28. apríl 2005

Skammkell

Nú verður ekki lengur orða bundist. Hann Skammkell er kominn á kreik, sá ódámur og skjallari kvenna og karla. Hann er um margt líkur nafna sínum í Njálu. Þó held ég að hann sé yngri. Hann bætist við sem sögupersóna innan tíðar því hann tók þátt í Dratthalastaðabardaga, en frásagnir af orustu þeirra verða brátt færðar í letur. Það þykir þó tilhlýðilegt að kynna helstu sögupersónur fyrst. Skammkel rakst ég fyrst á fyrir allnokkru og eins og í vísu sem um hann var ort í norðuramti fyrir allmörgum árum. Sennilega er höfundurinn Hlymrekur handan sem nú er fyrir handan. En svona mun hann hafa kveðið um Skammkell, sem ég held að sé sami maðurinn en þó er það óstaðfest vísindi og gætu verið fleiprur einar. Þetta er því birt án ábyrgðar.

Eru verur sem vér nefnum guði
sem virðast oft lenda í puði
við að skapa, ég skil,
og þegar Skammkell varð til,
þá var skaparinn ekki í stuði.

Uppruni limrunar (skv rannsóknum) er mun eldri. Í enskri útgáfu er hún til svona (eftir Dante Gabriel Rosetti 1828-1882).

There is a creature called God,
Whose creations are some of them odd.
I maintain, and I shall,
The creation of Val
Reflects little credit on God.

Það skal tekið fram að ekkert hefur verð fitlað við rímorð 4 línu.

Mér þótti rétt að kynna Skammkell og tvílyndi hans, enda sá ég að hann var farinn að hasla sér völl á síðum velmektarfrúa, vestan Elliðaár. Skal nú varað við fagurgalanum í honum, rétt einu sinni enn.

(heimildir fyrir því sem hér er skrifað og farið frjálslega með má finna í Nýju Limrubókinnin sem Gísli Jónsson úr Norðuramti bjó til prentunar. Bókaútgáfan Hólar 2001)

3 ummæli:

Elísabet sagði...

Mér líkar vel við Skammkel, hættu bara að hnjóða í hann:

Einlægni er ofmetin
uni best við hrós
skilur best hann Skammkell minn
að skjall er betra´en rós.

Elísabet sagði...

jamm og já, og svo er sálgreining í boði grænna bauna á síðunni minni, ásamt skárri útgáfu á Skammkelsvísu.

Nafnlaus sagði...

Þó Skammkell hana skjalli enn
skýrt og narri.
Dvínar ekki draumur hennar
um dirty Harry.