23. júlí 2005

Ódáðahraun / Grafarlönd

Eyrarrós í Ódáðahrauni

Súld í morgun við Mývatn. Veðurlýsing með betra veðri til fjalla. Ákveðið að fara lengra austur og svo ákveða hvert farið yrði. Enduðum upp í Ódáðahrauni. Á leið í Herðubreiðarlindir stoppuðum við í Grafarlöndum, litlu leyndarmáli á leiðinni, sem fáir þekkja vel. Gengum þar inn í botn að lindum og uppsprettum Grafarlandaár. Dvöldumst nokkuð. Sáum önd með unga sem fór í feluleik við okkur. Aðra sem kom syndandi undan bakkanum og flaug strax á braut. Stóðum þar drjúga stund og virtum fyrir okkur hvernig silfur tær lindin streymdi upp um sandbotn og þar voru tvö fiskar á sveimi sem hefðu reynst sumum veiðimönum auðfengin bráð. Horfðum lengi á þessi náttúruundur. Þá okkur til undrunar kom önnur önd kafandi undan bakkanum og átti erfitt með að komast fram hjá sandrifi í lindinni og synti kafsund fram og til baka lengi, lengi og þetta horfðum við á nokkuð angdofa af undrun og hrifningu. Héldum að hún myndi kafna ef hún færi ekki að skjóta upp kollinum. En það gerði hún ekki og að lokum fann hún leið með bakkanum og upp á grynningar ofar í lindinni og þar hóf hún sig á loft.

Engin ummæli: