Vinir mínir tveir Ærir og Fimbulfambi þurfa stöðuga uppörvun og sækjast í sviðsljósið. Þeir eru áhrifagjarnir og lítt stöðugir. Ærir heldur að hann sé rómantískur og og hefur í hávegum háleit markmið. Vill vera hugdjarfur og bæta heiminn. Honum mistekst iðulega ætlunarverk sitt. Hann les góðskáld og syrgir að hafa ekki verið upp á tímum rómantískustefnunar eða endurreisnarinnar. Hann reynir að safna orðum eins og svalblár og meyjarheit og sæviður. Aðrir safna frímerkjum. Ærir tekur því trúna alvarlega og hyggst ganga í klaustur og dvelja þar með orðum sínum og hrossum. En hér er ekkert slíkt í boði. Ærir er þegar orðinn svo syndugur að af slíku getur ekki orðið. Hann getur því aðeins hrópað á almættið Totus Tuus; -allur þinn.
Fimbulfamba hefur hinsvega alltaf dreymt um að verða bóhem. Drekka daglangt og vaka um nætur. Eiga ástir vergjarnra kvenna. Hann er áhrifagjarn og mælir fátt af viti. Yrkir jafnvel níð um ráðamenn, enda aldrei rekist vel í flokki. Er einfari, fer seinfari og aldrei verið snarfari. Mælir fátt gott og gantast á kostnað annara. Leggur menn í einelti og kann vel við þá nýju skilgreiningu að ef þrýst er á málsmetandi menn í þjóðfélaginu að segja sannleikann þá kallist það einelti. Það að fá ekki að skrökva sér til málsbóta er auðvitað einelti. Þess vegna skrökvar Fimbulfambi aldrei. Hann bara ýkir og níðir. Þetta hefur hann lært, því hann hefur lengi verið lagður í einelti af ráðamönnum fyrir að segja sannleikann. Hann segir því ekki satt orð lengur, enda lærði hann að það gatt leitt til eineltis. Þetta kallast hugræn atferlismeðferð. Síðan Fimbulfambi komst í ham hefur eineltið minnkað. Hann er þó enn haldinn hörmungarhyggju.
Halur er annar góður vinur okkar. Hans stærð er óþekkt. Hann finnst víða og hefur sætt einelti á síðum þessum. Þess iðrast Ærir en Fimbulfambi vill halda því áfram. Því hefur myndast togstreita. Ærir á þó orðið í dag og sendir bænir og blessanir syndugum og trúlausum Hali;:
Heyrðist að bænirnar bárust,
frá Hali í hjartanu skárust,
boðorðin tíu,
og bænir að nýju,
biður því syndin er sárust.
7. apríl 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
ég verð að segja kæri ærir að bloggið þitt er mjög spes. yfirleitt er ég mjög ringluð í höfðinu (gal í hovedet) þegar ég er búin að lesa það. má sennilega ekki við miklu.
kæra beta,
lengi má æra óstöðugan, eins og segir í máltækinu.
Skrifa ummæli