11. apríl 2005

Að hugsa

Að hugsa sjálfstætt getur verið þrautinni þyngri. Þetta hef ég margoft reynt. Í lífi manns eru ýmsir áhrifavaldar. Gott dæmi er um það að þegar vinur minn einn norðan heiða, og frændi að langfeðgatali stingur niður penna þá veltur alltaf upp úr mér einhver vitleysa (sbr vísukorn hér að neðan). Þannig hafa skrif hans haft dýpri áhrif en við fyrstu sín. Þannig er hefði ég ekki farið að hnoða saman leirvísum, ef ekki hefði komið tilefni að norðan. Hið lipra og leikandi mál frænda míns kallar fram stuðla og höfuðstafi í huga mér, sem stundum ná að lenda á réttums stöðum í því bundna máli sem ég hef á síðari tímum reynt að glíma við. En stundum lenda þeir á skjön við bragreglur og stundum verða þeir bara of margir, en þá má alltaf nýta þá síðar og á ný. En allt er þetta til gamans gert og flokkast ekki undir einelti, skv. nýjust skilgreiningum þess hugtaks.
-----
Um helgina var ég mikið á hestabaki. Mest einn, konan á námskeiði á laugardag, og svo að sinna foreldrum sínum nýkomnum út til Íslands, eftir ferð utan í meiri sól. Ég fór á Skuld minni frá Vindási, dóttur Ingólfs frá Hvoli, Hrafnssonar frá Holtsmúla og Mistar frá Hvoli heilan hring um Elliðavatn, í rólegheitunum og áfallalaust. Síðan fórum við Flygill, sem allur er að koma til og allra hesta ljúfastur og skemmtilegastur þessa daganna. Hann er bróðursonur þessa fræga gæðings Orra frá Þúfu og undan Tígli frá Síðu. En faðir þeirra var Otur frá Sauðárkróki. Við fórum stóra Rauðhólahringinn. Þ.e.a.s. riðum úr Víðidal sem leið liggur upp í Rauðhóla og áðum fyrst við Bugðu og svo í gerði handan Rauðhólanna við afleggjarann inn í Heiðmörk. Undum okkur svo norður fyrir Suðurlandsbrautina og fórum nýja slóð um skógræktina að Rauðavatni. Æfðum tölt og fórum talsvert á stökki í brekkum. Veður var milt og skapið létt. Eða eins og segir í kvæði Hannesar Hafstein (Havsteen): Ég berst á fáki fráum, fram um veg, mót fjallahlíðum háum hleypi ég, því lund mín er svo létt..... , það átti vel við.
------
Ég hafði því engan tíma til að leika við skáldfákinn Pegasus og hér koma því bara tvær fimbulfambavísur frá sl. viku sem sendar voru Hali af litlu tilefni:

Iðrun og yfirbót

Heyrðist að bænirnar bárust,
frá Hali í hjartanu skárust,
boðorðin tíu,
og bænir að nýju,
biður því syndin er sárust.


Stólræða

Vont er að vakna úr dvala,
með verki á gyllinnar skala,
þá stólpípu má
við stoppinu fá,
Halur, ef kennir sér kvala.

Engin ummæli: