7. apríl 2005

Ríflega tvítug drápa.

Drápa um hreysti, hetjur og fáka þeirra.

Drápa er er forn tegund kvæða. Það sem einkenndi drápuna frá öðru rímuðu máli, var svokallað stef. Stefið var mislangt með efni sem skáldið vildi leggja áherslu á, og var endurtekið einusinni eða oftar í kvæðinu. Stefið skifti drápunni í þrjá meginþætti, upphaf, stefjabálk og slæm. Drápan byrjar á upphafinu sem er mismörg erindi. Þá kemur stefið. Það getur verið mismargar ljóðlínur. Það er endurtekið óbreytt eða með nokkrum breytingum. Alltítt mun vera að skifta um stef. Milli stefjanna er eru svo og svo mörg erindi. Þessi erindi heita stefjamél. Sá hluti drápunnar sem stefin eru í, þ.e. frá upphafi fyrsta stefs til þess síðasta kallast stefjabálkur. Á eftir stefjabálk tekur við niðurlag kvæðisins og heitir það slæmur. Slæmurinn er mismunandi langur (Heimild: byggt á skrifum Þorbergs Þórðarsonar í Eddu, Mál og menning, Reykjavík 1975).

Upphaf:

Ó, skáldfákur mikli á sköpunarvegi,
skemmtu í ljóði á fegurstum degi.
Hetjuleg kvæði, sem heimsljósi skæru
á hetjurnar varpa og meyjarnar kæru.
Alvaldur heimsins okkur má styrkja,
er aumur þinn þjónn um hetjur skal yrkja.
Megi vor andi frá minningum greina,
máttugum sögum um meyjar og sveina.

Við skjaldmeyjar fagrar og forynju kvalda
fáumst í kvæðum, við minningar staldra,
er greina frá stríði þess góða og illa,
er geysar um heiminn og vert er að stilla.
Við hringborðið vaskir heilsast þeir drengir,
er heim komu glaðir, er daganna lengir
Brátt munu kveða í brimhljómsins anda,
bögur um hetjur sem að eilífu standa.

Öfl munu vakna, er um aldir hafa sofið,
á Íslandi hafa bergrisar sáttmála rofið.
Kvæða mun kraftur hetjunar fjötra,
kremja og brjóta, í fjöllunum nötra.
Kyndir þá aflið er kveðin er bragur,
kemur upp sólin og fæðist nýr dagur.
Nú kappanna fákar kætast og lofa,
kominn er dagur og engin má sofa.

Í dag eru frásagnir færðar í letur,
er fæddust í huga, þess er smátt annað getur.
Skáldfákur vakur, mér vaktu hjá núna,
er vályndir tímar mér taka burt trúna.
Svo færa ég megi kóngi eitt kvæði,
að köppunum fræknu vísubrot læði.
Drápuna eina fær drengurinn sanni,
dýrt skal kveðið í skáldfáka ranni.

Hetjurnar prúðu í huganum strangar,
með hreysti og fegurð um ævina langa,
kappanna dugur skal kveðskapinn fanga.


Stefjabálkur:

Í heiðunum jarlar fundust með fákum,
fjallabök riðu og stóðin við rákum,
um öræfaveginn með ópum og látum,
allir við glöddust með fjallmeyjum kátum.
Heitin þeir strengdu með stórum huga,
stefna að bótum og öðrum vel duga.
Í hvarfi við jökla þeim aftur jókst kraftur,
í jóreyk þeir hurfu en snéru brátt aftur.

Á deginum öðrum dugðu vel klárar,
dugnaðarforkar, til reiðar vel árar.
Að heiman þeir fóru, á Hekluslóð riðu,
héldu um sanda og Dómadals biðu.
Um Klofninga fóru og Krakatind sáum,
komast til Löðmundar í fjarskanum bláum.
Að Landmannahelli skal leiðin strax liggja,
líflega mun riðið og veitingar þiggja.

Að Skælingum héldum og skoðuðum fellin,
skörðótt er leiðin, í vísunum hnellin.
Fjallanna hringur okkar huga nú seiðir,
húmar að kveldi, brekkurnar sneiðir,
á harðasta brokki hentist nú Brynja,
hélt sér á baki, ekki er að spyrja,
knapinn hann Finnur er ferðast á jónum,
og fimlega kveður í hafsagna sjónum.

Mögnuð var sjón er við blasti öllum,
Eldgjá sú fegursta í náttúruhöllum.
Um smugur og hjalla stóðið sig lestar,
smella í gómum meyjarnar bestar,
berast með hópnum að Hólanna skjóli,
hólpnar þær komu en harður var skóli.
Ljúft munu fljóð við fossanna nið
um ferðina dreyma lið fyrir lið.

Þá ljómaði dagur, Lambaskarðshólar,
voru lagðir að baki og riðið til sólar.
Um Álftavatnskróka var áfangi ljúfur,
aldrei gleymum er fram riðu í gljúfur,
mögnuð í svip, þá setti alla hljóða.
er Svarthnúkströllin inn okkur bjóða.
Hafna varð boði, við Hólmsána áð,
hugurinn leitar, þess er í æsku var sáð.

Kapparnir hraustu með huganum fanga,
hreysti og fegurð um ævina stranga,
hetjunnar dug og hugsýn svo langa.

Í hasti var kvatt og brátt nú birtist,
Brennivínskvíslin svo andinn nýr lyftist.
Á leið yfir bleytur á Strútinn þeir störðu,
stikluðu sanda og hetjurnar vörðu,
degi frá morgni á Mælifellssandi,
mikið er askoti langur sá fjandi.
Hestarnir þreyttir á þungum knöpum,
þurfa ei lengur að renna sköpum.
Í sólinni þyrstir sitja nú knapar,
silast að kvísl sem þorstann skapar.

Hjá Mýrdalsjökli og Mælifelli,
mæddust hestar á sandavelli.
Áfram var haldið og áfanga næstan
allir þeir komust en bardagann stærstan,
áttu svo knapar í kaldasta Klofi.
en komust að landi, en engin nú sofi.
Því gleði ríkir, í Hvanngili að kveldi,
og kát þau dvöldu í kvöldsólareldi.

Hetjurnar prúðu með hreystinni fanga,
hugarins fegurð og dugnaðinn stranga,
í kappanna kveðskap um ævina langa.

Af fjöllunum komu, á Fjörurna leggja,
fáka og menn nú ei þarf að eggja.
Þeysast á skeiði um sandana langa,
svettist úr hófum og fjörurnar anga.
Með vitunum skynja þá skáldlegu sögu,
skemmta að kveldi með glaðlegri í bögu.
Um fjallanna tinda, við fjörunar óma
fákanna leiftur í kvæðum mun hljóma.

Er fram sóttu knapar að Saltnesáli,
söguna geymum í bundnu máli.
fákurinn prúði er fullhugan bar,
festist í bleytu á sandinum þar.
Höfðinu draup en hetjunar tak
hífði upp klárinn, þá brá sér á bak
Illuga-bróðir er barðist á Fjörum,
og bjargaði fáki með handtökum snörum.

Lífgjarn var fákur og léttur bar knapa,
launaði greiða svo margfallt til baka.
Leikur í taumum er líður að vori,
lyftir hátt fótum, greikkar úr spori.
Sumrinu fagna, - þeir félagar bíða,
ferða um sveitir, um grundina líða.
Trúir reynast fákar og knapana geyma
traustir í lund og engum þeim gleyma.

Í tvísýnu lögðu og teymdust vel hestar,
en týndir í þoku, raunirnar mestar,
þola hann mátti er þræða skal pytti,
og þrautirnar margar er sukku í mitti.
Um flóana bárust en færðust að landi,
hjá fellinu slétta, þá jókst aftur vandi.
Því áttirnar allar þær vísuðu niður,
en aldrei skal falla er íslenskur siður.

Hetjurnar prúðu í huganum stranga,
með hreysti og fegurð um ævina langa,
kappanna dugur skal kveðskapinn fanga.

Slæmur:

Á móálóttu klárhrossi og merarsyni,
mættur var víkingur af sterkara kyni,
um sveitirnar reið skartbúinn knapi.
Skáldfáksins vinur, ei angurgapi,
en ef hnakkinn ei girðir á geltum fola,
skal harðan svörðinn á foldinni þola.
Því trylltur var drösull, í dansinum lenti,
og darraðans folinn af baki honum henti.

Upp reis hann aftur og aldrei skal þola,
öðrum að kætast ef dettur af fola.
Höfuðið uppi skal hátt áfram bera,
höldur er ríkir í ásinum þvera.
Þó marinn sé bógur og blá sé nú lend,
bugast mun aldrei og engin sú kend,
í huga hann þekkir, því þraukar hann enn,
þrautirnar vinnur, á bak fer hann senn.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Váááá,nú gneistar af höfðingjans heilahvelum.Kveðja systir

Katrin Frimannsdottir sagði...

Ég hef alltaf haft óskaplega gaman af ljóðalestri en einhverra hluta vegna þá hafði ég ekki lesið ljóð af neinu viti í fjöldamörg ár þangað til þú fórst að blogga. Nú má með sanni segja að ég lesi ljóð mér til yndis og ánægju á hverjum degi.

Nafnlaus sagði...

Það er aldrei að menn eru komnir í skáldgírinn, haltu áfram, haltu áfram, þetta er flott hjá þér

kv. bróðir

Geirþrúður sagði...

Sæll, ert þú höfundur drápunnar ?

ærir sagði...

já, ég er það.