Var á ferð um 8. heimsálfuna, netið og kíkti á síðu skólasystur minnar. Þar segir frá skrásetjara þilskipaútgerðar og vini hans að banka á glugga heimsætu nokkurar á Akureyri. Svo er rifjuð upp saga af þeim brúna glæsifáki sem mér áskotnaðist á menntaskólaárum. Nýjum úr kassanum. Þá eins og nú var ég meinlætamaður og í þeim dúr eignaðist ég Trabant, þó faðir minn hefði lagt hart að mér að fá að kaupa handa mér Lödu. Nei Trabant skildi það vera. Mörgum árum seinna keyptum við feðgar svo saman Lödu, rauða auðvitað. En Trabantinn gerði ungum manni kleyft að ferðast, frjáls sem fuglinn. Eða næstum því. Hann hafði marga kosti. T.d. gat maður þekkt hann á hljóðinu. Svo var hann passlega stór. Þ.e. ekki of stór, en kannski stundum heldur lítill og léttur. Það gat þó verið kostur líka, eins og nú skal greint frá.
Þannig var að einn vetur ákváðum við félagar, m.a. umræddur ungsveinn úr Borgarnesi sum um getur í sögu skólasystur minnar, ef ég man rétt, að skella okkur suður um heiðar. Þá voru veður válynd og ekki sú þíða sem nú ríkir. Stórhríðir voru daglegur viðburður og fjallvegir oft tepptir. Þetta létum við ekki á okkur fá heldur héldum af stað í hríðarmuggu frá Akureyri. Höfðum meðferðis skóflur og keðjur. Ferðin gekk bærilega suður í Hrútafjörð en þar var okkur sagt að við yrðum að doka á meðan Borgfirðingar ryddu Holtavörðuheiði. Félagar mínir sem unnu á sumrin við að hefla borgfirska vegi og þekktu vel til, hvöttu mig til að halda áfram og bíða við fyrsta skafl sem á leið okkar yrði.
Við settum keðjur undir, þá eða síðar á heiðinni, en það skiptir ekki máli. Allavega vorum við vígalegir þegar lagt var á ófæra heiðina á Trabant. Ferðin sóttist vel og yfir ýmis höft ýttum við bílnum, enda kraftakarlar með. Þegar kom niður undir Fornahvamm komum við að bílalest sem þar sat föst. Fremstu bílar fastir og mannsöfnuður að reyna að ýta þeim hverjum af öðrum yfir skaflinn sem hefti för. Veður var nú að batna og hafði létt mikið til. Gott ef ekki var sólarglæta. Það þótti góður liðsauki af félögum mínum sem tóku til hendinni og ýttu hverjum bílnum af öðrum yfir hindrunina. Ég varð þó uggandi um minn hag, enda margir bílar í lestinni og nokkuð viss þegar komið væri að Trabant þá væru a) allir farnir b) félagar mínir uppgefnir eftir áttökin og þar af leiðandi c) við einir þyrftum að bíða vegagerðarinnar úr Borgarnesi.
Varð ég þungt hugsi og geng út að snjóinn til hliðar við veginn. Og viti menn þar var hjarn og ég sökk ekki í gegn. Þá laust niður tryllingsleg hugmynd. Ég vatt mér inn í Trabantinn. Rak hann í gír og keyrði út úr vegslóðinni, upp á hjarnið og svo í einu blússi fram hjá allri bílalestinni og stoppaði ekki fyrr en kominn alla leið yfir. Gekk svo hróðugur til baka og kallaði í mína menn. Stóðu þá allir bíleigendur þar gapandi yfir aðförunum og áður en þeir náðu að átta sig á að án félaga minna sætu þeir lengi í þessum skafli skelltum við okkur inn í Trabant sem malaði þýtt. Fékk hann mikið hrós og alla tíð síðan í mínum huga með allra bestu bílum.
Þegar við svo komum niður undir Hreðavatnsskála voru við stoppaðir af vegagerðarmönnum sem nú töldu víst að búið væri að handmoka í gegnum skaflinn fyrst Trabant væri á ferð og þeirra ekki lengur þörf. Þeir fengu þá að vita sitt lítið af hverju um Trabant og ágæti þess bíls í vetrarferðum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli