grunn. Þau eru létt á bolinn en fremur afturrýr. Fætur eru grannir og sinastæði lítið en hófar þokkalegir. Þau eru óprúð á fax og tagl. Töltið er hreint og rúmt en lyftingarlítið. Brokkið er rúmt og skeiðið frábært. Þau eru viljug og fara vel í reið. Galsi gefur fjölhæf og rúm ganghross, hann hlýtur 1. verðlaun fyrir afkvæmi og þriðja sætið.
Svona hljómið kynbótadómur/afkvæmadómur fyrir Galsa þegar hann fékk heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Greifi er Galsasonur og Hálfmáni undan Marvin frá Hafsteinsstöðum sem er líka afkvæmi Galsa.
Vesalingarnir
26. september 2005
Spaks manns orð
25. september 2005
Borgardagur
Í dag er borgardagur hugsa ég svo þegar ég dregst fram úr undir hádegi. Úti er bjart en svalt og norðan átt. Gott að vera kominn heim. Alltaf að taka réttar ákvarðanir. Drengirnir bjóða upp á bröns. Síðan hringi ég norður í Brekku til að láta vita af okkur og ganga frá því að Hálfmáni skuli ekki sóttur. Spyr almennra tíðinda og af veðri. Það heldur versnandi og færð að spillast meir. Húsfreyju hefur borist tilboð í Greifa, hann fari til Svíþjóðar. Það finnst mér óráð og kaupi án umhugsunar. Er ég orðin galinn? Semjum um verð. Eins og þekkt af afspurn er húsfreyjan harðdræg í samningum en á milli okkar ríkir ágæt samkomulag og bæði skilja sátt. Nú á ég Greifa Galsason. Móálóttan með ágætan og kunnulegan augnsvip. Kíki á ættir í Feng. Sé þá að Galsi er afi Hálfmána. Ja, þetta er tilviljun hugsa ég. Góð tilviljun. Ég er á réttum ættaslóðum vonandi. Á þá tvo út af Ófeigi frá Flugumýri. Það er dálaglegt. Næst þarf ég að bæta við hrossum af Kirkjubæjarkyni, sem er hin ættin hans Hófs míns. Hef einn í sigti austan fjallst en hann er alltof dýr um þessar mundir. Athuga síðar.
Það er sko klár í lagi, hugsa ég þegar ég renni inn í miðbæ Reykjavíkur. Geng að Kaffibrennslunni, það er minn staður einhvernveginn heldur betri en Cafe París. Þangað líka gott að koma. Panta kakó, vatn og pönnuköku. Horfi á mannlífið liðast um strætin. Fæ kakó en vatnið vantar, en svo finn ég að kakóið er svo þunnt að ég hef fengið þetta allt í einu íláti. Hmm. Hugsa margt en segi fátt, ekkert raskar ró hestamanns í borgarferð. Geng síðan að Eymundsson og skoða bækur. Gott að ráfa innan um bækur á sunnudegi. Slaka á. Skoða ýmislegt. Fletti sýnisbókum. Kemst i kaupham. Má ekki við því, en sé bók eftir félaga Finn Torfa Hjörleifsson, sem ég var næstum búinn að stofna græningjaflokk með hér fyrir aldarfjórðungi og ýmsum fleirum sem létu glepjast í framboð fyrir aðra stjórnmálaflokka. Eftir sátum við sem minnstan metnað höfðum til beinnar pólitiskrar þátttöku. Og þar með lauk mínu polistíska lífi. Síðar settist Finnur á skólabekk og gerðist héraðsdómari enda með ágæta réttlætiskennd og margfróðurog lífsreyndur. Hann er líka skáld. Gott skáld sem ég met mikils. Hann gaf mér að lokinni doktorritgerð minni ljóðabók. Í hana ritað hann þau ágætu orð. "Reynist nú þjóðin þér eins og þú hefur henni". Þetta þótti mér vænt um. En í dag sá sé nýju bókina hans og hana keypti ég og geymi mér nærri. En ég keypti líka Svartar fjaðrir eftir Davíð Stefánsson. Nú á ég ljóð til að lesa á kvöldin og andvöku nóttum.
Kvöld. Það dimmir hratt og við förum í Salinn. Þar að heyra vin minn og æskufélaga Örn flytja verk sem hann og Finnur Bjarnason tenór, fluttu nýlega á tónlistarhátið í Englandi. Fyrir tveim árum hlutu þeir íslensku tónlistarverðlaunin fyrir disk með sönglögum Jóns Leifs. Örn hefur kennt mér að meta Jón, hvort sem eru píanóverk, sönglög eða stærri tónverk. Nú sungu þeir félagar verk eftir Michael Tippett, Grieg sem snerti rómantíska strengi. Svo kom Jón Leifs m.a. við ljóð Jóhanns Jónssonar, Mánin líður.
Mánin líður.
Dauðinn ríður.
Skuggar gráir hljótt um hjarnið sveima.
Gaman er um gæfu horfna að dreyma.
Mánin líður.
Mér var hugsað til Hálfmána. Á ég að kalla hann Hrímni. Síðan komu rússneskir söngvar eftir Tsjaíkovskíj. Tónleikum lauk með lagi hans Mansöngur Don Juans við ljóð eftir Tolstoj. Í þýðingu Reynis Axelssonar er það svona:
Mansöngur Don Juans.
Gylltar brúnir Alpujarra-fjalla
eru að hverfa í rökkrinu,
komdu út, ástin mín,
þegar hljómur gítarsins kallar!
Á alla sem segja að einhver önnur
hér jafnist á við þig,
á þá alla skora ég, brennandi af ást,
í banvænan bardaga!
Af tunglsljósi
lýsir himinninn;
ó, komdu Nicetta,
fljótt út á svalirnar!
Allt frá Sevilla til Granada
í þöglu næturhúminu
hljóma mansöngvar,
hljómar sverðaglamur.
Miklu blóði, mörgum söngvum
er úthellt fyrir töfrandi konur,
en þeirri sem er fegurst þeirra alla
gef ég allt, söngva mína og blóð mitt!
Af tunglsljósi
lýsir himinninn;
ó, komdu Nicetta,
fljótt út á svalirnar!
Þarf ég að segja eitthvað meira um borgardag í september.
24. september 2005
Réttardagur
Laugardagsmorgun, réttardagur. Klukkan sex að morgni. Hef aðeins sofið i fimm tíma. Nú er komið að því að ég komist í stóðréttir í fyrsta sinn. Glaður í sinni ýti ég mér á fætur og gleymi því hversu lítill morgun maður ég er. Við erum komin í bílinn og lögð af stað áður en klukkan slær sjö og útvarp Reykjavíkur bíður góðan daginn eins og það gerð amk einu sinni. Dagrenning. Himininn er heiður en viðsjárvert veður á heiðum.Ferð gengur að óskum upp Borgarfjörðinn og fyrsta heiðarbrekkan blasir við. Heiðin er hvít og föl á vegi sem eykst þegar ofar dregur. Tröllaborgin veður í skýjum. Skýjabakkar Norðanlands fara vaxandi og í Hrútafirði snjóar örlítið. Í Víðidal er mugga og þyngri færð. Þar verður fyrsta slysið. Reyndar banaslys og ég ábyrgur. Keyri í átt að Víðigerði þegar upp flýgur í hríðarmuggunni stór hópur rjúpna. Ég hægi á mér en slysinu verðu ekki forðað. Lá við fjöldamorði. Keyrði á eina rúpu. Reyndar í annað sinn í haust. Stoppa og í kantinum flögrar vönkuð, vængbrotin rjúpa. Hefur sig til flugs en fatast fljótt og reynir að stinga sér í skaflinn. Hríðinni slotar, -muggan sest. Allt er hljótt. Hún horfið biðjandi augum. En hvers er hún að biðja. Að mér sest kuldi og nístir að hjarta. Hvað er fugl sem ekki getur flogið. Snör handtök og snúningur og lífið fjarar út. Er ég böðull eða berst ég við frumeðli mannkyns. Tvíeðli, -því ég er nokkuð stoltur af veiðinni og hetjulega gantast ég með að það hefði verið mistök, já jafnvel synd að hafa hægt á mér. Ég hefði kannksi getað bjargað jólasteikinni. Ég tek þennan pól í hæðinni. Ég er veiðimaður. Ég er frummaður. Ég hef mína bráð. Ég er ekki metrosexual. Ég er ubersexual.Þegar norður í Langadal er komið gerist það sama. Rúpnahópur flýgur fyrir bílinn. Ég gef í. En næ ekki neinni rjúpu. Þvílík veiðiferð hrópa ég upp.
Hrímar
Kom norður í Hjaltadal og horfði heim að Hólum af réttarveggnum. Stóðið lestar sig niður hálsinn í snjónum. Fimm hundruð hestar, tugir folda etv hundruð og margir margri knapar. Þetta er tignarlegt. Stóðið lestar sig vel. En er viðsjárvert veður. Snjókoma, éljagangur. Hvað er ég að gera á réttarvegg? Hví er ég ekki smöluninni. Næst. Já næst. Það verður alltaf næst. Aldrei er neitt búið og ekkert er ómögulegt. Næst kem ég með hesta og ríð með fjallskilastjóra í fararbroddi niður í Hjaltadal. Fjallskilastjórinn er Bjarni í Brekku. Honum og hans góðu konu hef ég kynnst í gegnum þá ágætu hesta sem hann hefur ræktað og eru nú í minni eigu. Hófur og Glói. Svo bíð ég spenntur eftir að sjá þriðji, Hálfmáni komi af fjalli í stóðinu. Hann er nú að byrja sinn fjórða vetur. Hann heitir svo því á hans fagra enni er einkennileg stjarna sem líkist fremur hálfmána eða sigð og hamri. Kannski ætti hann að heita Hrímnir hugsa ég. Hann er glófextur og í dag er hrímar í faxi. Á milli élja sést til Hólastaðar. Stóðið nálgast og kemur í hólfið við hliðina á réttini. Húsfreyju á Brekku er létt allt hennar fólk hefur skilað sér af heiðinni.
Í hólfinu
Við göngum um hólfið. Hnýt um þúfur í ákafa. Skoða gripina. Spakmæli í huga mér. Spyr hvort menn hafi séð fegursta folann. Finn Mána. Prúður er hann. Faxið skipt í miðju á enni og stjarnan sérkennilega blasir við. Hinn frjálsi klár lætur ekki ná sér. Hörfar og í augum hans býr frelsið og fjöllin. Hann er reistur. Stoltur. Hver verða mín örlög. Á fjöllum á ég heima. Komdu ekki nær. Við horfum og hörfum.
Frelsi
Hamagangur. Almenningurinn fullur og menn kljást. Hinn stolti fákur lætur í minni pokann. Hann er fangaður og frelsi sviptur.
Stóðréttin
Fákurinn okkar fagri var dreginn í dilk Brekkubænda með sínu stóði. Gufustrókur stígur upp af réttinni og blandast mjúkri hríðinni. Ég hafði ætlað að draga minn hest en allt gerðist svo fljótt. Í hendingu einni saman. Lagði eiginlega ekki inn í almenningin þar sem menn beindu prikum að hrossum. Stóðið rauk um og keyrði menn um koll er þeir héldu ekki hópinn. Hér þar æfð og lærð handtök. Svo var líka svo mikil drulla á jörðinni. Eitt svað. Ég hefð orðið skítugur. En við því var ég búinn því í bílnum var 66gráðu græni sjógallinn minn. Best að láta þetta fagaðilum þetta eftir sagði ég og bauð félögum mínum upp á Otard vsop í tilefni dagsins. Minn fyrsti hestur í Laufskálum. Kominn af afrétt. Glæstur og geislandi fagur. Afmeyja pelann í tilefni dagsins. Á því er haft orð eða höfð orð. Ekki allt til að hafa eftir. Ég er hestamaður. Skagfirskar ballöður í bakgrunni og snjódrífan villir sýn.
Hringur
Nú hefst spákaupmennskan. Göngum hring eftir hring um stóðréttina. Reynum að leggjast á réttarveggin og verða gáfuleg í framan. Alltaf endar þetta eins. Gengin er sami hringurinn og alltaf er stoppað á sama stað. Horft á sama hrossið. En það er ekki fallt. Það er mitt. Ýmsu er fleygt. "Nei, nei. Þú kemur með tilboð og ég segi þér hvort það er ásættanlegt". Þetta er gæðinsefni. Sjáðu fótaburðinn. Horfðu á kjúkurnar. Sjáðu hvernig hann lyftir og hvernig kjúkurnar sveigjast, hvíslar Rikki danski að mér. Fáir hafa jafn glöggt auga og hann. Óli held ég líka. Enda hann minn aðalráðgjafi hingað til í hrossakaupum. Af þessum mönnum þarf ég að læra hugsa ég og drekk í mig spekina af vörum þeirra. Skyldi vera hægt að taka diploma í þessu. Nei það er örugglega ekki hægt. Ekki einu sinni á Hólum, því gamala fræðasetri. Glöggt auga lærist ekki eða hvað. En af reynslu má læra.Fer að kanna hvað Brekkubóndinn býður í sínu hólfi. Enda er ég íhaldsamur. Þar er leirljós gæðingur með góða eiginleika. En að eiga ljósa hesta er erfitt þó fátt sé fegurra á góðum degi en ríða á hvítum hesti. Hann er líka kubbslegur. Afskrifa hann að sinni. En fyrir aðra gæti hann verið draumahrossið. Hef auga á öðrum móálóttum, Greifa Galsasyni Ófeigsafkvæmi af Flugumýri. Hann er vonarpeningur og með lítinn vilja enn sem komið er. Ég sá hann sumar og hann kom til mín þá og aftur í dilknum kom hann. Hann hefur augun hugsa ég. Ég horfi á augu. Ég vel hesta eftir augnsvip. Það hlýtur að teljast til tíðinda hugsa ég. Þarna er jarpur, Tenór segir brekkubóndinn. Hann er undan hryssu sem var móðursystir Glóa þíns. Hann er þægur og lofar góðu. Fjögurra vetra ótaminn. Sonur Safírs frá Viðvík. Skoðaðu hann. Hann er kjörgripur hugsa ég. Hvað ætla ég að kaupa marga hesta? Ég horfi til himins. Í dag viðrar ekki til hrossakaupa.
Heim
Réttum líkur. Okkur er boðið í opið hús að Ásgeirsbrekku um kvöldið. Nógur matur á borðum segir húsfreyja enda með marga á sínum snærum í smöluninni. Þið ríðið með okkur næsta haust. Komið fyrr og farið fram í afrétt og sækið hestana í hólfið. Við ljómum. Veðrið lægir og uppstytta þegar hver rekur sitt stóð heim að bæ. Við fylgjumst með Brekkubændum sækja sitt stóð og keyrum samhliða því á veginum. Horfum á Mána og Greifa og alla hina. Þekki ekki Tenór úr hópnum. Svo skiljast leiðir. Við höldum nær byggð. Veður rýkur upp aftur. Hvað er til ráða. Bíða til kvölds og drekka bikarinn til fulls. Því er frestað og farið suður í hríðarmuggu. Skagafjörður kvaddur. Gerðar ráðstafanir með Hálfmána. Komið heim um kvöld reynslunni ríkari og glaðari. Næst komum við fyrr og ríðum fram á heiði.
Þræðir
er örgranna þræði spinnur
og hjarta þitt blæðandi vinnur.
Þú finnur þar strauminn sterka,
þú stendur svo máttvana ein
er sálin í örvænting espar,
allt heimsins bannfærða mein.
ort undir áhrifum Otard vsop með bilaða tölvu, þegar ég ætti frekar að vera að gilja heimasætur sem draga af manni vosklæðin að loknum réttardegi í hríðarmuggu.
22. september 2005
Vitar-II
geisla sinn í haffletinum.
Aldan brotnar
í fjarska,
- stillist veður.
Sætur saltkeimur á vörum,
að baki stormur.
Bátur veltur í óróa
öldubrotsins
og berst að strönd.
Strönd ókunnra lenda.
21. september 2005
Galdra-Loftur
Upphaf fyrsta þáttar.
Hólar í Hjaltadal. Stofa ráðsmannsins. Rökkur. Tveir gluggar. Túnið sem hallar niður að ánni, og hálsar fyrir handan sjást óglöggt í gegnum gluggana. Milli glugganna, stendur fornt skatthol. Lokrekkja í horninu hægra megin. Borð og bekkir og stólar. Ljósastjakar, strokkkerti. Mikil og vönduð dragkista upp við þilið hægra megin. Bókahilla. Hægra megin dyr frá göngunum. Minni dyr á miðju þili vinstramegin. Sunnudagskvöld. Sex ölmusumenn, sumir sitja, sumir á rjátli.
Fyrsti ölmusumaður (segir frá): Ég bið þig ekki um vísdóm því af honum hef ég nóg sjálfur, en nú bið ég þig um miskunn þína.
Annar ölmusumaður: Voru það seinustu orð hans?
Fyrsti ölmusumaður: Já, það voru seinustu orðin hans.
Annar ölmusumaður: Við vorum aðkomumenn á sama bæ þegar ég sá hann í fyrsta skipti. Hann sat á rúmstokk, með pokann sinn á bakinu.
Landshorna-flakkarinn: Hvaða maður var það? Ég er ókunnugur í þessum landsfjórðungi.
Landshorna-flakkarinn (hlær): Hann hefði verið gaman að sjá.
Þriðji ölmusumaður: Það var aumingi. Ef hann bar ekki poka á bakinu hélt hann að hann myndi steypast á höfuðið af því að það væri svo þungt af vísdómi.
Vitar
Ég hef tapað áttum og feikist undan vindsveipum,
í óvæntum stormum sem sunnan golan blés.
Stormurinn á eftir logninu.
Rísandi öldur allt í kring og ef þær brotna,
brotnar bátur minn. Í beitivindi ég leita að lygnu.
Engin landsýn og ekkert var til að hörfa í.
Hvar brennið þið vitar, er vísið mér veginn.
Dr. House
Ég nota helst gamaldags húsráð og ætti eiginlega að kallast græðir fremur en læknir. Þannig var ein vinkona mín á þriðja ári hjá mér um daginn og þurfti ráð vegna kvefs og nefstíflu. Ráðlögð var hafgola og sjávarúði upp í nefið og etv hitalæknandi og svo tyggjó. Þetta er óbrigðult ráð til að vinna traust sjúklinga á þessum aldri. Þ.e.a.s. tyggjóið. Þeir koma gjarnan aftur. Svo fylgist ég með framgangi sjúkdómsins í tölvupósti og líkist þannig Dr. House í sjónvarpinu sem helst vill ekki sjá sjúklinga en lækna þá frekast úr fjarlægð. Ég er svolítið líkur honum í öllu viðmóti (má sjá á fimmtudögum á skjá einum um kl 22). Og eins og hann sem gengur um með verkjatöflur og bryður fyrir framan sjúklinga og rekur raunir sínar þá geri ég það lika, þ.e. rek raunir mínar. Pilluátið er meira, svona ja prívat í mínu tilfelli.
Mér barst svo þetta skeyti frá vinkonu minni á þriðja ári og mömmu hennar í dag og þar sem óljóst er hvor er pasíentin og hvor læknirinn í þessu tilfelli, læt ég þetta flakka þó eflaust verði ég lögsóttur um brot á pasíent-doktor trúnaði:
"læknir lækna sjálfan þig, er eina heilræðið sem ég get gefið á þessu stigi enda alltaf ráðagóð var að enda við að klippa tyggjó úr hári með kjötskærum. litli sjúklingurinn mjög ánægð með að fá tyggjó og súkkulaði í morgunmat og fá að horfa ómælt á stubbana, ja svona ætti að vera hvern einast dag, hugsar hún og skilur ekki annað farðu vel með þig".
þetta er dæmi um vel heppnaða lækningu og ánægðan pasíent.
Laufskálar
Age of Aquarius
And Jupiter aligns with Mars
Then peace will guide the planets
And love will steer the stars
This is the dawning of the Age of Aquarius
20. september 2005
More wisdom of Jane
Good morning sunshine
Var heldur daufur í dumbungnum í morgun. Er að kvefast af haustflensu. Snjór í fjallshlíðum. Þá datt í kollinn á mér lag úr Hárinu sem ég hélt að væri reyndar alltaf good morning sunshine en var náttúruleg ekki rétt. Læt það samt fylgja í tilefni veðrabrigða dagsins, enda sérlega hrifinn af viðlaginu.
Good Morning Starshine
The earth says "hello"
You twinkle above us
We twinkle below.
Good Morning Starshine
You lead us along
My love and me as we sing
Our early morning singin' song
Gliddy glub gloopy; Nibby nabby noopy
La la la lo lo...
Sabba sibby sabba; Nooby abba nabba
Le le lo lo...
Tooby ooby walla; Nooby abba nabba
Early morning singin' song.
Good Morning Starshine
The earth says "hello"
You twinkle above us
We twinkle below.
----
The wisdom of Jane
19. september 2005
Hvar ertu Kata?
Um Ameríku ekki ég rata
á götuhornum höndunum pata
en fæstir þar vilja
frónbúann skilja
er spyrjum við, hvar ertu nú Kata?
Væntum fregna af þér og fjölskyldu í Rochester eða Reykjavík.
18. september 2005
Hestheimar
Surprise!!!
Datt einhverjum í hug að ég gæti látið líða langt á milli þess að ég skrifa um hesta. Fór í dag í leiðangur í Hestheima. Þar var uppboð eða sala á hestum. Sá þar einn, tvo, þrjá eða jafnvel fjóra sem ég gæti fallið fyrir. Einn af Kirkjubæjar- og Hindisvíkurkyni. Mín uppáhalds erfðafræðingsblanda. Faðir frá Kirkjubæ og móðir af Hindisvíkurkyninu (vonandi því gamla). Rauðtvístjörnóttur og hét Tvistur. Sá í hendi mér að hann var hestur sem mig vantar í stóðið mitt sívaxandi. Rólegur, viljugur, yfirvegaður með allan gang og mjúkur. Held ég sé að fá tilfinningu fyrir því hvað er góður hestur sem passar mér og kannski mínum líka. Nú er vandi úr að ráða. Kominn á aðra flösku úr vínkassanum mínum, Beronia, sem ég mælti með fyrir viku og drakk tvær flöskur af líka þá. Best að drekkja sorgum sínum..... eða gleðjast yfir því óvænta sem lífið gefur..........
Í fínu formi eða hjartablokki
Le Grand Corbert
I just want to travel light.
I have actually never seen a naked woman that age.
You are at the top of the keep.
I have never lied to you. I have always told you some versionof the truth.
Love hurts but I´ve never personally experiensed it.
So I am nuts.
Old, old, old, old, old old, - Harry.
You are a woman to love.
The life I lived before I met you, I knew how to do.
og rúsinan í pylsuendanum.
Its show time.
(ps Le Grand Corbert er veitingastaður í París)
17. september 2005
Skáldskaparmál
Ættlægir hrekkjusvínahrekkir
Hverjum klukkan glymur
1. Ég er skrýtinn skratti. Ég fæ stundum flugu í höfuðið, bæði í bókstaflegri merkingu og óeiginlegri. Reyndi einu sinni að gerast fluguveiðimaður og krækti í vinstri augabrúnina á mér. Var vakthafandi læknir og varð að gera að því sjálfur. Fáum sögum fer af öðrum aflabrögðum. Svo fæ ég líka aðrar flugur í höfuðið, mis gáfaðar flugur verð ég að segja. Þrátt fyrir að reyna að vera svona yfirveguð týpa þá á ég til að álpast eftir þessum hugdettum og oft eru þær bara alls ekki svo slæmar. Ræði ekki um hinar.
2. Ég var alltaf einrænn og þögull. Þar til ég uppgötvaði hvað það var hjálplegt að standa úti í garði og blóta. Með því mátti fá útrás fyrri hlýðnina inni. Þá var ég innan við fimm ára aldur. Móðir mín á víst að hafa tekið andköf og þrætti alltaf fyrir að það hefði verð ég. Enn á ég til að verða einrænn og þögull og gleyma mér langt í burtu. Fer næstum því sálförum.
3. Ég á enn til að vera svolítið þrjóskur þegar ég gríp eitthvað í mig, er þó ekki eins stífur og ósveigjanlegur og var sem ungur maður. Held að það sé þroskamerki að hafa náð að hemja þann fjanda. En svo eimir af þrjóskunni eins og að halda að ég gæti lært að ríða hest. Það var ágæt tamning fyrir mig. Þar varð ég, nefnilega þessi tilfinningabældi karlmaður, að kynnast kvíða, hræðslu, spennu, tapi, sársauka, sigrum og gleði. Ég var nefnilega alveg ótrúlega hræddur við þessi stóru dýr. Og það var bara þrjóskan sem hélt mér gangandi, þrátt fyrir margar magalendingar á harðri urð, að gefast ekki upp. Þrjóska til þess að kynnast þessum tilfinningum og greina þær í sundur og svo að njóta þess að yfirvinna þær. Nú ríð ég út með vindin hárinu, nei ég meina skegginu (því hjálm verð ég að hafa þegar spennufíknin nær yfirhöndinni). Engin hindrun er svo stór að ekki megi komast yfir hana. Það er líka gott að láta hugann líða á hestbaki (sbr 2.) .
4. Ég er latur við að klóra öðrum á bakinu. Það hefur oft komið mér um koll.
5. Veit ekki enn hvort ég er betri bakari eða skáld. En ég læri allavega eitthvað nýtt á meðan ég prófa....
16. september 2005
Klikkaður
En leikurinn gengur út á að þeir sem eru klukkaðir (ítreka : ekki klikkaðir) eiga að gefa upp fimm staðreyndir (sannar eða etv íkjur) um sjálfan sig og svo klukka áfram. En aðeins er hægt að klukka þá sem eiga bloggsíður, held ég.
Um mig má segja, sbr hið fyrrkveðna:
1. Ég yrki mín kvæði, í alheimisins tómi.... (úti að aka)
2. Í höfðinu grufla svo á heilanum sjóði.... (allur í rugli)
3. Á þrumurnar hrópa, - ó gefðu mér guð.... (frústreraður)
4. Á himninum stjörnurnar starir.... (draumóramaður)
5. Að flytja ljóð um langan veg og lygi berja saman....(óraunsær)
Ég klukka á Hal Húfubólguson, Huxy, Guðnýju hugrenndu og Kötu í Rochester og svo líka Fingurbjörgu og líka Björku brauðlausu sem bakar brauð til hryðjuverka (hún má klukka á mína síðu).
Klukk, klukk eða klikk, klikk......
15. september 2005
Bleikja
Vissi af manni nokkrum sem árlega setur met í veiði í Vatnsdalsá. Nú veiddi hann 59 fiska. Honum var því send þessi vísa.
Úr Vatnsdalsá með veiði góða
vanur maður skilar sér.
Hvenær má ég silung sjóða,
sérðu af einum handa mér?
Hann svaraði um síðir:
Ég mun þér færa Ærir* fisk,
sem fékk ég norður í Húnaþing.
Má bjóða þér að bera á disk
bleikju, lax eða sjóbirting?
Kkv/MÓLa
*Innskot Æris í stað þess nafn sem hann er stundum nefndur en gegnir ekki lengur nema á opinberum vettvangi, sem hann almennt þó forðast.
Sendi svar í dag:
Bleikju get ei beðið lengur
bauðst sá góði fiskur?
Tafðist nokkuð eða týndist fengur?
tómur er enn minn diskur.
14. september 2005
Happlaus við þjóhnappa loddi
Sendir mann af Sandi
sundhreins frá bör fleina
hræddur, svo að hjartað loddi
happlaust við þjóhnappa.
Framar kváðu þar flúra
fleyvangs Njörun ganga,
sókn var hörð ég heyrði
hreinláta Þorsteini.
Fyrst er frá því að greina að í bragarhættinum er ekki rímað á milli lína heldur innan hverar línu.
Sbr.
Sendir.... sandi
sundhreins.... fleina
hræddur....... loddi
osfr.
Í hverri línu eru þrjár braghendingar t.d.
fleyvangs// Njörun // ganga
En sagan sem hér er greint frá gerðist á umbrotatímum árið 1218. Segir frá aðför að Eyjólfi Kárssyni. Hann var frá Breiðabólstað í Vatnsdal og fékk Herdísi Hrafnsdóttur Sveinbjarnarsonar frá Eyri í Arnarfirði. Hann fluttist að Rauðasandi, að Stökkum og ekki leið að löngu þar til hann átti í útistöðum við bóndan á næsta bæ, Saurbæ. Endar þetta með því að gerður er aðsúgur að Eyjólfi og hans fólki þegar þau koma til kirkju í Saurbæ. Flúði hann í kastala sinn að Stökkum og með honum húskarl hans Þorsteinn stami og griðkonan Þorbjörg og fórst þeim misjafnlega við húsbónda sinn. Segir svo frá í Öldinni 13. að Þorsteinn stami varð fár við eftir því sem leið á bardagann og spurði þá húsbónda sinn hvort hann skyldi ekki gefa nautum. Fékk hann orlof til þess. Þorbjörg stóð honum framar og með Eyjólfi í bardaganum. Að lokum gáfust umsátursmenn upp. Ekki þótti mikið koma til umhreysti Þorsteins og um hann var ofangreind vísa kveðin. Hana má útleggja:
Hræddur sundhreins sendir (maður) rann frá fleina bör (manni) af Sandi svo að hjartað loddi happlaust við þjóhnappa (rass). Kváðu hreinláta fleyvangs fúra Njörun (konu) ganga þar framar Þorsteini. Sókn (orusta) var hörð er ég heyrði. Eða: Hræddur maður hljóp frá manninum á Rauðasandi svo að hjartað loddi happlaust við þjóhnappa. Sagt er að konan Þorbjörg hafi verið fremri Þorsteini. Orrustan var hörð.
Stuttu síðar flyst Eyjólfur að undirlagi Snorra Sturlusonar að Flatey á Breiðafirð. Af Eyjólfi þessum er annars að segja að hann var einn af fylgismönnum Guðmundar góða biskups á Hólum og studdi hann í deilum hans við Ábirningana Kolbein Tumasong og svo síðar Arnór Tumason.
13. september 2005
Vanitas quam minumum optimum
12. september 2005
Að nausti
Í vari hvílir fagurt fley
fánum skrýtt í stafni
Bíð ég enn að byr mér gefi
og báran skipi vaggi.
Leitað hef ég lengi skjóls.
Nú mun sigla um höf í höfn
þó hamist norðan stormur.
Í ölduróti og iðuköstum
áfram beiti seglum.
Þá vind á móti í fangið fæ.
Í dag mun heim í naustið ná
og nóttu dimmri gleyma.
Þetta kvæði átti að lýsa hvað mér þótti dagurinn í dag bjartur og dásamlegur og að ég hefði fyllst nýrri von og þrá. Meira segja svo að ég fór í musteri líkamans og gerði 120 magaæfingar í ístruátakinu 2005. Það var á eftir að hafa annars hugar keyrt upp ranga akgrein og fengið skelfingu lostinn ökumann næstum því beint á stuðarann. Ég var á leið að kaupa grænmeti.
En eins og komið hefur fram áður á öðrum stað: "Andinn lifir ekki á tómu samhengi, hann fylgir leiptranna lögmáli".
Eða eins og sagt var til forna þegar menn höfðu verið höggnir í spað. "Og ekki þurfti hann fleira". Ekki verður frekari speki færð í letur.
Grjótharðir
bugaðir menn.
Eru þeir búnir tólinu´ að týna
eða tollir það enn?
Þessa kjarnyrtu vísu hnaut ég um á vefsíðu sem margt gott hefur komið af. T.d. betubrauðið sem er nú mitt helsta partípís. En greinilegt er að hugarheimur karla og kvenna er ólíkur eða kannski það fari eftir stjörnumerkjum fremur en kyni. Það er í rannsókn. Þannig prófa konur að pissa standandi, en aldrei dytti karlmanni í huga að pissa sitjandi ótilneyddur. Þeir eru þó oft neyddir til þess. Karlmenn ræða sjaldan eða nánast aldrei um sín innri mál, nema ef vera skyldi nafnlaust og númerslaust á duldum heimasíðum. Þó er til undantekning sem ég hef kynnst á sl. ári en það er vinnustaður upp í sveit. Þar tjá menn sig um vandræði sín opnar en annars staðar sem ég hef kynnst og af því hef ég etv smitast. Stundum verða þeir þó fyrir aðkast vegna þess og kallaðir kverúlantar með einum eða beinum hætti. Konur vilja bara harða nagla ekki mjúka, -ég hef greinilega verið á rangri leið. Rétt einu sinni.
Arngrímur
Kviknar gleði, kætist sinn
kominn enn einn drengurinn,
einmitt fyrir afa sinn
og alla hina líka.
Birtu ég í brjósti finn
er blítt ég strýk um vanga þinn
að leggja kinn við þína kinn,
er kærleiksverkið ríka.
Þegar árum fjölga fer
finna vil ég stund með þér,
eiga saman eitthvað sér
og með öðrum líka.
Lesa saman lítið kver
lífið kanna þar og hér
eitthvað sem að aldrei þverr,
óskastundin ríka.
Um það eitt ég aðeins bið
að þig lífið leiki við,
leggja mun ég glaður lið
svo lánist gjörðin slíka.
Opnast megi öll þau hlið
sem efla gleði og gefa frið,
með Guði róa á gæfumið
gleðin stóra, ríka.
17. ágúst 2005. Afi Guðbjörn.
11. september 2005
Góð helgi
Fór svo í bæinn. Fyrst í Habitat að leita að bókarekka til geyma ljóðabækurnar sem hrúgast upp við rúmstokkinn hjá mér. Skrítið hvað ég er farin að hafa gaman af ljóðalestri, þetta er alveg nýr heimur. Síðan fór ég Kokku. Fékk fyrirlestur um mólikúlauppröðun í hnífsegg. Heima hjá mér í gamla daga voru hnífar brýndir og stálaðir. Nú er eggin strokin til að endurraða mólikúlaóreiðu. En það er efni í annan pistil.
Keypti krækiber í Vínberinu og fór í Ríkið og keypti pela af Vodka (matsj00ooooooo.....). Fékk þar tips um rauðvín sem ég ætti að kaupa eins mikið af og ég gæti borið. Beronia, Tempranillo, Elaboratcion Especial (2001). Með rauðbrúnuletri á hvítum miða (þetta gef ég upp fyrir þá sem kaupa vín eftir sjónminni). Hafði bara fang fyrir tvær.
Heim kominn hræði ég í deig óbrýndur. Nú skyldi kannað hvort fyrsta og eina tilraun mín til baksturs á ævinni hefði verið heppni. En til þess þurfti ég að drekka í mig kjark. Ég ætlaði nefnilega með betubrauðið í partíið og matinn um kvöldið. Þetta gekk allt betur fyrir sig en fyrr. Eldhúsið var ekki alveg undirlagt, þó hvít hveitislikja lægi yfir eldhúsgólfinu. Nú kunni ég ráð við samloðun og viðloðun. Og nú var ég kominn í listamannafasann og brauðið var því formað í hringi og í þetta skipti gleymdust ekki graskersfræin. Kringlótt brauð með grasfræum og stöffi.
Nú þurfti ég heldur ekki að bíða í tvo tíma eftir að deigið hefaðist, enda reynslunni ríkari. Rauðvínið var svakalega gott. Svo gott að kjarkleysið sem almennt ég er haldinn lét lítið á sér bæra. Ég ætla að kaupa kassa strax eftir helgina.
Svo fór ég að útbúa enn eina gerðina af berjasnaps, það er karlmannsverk og einfalt. Næst hnoðaði ég deigið og bakaði svo í 10 mín á sérstökum pizzumótum með götum sem ég er nú búinn aðhafa upp á. Segið að ég taki þetta ekki alvarlega.
Svo fór ég í partíið og hafði þá lokið einni rauðvínsflösku og bakað tvö brauð. Gaf reyndar pínulítið með mér af rauðvíninu, en lítið af mér. Var glaður en það gerist ekki oft enda fátt til að gleðjast yfir. (Ég er að reyna að verða svo melankólískur að ég geti ort ódauðlegt ástarljóð til þeirra einu sönnu). Varð enn glaðari þegar betubrauðið sló í gegn. Það eitt gefur mér von. Drakk meira rauðvín og varð enn glaðari. Bætti að lokum við koníaki. En fátt er skemmtilegra en góður matur og gott vín með góðu fólki.
Helgarhintið: Kaupið Berónía með rauðbrúna letrinu.
9. september 2005
Mystic for you
snjófugl um sumar, syngdu þinn óð.
Hvar leynist blossinn með leiftrinu bjarta,
er ljómar að nóttu sem kvöldsólarglóð.
Hvenær ná hjörtun að hrærast í takti
sem hamast í einsemd að halda við mætti.
Ég yrki mín kvæði, í alheimisins tómi,
engin þau heyrir, þær nætur ég vakti.
En blómið það fölnar ef brestur sá ljómi,
er bærði við hjarta með titrandi slætti.
Barn ég var
svona gera Menn ekki
Í gær var ég þar og tók betur á en oft áður enda um margt að hugsa eftir mystic dagsins sem var að renna sitt skeið. Með púlsinn í 156 á mínútu og greinilega í mínu algjöra hámarki reiknaðist mér til eftir leiðbeiningartöflum um hámarks þoláreynslu, 80% og fitubrennslu áreynslu við 60%. Skv þessu átti ég að vera í fitubrennsluprógrami fyrir 10 ára. En miðað við það að ég væri á brennsluprógrami og 60% álagi fyrir aldur þá átti ég að vera 10 ára. Annars hef ég aldrei skilið þetta almennilega. Mér reyndar leið ekki eins og fita brynni, heldur styttist almennt í lífsloganum eftir því sem lengur leið á átakið og hann brynni hratt upp þessar mínúturnar.
En þar sem ég var þarna að láta hugann reika og reyna að átta mig á mystiskum atvikum dagsins, varð mér hugsað norður yfir heiðar og um þá umræðu sem á sér stað um kynjafræði. Velti þessu fram og til baka og fann að ég var sammála síðasta ræðumanni, á annari síðu, betri en þessari. Hægt og hægt erum við að breytast í hinn mjúka mann. Eða eins og ég sendi honum Hali mínum nýlega af gefnu tilefni:
Kúnstug eru kynjafræði
nú konur heimilin flýja.
Karlarnir blóta í bræði,
er báru þær áður til skýja
Á kvöldin karpa þau bæði
um kynjanna kostuleg fræði
ef viltu mig mjúkann
skaltu ekki strjúk´ann
um þrifin ei lengur ég ræði.
Vinur minn annar, Ingólfur reyðfirðingur, heldur því fram að fara í líkamsrækt hafi sömu áhrif og dýfa sér í kallt vatn. Ég er ekki frá því. Nú eftir að ístran er aðeins að minnka get ég kannski varið að verða dómbær á slíkar fullyrðingar. En nóg um slíka þanka í bili.
En þegar leið að lokum þjálfunarinnar, komst ég að því að áhyggjur Hals míns norðan heiða eru alveg réttar um kynjafræði en þar segir "Kerlingar vilja verða karlar og kerlingar vilja gera karla að kerlingum en ekki öfugt". Svo ég vitni orðrétt og með gæsalöppum í speki hans.
Ég held að samsæri sé í gangi (nema ég sé haldinn kverúlanta paranoju) því þegar ég kom í sturtu greip ég handklæðið sem ég hafði tekið úr skáp í þvottahúsinu mínu heima, sá ég móta fyrir letri sem farið var að dofna í öðru enda handklæðisins. Nánar tiltekið þeim efri. Þegar ég rýndi í það og las gleraugnalaus, enda hættur að geta lesið með gleraugum, þá stóð þar stór stórum stöfum með bleiku SPICE GIRLS segi og skrifa SPICE GIRLS. Hafi ég ekki verið nærri landamærum annara heima þá nálgaðist ég það hratt og ískyggiega nú.
Ég fann blygðunarkenndina hríslast um mig nakinn þar sem ég stóð þarna innan um marga karlmenn, sem hafa meiri stera innanholds en ég. Leit flóttalega í kringum mig og laumaðist að vegg og reyndi að þurrka mér og vonaðist til að stafirnir væru nægilega daufir til að ekki væru þeir læsilegir. Þó svo ég viti að ólíklegt sé að margir þessara íturvöxnu með stera innanholds í talsvert meira magni en ég séu yfir höfuð læsir, þá gætu þeir þekkt lógóið. Því reyndi ég að fela þann enda handklæðisins. Gott ef ég heyrði ekki hið fornkveðna þar sem ég var að laumast í nær fötin:
Nú skal búkinn bráðum herða,
beran í vatni köldu.
Ertu kannski að konu verða,
að kynfærinu meðtöldu.
Skömm mín var mikil og ljóst er að samsæri er í gangi og ég alls ekki haldinn kverulanta paranjou. Ég hef gefist upp og játa mig sigraðan. Því til staðfestingar fór ég heim og týndi restina af stikkilsberjunum í garðinu og sauð niður kryddað stikkilsberjahlaup. Það ilmaði vel.
Í því eru:
Stikkilsber
Kanill
Negull
Engifer
Sykur
Kannski er ég orðin(n) spæs görl, -hin eina sanna.
Því eins og leiðtogi okkar miklu þjóðar sagði einu sinni:
"Svona gera MENN ekki".
6. september 2005
Af bakstri vandræða og brauðs
Lítill karl
5. september 2005
Yfirvegaður og svalur
og öðruvísi. Er oft á undan samtímanum. Þarf frelsi.
Pælari og hugsuður. (Sól í Vatnsbera). Í 5. húsi: Fær
kraft með því að fást við skapandi verkefni sem
spretta af eigin hvötum. Lífsorkan styrkist þegar hann
stjórnar og er í miðri hringrás athygli og atburða.
Tilfinningar og heimili
Einlægur, líflegur og opinskár. Fastur fyrir. Þarf
lífsstíl sem einkennist af skapandi og skemmtilegum
viðfangsefnum. (Tungl í Ljóni). Í 11. húsi: Líður
best tilfinningalega þegar hann er virkur í
félagsmálum, hópstarfi og verkefnum sem varða
samfélagið.
Hugsun
Jarðbundinn, skynsamur og skipulagður. Tjáir sig á
yfirvegaðan og rökfastan hátt. Málefnalegur. Vill sjá
áþreifanlegan árangur. (Merkúr í Steingeit). Í 5. húsi:
Hugsunin lifnar við þegar hann fæst við skapandi
verkefni og leitar þekkingar. Þarf skemmtanir sem
eru ’vitsmunalegar’ og tengjast fróðleik, miðlun og
pælingum.
Ást og samskipti
Yfirvegaður og svalur. Vill sjálfstæði og yfirsýn
(vera óháður fólki). Hrífst af fólki sem veit margt og
gaman er að tala við. (Venus í Vatnsbera). Í 6. húsi:
Vinna tengd samvinnuverkefnum og/eða listum. Góð
samskipti við vinnufélaga.
Framkoma
Jarðbundinn, nákvæmur og gagnrýninn. Eirðarlaus
og duglegur. Hefur gaman af því að tjá sig og
skilgreina hluti. (Rísandi í Meyju)
Markmið og ímynd
Sækir í markmið sem auka þekkingu hans, tengjast
miðlun, menntamálum og tjáskiptum. Vill þroska
hugsun sína og tjáskiptahæfni. Fjölhæfur.
(Miðhiminn í Tvíbura)
Framkvæmdir
Fastur fyrir og ákveðinn. Getur verið seinn í gang, en
vinnur eins og jarðýta þegar áhugi er fyrir hendi.
Þrjóskur og vill sjá árangur. (Mars í Nauti). Í 9. húsi:
Fær kraft þegar vinna er fjölbreytt, tengist
ferðalögum og víkkar sjóndeildarhring hans. Þrífst í
’þekkingarstörfum’.
Viðhorf og tækifæri
Hefur sterkar og ákveðnar skoðanir á heiminum. Það
færir honum gæfu að leggja stund á sálfræði,
sjálfsþekkingu og stjórnun. (Júpíter í Sporðdreka). Í
3. húsi: Vaxtartækifæri liggja í námi, skólastarfi,
pælingum, miðlun og því að efla með sér jákvæða
hugsun.
Lærdómur og agi
Prófraunir í lífi hans tengjast starfi og starfsframa,
yfirvaldi margs konar, kerfum þjóðfélagsins, ábyrgð
og aga í vinnu. (Satúrnus í Steingeit). Í 4. húsi: Þarf
að takast á við erfið verkefni eða álag vegna heimilis,
húsnæðis og fjölskyldu. Mögulega erfið bernska.
Nýjungar
Tilheyrir kynslóð sem skapar byltingu í
skemmtanaiðnaði og viðhorfum til lista og
sköpunarkrafts einstaklingsins. (Úranus í Ljóni). Í 12.
húsi: Hefur sérstakt innsæi í andleg mál og
samvitund mannsins. Býr yfir duldum hæfileikum.
Felur sérstöðu sína.
Hugsjónir
Tilheyrir kynslóð sem sækir innávið, virkjar
ímyndunaraflið og dáir leyndardóma og furður
sálarlífsins. (Neptúnus í Sporðdreka). Í 3. húsi:
Listræn hugsun, sköpunargáfa, víðsýni, draumlyndi,
utanvið sig, eða a.m.k. sterkt ímyndunarafl.
Umbreyting
Tilheyrir kynslóð sem stendur fyrir umskiptum í
tæknimálum, heilbrigðismálum og vinnusiðum fólks.
(Plútó í Meyju). Í 12. húsi: Ótti við neikvæðni og
jákvæðni (að leyfa sér allt það besta). Þarf að kafa
inná við og hreinsa til í undirvitundinni.
Afstöður
Sól mótstaða Tungl: Spenna milli egós og vilja og
tilfinninga og lífsstíls. Þegar einu takmarki er náð, þá
er strax leitað eftir öðru. Innri órói.
Tungl spenna Neptúnus: Næmar og
landamæralausar tilfinningar. Samhygð. Upplausn og
skortur á fókus eða skapandi ímyndunarafl og
listrænir og andlegir hæfileikar.
Mars mótstaða Júpíter: Kraftur, sjálfstraust og
athafnasemi; þarf stórt athafnasvæði og frelsi í
framkvæmdum. Þarf að hreyfa sig, t.d. íþróttir og/eða
ferðalög.
Satúrnus samhljómur Plútó: Á auðvelt með að
hreinsa til, losa sig við óþarfa og beina athygli að því
sem skiptir máli. Getur verið grimmur, en einnig
ákveðinn og markviss.
Sól spenna Neptúnus: Sterkt ímyndunarafl. Óskýr
fókus eða stórhuga, víðsýnn og skapandi. Þarf stórt
leiksvið. Á til að fórna sér fyrir málstað.
Venus spenna Mars: Sterkar ástríður og þrár.
