Loksins kominn í langþráð frí,
lengi mun þess njóta.
Föstudagur
Fór á föstudagskvöldið að æfa mig fyrir vikuna komandi. Markið sett hátt. Mælti mér mót við konuna og tvo vini. Riðið skyldi út í kvöldblíðunni. Fékk þá flugu i höfuðið að nú væri gott að byrja á því ómögulega. Hafa tvo til reiðar. Nokkuð sem hefur verið lengi fyrirsjáanlegt en ósköp kvíðvænlegt fyrir huglausa. Haft allan veturinn til að herða upp hugann, sem er ekkert sérlega harður. Heldur linur, eins og margt annað. Tók tvo út. Beiðeftir að hinir yrðu klárir. Spennan varð skynseminni yfirsterkari, rauk af stað í æðibunugangi. Með báða til reiðar.
Tveir ákveðnir í að halda saman. Ég og Hófur. Glói ekki á sama máli. Fannst þetta ekki boðlegt sjálfstæðum hesti, þó geltur væri. Lét sig hafa það nokkur hundruð metra en ákvað svo að nóg væri komið af þessari vitleysu. Stoppaði. Hinn hélt áfram. Ég hélt í báða. Hvernig fer það nú, hugsaði ég eitt augnablik. Mundi eftir gömlum píningaratriðum úr bíómyndum, þar sem banditar voru strengdir á milli tveggja hrossa, etv fleiri. Sá í hendingu að slíkt væri ekki ákjósanlegur endir þessa kvölds. Nóttin enn ung, og lét þetta eftir Glóa sem beið mín og Glotti. Ætti kannski að heita það. Sagði ýmislegt sem aðeins er tjáð með augum og líkamstjáningu (eða líkamsvitund). Við vorum ekki sammála. Ætti ég að berjann, til hlýðni? Nei, gamlir og reyndir knapar segja það algjöran ósigur. Betra að semja! Eftir nokkuð þóf leit út fyrir að deilan væri á leið til ríkissáttasemjara. Skyldi hann hafa hrossadeild? Að minnsta kosti fara þar fram hrossakaup í skjóli nætur. Ekkert gekk fyrr en kona úr næsta húsi kom og gekk áeftir Glóa, þá varð hann tilleiðanlegur. Sýndi að hann kunni þetta, en ekki endilega víst að hann vildi gefa mér það. Komst heim að hesthúsi. Reyndar í fylgd eiginkonunnar sem hafði farið að leita að bónda sínum og séð hann tilsýndar í vændræðum, þiggjandi aðstoð annara kvenna við reið sína, enda með tvo til reiðar. Fórum heim, en nú var hlaupið kapp í kinn.
Vinir okkar FinnurogFanney ekki tilbúin enn. Hvað dvaldi fólkið. Ég enn í spreng að reyna. Gott að hafa annan með til að reka á eftir. Konan á Flygli, ég með sama settið. Taka tvö. Af stað haldið niður á skeiðvöll, aðeins að prófa. Komust býsna langt áður en Glói ákvað að sína konunni og Flygli hvernig hann stjórnar. Hóf hryðjuverkastarfssemi. Bara stoppaði. Óþekktaranginn. Ég af baki til að ná honum. Það tókst og áfram haldið. Sáum þá FinnogFanney halda af stað. Nú reynt að fara hratt. Stress, pat og pirringur. Ekki gekk að ná þeim. En hvað um það. Meiri æfingar á skeiðvelli. Tókst bara bærilega.
Hættum svo þessu basli og skyldum Flygil eftir heima og riðum hratt á Hóf og konan á Glóa (ég teymdi ekki, hún vildi það ekki). Fórum í kvöld andvaranum inn að bugðu. Busluðum yfir ána, riðum út í miðjan hyl svo flaut upp að hnakk. Hittum þar FinnogFanney, settumst á þúfu og spölluðum um dásemdir reiðmennsku, gæði gæðinganna okkar. Veltum því fyrir okkur hvernig stæði á því að við skyldum hafa eignast bestu hesta íslandssögunnar.
Laugardagur
getur verið til lukku, sagði mamma mín alltaf. Þessi var það svo sannarlega. Í meiri blíðu en menn vildu muna, voru hestar selfluttir að vífilstaðavatni, þar beislaðir og haldið sem leið liggur í gegnum hraunið í átt að hafnarfirði. Finnur hennar Fanneyjar hafði tekið eftir að búið var að bera ofan í nýja slóð upp í gegnum hraunið, inn í Heiðmörk. Þá leið varð að prófa og ríða heim í heiðadalinn okkar víðidal. Hestarnir kátir og héldu að þeir væru komnir í sleppitúr. Ég á Hófi mínum, konan á Glóa og svo Máni systursonur Fanneyjar á Flygli hennar Þorbjargar. Fanney auðvitað á Óðni, þeim moldótta og Finnur á tvísilfurverðlaunuðum Illuga sínum. Finnur hvarf inn í náttúruna á mikilli yfirferði. Fór hratt. Flygill lætur ekki segja sér það tvisvar ef fara má hratt, eða hann kemst upp með það. Við hin á eftir alsæl. Þó þótti rétt að sprengja ekki klárana og ég settur í forreið, enda settlegur knapi sem gat skipulagt slíka langferð. Mættum mörgum á fyrstu metrunum í hrauninu. Örtröð hestamanna hélt ég. Eða var stígurinn svo lítill að hann skyldi kallast örtröð.
Svo riðum við þetta allt af okkur, enda á landsins bestu fákum. Riðum inn í Heiðmörk. Innan um stærðar grenitré og furur. Fuglasöngur blíður, golan kyssir kinn. Á harða, harða spretti hendist áfram klárinn minn. Og allir hinir líka. Komum svo undir hjallana og ríðum Hjallaveginn inn að mannamótsflöt. Það fannst okkur gott heiti á áningarstað okkar. Gróandinn kominn af stað. Græn strá stinga sér upp úr fölgulri sinunni. Getur nokkuð verið betra á laugardagseftirmiðdegi í fyrstu viku sumars. Þarna áttum við langa dvöl. Sprettum af klárunum sem fengu að narta í grænkuna og það fannst þeim aldeilis ágætt. Í fjarska mátti sjá keili og fjöllin á reykjanesi. Esjan í hvarfi og vötn ekki farin að falla til reykjavíkur. Eftir klukkutíma dvöld, etv lengur var aftur lagt á hestana og haldið heimleiðis.
Sprettum úr spori á þurrum moldargötum. Hulin í jóreyk. Drúgur spölur og eftir hálftíma reið fórum við að sjá Skálafell og svo Elliðavatn. Áðum næst við Vatnsvíkna í Elliðavatni og héldum svo í átt að Þingnesi. Farið að líða að kvöldmat og vatnið stillt og spegilslétt. Mikið af andfugli ýmsum. Þar vantaði bara vin minn og frænda, þann sem færastur er með veiðafæri og flugu út í vatnið. Hugurinn leitar gamalla kynna á slíkum augnablikum. Ef ég hefði nú getað lært að kasta af flugustöng, þá hefði ég geta veitt í matinn, Betra væri ef vinur minn og frændi og lærimeistari í flugukasti sem verið í miðju vatni í bússum þröngum með fisk á færi og upptendraðan eld til matargerðar. Kannski við eigum eftir að ríða saman upp á arnarvatnsheiði með stöng eina vopna.
En áfram hélt leiðin. Ég í mínum heimi eftir velheppnaðan dag. Leit á hina sem greinilega var svipað komið fyrir. Hvað skyldu þau vera að hugsa, hugsaði ég á brúnni. Svo flaug hrossagaukur yfir hausum okkar og við náðum aftur sambandi við raunveruleikann. Héldum alla leið heim, um Bugðu og fórum í bað. Knapar fótabað og hestarnir kældu sig vel í hylnum góða. Hófur fer alltaf þar sem dýpst er. Sennilega til að ég finni vel hversu köld áin er á vordegi, þó sól skíni í heiði. Komum svo heim í heiðardalinn okkar, víðidalinn. Hestum brynnt og gefið góð tugga.
Þorbjörg fór á undan heim að athuga mat og drykk. Ég fór í að gefa hrossum. Gekk svo heim með regnbogann í fangið. Allir litir léku yfir þverásnum okkar. Regnboginn var hvergi rofinn. Það hlýtur að vera gæfumerki. Gargandi snilld og ég á minni einka náttúru-artí sýningu.
Sunnudagur
Vaknaði snemma í morgun til að sjá að sólin hafði enn einu sinni haft fyrir því að koma upp. Sól skein í heiði. Horfði út um gluggan fyrst út á Rauðvatn sem var alveg slétt og svo Elliðavatn sem var það líka. Nýr dagur og ný tækifæri. Hvar er mitt þunga djúplyndi nú. Tók moggann til að vera viss um að kominn væri nýr dagur. Ný dagsetning. Morgunmatur. Hestarnir á gjöf. Skreið inn aftur. Þar svaf yngismey svo létt. Lagðist við hlið hennar. Sólargeisli þó dregið væri fyrir gluggann.
Lúrði til ellefu. Mágkona komin í heimsókn með stjórnsýsluverkefni. Nuddandi stýrur úr augum, muldraði ég afsökunarorð og stakk mér út, átti nú brýnt erindi í hesthús. Helti þar upp á kaffi. Kötturinn, hún músfinna í leit að keleríi og mjólkursopa sem hún fær sjaldan. Áttum góða stund saman. Hún er stjórnsöm. Heldur ýmist að hún sé mannleg eða hestur. Er hún þá hestleg? Verð ég hestlegur af því að vera alltaf innan um hesta? Setti hestana út í sólina og ylinn. Þeir nýbúnir með morgungjöfina. Bar því í þá vatn í sólinni. Það vakti mikla lukku hjá þeim. Eins og að komast á barinn.
Fór upp og fékk mér kaffisopa með mola. Músfinna fékk G-mjólk. Fær vart nokkuð betra sýndist mér. Hnoðaði saman einni vísu til síðara brúks. Átti að vera stúfhent. Varð með aðeins of langan stúf. Hvað skyldi það kallast. Verð að muna að leita það uppi. Fór heim til að ræsa konuna út í næsta útkall.
Í dag skyldi riðið upp í Hólmsheiði. Hittum aftur ferðafélaga okkar frá í gær. Nú fór ég á Skuldina sem var komin á nýja skó og ég líka. Hún á glansandi skeifur og ég ástralska fangaskó, held ég einhver hafi kallað þá. Hinir gömlu enn blautir eftir volkið í Bugðu í gær. Hófur vissi vel hvað hann var að gera. Sem betur fer skyldi hann mig ekki eftir í hylnum eins og einn blíðviðrisdaginn í fyrra. Þorbjörg fór auðvitað á honum Glóa. Eitthvað samband þar á ný. Máni fékk Flygil aftur lánaðan. Finnur nú kominn á hinn moldótta og djúphyggna Óðinn. Fanney á Lýsing, sem er glófextur.
Fórum stystu leið upp í Rauðhóla. Löguðum þar gjarðir og hnakka og áfram haldið að grænabústaðnum. Flygill og Máni í góðum gír. Ná greinilega vel saman. Báðir ærslabelgir. Flygill hefur ekki fengið að stökkva jafnmikið og spretta jafn hratt úr spori lengi. Enda ánægður og blés mikð þegar við áðum. Hann er allur að grennast. Það þyrftu fleiri.
Fórum svo upp í heiðina. Þræddum sem mest utanvega í moldarstígum gömlum. Upp og niður hæðardrög og dalverpi. Fórum mikið á feti. Sáum tvo alhvíta karra. Einu rjúpurnar sem við höfum séð í vetur á heiðinni. Þar hafa verið nokkur óðöl ár hvert. Mófuglar að koma sér fyrir, en fáir enn. Þröstur einn í baði í polli. Minna grænt þar en undir hjöllunum í gær. Tókum góðan tíma í ferðina. Tíminn stóð kyrr. Fáir á ferð fyrir utan okkur. Fórum svo nýja reiðveginn í gegnum skógarlundinn við Rauðavatn og frá því heim. Enn einn dagur sem ekki má gleymast í góðra vina hópi. Fríið rétt að byrja. Heil vika eða næstum því. Ég er lukkunar pamfíll.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ekki styttast reiðtúrarnir hjá Æri í textanum en honum er óskað alls hins besta í fríinu (en hin líknandi hönd Hals getur eigi tekið sér frí).
Halur bætir við:
Loksins kominn í langþráð frí,
lengi mun þess njóta.
Drætti hrossins og draumaský,
drengur máttu hljóta.
Halur í norðuramti.
Skrifa ummæli