15. júlí 2005

Sólheimasinfónía

Var í gær fyrir austan að stýra beit, þó þess sé náttúrulega ekki þörf. Hef þó gaman af því. Sat lengi einn á þúfu, enda nóg af þeim. Þessi myndi eflaust kallast hraukur sumstaðar, enda að hluta til af mannavöldum. Hlustaði á kyrrðina, sem var í raun athyglisverð. Það var nefnilega svo margt í gangi, fuglasöngur svo undirtók. Þar sungu, hver með sínu nefi, í þó nokkurri harmóníu, spóar, stelkar, hrossagaukar og jaðrakan. Undirtóku svo ein maríuerla og lækjarniður. Það gljáfraði í skurðinum þar sem vatnið sitraði niður og lék við máða steina. Þar var ein önd á sundi, en svo flaug hún upp með tilheyrandi skvampi og busli. Ylmur af reyrgresinu sem ég hef verið að agnúast útí var svo góður. Því var þetta margra vita sinfónía, heyrn, sjón, þefur og snerting því hægur blærin kyssti kinn gældi við stráin allt um kring. Hrossin komu og snusuðu í kringum mig, eru farin að kitla mig með snoppunni. Hófur og Glói farnir að færa sig upp á skaptið og nudda henni við kinn mína, nokkuð sem ég er ekki alveg í rónni með en læt eftir þeim. Í lokin kom ég svo auga að ref eða minnk hlaupa yfir sólheimabrautina og stinga sér inn á land nágrannans, þess næst-næsta, þ.e. Guðmundar í þarnæsta landi. Þar varð upp fótur og fiður og tónninn breytist. Síðan hélt söngurinn áfram með nýjum sinfónísku áherslum. Íslands var það lag.

2 ummæli:

Elísabet sagði...

Sko sveitamanninn - skemmtilegar lýsingar frá náttúruunnandanum Æri.

Sast á þinni þúfu í harmóní
og það var nú gott
saugst upp bíbíbí og sinfóní
með Sólheimaglott

ærir sagði...

En kannski var hestamennskan ekki upp á marga fiska.

Teygað hef ég tóna á ný,
sem er talsvert flott.
En á hestinum ég aftur sný,
og segi hott.