Stundum ákveðinn og baráttuglaður, stundum
eftirgefanlegur í samskiptum. Þarf að finna jafnvægi
milli þess að gefa og taka. Líflegur.
Merkúr samhljómur Mars: Skörp, kraftmikil og
athafnasöm hugsun. Áhugi á líflegum rökræðum.
Handlagni.
Nú líður mér illa
Nú líður mér illa,
lasinn er ég,
margs konar kvilla
merki ber ég,
um allan skrokkinn
frá skalla að il
mér finnst ég alls staðar
finna til.
Þessi andskoti birtist í ýmsum myndum,
- fjölbreytnin er með ólíkindum:
í vindverkjum sterkum,
vondu kvefi,
ræmu í kverkum
rennsli úr nefi,
svo er þrálátur hósti
og þyngsli fyrir brjósti,
en beinverkir þjarma að baki og fótum,
og það brakar í öllum liðamótum,
þar grasserar sem sé giktarfjandi,
sem almennt er talinn ólæknandi.
Þá er sljóleiki í augum,
en slappelsi á taugum,
og svo þessi eilífa syfja,
eða sárindin milli rifja,
og óþægindi í einhverri mynd,
oftast báðu megin við þind.
Yfir höfðinu er þessi þráláti svimi,
en þreyta gagntekur alla limi.
Loks fylgir þessu lítill máttur,
óreglulegur andardráttur,
bólgnir eitlar og blásvört tunga,
bronkíttis í hægra lunga.
Svo safnast á skrokkinn skvapkennd fita
þótt ég skeri við nögl hvern matarbita,
og í sjö vikur hef ég, segi og rita,
sofnað með köldu og vaknað með hita.
Samt hefði ég aldrei uppphátt kvartað,
ef lasleikinn væri ekki lagstur á hjartað,
þar hef ég nú stöðuga stingi,
sem stafa af of háum blóðþrýstingi.
Og lon og don
hjá læknum er ég,
með litla von
frá langflestum fer ég,
því að lítið er gagnið
að geislum, bökstrum og sprautum
við svona fjölbreyttri vanlíðan og þrautum.
Það ber helst við
að mér batni á köflum
af brúnum skömmtum
og magnyl töflum.
Sem sagt: ég er á eilífum hlaupum
milli sérfróðra lækna og í lyfjakaupum.
Já, útlitið er ekki gott.
Ég þoli orðið hvorki þurrt né vott,
það er að segja fæði.
Og friðlaus af fjörefnaskorti
til fróunar mér ég orti
þetta kvalastillandi kvæði.
Böðvar Guðlaugsson
(veit ekki hvort hann telst vera höfundur að þessu en nafn hans fylgdi þeirri gerð sem mér barst)
4. september 2005
Mal de Mer
1. september 2005
Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman
Las um daginn ágætan póst. Fjallaði hann um mat enda fátt annað sem gleður þessa daganna. Sól fer að lækka á lofti og skammdegi leggst yfir með sínum drunga. Aðallega var fjallað um sólkola en einnig var nefnt ágæti heimabakaðs brauðs. Ég keypti nýlega bakarofn fyrir konuna mína og utan um hann eldhúsinnréttingu í dýrari kanntinum. Átti von á brauði og kökum og steikum. En konan mín er á frambraut en ég ekki. Mitt hlutskipti hefur í vaxandi mæli verið að sinna kokkeríi og innkaupum. Hún keypti sér nýjan fataskáp um síðustu helgi. Ekki misskilja mig. Þegar konur tala um að kaupa nýjan fataskáp er ekki verið að tala um spýtur og verkfæri eins og við karlar tölum um. Heldur allt sem í honum er!
En aftur að eldamennsku. Ég hef sjálfur eldað ýmsa rétti. Undanfarið hefur eldri sonur minn tekið að sér að elda steikur og annan betri mat til hátíðarbrigða og jafnvel hversdags líka. Hlutverk mitt á heimilinu, sem var að elda hefur því farið þverrandi sem og önnur hlutverk. Því hef ég verið að leita mér að nýju hlutverki, einhverju sem ég fæ hrós fyrir. Þó ég viti að það sé oft ekki verðskuldað, en góðsemi og umburðarlyndi er ríkjandi einkenni í fari minna nákomnustu. Þegar ég las ofangreindan póst um heimabakað brauð sá ég að ákveðið gap hafði myndast á heimilinu við það að konan mín fór á framabrautina. Hún hafði nefnilega alltaf séð um allan bakstur og átt þar snilldartakta, en þeim stundum hefur farið fækkandi. Lengi var því kennt um að gamli Rafha ofnin væri hættur að hita nema á köflum og þá aðallega mishita Nú með nýjum ofni hefur bakstur samt ekki komist á dagskrá enda hef ég ekkert gott af því að til sé brauð og kökur.
Ég hef haft gaman af því að takast á við ný vandamál, þó svo ég þoli illa og stöðugt verr allar breytingar með aldrinum. T.d. getur verið kvíðvænlegt að fara fram úr á morgnanna því maður veit ekki hvað getur tekið við þegar undan hlýrri og notalegri sænginni er komið. Jafnvel þó maður hafi sofið einn í rúminu, eins og ég þurfti að reyna um langt skeið í kringum síðustu helgi er konan mín fór í langþráð frí til útlanda.
En hvað um það. Þeirri undarlegu hugmynd laust í koll mér að nú ætti ég bara eftir að gera eitt lífinu. Það væri að baka brauð. Þá kom fyrstgreindur póstur mér í hug. Þar var nefnilega þess getið að áhugasamir um slíka brauðgerð gætu og mættu snúa sér til brauðgerðarkonunar og fengið leiðbeiningar eða uppskrift eins og það hét. Þannig háttar nefnilega til að brauðgerðarkona þessi er vel þekkt og drekkur stundum kaffi á sömu kaffistofu og ég. En í framhjáhlaupi má geta þess að ég kem núorðið oftar á kaffistofur en sjúkrastofur. Því voru hæg heimatökin. Undir miklu skvaldri einn daginn stundi ég þessu upp, þó í hálfum hljóðum og með hálfum hug. Hvort hægt sé að fá uppskriftina, en sú umræða náði ekki langt. Því sendi ég skeyti og fékk svar til baka:
skal koma henni til þín við tækifæri, þarf eiginlega að segja þér hvernig þetta brauð er bakað (með handapati).
þetta leit vel út en skömmu síðar hafði henni greinilega snúist hugur, þegar ég hafði útskýrt þakklæti mitt og greint frá þeirri einföldu staðreynd að ég hefði aldri bakað brauð. Þá fékk ég stutt og laggott skeyti:
vandast nú heldur málið,
Það voru orð af sönnu og skyldi ég það fullkomlega, ef ekki nennti hún að handapatast við byrjanda í bakstri. Ég sá fyrir mér að ekkert yrði úr því að ég kæmist í þá sjálfheldu að fara að baka. Ég var að sannfærast um að vandinn væri of mikill og best væri að hætta við allt saman og brauðlaus skyldi ég áfram vera. En þá barst uppskriftin:
volgt vatn, oggu hunang, ger, hveiti, smá salt
látið lyfta sér
hnoðað og mótað
látið lyfta sér aftur
flatt út með höndum og landslag látið njóta sín
hellt ólívuolíu á og dreift yfir ferskum kryddjurtum, smátt skornum, maldon salti, hvítlauk (ef vill) og graskersfræjum
bakað
Basta,
Þetta gat ekki verið flókið. Það birti til í huga mér. Svona uppskrift gæti ég ráði við. Kannski var það bara af því að mig skorti innsæi í heim bakarans. Það kom nefnilega í ljós að málið var ekki svo einfallt að allra mati. Til vonar og vara, og áður en ég gerði mér grein fyrir þeirri sjálfsheldu sem ég var kominn í, þá ákvað ég að ganga eftir handapatinu. Það hlyti að vera nauðsynlegt til að landslægið fengi að njóta sín.
En með handapatinu kom ýmislegt fleira í ljós. Það rann upp fyrir mér að skammta yrði alla hluti út í deigið eftir ákveðnum formúlum og þetta var greinilega list fremur en nákvæm vísindi, sem voru stunduð í eldhúsi þessa nýja leiðbeinanda míns í brauðbakstri. Því allt var þetta svona eftir hendinni og magni bætt út í þar til passlegt væri. Nær komst ég ekki um magntölur.
Í angist minni bar ég þetta upp við fleiri konur. Því við karla þýðir lítið að ræða svona mál, nema ef vera skyldi við Ingólf vin minn. Hann var fjarri góðu gamni og þegar hann loks kom vildi hann að ég notaði hafra umfram annað mjöl. Í honum var lítil hjálp. En allar hinar konurnar kepptust við að telja mér trú um að ég yrði að útvega með bakarabók með magntölum og uppskriftum. Það leist mér ekki á, enda sannfærður um að listin að baka verður ekki lærð af bókum eða magntölum. Sá ég en betur að ég væri best kominn í höndum eða handapati velgjörðarkonu minnar, sem stundaði bakstur af list og notaði tilfinningu sína að skammta í skálina og neitaði að nota kökukefli. Heilræði hennar að lokum voru einföld. Ekki vera hræddur við þetta. Láttu tilfinninguna ráða. Með það fór ég í lok vinnudagsins heim. Hafði þó ákveðið að gott væri í upphafi, að ráði annarar konu að byrja með ca 5 dl af hveiti en aðrir hlutar yrðu skammtaðir eftir tilfinningunni. Kom við í búð og keypti það sem ég taldi að vantaði heima.
Í búðinni gekk ég um gólf og fram hjá bökunarvörurekka sem ég vissi ekki að væri til. Leitaði lengi að hunangi. Til voru fjórar gerðir hunangs. Nú vandaðist málið. Hvað skyldi keypt. Að kaupa hveita var einfallt, þó úrvalið væri nokkuð. Á því stóð Pilsbury Best, - það hlaut að vera best. Sigtimjöl var bara til af einni gerð og ger var í pakka. En hunangið var flóknari. Til var stíft hvítt víkingahunang. Hunang í flösku sem var hægt að hella og kreysta og svo dýrt hunang sem var með blómamiða og glært. Best leyst mér á flöskuna en var samt hugsi. Hún virtist tæknilega best útfærð. En skyldi það besta ekki vera dýrast? Yfir þessu tvísteig ég þegar svili minni og matgæðinur sem lengi hefur búið erlendis kom og bankaði í öxlina á mér. Hann hafði þá kenningu, að tærasta hunangið væri best. Þar með var það útrætt og ákveðið enda var það dýrast þó svo tæknileg útfærsla á umbúðum og loki væri hefðbundin og einföld. En ekki lagði ég í að segja honum hvað mín biði heima.
Heima dróg ég upp miðann með uppskriftinni og hóf þegar að blanda saman öllu þurrefninu í óræðum hlutföllum og eftir tilfinningunni einni saman. Vatn í nægilegu magni til að úr yrði deig sem væri eins og þykkur grautur. En þykkur grautur er ekki eins á öllum heimilum. Vatn tók ég úr katli, sem mun skv. áætlunum mínum hafa verið við stofuhita (og etv of kallt eftir því sem ég lærði síðar). Þetta gekk nokkuð vel. Svo var að bíða eftir að þetta lyfti sér í tvöfalda stærð. Ég beið og beið og fannst lítið gerast. Þó var eitthvað að gerast og eftir að hafa ráðfært mig við mér reyndari konu í bakstri, sem gekk svefndrukkin inn í eldhúsið. Enda hafði hún þurft að leggja sig eftir erfitt helgarfrí í útlöndum. Reyndar hélt hún að hún væri enn sofandi og með draumfarir undarlegar. Því eigi trúði hún eigin augum eins og sagt er. Þó taldi hún að talsverð lyfting hefði átt sér stað og nú bæri að hnoða deigið þó væri það í blautara lagi. Fékk ég þar með staðfest grun minn um að sitthvað er þykkur grautur. Var nú hveiti dreift á borð og deig skafið úr skál. Vildi það loða við hendur hnoðanda og áður en vissi var það farið að loða á ýmsum stöðum og varð á tímabili mikil samloðun á milli bakara og baksturs svo ekki varð ljóst hvort úr yrði eitt deig. En að viðbættu hveiti fór að komast deig mynd á gumsið enda hafði engin látið deigan síga. En það er kannski ekki máltæki sem við á í þessu samhengi en ekkert annað kom í hug þegar hvarflaði að mér að hætta á þessari stundu. Nú var hnoðað og brátt varð eldhúsið eins og Katrín fellibylur hefði átt leið um.
Kom þá sú svefndrukkna sem nú var að sannfærast um að um martröð væri að ræða. Bað hún um að handapatið yrði minna. Óþarft væri að dreifa hveiti um gólf og veggi þó hnoðast væri á einu deigi. Ég reyndi að útskýra að hér væri verið baka af list en tók athugasemdum vel. Enda gladdi mitt gamla og veika hjarta að geta komið konu þessari svo gjörsamlega á óvart eftir tuttugu og eitthvað ára sambúð. Það fyllti mig eldmóði og var því kveikt á bakarofni sem var við hæfi og hann stilltur hátt. Síðan var það skemmtilegasta að slétta úr deiginu, en alltof lítið teygði ég það og ekki lagði ég í að henda því hátt í loft upp eins og mig minnir að hafi verið í handapatsleiðbeiningunum sem ég fékk fyrr um daginn. Til þess skorti mig hugrekki. Þegar fór að móta fyrir sléttu deigi í ofnskúffin hjá mér á bökunarpappír sem ég hafði ekki gleymt að setja undir (og af því er ég nokkuð stoltur) kom fram sú tillaga að pota fingrum víðsvegar um deigið. Var ég ánægður með það innleg og vissi að nú hefði ég lagt eitthvað af sjálfum mér og nýtt í baksturinn. Svo var öllu hellt yfir. Olíu í meira magni en konan í stofunni taldi ráðlegt en sagði sem svo að hún skipti sér ekki af þessu. Ferskar kryddjurtir sem voru, hvítlaukur, basil, kóríander, steinselja og eitthvað eitt enn grænt að lit. Svo auðvitað Maldon saltið sem var afar mikilvægt og ég mundi svo vel, enda hafði á það verið lögð mikil áhersla. Notaði meira segja réttar handapatshreyfingar að ég held við að koma því til skila. Breytti líka út af því sem ég hafði lært og muldi saman hvítlauk og maldonsalt. Þar er skrambi kúl. Þá raulaði ég í huga mér bakaradrengslagið úr dýrunum úr hálsaskógi við nýjan texta (og obbolítið breyttri útsetningu) sem ég taldi að ætti betur við á því augnabliki.
Betubrauðssöngurinn:
Innihald mun engu skipta
aðeins pata höndum létt
Lítið eitt af hveiti korni
kemur fyrir í þeim rétt.
Á ögurstund skal hugann herða
hræra deig og bíða um stund.
Bráðum mun að brauði verða
bakstur einn er léttir lund.
Út úr ofni kom nokkuð sem ég hafði reyndar ekki átt von á, -brauð. Svona líka svakalega gott. Það var gullið að utan. Skorpan örlítið stökk, deigið pínulítið seigt en samt elastískt. Hvað er hægt að biðja um betra. Með þessu bar ég svo fram kókos silung og kartöflur. Nú er eftir að þrífa eldhúsið.
Hafi þeir þakkir fyrir sem þakkir eiga skilið og lysthafendur geta fengið nánari upplýsingar hjá Bauninni þann 29. ágúst sl.
Hefst nú nýr kafli í lífu mínu. Þó held ég að baka svona í höndunum sé of Metro og til að verða Über þurfi ég græju og kannski ætti ég að kaupa brauðvél sem hnoðar deigið. Til að vera alveg öruggur er sennilega best að kaupa hana í byggingavöruverslun. Og svo þarf ekki gera eldhúsið hreint í hvert skipti sem bakað er!