25. apríl 2005

Eilífð

Fyrir hádegi:
Mánudagur var til mæðu sagði móðir mín og á þeim degi skyldi ég ekki gifta mig. Reyndar reiknaði ég ekki með að nokkur myndi nokkurn tíman giftast mér. En úr því rættist. En mánudagar geta verið til mæðu. Þessi var það ekki. Hinsvegar var þessi mánudagur til mæði, mikillar mæði. Þannig er nefnilega mál með vexti (talandi um vöxt NB), að nú skal á tekið á vöxtunum. Þ.e. því skrýtna fyrirbæri að ég held áfram að vaxa, rétt eins og dráttarvextir. Hraði vaxtabreytinga alltof mikill. Ógiftur gæti þetta gengið en þar sem ég giftist þá var mér bent á þetta. Oft. Oft. Já, já. Jæja, ég varð að taka mér frí til að gera eitthvað í þessu. Einbeita mér að verkefninu. Taka mér frí í viku. Enda hafði vinkona mín ein úti í bæ haft orð á því að eftir slíka meðferð væru menn einskis nýtir og þyrftu hvíld. Ég ætti eiginlega að vera í veikindaleyfi ímynda ég mér. Eða heilsuleyfi, eða heilsubótarleyfi. Af hvurju er það ekki hægt. Það er mun skynsamlegra.

Stirðlyndi
Vaknaði í morgun, með stirðlyndi. Fann ekkert nema óhrein íþróttaföt í töskunni minni. Nokkura vikna. Jæja, rétt skal vera rétt, nokkura mánaða. Illt í efni. Varagallinn hvergi finnanlegur enda ekki verið þörf á honum lengi, lengi. Stirðlyndi. Kannski kvíði. Skyldi ég fá anginu innan um allt jet settið. Algjört dómgreindarleysi að panta tíma í hádeginu. Þá traffíkin svo mikil. Best að hringa og fresta þessu. Kannski lengi, amk fram yfir hádegi. En svo fannst varagallinn. Engir sokkar. Hvað er þetta með sokka og þessa ætt. Ætti ég að hringa í konuna. Kvarta. Láta vita að mér líði illa. Þurfi huggun og uppörvun, meira en í meðallagi. Hringdi og hún skynjaði vandan.


Hádegi:
Jæja út í bíl. Gott að geta keyrt á staðinn. Mætti á réttum tíma. Vinkona mín, úr bænum, var reyndar búsett og ráðsett í norðuramti um skeið og nýflutt í bæinn til að lækna. Hún er nú minn helsti heilsuráðgjafi, og líknar því líka. Hún sagði sisvona að þetta væri algjör pínari, eða var það hýðari. Hann hýddi mann áfram þar til blóð læki og sviti storknaði og tár flóðu. Iðrunar ganga til Róms og bænir við sjö höfuðkirkjur væru ekkert. Ekki einu sinni að fara á hnjánum upp santa casa, með eina maríubæn i hverju þrepi. Og þau eru mörg. Hinsvegar væri hýðarinn breskur og maríubænir bitu ekki á hann. Hann væri vægðalaus. Hann hlaut að vera stór. Fékk erfitt hlutverk og varaður við af vinkonum minni, að koma mér í form. Þarna stóð hann á stigapallinum. Ekkert stór. Bara písl. Ungur og spengilegur. Með æskuþokka sem mér er löngu horfinn. Heilsaði kumpánlega. Þarna eru búningsklefar. Ég bíð. Ekki margmáll hugsaði ég. Fór inn, með nýja sokka sem ég hafði af fyrirhyggju keypt í andyrinu. Greinilegt að sokkavandræði algeng og því til staflar af nýjum sokkum. Viltu hvíta eða svarta? Hvíta auðvita sagði ég. Samviska mín er hrein. Því geng ég í hvítum sokkum.

Kom úr búningsklefanum, í varagallanum og nýju hvítu sokkunum mínum. Fyrsti áfangi búinn. Stirðlyndið að hverfa, kvíðinn enn til staðar. Fengi ég anginu, eða strók eða bara örmagnaðist eftir korter. Þá þyrfti ég veikindaleyfi. Kallast þetta hörmungarhyggja á fagmáli, með hindrunum sem er illskeytt afbrigði.

Mælingar
Ég ætla að mæla þig farðu úr skóm og sokkum. Hvað er þetta með sokka. Settur upp á vigt. Man ekki töluna. Guð sé lof fyrir alzheimer. Svo hélt ég að meiri hluti líkamans væri vatn. Það var misskilningur. Eitthvert annað efni, illt efni, slæmt efni, vont efni. Efni sem ekki finnst nema á slugsum var alltof mikið af. Allt of há prósenta. Prósenta hvað. Er þetta ekki bara tölfræði.

Við höfum þetta létt í dag. Tökum allan líkamann fyrir. Smá á öllu. Ekkert erfitt. Nú bara mannlegur. Engar píningar. Hvað var vinkona mín að hræða mig. Þarna var fullt af frægu fólki, þessu sem maður sér í blöðunum. Fyrir mér fór ekki mikið. Hefði eiginlega átt bara að borga hálft gjald miðað við þessa sem voru með símana með sér. Þeir voru að tala í símann. Hvernig er þetta hægt. Er hægt að æfa í gegnum síma. Þarf að rannsaka það nánar. Muna það.

Spacewalk
Við byrjum á space walk! Ok. Ég gekk aftur á bak. Tækið bara fór þannig. Tók tíma að fara í rétta átt. Rétta átt. þarna eru eðlisfræðilögmálin allt önnur en þau sem lærði hjá Newton í gamla daga. Ég fór í enga átt. Bara puðaði áfram á sama stað. Skyldi nú að sitja kyrr á sama stað og samt að vera að ferðast. Nema ég sat ekki. En átti eftir að óska mér þess að hægt væri að sitja einhversstaðar. Tíu mínútur með frjálsu lagi, en þó afram var skipunin. Þegar sjö voru búnar fór ég að taka á. Var viss um að lifa af fyrstu lotuna. Engin angina, engin svimi, ekkert strók, púls reglulegur en hraður. Ok tilbúinn í næstu lotu.

Lyftingasalur. Lóð í öllum stærðum og gerðum. Setti að ég held met í bekkpressu. Amk persónulegt met. Ýmislegt annað gert, þ.e. en alltaf að lyfta. Telja. Fimm eftir. Dásamlegt þegar bara fimm voru eftir.

Stígvél. Sex mínútur með frjálsri aðferð. Nei. Ekki rétta úr hnjánum. Stíga langt niður. Púls í 156. Tachycardia. Nú byrjar það. Maðurinn andaðist í stígvél. Nei engin angina. Ekki höfuðverkur. Enn á lífi.

Tækjasalur. Pumpa með fótleggjum. Var ég ekki að því. Þeir eru aumir. Á mörkum sinadráttar. Fimm eftir. Oh, hvað gott er að bara séu fimm eftir. Ha! Annað tæki. Fimm eftir. HA! aftur í þetta. Var það ekki búið. Fimm eftir. Áfram nýtt tæki. Hættur að fylgja þræði. Viljalaust verkfæri. Hýddur og hýddur. Píndur og píndur.

Róðrarvél. Þetta reynir á anaerobik hæfileika vöðva. Ha. Mjólkursýrur. Já svaka gott. Spyrna vel. Hvíla á þegar bandið fer inn. Erfitt að anda á milli. Já, reyna að læra það. Muna að anda. Nóg anerobic samt. Puff.

Tækjasalur. Aðeins meira á efri líkamann. Ha. Hvurn þá. Fimm eftir. Fimm eftir. Fimm eftir. Endurtaka.

Magaæfingar. Leggjast á gólfið. Loksins eitthvað af viti. Get þetta. Með stóran maga. Heldur var það til baga. Fimm eftir. Vinstri fótinn upp og svo endurtaka. Taka á í maganum.

Teygjur.


Eftir hádegi, eða réttara sagt eftir heila eilífð.
Sturta. Hvernig kemst ég upp stigann og út í bíl. Er lyfta hér einhversstaðar.

Meira eftir hádegi/hreystimenni
Ég er hreystimenni. I will survive. We are the champions. Kominn í nýja skyrtu. Hin blotnaði svo asskoti mikið í bílnum á leiðinni heim.
Nú skal tekið til. Rusli hent. Allt gamalt á haugana. Verð þó að sætta mig við gamla skrokkinn.


Hesthús.
Mætur þar kl 15. Þrír útreiðartúrar. Fagna því að vera á lífi. Sól á heiðskýrum himni. Léttar æfingar fyrir klárana. Ekki pína þá áfram. Teygja vel á. Fór fyrst einn á Flygli, sem hélt að lífið væri leikur en ekki þjáning. Svo Skuld og loks Glói. Hann var stirður kallinn eftir helgina. Fórum létt. Hittum einn borgarfulltrúa og mann hennar í Elliðaárdalnum. Þau á göngu. Ræddum saman lengi. Svo tóku þau vinstri snú upp græna hlíðina í átt að heimili sínu í breiðholtinu.

Kvöldmatur.
Saltfiskréttur að hætti börsunga með grænmeti.

Kvöld.
Skrifa reynslu dagsins ef engin skyldi vera til frásagnar um daginn í dag á morgun. Á morgun er voltaren dagur.

3 ummæli:

Elísabet sagði...

nohh, það er bara stórátak í gangi. flott hjá þér ærir. nær allir sem byrja á Rl (það eru undantekningar, nefni engin nöfn) fyllast heilsuátaksfítonskrafti. við erum 10. sviðið...hver skrifaði beiðni f. þig?

Nafnlaus sagði...

Það munar ekki um það! Hvað varð um sundmanninn frá Ólafsfirði, þessi sem kann að fljóta svo vel, sund er hin besta líkamsrækt, kannski synirnir vilji ekki þann gamla í laugina, samanburðurinn yrði óhagstæður. Ég fer á eclipse maskínu á hverjum degi , horfi á CNN og hugsa í hvert sinn "sitja kyrr á sama stað en samt að vera að ferðast", finnst ég stundum eins og mús í búri á hlaupahjólinu, hlaupa, hlaupa, en fer ekki neitt. Halli á bátt með að þola svona líkamsrækt, hans ferðaþörf er meiri og því notar hann reiðhjól eða tvo jafnfljóta til að komast til og frá vinnu. k

Nafnlaus sagði...

Komdu sæll - vonandi ertu með stillingu þá virka sem sendir þér athugasemdir héðan úr bloggheimum. Ég er bloggari með of virka hörmungahyggju sem merkilegt nokk tengist líkamsrækt eins og þessi pistill þinn. Set hlekk á mína síðu þar sem mér finnst þessi pistill þinn hreinn snilld. Og fleiri reyndar,
kveðjur góðar