26. apríl 2005

Dagur tvö

Vaknaði eilítið stirður í morgun. Minna en átti von á. Kellogs Special K, og banani og svo beint í líkamsræktina. Mættur á slaginu tíu. Nokkuð ánægður, en mikið askoti voru æfingarnar, þær sömu og í gær erfiðar í dag. Dagur tvö, sagði Dean Martin (ekki söngvarinn, heldur þjálfarinn). Dagur tvö sagði ég eins og ég ætti að vita það. Næstu æfingar voru líka mun erfiðari. Hvað var ég kominn út í. Kostaðu hug þinn að herða, hér skaltu ekki af lífi verða hugsaði ég og bæti þar með fornan kveðskap. Hélt þó ekki áfram á þeim nótum, heldur þessum, sbr no pain no gain sem ég lærði í dag:

Lagði af stað í líkamsrækt,
lúinn drengur.
Vefjahylkið varla tækt,
til vörslu lengur,
til vörslu mikið lengur.

Vöðvaagnir varla finn,
vesæll aftur.
Þreytur, búinn, þrautir enn
þrotinn kraftur,
þrotinn allur kraftur.

Vanda lífs míns í vísu set,
vinur nokkur.
Engin verkur, ekkert get,
aumur skrokkur,
aumur er þessi skrokkur.

Þakka góðar kveðjur og styrkjandi áheit. Gott til þess að vita fólk skuli enn lifa þrátt fyrir að stunda sjálfspyntingar sem þessar. Get útvegað tilvísanir fyrri synduga og jafnvel aflátsbréf en gjald fyrir bréfin þau síðarnefndu eru auðvitað hærri.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

milli táranna og hlátraskalla, þetta er hrein snilld þessar líkamslýsingar og lóðalyftingar uffffffff