22. júlí 2005

Nýjidalur / Mývatn

Seiður magnaður við Mývatn

Vöknuðum í morgun í heiðskýru, bjart til jökla. Fórum í gær á Sprengisand, með tjaldvagninn, -þann kostagrip. Eftir að hafa vígt hann á allra handa máta og reist tjaldvagn í gær í landinu okkar, tókum við hann saman, án teljandi erfiðleika og héldum til fjalla. Fyrsta stopp á Flúðum, fórum í sund og versluðum eitthvað smáræði og svo brunað upp á brunasand. Ekki ský á lofti, hiti 20C og við á bíl með tjaldvagn, -þann kostagrip í eftirdragi. Sáum jökla koma nær og tignarlega. Eyðilegir sandar einstaka Eyrarrós. Komumst vandræðalaust í Nýjadal og tjölduðum þar. En sú sæla og fjallaró.

Svo var haldið áfram norður af. Miklar vangaveltur um Gæsavatnaleið en afráðið að gera það ekki af tillitsemi við tjaldvagninn, -kosta grip. Nokkur kvíði fyrir Fjórðungskvíslinni. Biðum þar nokkra stund uns Unimog kom og öslaði yfir ána. Þá sáum við vaðið. Vildi sýna aðgát enda farið þar á bóla kaf í bíl fyrir rúmum 20 árum, en allt fór það vel fyrir snarræði bílstjórans, þó svo ég segi sjálfur frá.

Héldum niður af Sprengisandi. Stoppuðum oft og lásum í landslagið. Fórum að Hrafnabjargarfossi og Aldeyjarfossi þeirri ótrúlegu náttúrusmíð. Næst um Þingeyjarsýslu. Keyptum kók í bauk á Fosshóli og tjölduðum við Mývatn.

Jazztónleikar ágætir um kvöldið í Gamla húsinu, þar sem ég á yngri árum laumaðist í sturtu hjá stúlkunum á hótelinum sem þar bjuggu. Það var á landvarðaárum í Herðubreiðarlindum og Öskjum. Ja, svona fyrir 25 árum. En hvað tíminn getur flogið. Hittum þar á barnum hótelstjórann sem mundi eftir landavarðaárunum og konu hans, skólasystur mína. Áttum þar ánægjulega stund. Ráðgerðum gönguferðir að þeirra ráði að morgni.

Engin ummæli: