Fyrsti dagur að sjálfsdáðum í átaki 05.  Mættur snemma dags og nú að standa sig einn.  Fyrirmæli um 45 min aerobic þjálfun á tækjum.  Eklipsu eins og það heitir erlendis.  Átti þó engin heyrnartól, verða að bæta úr því. Svo stígvél. Bretti. Róðrarvél og reiðhjól.  Enn á lífi, afrek fyrir suma. Nefni engin nöfn. 
Heyrði í fjarska lengi, lengi,
líkaböng hljóma.
Batt þá mína þvengi, þvengi,
þrauka á meðan óma.
Lengi kveður líkaböng á Hólum.
Sat þar yfir sárum, sárum,
sveitum tárum.
Bætti við mig árum, árum,
ævilöngum gárum.
Lengi kveður líkaböng á Hólum.
Fór að loknu puði á booztbar, ætti að heita skyrbar. Mikið flottara nafn og hljómþýðara og svo rýmar skyr við bar.  Fékk þar búst.  Náði svo að ganga út í bíl án þess að verða rennsveitur og þurfa að skipta um skyrtu. Fór að því loknu og keypti 5l af þekjandi viðarvörn og snaraði henni á skjólveggina í garðinum.  Í gær fór ég í garðrækt, því ég las í blaðinu á sumardaginn fyrsta að ef maður ræktar garðinn sinn þá ræktar hann þig.  Þetta virðist mega sjá á öðrum blöðum líka í 8. víddinni.  En nú bar svo undarlega til tíðinda að það var ég sem hóf garðvinnunna okkar í ár.  Yfirleitt hefur það verið hlutskipti konunnar.  Skýri það út síðar.  En í ár var ég mættur galvaskur með klippur og réðst á heggstaða-, sumir segja hreggstaðavíðinn.  Klippti óteljandi græðlinga, sem ætlað er að koma til nokkurs vaxtar í vor og planta svo í Grímsnes óðalinu, beitilandinu okkar góða upp við Sólheima.  Nafn enn óákveðið, en á köflum er það mýrlent og í landi Kringlu.  Því væri kringlumýri bara ágætt, en við erum enn að leita einhverju frumlegra.  Kvíabekkur, Jórvík eða Svannastaðir,  Stærri-Kringlumýri eða Stóra Kringla eða Skálholtshjálega því við horfum heim til Skálholts og svo yfir Skeiðin og þá blasir ískaldur Eyjafjallajökull við og Tindfjöll í blámóðu fjarskans.   Kannski við þurfum að vera þar eitthvað til að fá tilfinningu fyrir nafninu.  Sennilega fara hestarnir þangað á beit í júní.  Fór aftur í dag að kanna hvort einhverjir græðlinganna hefðu skotið rótum en svo var ekki. Á morgun þarf ég að bera á sólpallinn og etv fara í mosaeyðingu með öllum tiltækum ráðum.  Greinilegt að fótbolti hefur ekki verið sport á heimilinu lengi.  Þarf sennilega að fá boltaglöð ungmenni úr fjölskyldunni í heimsókn.  Það reyndist alltaf best á mosann þegar strákarnir voru yngri og faðir þeirra tilkippilegri en nú.
Að lokinni garðvinnu var hestum sinnt.  Þetta ætlar að verða hið besta frí.  Í gær fór ég einn á Hófi umhverfis Rauðvatn.  Við kölluðum það fuglaleiðangur.  Ætluðum að telja endur sem ég var viss um að ég hefði séð margar fyrir nokkrum dögu.  Nú var kaldi en samt milt í veðri.  Við sáum ekki marga fugla en ræddum þó ýmislegt í fari náttúrunnar á þessum slóðum.  Athuguðum sprettu og Hófur beit nokkur strá og tjáði sig um gæði þeirra.   Næst var Flygill í fimiæfingum, sem hann almennt þarf ekki.  En hann er latur til töltsins svo við tókum rispu, hring eftir hring eftir hring umhverfis hring.  Þar hugnast honum best að vera á fjórtakta gangi og því losnar hann úr brokkinu (sem er aðeins tvítakta) og bauð upp á þetta ágætis tölt.   Svo kom frúin og við skelltum okkur annan hring um Rauðavatn og enn lítið fuglalíf en margir að baða klárana sína í vatninu, m.a. forstjóri spítalans mikla í vatnsýrarholtinu og riðum við með honum hálfhring, enda skagfirðingur að því er við komumst að.   Ég á Skuld og frúin á Glóa.
Í dag voru Flygill og Skuld aftur hreyfð  og nú riðið til heiða.  Inn í Heiðmörk upp að grænakofanum í hlíðinni sem við vitum ekki hvað heitir en eflaust ætti aðheita grænahlíð.  Þaðan er gott útsýnir yfir mörkina og út á Elliðavatn. Kyrrt veður hestar gripu aðeins niður.  Ekki mikill nýgræðingur þar enn.
Á morgun kemur nýr dagur og ég enn í fríi. Áfram skal haldið með ræktun í ýmsu formi.
27. apríl 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
 
 
1 ummæli:
"Að lífið sé skjálfandi lítið gras..." stendur skrifað á góðum stað. Seinni hluti kvæðisins (eða söngsins eins og við höfum það) á ekki við en upphafslínan er svo dásamleg. Mér datt þetta ágæta kvæði í hug þegar þú lýstir fyrsta og öðrum degi. Þú virðist hafa lifnað við svo þetta á líklegast ekki við lengur. k
Skrifa ummæli