25. júlí 2005

Jökulsá á fjöllum / landvarsla á kvarthundrað ára fresti


Vorum í Drekagili aðra nótt en þá gerði vestan rokk með miklum kviðum. Ekki varð svefnsamt í tjaldvagninum, -þeim kostagrip. Um morguninn var en allhvast og ský dregin fyrir sólu og yfir Dyngjufjöllum, en allar spár í þá veru að birta myndi til. Ákváðum þó að fresta frekari göngu um Öskju og ferð að Mývetningahrauni og Suðurskarði eða Jónsskarði en þaðan má sjá niður í Dyngjufjalladal. Þar er nú stikuð leið yfir í Suðurárbotna og Svartárkot í Bárðardal. Ganga þar um sett á listann langa.

Héldum austur á boginn, leið um brú á Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga. Svo um Krepputungu og brú á Kreppu yfir á Möðrudalsöræfim Vorum á ferð um hádegisbil þegar tilkynning kom í fréttum að búið væri að loka veginum í Herðubreiðarlindir vegna vatnavaxta í Lindá, og ferðamönnum bent á örugga leið um brýr við Upptyppingar. Ekki höfðum við ekið lengi þegar við fórum að sjá Jöklu beljandi yfir árbakka og út á sandinn í Ódáðahrauni. Við brúna var vegurinn í sundur og áin mikilúðleg. Við höfðum þó séð jeppa rétt á undan okkur og hann komin yfir brúna svo við töldum okkur væri óhætt að leggja í ána, þó svo almennt sé ekki ráðlegt að reyna að keyra mikið út í Jökulsá á Fjöllum. Frúin var undir stýri og hvött til aðláta vaða sem og hún gerði, og var þetta hennar frumraun í akstri í jökulvatni. Álinn, eða ræsið sem Jökla var búin að grafa við brúna var heldur dýpri en við reiknuðum með, þó svo við hefðum náttúrulega engar forsendur til að reikna með einu eða neinu. En yfir komust við með okkar forláta tjaldvagn í eftirdragi. Svo var farið hratt yfirbrúna, með hröðum hjartslættin og hjarta nálægt buxum.

Svo var brunað niður Krepputunguna enda Kreppa gamla þekktari fyrir að vera farartálmi á þessari leið. Ekki gátum við látið vita af þessu en gamli landvörðurinn komst í ham og stoppaði alla bíla sem hann mætti, enda straumur stórra sem smárra bíla á þessari leið eftir að hafa verið vísað á hana við Lindána þar sem þeim hafði verið snúið við. Aðrir þó grandalausir um að á þessari leið gætu leynst hættur eða jökulsár. Svo nú sást landvarsla sem ekki hafði sést í 25 ár eða kvarthundrað ár. Rútubílsjtóra skipað að hringja í 112, Húsavíkurlögregluna og Vegagerðina. Ekki mátti það vera minna.

Áfram var haldið til byggða og neðarlega í krepputungunni hafði Jökulsánni (á Fjöllum) vaxið svo að hún sullaðist yfir veginn nokkur hundruð metrum frá árfarvegi. Kreppa sem venjulega er verri farartálmi á þessari leið sást ekki fyrr en neðar og þá líka mikil vöxtur í henni líka, enn lét hún þó veginn í friði og yfir brúna komumst við. Þeirri stund var ég fegnastur.

Engin ummæli: